Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning sambýlisfólks
  • Barnabætur

Úrskurður nr. 41/2022

Gjaldár 2021

Lög nr. 90/2003, 62. gr. 3. mgr., 68. gr. A-liður 1. mgr.  

A og B, sem voru skráð í sambúð, leituðu til sýslumanns í febrúar 2021 vegna sambúðarslita þar sem staðfest var samkomulag þeirra um forsjá, lögheimili og meðlag. Í staðfestingu sýslumanns kom fram að sambúðinni hefði verið slitið 2. janúar 2021 og fyrir lá að A og B töldu sameiginlega fram til skatts vegna alls tekjuársins 2020. Var A ekki talin hafa sýnt fram á að aðstæður hennar í árslok 2020 hefðu verið með þeim hætti að líta bæri á hana sem einstætt foreldri við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021.

Ár 2022, fimmtudaginn 24. mars, er tekið fyrir mál nr. 18/2022; kæra A, dags. 29. janúar 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 29. janúar 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 5. nóvember 2021. Með úrskurðinum var hafnað beiðni kæranda um leiðréttingu á álagningu opinberra gjalda hennar gjaldárið 2021, en kærandi hafði farið fram á að henni yrðu ákvarðaðar barnabætur sem einstæðu foreldri.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að kæranda verði ákvarðaðar barnabætur sem einstæðu foreldri við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi og B stóðu skil á sameiginlegu skattframtali árið 2021. Þann 14. apríl 2021 var af þeirra hálfu send beiðni um leiðréttingu á innsendu skattframtali. Var rakið í beiðninni að kærandi og B hefðu slitið samvistir 27. desember 2020. Þar sem þau hefðu fengið sent sameiginlegt skattframtal hefðu þau til einföldunar skilað því þannig. Þar sem kærandi hefði verið einstæð móðir með tvö börn frá samvistarslitum væri farið fram á að henni yrðu ákvarðaðar barnabætur sem einstæðu foreldri við álagningu opinberra gjalda. Fylgdi beiðninni umsókn um leiðréttingu á fyrirframgreiddum barnabótum gjaldárið 2021, undirrituð af kæranda og B 13. apríl 2021, og var dagsetning sambúðarslita þar tilgreind 27. desember 2020.

Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 20. maí 2021, var kæranda tilkynnt að ekki yrði fallist á að kæranda yrðu ákvarðaðar barnabætur sem einstæðu foreldri við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021. Var rakið að um ákvörðun barnabóta giltu ákvæði A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta. Rétt til barnabóta ættu þeir sem bæru ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 og hefðu í lok tekjuárs á sínu framfæri börn sem væru yngri en 18 ára. Hjón teldust bæði framfærendur og skiptust barnabætur jafnt á milli þeirra. Það sama ætti við um sambúðarfólk sem uppfyllti skilyrði 63. gr. áðurnefndra laga um samsköttun. Við ákvörðun barnabóta 2021 væri miðað við fjölskyldustöðu eins og hún væri skráð í þjóðskrá 31. desember 2020. Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá hefðu kærandi og B slitið samvistum í febrúar 2021 og hefðu fram að því verið skráð með sama lögheimili. Þau hefðu jafnframt óskað eftir samsköttun vegna tekjuársins 2020 með því að skila sameiginlegu skattframtali. Yrði álagning opinberra gjalda og ákvörðun barnabóta í samræmi við það og kæranda reiknaðar barnabætur sambúðarfólks vegna tekjuársins 2020, sbr. A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003. Var tekið fram að sameiginlegar tekjur kæranda og fyrrum sambýlismanns hennar væru yfir mörkum er veittu rétt til barnabóta. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021 voru kærandi og B skattlögð eftir þeim reglum sem gilda um skattlagningu hjóna, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003.

Með kæru, dags. 11. ágúst 2021, mótmælti kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021 og fór fram á að henni yrðu ákvarðaðar barnabætur sem einstæðu foreldri. Var rakið í kærunni að kærandi og B hefðu slitið samvistum 27. desember 2020. Kærandi hefði því verið einstæð móðir í árslok 2020 og væri það enn. Kærandi og B hefðu fengið foráritað sameiginlegt skattframtal með ósk um samsköttun þar sem slit á samvistum hefðu verið seint á árinu og enn síðar tilkynnt um þau til Hagstofu. Við framtalsgerð hefði láðst að merkja við að kærandi væri einstætt foreldri. Með kærunni fylgdi áður fram komin umsókn um leiðréttingu á fyrirframgreiddum barnabótum, dags. 13. apríl 2021.

Með tölvupósti 26. október 2021 óskaði ríkisskattstjóri eftir því við kæranda að lagt yrði fram afrit af fyrsta skjali sem gefið hefði verið út hjá sýslumanni vegna sambúðarslita, þ.e. endurrit úr sifjamálabók. Þyrfti að koma fram hvenær kærandi og B hefðu pantað tíma hjá sýslumanni og að þau hefðu óskað eftir að slíta samvistum í lok desember 2020. Með tölvupósti kæranda 29. október 2021 bárust ríkisskattstjóra gögn, þ.e. staðfesting sýslumanns á samkomulagi um forsjá, lögheimili og meðlag, dags. 16. febrúar 2021, vottorð frá foreldrum kæranda, dags. 26. október 2021, og skjáskot af samskiptum vegna umsóknar kæranda um leiguíbúð frá september 2020. Fram kom að aðdragandi að sambúðarslitum kæranda og B hefði verið langur. Hefðu sambúðarslitin síðan átt sér stað milli jóla og nýárs 2020 en ekki 2. janúar 2021 eins og þau hefðu skrifað undir hjá sýslumanni, óundirbúin. Hefðu þau ekki gert sér grein fyrir áhrifum þess á ákvörðun barnabóta. Benti kærandi á að hún hefði verið farin að leita að leiguhúsnæði fyrr á árinu og að 27. desember 2020 hefðu þau slitið samvistum og hún flutt til foreldra sinna. Forgangsatriði hjá kæranda hefði verið að finna húsnæði fyrir sig og börnin og hefði hún ekki pantað tíma hjá sýslumanni fyrr en 21. janúar 2021.

Þá barst ríkisskattstjóra tölvupóstur frá umboðsmanni kæranda 30. október 2021 þar sem fram kom að innsend gögn kæranda bæru með sér að sambúð hefði í raun lokið fyrir árslok 2020. Við ákvörðun barnabóta bæri að miða við raunveruleikann, sbr. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 298/1982, og væri ekkert tilefni til að vefengja frásögn kæranda. Með tölvupósti 1. nóvember 2021 óskaði ríkisskattstjóri eftir því við umboðsmann kæranda að upplýst yrði hvenær kærandi og B hefðu pantað tíma hjá sýslumanni. Í tölvupósti umboðsmannsins sama dag var tekið fram að endanlegur skilaður hefði verið 27. desember 2020, en þá hefðu aðeins verið þrír virkir dagar til áramóta. Á þeim tíma hefði fólk um ýmislegt annað að hugsa svo dregist hefði fram yfir áramót að panta tíma hjá sýslumanni.

Með kæruúrskurði, dags. 5. nóvember 2021, sbr. 99. gr. laga nr. 90/2003, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um að henni yrðu ákvarðaðar barnabætur sem einstæðu foreldri við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021. Rakti ríkisskattstjóri að í 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 kæmi fram að rétt til barnabóta ættu þeir sem bæru hér á landi ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 og hefðu, í lok tekjuárs, á sínu framfæri börn sem væru yngri en 18 ára. Hjón teldust bæði framfærendur og skiptust barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gilti um sambúðarfólk sem uppfyllti í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, enda þótt það óskaði ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Einstætt foreldri fengi greiddar óskiptar barnabætur með barni sem það hefði á framfæri. Með einstæðu foreldri væri átt við þá sem hefðu barn sitt hjá sér og önnuðust framfærslu þess einir, sbr. A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003. Við ákvörðun barnabóta árið 2021 væri miðað við fjölskyldustöðu eins og hún væri skráð í þjóðskrá 31. desember 2020 og ákvörðun á fjárhæð barnabóta miðuð við samanlagðar tekjur beggja framfærenda, sbr. 3. og 4. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda og B hefðu þau slitið samvistum 27. desember 2020 og formlegt skilnaðarferli hafist þann 2. janúar 2021, sbr. staðfestingu frá sýslumanni. Fram kæmi í samkomulagi sýslumanns að forsjá barns kæranda og B skyldi vera sameiginleg, að lögheimili barnsins yrði hjá móður og faðir greiddi einfalt meðlag með barninu til móður frá 16. febrúar 2021 til 18 ára aldurs. Samkvæmt upplýsingum þjóðskrár hefði kærandi slitið sambúð í febrúar 2021 og flutt lögheimili í sama mánuði. Samkvæmt staðfestum gögnum sýslumanns um forsjá, lögheimili og meðlag hefði ekki verið búið að ganga frá forsjá barns kæranda og B í árslok 2020 og formlegt skilnaðarferli hafist 2. janúar 2021. Yrði því ekki betur séð en kærandi og B hefðu annast framfærsluna saman á árinu 2020 fram að formlegu skilnaðarferli. Teldust þau því bæði framfærendur barnanna í árslok 2020. Með vísan til framangreinds hefðu kærandi og B uppfyllt skilyrði samsköttunar, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, í lok tekjuársins 2020. Væri kröfu kæranda því hafnað.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 29. janúar 2022, kemur fram að í málinu sé ágreiningur um hvenær samvistum kæranda og fyrrum sambýlismanns hennar hafi lokið. Í kærunni eru rakin ákvæði 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 og bent á að samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laganna eigi einstaklingar í óvígðri sambúð rétt á að telja fram og vera skattlagðir sem hjón, enda óski þeir þess báðir skriflega við skattyfirvöld. Á grundvelli framangreinds ákvæðis hafi kærandi og fyrrum sambýlismaður hennar verið skattlögð sem hjón. Þau hafi slitið samvistum 27. desember 2020 og aðdragandi þess verið frá hausti 2020. Kærandi og B hafi fengið sameiginlegt áritað skattframtal árið 2021. Hafi þau staðið skil á því þrátt fyrir að sambúð þeirra hafi verið lokið, enda hafi það verið einfaldast og sanngjarnast fyrir þau. Krafa kæranda lúti ekki að því að skattskil þeirra verði tekin til endurskoðunar í heild sinni heldur einungis að viðurkennt verði að þau hafi slitið samvistum fyrir árslok 2020 og að kærandi hafi því átt rétt á barnabótum sem einstætt foreldri við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021. Er í kærunni vísað til úrskurða yfirskattanefndar nr. 222/2021 og 311/2000 þar sem fjallað sé um samsköttun hjóna. Þá eru rakin samskipti kæranda og B við ríkisskattstjóra sem lokið hafi með hinum kærða úrskurði, dags. 5. nóvember 2020. Í málinu liggi m.a. fyrir yfirlýsing kæranda og B um að samvistum þeirra hafi lokið 27. desember 2020 og yfirlýsing foreldra kæranda um að samvistum hafi lokið í kringum jólin 2020. Í málum eins og þessu hljóti að þurfa að taka tillit til raunveruleikans, en hann liggi skýr fyrir í gögnum málsins. Samvistum hafi verið lokið fyrir árslok 2020. Í því sambandi sé bent á fordæmi í úrskurði ríkisskattanefndar nr. 298/1982 þar sem gögn málsins hafi ekki verið talin gefa tilefni til að vefengja frásagnir skattaðila um sambúðartíma. Í máli kæranda liggi staðfestingar hennar og B fyrir auk staðfestingar foreldra kæranda á því að sambúð hafi lokið skömmu fyrir árslok 2020. Þá hafi sambúðinni lokið en ekki 2. janúar 2021 eins og ríkisskattstjóri byggi á.

IV.

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. febrúar 2022, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og henni gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og að leggja fram frekari gögn í málinu teldi hún ástæðu til. Var veittur 20 daga frestur frá dagsetningu bréfsins. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kærandi og B töldu sameiginlega fram til skatts vegna alls tekjuársins 2020, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og samkvæmt því sem skráð er í þjóðskrá lauk sambúð þeirra á árinu 2021 eða nánar tiltekið í febrúar 2021. Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi og B óski ekki eftir að hverfa frá fyrrgreindri tilhögun skattlagningar. Þess er hins vegar krafist í kærunni að kæranda verði ákvarðaðar barnabætur gjaldárið 2021 sem einstæðu foreldri þar sem kærandi og B hafi slitið samvistir á árinu 2020 eða nánar tiltekið þann 27. desember 2020, svo sem nánar greinir.

Í 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr., skuli ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Framfærandi teljist sá aðili sem hafi barnið hjá sér og annist framfærslu þess í lok tekjuársins. Sá er greiði meðlag með barni teljist ekki framfærandi í þessu sambandi. Hjón, sem skattlögð séu samkvæmt 62. gr. laganna, teljist bæði framfærendur og skiptist barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildi um sambúðarfólk sem uppfylli í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr. enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Að sama skapi teljast þeir sem halda heimili saman ásamt barni sínu framfærendur í skilningi ákvæðisins þótt skilyrði til skráningar á sambúð séu ekki uppfyllt. Við slíkar aðstæður skal ákvarða barnabætur eins og um hjón sé að ræða.

Fyrir liggur að kærandi og B leituðu til sýslumanns í febrúar 2021 vegna sambúðarslita þar sem staðfest var samkomulag þeirra um forsjá, lögheimili og meðlag, sbr. staðfestingu sýslumanns, dags. 16. febrúar 2021, þar sem fram kemur að sambúð hafi verið slitið 2. janúar 2021 og að samkomulag hafi orðið um greiðslu meðlags frá 16. febrúar 2021. Að þessu athuguðu verður að leggja til grundvallar í málinu að kærandi og B hafi bæði annast framfærslu barnanna í árslok 2020 og teljist því bæði framfærendur í skilningi 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Verður ekki talið að kærandi með fram komnum skýringum um aðdraganda sambúðarslitanna sýnt fram á að aðstæður hennar í árslok 2020 hafi verið með þeim hætti að líta beri á hana sem einstætt foreldri við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021. Þá er rétt að taka fram að fyrirliggjandi sameiginleg skattskil kæranda og B vegna alls tekjuársins 2020 fengju ekki staðist að lögum yrði litið svo á að sambúðarslit hefðu farið fram á árinu 2020, sbr. 1. mgr. 63. gr., sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja