Úrskurður yfirskattanefndar
- Takmörkuð skattskylda
- Lífeyrisgreiðslur
- Útsvarsskylda
Úrskurður nr. 35/2022
Gjaldár 2019, 2020 og 2021
Lög nr. 90/2003, 3. gr. 2. tölul. Lög nr. 4/1995, 19. gr., 20. gr.
Kærandi, sem var búsettur í Danmörku en fékk lífeyrisgreiðslur frá Íslandi, mótmælti því að á hann væri lagt útsvar hér á landi. Í úrskurði yfirskattanefndar var bent á að skráning lögheimilis hér á landi væri ekki skilyrði útsvarsskyldu og raunar ekki heldur dvöl á landinu. Var kærandi talinn útsvarsskyldur hér á landi á grundvelli takmarkaðrar skattskyldu sinnar vegna lífeyristekna. Þá var talið verða að ganga út frá því að sú niðurstaða ríkisskattstjóra, að leggja útsvarið til Reykjavíkurborgar þar sem kærandi hafði verið búsettur áður en hann flutti til Danmerkur, væri í samræmi við lög.
Ár 2022, miðvikudaginn 9. mars, er tekið fyrir mál nr. 208/2021; kæra A, dags. 8. desember 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2019, 2020 og 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 8. desember 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 9. september 2021, sem ríkisskattstjóri kvað upp með vísan til 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum. Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að 19. ágúst 2021 hefði ríkisskattstjóra borist beiðni kæranda um tekjudreifingu vegna greiðslu frá lífeyrissjóðum á tekjuárinu 2020. Var tekið fram að um væri að ræða greiðslu frá Lífeyrissjóði verslunarmanna sem skiptist þannig milli tekjuára að 629.329 kr. væru vegna ársins 2018, 969.090 kr. væru vegna ársins 2019 og 994.713 kr. væru vegna ársins 2020, og greiðslu frá Greiðslustofu lífeyrissjóða sem skiptist þannig að 55.600 kr. væru vegna ársins 2018, 211.984 kr. væru vegna ársins 2019 og 104.179 kr. væru vegna ársins 2020. Með ákvörðuninni féllst ríkisskattstjóri á að dreifa umræddum greiðslum á tekjuárin 2019, 2020 og 2021. Hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárið 2019 samkvæmt þessu úr 2.174.803 kr. í 2.859.732 kr. og úr 2.473.642 kr. í 3.654.716 kr. gjaldárið 2020, en lækkaði úr 5.350.803 kr. í 3.484.800 kr. gjaldárið 2021. Vegna athugasemda kæranda um að útsvar rynni til Reykjavíkurborgar og beiðni hans um lækkun útsvars með tilliti til greiddra skatta í Danmörku vísaði ríkisskattstjóri til fyrra svarbréfs embættisins til kæranda frá 14. maí 2021 sem ríkisskattstjóri tók orðrétt upp í bréfinu. Kom þar fram að kærandi væri útsvarsskyldur hér á landi á grundvelli takmarkaðrar skattskyldu vegna lífeyristekna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003 og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Þá rynni útsvar brottfluttra til þess sveitarfélags þar sem þeir hefðu síðast verið með skráð lögheimili.
Í kæru til yfirskattanefndar gerir kærandi grein fyrir því að hann hafi átt lögheimili í Danmörku um langt árabil. Kæran snúist um álagningu útsvars á tekjur kæranda á Íslandi. Þannig sé ekki tekið tillit til lögheimilis kæranda og búsetu hans í Danmörku þegar litið sé til heimildar ríkisskattstjóra til að lækka útsvar kæranda hér á landi vegna útsvarsgreiðslna hans í Danmörku. Vísar kærandi í þessu sambandi til 34. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Telur kærandi túlkun ríkisskattstjóra á tvísköttunarsamningi milli Íslands og Danmerkur vera „nokkuð léttvæg[a]“, eins og segir í kærunni. Þá túlki dönsk skattyfirvöld tvísköttunarsamninginn eftir eigin höfði og taki ekki fullgildar skattgreiðslur á Íslandi til frádráttar álögðu útsvari í Danmörku. Þá sé kærandi ekki sáttur við að lagt sé á hann hæsta útsvar á Íslandi sem lög heimili, en útsvarsprósenta geti hæst numið 14,52% og lægst numið 12,44%. Hafi kærandi haldið að meðaltalsútsvarsprósenta yrði notuð við álagningu útsvars en ekki fullt útsvar. Sé þetta bæði ósanngjörn og óskiljanleg túlkun á lögheimilislögum nr. 80/2018 og tvísköttunarsamningi Norðurlandanna. Er tekið fram í kærunni að kærandi þiggi enga þjónustu frá Reykjavíkurborg.
II.
Með bréfi, dags. 4. janúar 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi, dags. 11. janúar 2022, hefur kærandi lagt fram athugasemdir vegna umsagnar ríkisskattstjóra og ítrekað gerðar kröfur. Í bréfinu gerir kærandi grein fyrir tekjum á tekjuárunum 2018, 2019 og 2020 og áréttar að hann sé tvískattlagður vegna teknanna. Sé ekkert tillit tekið til takmarkaðrar skattskyldu kæranda á Íslandi og heimilisfestis kæranda í Danmörku.
Með bréfum, dags. 22. janúar og 3. mars 2022, hefur kærandi ítrekað gerðar kröfur og lagt fram viðbótargögn.
III.
Samkvæmt skráningu í þjóðskrá flutti kærandi til Danmerkur á árinu 2006. Fyrir búferlaflutninga til Danmerkur var kærandi síðast skráður til heimilis að K í Reykjavík. Eins og fram er komið óskaði kærandi eftir því með erindi til ríkisskattstjóra 19. ágúst 2021 að lífeyrisgreiðslur sem kærandi fékk á árinu 2020 yrðu færðar í skattframtöl hans árin 2019, 2020 og 2021. Með úrskurði, dags. 9. september 2021, féllst ríkisskattstjóri á beiðni kæranda um dreifingu teknanna. Í kæru kæranda til yfirskattanefndar eru ekki gerðar athugasemdir við úrlausn ríkisskattstjóra að þessu leyti. Hins vegar er höfð uppi krafa um niðurfellingu álagðs útsvars kæranda umrædd gjaldár þar sem kærandi sé búsettur og með lögheimili í Danmörku.
Vegna fyrrgreindra lífeyristekna frá innlendum aðilum bar kærandi takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en í ákvæði þessu segir að allir menn sem njóta frá íslenskum aðilum launa fyrir störf, þar með talin stjórnar-, endurskoðenda- eða nefndarstörf, eftirlauna, biðlauna, lífeyris, styrkja eða hliðstæðra greiðslna skuli greiða tekjuskatt af þeim greiðslum. Þess er að geta að í gildi er samningur milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt d-lið 3. tölul. 2. gr. þess samnings tekur hann að því er Ísland varðar til m.a. tekjuskatts og útsvars til sveitarfélaga. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. samningsins skulu eftirlaun og lífeyrir, sem greidd eru frá samningsríki og greiðslur frá samningsríki samkvæmt almannatryggingalöggjöf þess til aðila heimilisfasts í öðru samningsríki, einungis skattlögð í fyrrnefnda ríkinu. Greindur samningur haggar því ekki við skattlagningu lífeyristekna kæranda hér á landi.
Hvað snertir athugasemdir í kæru viðvíkjandi álögðu útsvari á kæranda skal tekið fram að samkvæmt 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, skulu þeir menn, sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum I. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, greiða útsvar af tekjum sínum til sveitarfélags eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995 er mælt svo fyrir að hver maður, sem útsvarsskyldur er samkvæmt lögunum, skuli greiða útsvar í einu sveitarfélagi og falli útsvarið óskipt til þess. Með 2. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um til hvaða sveitarfélags útsvar falli, þar á meðal við þær aðstæður að útsvarsskyldur maður hefur átt lögheimili í fleiri en einu sveitarfélagi á tekjuárinu. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að þeir menn, sem um ræðir í 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skuli greiða útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir öfluðu mestra tekna sinna á tekjuárinu. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, var kærandi útsvarsskyldur hér á landi á grundvelli takmarkaðrar skattskyldu sinnar vegna lífeyristekna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003 og 19. gr. laga nr. 4/1995. Vegna röksemda kæranda er lúta að lögheimilisskráningu hans í Danmörku skal tekið fram að skráning lögheimilis hér á landi er ekki skilyrði útsvarsskyldu og raunar ekki heldur dvöl á landinu, svo sem ákvæði 3. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995 ber með sér, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 213/2011. Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu álagðs útsvars.
Í kæru til yfirskattanefndar gerir kærandi athugasemdir við að útsvar renni til Reykjavíkurborgar þar sem útsvarsprósenta sé í hæstu hæðum. Vísar kærandi til þess í kæru að hann hefði haldið að meðaltalsútsvarsprósenta íslenskra sveitarfélaga yrði notuð við álagningu útsvars, enda njóti hann engrar þjónustu frá Reykjavíkurborg.
Ákvæði um útsvarsskyldu þeirra sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi var fyrst lögfest með ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 13/1980, um breyting á lögum nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 13/1980 er ákvæðið skýrt þannig að gert sé ráð fyrir að útsvar þeirra er beri takmarkaða skattskyldu hér á landi renni til þess sveitarfélags þar sem þeir hafi aflað mestra tekna sinna á tekjuárinu, óháð dvalartíma í einstökum sveitarfélögum. Skipti þá ekki máli í þessu sambandi hver dvalarstaður þessara manna sé við brottflutning úr landi. Er ákvæði þetta samhljóða núgildandi ákvæði 3. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995. Ríkisskattstjóri lagði útsvar kæranda til Reykjavíkurborgar. Útsvarshlutfall í sveitarfélaginu var 14,52% öll þau ár sem málið varðar. Kærandi mun síðast hafa verið búsettur í Reykjavík áður en hann flutti búferlum til Danmerkur á árinu 2006. Vísaði ríkisskattstjóri til þess í úrskurði sínum að hjá brottfluttum rynni útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir voru síðast með skráð lögheimili á Íslandi.
Svo sem rakið er hér að framan liggur skýrt fyrir um útsvarsskyldu kæranda hér á landi. Þá er ekki stoð fyrir því í lögum að fallast á með kæranda að miða útsvarshlutfall við meðaltal útsvars sveitarfélaga á landinu. Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995 skulu þeir sem bera takmarkaða skattskyldu á Íslandi greiða útsvar til þess sveitarfélags þar sem mestra tekna þeirra er aflað. Í tilviki kæranda er eingöngu um að ræða lífeyrisgreiðslur, þ.e. lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og greiðslur úr lífeyrissjóðum. Útsvarið var lagt til Reykjavíkur og verður að ganga út frá því að sú niðurstaða sé í samræmi við 3. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995. Að svo vöxnu og þar sem ekki verður annað séð en að útsvar hafi verið réttilega ákvarðað, miðað við framangreindar forsendur, er kröfu kæranda varðandi álagningu útsvars hafnað.
Kærandi bendir á í kæru til yfirskattanefndar að greiðslur þær sem hann fái frá Íslandi séu einnig skattlagðar í Danmörku. Af þessu tilefni þykir ástæða til að vekja athygli kæranda á ákvæði 1. tölul. 28. gr. í tvísköttunarsamningi milli Norðurlandanna. Kemur þar fram að þegar aðili telur að ráðstafanir, sem gerðar eru af einu eða fleiri samningsríkjum, leiði til eða muni leiða til skattlagningar, að því er hann varðar, sem ekki sé í samræmi við ákvæði samningsins, geti hann lagt málið fyrir bært stjórnvald í því aðildarríki þar sem hann er heimilisfastur, án þess að það raski rétti hans til að færa sér í nyt réttarúrræði sem löggjöf þessara ríkja kveður á um. Ef hið bæra stjórnvald í því aðildarríki, þar sem krafan er gerð, telur að mótmælin séu á rökum reist en getur þó ekki sjálft leyst málið á viðunandi hátt skal það leitast við að leysa málið með gagnkvæmu samkomulagi við bært stjórnvald í því samningsríki sem málið varðar í því skyni að komist verði hjá skattlagningu sem ekki er í samræmi við samninginn. Með „bæru stjórnvaldi“ er, að því er Danmörku varðar, átt við skattamálaráðherra eða umboðsmann hans, sbr. j-lið 1. mgr. 3. gr. tvísköttunarsamningsins.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2018, 2019 og 2020 stendur óhögguð.