Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu

Úrskurður nr. 34/2022

Lög nr. 50/1988, 42. gr. 11. mgr. (brl. nr. 28/2019, 1. gr.)  

Kröfu kæranda í máli þessu um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu til upphitunar frístundahúsnæðis var hafnað þar sem talið var að endurgreiðsluheimildin tæki ekki til annars konar húsnæðis en íbúðarhúsnæðis.

Ár 2022, miðvikudaginn 9. mars, er tekið fyrir mál nr. 202/2021; kæra A, dags. 30. nóvember 2021, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 30. nóvember 2021, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt bréfi, dags. 16. nóvember 2021, að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu fyrir frístundahúsnæði. Byggði ákvörðun ríkisskattstjóra á því að heimild 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. XXXII við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, [svo] tæki til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa og uppsetningu á varmadælu við íbúðarhúsnæði en ekki til kaupa og uppsetningu á varmadælu við frístundahúsnæði. 

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Í kærunni heldur kærandi því fram að virðisaukaskattur sé endurgreiddur af kaupum á varmadælu fyrir frístundahúsnæði svo sem dæmi sýni. Vísar kærandi í því sambandi til meðfylgjandi afrits af tilkynningu ríkisskattstjóra í öðru máli þar sem fallist er á sambærilega beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts.

II.

Með bréfi, dags. 25. janúar 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest. Í umsögninni er m.a. tekið fram að í hinni kærðu ákvörðun sé ranglega vísað til 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. XXXII við lög nr. 50/1988, en ákvæði þetta taki til endurgreiðslna virðisaukaskatts vegna kaupa á hleðslustöðvum og uppsetningu á þeim. Samkvæmt 11. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 sé heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Engin heimild sé til að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu sem ætluð sé til upphitunar á annars konar húsnæði.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. janúar 2022, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Mál þetta varðar beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu á árinu 2021, sbr. 11. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Endurgreiðslubeiðni kæranda, sem er vegna fasteignar kæranda með fastanúmerið 2104528, lýtur að virðisaukaskatti samkvæmt sölureikningi frá B ehf. vegna kaupa á varmadælu að fjárhæð 239.850 kr., þar af virðisaukaskattur 46.423 kr.

Samkvæmt 11. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. gr. laga nr. 28/2019, er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis, en hliðstætt ákvæði um tímabundna heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis var áður í ákvæði til bráðabirgða XXVII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 68/2014, sbr. og þágildandi reglugerð nr. 849/2016. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 28/2019 er tekið fram að endurgreiðsla virðisaukaskatts af kaupum á varmadælum til upphitunar íbúðarhúsnæðis feli í sér skattastyrk, en ráða má af athugasemdunum að tilgangurinn sé m.a. að lækka upphitunarkostnað í íbúðarhúsnæði á rafkyntum svæðum og bæta búsetuskilyrði á köldum svæðum á landsbyggðinni. Þykir samkvæmt þessu verða að skilja ákvæði 11. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 svo, samkvæmt orðanna hljóðan, að það taki ekki til kaupa á varmadælu vegna annars konar húsnæðis en íbúðarhúsnæðis. Endurgreiðslubeiðni kæranda er vegna fasteignar kæranda með fastanúmerið ..., sem er frístundahúsnæði að K. Verður því ekki talið að uppfyllt séu skilyrði ákvæðis 11. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 um að kaup á varmadælu séu vegna íbúðarhúsnæðis. 

Fram kemur í kæru að kærandi telji að ríkisskattstjóri hafi samþykkt sambærilegar beiðnir um endurgreiðslu virðisaukaskatts af kaupum á varmadælu fyrir frístundahúsnæði. Vísar kærandi í þeim efnum til meðfylgjandi afrits af tilkynningu um endurgreiðslu virðisaukaskatts í máli annars skattaðila. Verður að ætla að kærandi krefjist þess með hliðsjón af sjónarmiðum um jafnræði í stjórnsýsluframkvæmd að fallist verði á kröfu hans. Af því tilefni er rétt að benda á að við túlkun jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar er viðurkennt að hún veiti aðilum almennt ekki tilkall til neins þess sem ekki samrýmist lögum. Misbrestur sem verða kann á framkvæmd stjórnvalds á tiltekinni réttarreglu gagnvart einstökum aðilum leiðir þannig ekki til þess að aðrir aðilar geti almennt krafist þess í skjóli jafnræðisreglu að stjórnvald hagi sér svo gagnvart þeim. Verður krafa kæranda því ekki tekin til greina á þeim grundvelli að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi ekki verið virt í þessu tilviki.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja