Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 38/2022

Lög nr. 111/2016, 2. gr. 2. mgr., 8. gr. 3. mgr. (brl. nr. 63/2017, 4. gr.)   Lög nr. 129/1997, bráðabirgðaákvæði XVII (brl. nr. 40/2014, 1. gr.).   Lög nr. 30/1992, 2. gr.   Reglugerð nr. 991/2014, 1. gr.   Reglugerð nr. 555/2017, 8. gr. 2. mgr.  

Í máli þessu vegna umsóknar kæranda um ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að hefði umsækjandi áður neytt heimildar til úttektar séreignarparnaðar á grundvelli laga nr. 40/2014, sem leyfa nýtingu séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, skyldi tímabil ráðstöfunar eftir þeim lögum koma til frádráttar samfelldu tíu ára tímabili samkvæmt lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Þar sem talið var að kæra kæranda lyti efnislega og í reynd að afgreiðslu ríkisskattstjóra á umsókn kæranda um útgreiðslu séreignarsparnaðar á grundvelli laga nr. 40/2014 var kærunni vísað frá yfirskattanefnd þar sem kæruheimild til yfirskattanefndar vegna ákvarðana ríkisskattstjóra samkvæmt þeim lögum var ekki til að dreifa. Var kæran framsend fjármála- og efnahagsráðuneytinu til meðferðar og afgreiðslu.

Ár 2022, fimmtudaginn 24. mars, er tekið fyrir mál nr. 211/2021; kæra A, dags. 14. desember 2021, vegna úttektar séreignarsparnaðar. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 14. desember 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra vegna umsóknar kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með áorðnum breytingum. Er þess krafist í kærunni að ákvörðun ríkisskattstjóra verði breytt eða felld úr gildi og ný ákvörðun tekin á grundvelli réttra upplýsinga í umsókn. Er rakið að kærandi hafi keypt sína fyrstu íbúð að K þann 13. ágúst 2021. Í kjölfarið hafi kærandi þann 20. sama mánaðar sótt um útgreiðslu séreignarsparnaðar samkvæmt lögum nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Hafi kærandi sótt um að iðgjöldum yrði ráðstafað frá árinu 2020 og síðar, sbr. meðfylgjandi kvittun. Með ákvörðun 15. september 2021 hafi verið fallist á umsóknina, en þó þannig að ráðstöfun iðgjalda hafi verið frá júlí 2014. Þann 16. nóvember 2021 hafi kærandi síðan sótt um útgreiðslu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með áorðnum breytingum. Umsóknin hafi verið afgreidd 8. desember 2021 og hafi verið byggt á því að upphafstímamark tíu ára ráðstöfunartímabils væri í júlí 2014, sbr. hina fyrri ákvörðun frá 15. september 2021. Kærandi hafi þá óskað eftir endurupptöku málsins, en fengið höfnun 14. desember 2021 með vísan til ákvæðis 3. mgr. 8. gr. laga nr. 111/2016, sbr. meðfylgjandi samskiptaþráð. Samkvæmt gögnum á vefsvæði Skattsins hafi iðgjöldum að fjárhæð 39.016 kr. verið ráðstafað á árinu 2014, en ekki sé um neina ráðstöfun að ræða árin 2015-2019. Á kvittun vegna umsóknar kæranda um útgreiðslu séreignarsparnaðar þann 20. ágúst 2021 komi skýrt fram að sótt sé um ráðstöfun iðgjalda á árinu 2020 og 2021, en ekki frá árinu 2014. Því sé farið fram á að ákvörðuninni verði breytt eða hún felld úr gildi og ný ákvörðun tekin á grundvelli réttra upplýsinga í umsókn. Þar sem ákvörðunin frá 8. desember 2021 byggi á ákvörðuninni frá 15. september sama ár sé jafnframt farið fram á að hún verði endurskoðuð.

II.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er tekið fram að úrræði samkvæmt b-lið 1. gr. laga nr. 40/2014 sé með föstu útgreiðslutímabili, sbr. 1. mgr. b-liðar 1. gr. þeirra laga, og taki til iðgjalds sem greitt sé á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2023. Umsókn kæranda frá 20. ágúst 2021 hafi verið samþykkt 15. september sama ár og iðgjöld sem kærandi hafi greitt á áðurnefndu tímabili allt frá júlí 2014 hafi verið millifærð á reikning kæranda í kjölfar þess, þar á meðal 39.016 kr. vegna iðgjaldamánaða júlí og ágúst 2014. Í 8. gr. laga nr. 111/2016 sé fjallað um lagaskil milli þeirra laga og laga nr. 40/2014 og tekið fram að umsækjanda sem hafi nýtt sér ákvæði b-liðar 1. gr. hinna síðarnefndu laga sé heimilt að ráðstafa iðgjöldum inn á lán uns samfelldu tíu ára tímabili sé náð. Þar sem kærandi hafi hafið nýtingu séreignarsparnaðar með vísan til b-liðar 1. gr. laga nr. 40/2014 í júlí 2014 teljist það vera upphafsmark samfelldrar tíu ára nýtingar laga nr. 111/2016, sbr. 1. mgr. 2. gr. síðastnefndra laga. Engin heimild sé í lögunum til að víkja frá þeirri reglu.

Með bréfi, dags. 8. mars 2022, hefur kærandi óskað eftir því að afgreiðslu málsins verði frestað þar til ákvörðun ríkisskattstjóra um afgreiðslu erindis kæranda, dags. sama dag, liggi fyrir. Fylgdi erindið í ljósriti, en þar fer kærandi fram á að ríkisskattstjóri afturkalli ákvörðun sína frá 15. september 2021 um útgreiðslu séreignarsparnaðar, sbr. ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem vísað er til í erindi kæranda.

III.

Um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar, sbr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vegna kaupa á fyrstu íbúð gilda lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Samkvæmt 2. gr. laganna er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, sem greitt er á samfelldu tíu ára tímabili, eftir gildistöku laganna að tilteknu hámarki á ári, sbr. 4. gr. þeirra, með því að a) verja uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð og/eða b) ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Þá er rétthafa heimilt að nýta iðgjald sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess eftir því sem nánar er kveðið á um í 3. gr. laganna. Í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 kemur fram að rétthafi velur upphafsdag hins samfellda tíu ára tímabils með því að tiltaka í umsókn uppsafnað iðgjald sem hann hyggst verja til kaupa á fyrstu íbúð, sbr. a-lið 1. málsl. 1. mgr. sömu greinar, eða með því að hefja ráðstöfun iðgjalds inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, sbr. b-lið 1. málsl. 1. mgr. Sama gildir um ráðstöfun iðgjalds inn á óverðtryggt lán, sbr. 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar. Með hugtakinu tíu ára samfellt tímabil er átt við 120 mánaða samfellt tímabil frá upphafsdegi eins og hann er skilgreindur í 1. málsl., sbr. 3. málsl. 3. mgr. 2. gr. laganna.

Þann 16. maí 2014 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, en með þeim lögum var tveimur nýjum ákvæðum til bráðabirgða bætt við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. bráðabirgðaákvæði XVI og XVII í þeim lögum. Í bráðabirgðaákvæði XVII var kveðið á um heimild rétthafa séreignarsparnaðar til að taka út viðbótariðgjald sem greitt hefði verið á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 og nýta til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Skilyrði var að rétthafi væri ekki eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili þegar heimildin var nýtt. Lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, tóku gildi 1. júlí 2017, sbr. 1. mgr. 8. gr. þeirra laga, og í 2. og 3. mgr. sömu greinar er að finna ákvæði um lagaskil vegna úrræða á grundvelli laga nr. 40/2014. Í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 111/2016 segir að rétthafa, sem hafi nýtt sér ákvæði til bráðabirgða XVII í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og/eða eftir atvikum ákvæði til bráðabirgða XVI sömu laga til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sé heimilt að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í íbúðinni og eftir því sem við á afborganir láns uns samfelldu tíu ára tímabili er náð, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016, að uppfylltum nánari skilyrðum. Tekið er fram að tímabil ráðstöfunar samkvæmt fyrrgreindum bráðabirgðaákvæðum komi til frádráttar samfelldu tíu ára tímabili samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016.

Eins og rakið er í kafla I hér að framan sótti kærandi um úttekt séreignarsparnaðar vegna kaupa á K á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XVII í lögum nr. 129/1997 í ágúst 2021. Í kvittun vegna umsóknarinnar, sem fylgir kæru, kemur fram að umsækjandi hafi kosið að takmarka greiðslur úr séreignasjóði við árin 2020 og 2021, svo sem nánar greinir. Með ákvörðun ríkisskattstjóra þann 15. september 2021 var fallist á „útgreiðslu séreignarsparnaðar á tímabilinu júlí 2014 til ágúst 2021“, eins og segir í samskiptaþræði vegna umsóknarinnar, þar sem jafnframt er vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 991/2014, um samræmt verklag við ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, sé rétthafa heimilt að nýta uppsafnaðan séreignarsparnað frá 1. júlí 2014 og fram til þess mánaðar er rétthafi verður þinglýstur eigandi íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Í nóvember 2021 sótti kærandi síðan um skattfrjálsa nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á íbúðinni, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Ríkisskattstjóri féllst á umsóknina með ákvörðun 8. desember 2021 og í samskiptaþræði af því tilefni kom fram að  kærandi hefði áður fengið samþykkta umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XVII í lögum nr. 128/1997, sbr. lög nr. 40/2014. Kom fram að ráðstöfun iðgjalda hefði hafist frá júlí 2014 sem teldist því upphafstímamark hins samfellda tíu ára tímabils sem heimilt væri að ráðstafa viðbótariðgjaldi án skattskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2016.

Af hálfu kæranda er þess krafist í málinu að ákvörðun ríkisskattstjóra verði breytt eða hún felld úr gildi „og ný ákvörðun tekin á grundvelli réttra upplýsinga í umsókn“, eins og segir í kæru til yfirskattanefndar. Virðist ljóst að krafa kæranda lúti efnislega að því að miða beri upphaf hins samfellda tíu ára tímabils samkvæmt lögum nr. 111/2016 við árið 2020 en ekki 1. júlí 2014. Er bent á að umsókn kæranda um úttekt séreignarsparnaðar á grundvelli laga nr. 40/2014 hafi einungis lotið að úttekt frá og með árinu 2020.

Það leiðir af fyrrgreindu ákvæði 3. málsl. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 111/2016 að hafi umsækjandi um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar samkvæmt þeim lögum áður neytt heimildar til úttektar séreignarsparnaðar á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XVII í lögum nr. 129/1997, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, skal tímabil ráðstöfunar samkvæmt hinum eldri ákvæðum koma til frádráttar samfelldu tíu ára tímabili samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016. Sama regla kemur fram í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 555/2017, um samræmt verklag við ráðstöfun iðgjalda til séreignarsparnaðar til stuðnings kaupa á fyrstu íbúð. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar í málinu um úttekt kæranda á séreignarsparnaði vegna iðgjalda í júlí og ágúst 2014 í kjölfar afgreiðslu ríkisskattstjóra á umsókn hennar frá ágúst 2021 ber því að miða upphaf tíu ára tímabilsins við 1. júlí 2014, svo sem gert er í ákvörðun ríkisskattstjóra. Í kæru til yfirskattanefndar er þetta út af fyrir sig ekki dregið í efa, en byggt á því að afgreiðsla ríkisskattstjóra á umsókninni frá ágúst 2021 hafi ekki verið í samræmi við efni hennar þar sem kærandi hafi einvörðungu sótt um úttekt séreignarsparnaðar vegna áranna 2020 og 2021. Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu er ekki tekin sérstök afstaða til þessara sjónarmiða kæranda um afgreiðsluna að öðru leyti en telja má felast í þeirri athugasemd ríkisskattstjóra í umsögninni að úrræði laga nr. 40/2014, sbr. bráðabirgðaákvæði XVI og XVII í lögum nr. 129/1997, séu „með föstu útgreiðslutímabili“ og taki til iðgjalds sem greitt sé á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2021.

Samkvæmt framansögðu verður að telja að kæra kæranda lúti efnislega og í reynd að afgreiðslu ríkisskattstjóra á umsókn hennar um úttekt séreignarsparnaðar á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XVII í lögum nr. 129/1997, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 40/2014. Ber erindi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 8. mars 2022, sem kærandi hefur lagt fyrir yfirskattanefnd, þetta sömuleiðis með sér. Hvorki í greindum lögum né í reglugerð nr. 991/2014, um samræmt verklag við ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, sem sett er á grundvelli laganna, er mælt fyrir um kæruheimild til yfirskattanefndar vegna ákvarðana ríkisskattstjóra samkvæmt þeim lögum, sbr. ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Er umrædd ákvörðun ríkisskattstjóra því ekki kæranleg til yfirskattanefndar. Er kærunni því vísað frá yfirskattanefnd.

Af hálfu ríkisskattstjóra hefur verið litið svo á að ákvörðunum ríkisskattstjóra eftir lögum nr. 40/2014 megi skjóta til fjármála- og efnahagsráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 13/2021. Er kæran því framsend ráðuneytinu til meðferðar og afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd og framsend fjármála- og efnahagsráðuneytinu til afgreiðslu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja