Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 531/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 10. gr. 2. mgr. — 14. gr. — 19. gr. — 26. gr. — 27. gr. — 99. gr. 1. mgr.  

Söluhagnaður — Fasteign — Lóð — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Söluhagnaður, dreifing — Dreifing skattskylds söluhagnaðar — Dreifingartímabil söluhagnaðar — Dreifingarhlutfall söluhagnaðar — Afborgunartími — Skuldaviðurkenning — Fasteignamatsverð — Fasteignamatsverð notað í stað stofnverðs — Söluverð — Sölulaun — Sölukostnaður — Beinn kostnaður við sölu eigna — Söluhagnaður, útreikningur — Útreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður, uppgjörsaðferð — Uppgjörsaðferð söluhagnaðar — Verðbreytingarstuðull — Stofnverð — Framreikningur stofnverðs — Arfur — Búskipti — Erfðafjárskattur — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Rökstuðningi kæru áfátt — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar — Leiðrétting — Leiðrétting ríkisskattanefndar

I.

Málavextir eru þeir, að með skattframtali kæranda árið 1989 fylgdi greinargerð um sölu hlutdeildar (1/5) kæranda í lóð að A (RSK 3.02). Var lóð þessi seld B hf. með kaupsamningi, dags. 15. janúar 1988. Söluverð að hlut kæranda nam 3.380.480 kr. Greiðsla til kæranda á kaupári nam 711.680 kr. og var það útborgunarhluti hins selda. Eftirstöðvarnar 2.668.800 kr. greiddust með skuldabréfi útgefnu af kaupanda til 7 ára vaxtalaust fyrstu 2 árin en síðan með meðalvöxtum. Var skuldin vísitölutryggð samkvæmt lánskjaravísitölu. Kærandi gerði grein fyrir söluhagnaði samkvæmt skjali þessu og nam hann 674.612 kr. samkvæmt útreikningi hans. Hafði þá verið tekið tillit til sölulauna 55.468 kr. og sem stofnverði byggði kærandi á fasteignamati hins selda, er tók gildi 1. desember 1988 og nam 2.650.400 kr. Tekið var fram, að verð þetta væri „uppfært m.v. nýjan grunn 1.12. ’79". Kærandi fór fram á, að söluhagnaðinum yrði dreift til skattlagningar á 7 árum, sbr. greiðslutíma kaupverðs samkvæmt skuldabréfum, sbr. 14. gr., 26. gr. og 27. gr. skattalaga, er hann vísaði til. Þá kvað hann fyrstu greiðslu kaupanda af skuldabréfinu pr. 1. nóvember 1988 vera í vanskilum eða 533.760 kr. og fór fram á, að tillit yrði tekið til þess við skattlagningu söluhagnaðar.

II.

Skattstjóri gerði þá breytingu á skattframtali kæranda árið 1989 fyrir álagningu, að hann færði honum til tekna í reit 77 söluhagnað 248.541 kr. skv. 8. tl. C-liðs 7. gr., sbr. 10.-27. gr., laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. þann hluta tilfærðs skattskylds söluhagnaðar vegna lóðasölunnar, sem skattstjóri taldi að tekjufæra bæri í framtali árið 1989. Skattstjóri tók fram, að ekki væri unnt að taka tillit til vanskila kaupanda lóðarinnar við skattlagningu söluhagnaðarins.

Af hálfu kæranda var tekjufærslu skattstjóra á nefndum söluhagnaði mótmælt í kæru, dags. 24. ágúst 1989, enda væri ekki um skattskyldan hagnað að ræða vegna landsölunnar. Í bréfi, dags. 11. september 1989, gerði kærandi nánari grein fyrir málavöxtum og sjónarmiðum sínum. Hið selda land hefði hann eignast fyrir erfð eftir föður sinn og hefðu búskipti farið fram 1973 og þá greiddur erfðafjárskattur. Taldi kærandi, að hlutur hvers og eins hefði þá numið 3.000.000 gkr. eða 30.000 nýkr. Miðað við verðstuðul 100 árið 1973 yrði verðmæti hins selda lands 3.524.097 kr., þ.e. 30.000 kr. x 117,4699. Söluverð hefði verið 3.380.480 kr. og væri því ekki um skattskyldan söluhagnað að ræða. Greinargerð á RSK 3.02 hefði byggt á gögnum frá 1979 og því ekki tekið mið af skiptunum 1973.

Með bréfi, dags. 16. nóvember 1989, krafði skattstjóri kæranda um gögn fyrir stofnverði 30.000 kr. Svarbréf barst frá kæranda, dags. 28. nóvember 1989. Í bréfinu segir svo um hið umspurða atriði:

„Í bréfi mínu gerði ég grein fyrir því, að um söluhagnað væri ekki að ræða vegna sölu minnar og bræðra minna á hlut okkar í landi A. Lagði ég fram upplýsingar til útreiknings á verðmæti landsins, sem um var að ræða. Við nánari athugun og til frekari staðfestingar hefi ég fengið upplýst, að árið 1973, þ.e. þegar eignarhaldstími okkar á landinu hefst, var fasteignamat þess lands, sem um er að ræða, úr áðurnefndri jörð nákvæmlega kr. 3.017.00, eða til samans 15.085.000. Með margfeldisstuðli 117,4699 verður framreiknað verðmæti til ársins 1988/1989 kr. 3.544.067. Má því augljóst vera, að söluhagnaður skattskyldur verður enginn.

Ég hefi fyrir ofangreindu munnlegar upplýsingar, en hefi ekki fengið þær staðfestar skriflega. En ég verð að vænta þess, að í þessu máli verði reikningar mínir teknir trúanlegir.“

Með kæruúrskurði, dags. 5. desember 1989, vísaði skattstjóri kærunni frá með því að fullnægjandi rökstuðning skorti. Kærandi hefði ekki sýnt fram á á óyggjandi hátt hvert stofnverð hinnar seldu eignar hafi verið.

III.

Með kæru, dags. 2. janúar 1990, hefur kærandi skotið frávísunarúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krefst hann þess, að tekjuviðbót skattstjóra verði felld niður, enda sé ekki um skattskyldan söluhagnað að ræða vegna landsölunnar svo sem hann hafi skýrt og rökstutt við meðferð málsins á skattstjórastigi. Vísar hann til skýringa og röksemda sinna þar.

IV.

Með bréfi, dags. 6. desember 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Upphaflegan útreikning og uppgjör söluhagnaðar af hinu selda landi af hendi kæranda verður að skilja svo, að byggt sé á þeirri uppgjörsreglu söluhagnaðar ófyrnanlegra fasteigna, sem um ræðir í 3. ml. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. byggt á gildandi fasteignamati í árslok 1979 að teknu tilliti til verðbreytinga skv. 26. gr. laganna í stað stofnverðs. Hefur skattstjóri fallist á þetta uppgjör kæranda og þykir út af fyrir sig mega láta við það sitja. Upplýst er af hálfu kæranda, að það verð, sem hann vill byggja á sem stofnverði sé fasteignamatsverð 1973, er hann heldur fram, að hafi numið nefndri fjárhæð, er framreiknað myndi leiða til þess, að ekki teldist vera um skattskyldan söluhagnað að ræða. Fasteignamatsverð þetta, hverju svo sem það næmi, fengi engu breytt hvorki um uppgjör skv. 3. ml. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981 né skv. 1. ml. 2. mgr. nefndrar lagagreinar á þann veg, að grundvöllur skapaðist til uppgjörs söluhagnaðar eftir þeim málslið. Samkvæmt þessu þykir bera að synja kröfu kæranda. Hins vegar þykir bera að leiðrétta tekjufærslu skattstjóra. Samkvæmt gögnum málsins hefur skattstjóri reiknað fyrstu afborgun af skuldabréfi 533.760 kr. sem útborgun en ekki með hlutdeild skuldaviðurkenninga af heildarsöluverðmæti. Með þessum hætti hefur hann fengið tekjufærða fjárhæð gjaldárið 1989 248.541 kr. Fær þetta eigi staðist. Hlutdeild skuldaviðurkenninga af heildarsöluverðmæti er 78,95%. Tekjufærast því 142.006 kr. gjaldárið 1989. Eftirstöðvar söluhagnaðarins 532.606 kr. koma til skattlagningar á framtölum 1990-1995 88.767 kr. hvert ár.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja