Úrskurður yfirskattanefndar
- Erfðafjárskattur
- Valdsvið yfirskattanefndar
Úrskurður nr. 31/2022
Lög nr. 30/1992, 2. gr. Lög nr. 14/2004, 11. gr.
B andaðist á árinu 2014 og var A einkaerfingi hennar. Í máli þessu var talið að athugasemdir A, sem lutu að framgangi skipta á dánarbúi B og aðgerðaleysi sýslumanns í því sambandi, vörðuðu í reynd ekki ákvörðun erfðafjárskatts heldur skipti dánarbúsins sem slíks. Þar sem slíkur ágreiningur félli utan valdsviðs yfirskattanefndar var kæru A vísað frá.
Ár 2022, miðvikudaginn 9. mars, er tekið fyrir mál nr. 1/2022; kæra A, dags. 2. janúar 2022, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 2. janúar 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun sýslumanns um erfðafjárskatt vegna arfs úr dánarbúi B, sem andaðist á árinu 2014, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 11. október 2021. Í kærunni kemur fram að kærandi sé ekki sátt við niðurstöðu málsins. Ekki sé þó kært vegna niðurstöðu sýslumanns heldur vegna málsmeðferðar embættisins. Er rakið í kærunni að í kjölfar andláts B, móður kæranda, hafi móðurafa kæranda verið falið að gera upp dánarbú hennar. Kærandi hafi talið að málinu væri löngu lokið þegar henni hafi í ársbyrjun 2020 borist tilkynning frá sýslumanni um að erfðafjárskýrslu vegna dánarbúsins hefði ekki verið skilað. Móðurafi kæranda hafi andast á árinu 2015 og föðurafi kæranda á árinu 2016, en þeir einir hafi þekkt til málsins. Kæranda sé ekki unnt að greiða álagðan erfðafjárskatt að fjárhæð yfir 300.000 kr., enda hafi kærandi litið svo á að málinu væri fyrir löngu lokið. Sé því farið fram á að skuld vegna erfðafjárskatts verði felld niður, enda sé sex til sjö ára seinkun á málsmeðferð of langur tími.
Með bréfi, dags. 26. janúar 2022, hefur sýslumaður lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögninni er gerð grein fyrir útreikningi erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúi B. Þá kemur fram að með einkaskiptum dánarbús taki erfingi ábyrgð á öllum skuldbindingum dánarbús og gjöldum sem fylgi skiptum og arftöku. Sýslumaður fái ekki séð að ákvæði laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, feli í sér undanþágur frá greiðslu skatts til handa erfingjum. Dráttur hafi þó orðið á afgreiðslu málsins af hendi sýslumanns.
Með bréfi, dags. 12. febrúar 2022, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar sýslumanns. Í bréfinu eru áður fram komin sjónarmið kæranda um drátt á meðferð málsins áréttuð. Þá er bent á að almennur fyrningarfrestur skattskulda sé fjögur ár og tekið fram að einhverjar reglur hljóti að gilda um hversu langur tími geti liðið frá því að frestur til að standa skil á erfðafjárskýrslu renni út og þar til sýslumaður setji fram kröfu um skil á slíkri skýrslu. Nú sé langt um liðið frá andláti móður kæranda og ýmis gögn hafi glatast. Sé þess því vænst að skuld vegna erfðafjárskatts verði felld niður.
II.
Samkvæmt því sem fram kemur í kæru kæranda til yfirskattanefndar er ekki neinn ágreiningur í málinu um ákvörðun erfðafjárskatts kæranda vegna arfs úr dánarbúi B, sbr. fyrirliggjandi erfðafjárskýrslu, dags. 11. október 2021, og tilkynningu sýslumanns, dags. 14. október 2021, um álagningu erfðafjárskatts. Í kærunni eru hins vegar gerðar athugasemdir við langan tíma sem liðið hafi frá andláti B á árinu 2014 og þar til sýslumaður hlutaðist til um að staðið yrði skil á erfðafjárskýrslu vegna dánarbús hennar, en í kærunni kemur fram að kæranda hafi borist tilkynning frá sýslumanni þess efnis í byrjun árs 2020. Af gögnum málsins má ráða að dánarbúinu hafi verið skipt einkaskiptum, sbr. lög nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., og að sýslumaður hafi veitt kæranda, sem er einkaerfingi B, leyfi til einkaskipta á árinu 2014. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum, tekur úrskurðarvald yfirskattanefndar einvörðungu til ákvarðana þargreindra stjórnvalda um skatta og gjöld og annarra ákvarðana ríkisskattstjóra og tollyfirvalda eftir því sem mælt er fyrir um í lögum. Ekki verður séð að athugasemdir kæranda í kæru við framgang skipta á dánarbúinu og aðgerðaleysi sýslumanns í því sambandi varði í reynd ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt ákvæðum laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, þar á meðal ákvörðun skattstofns, skattstigs eða annað það er máli skiptir um skatt þennan samkvæmt þeim lögum. Þykja athugasemdir kæranda frekast lúta að skiptum dánarbúsins sem slíks. Ágreining um skipti dánarbúa ber að leiða til lykta samkvæmt lögum nr. 20/1991 og fellur slíkur ágreiningur utan valdsviðs yfirskattanefndar samkvæmt framansögðu.
Í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 12. febrúar 2022, er því sjónarmiði hreyft að krafa á hendur kæranda um greiðslu erfðafjárskatts sé fyrnd. Af því tilefni skal tekið fram að um innheimtu opinberra gjalda er fjallað í lögum nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Valdsvið yfirskattanefndar tekur ekki til meðferðar deiluefna varðandi innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. m.a. 5. gr. laga nr. 150/2019, þar sem kveðið er á um kæruheimild til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna ákvarðana innheimtumanns ríkissjóðs samkvæmt lögunum. Er því ekki á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar þessa kröfu kæranda.
Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, þykir bera að vísa máli þessu frá yfirskattanefnd.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kæru í máli þessu er vísað frá yfirskattanefnd.