Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla vegna bókaútgáfu
  • Streymisveita

Úrskurður nr. 58/2022

Lög nr. 130/2018, 3. gr., 6. gr., 8. gr., 9. gr.   Lög nr. 37/1993, 20. gr.   Reglugerð nr. 393/2019, 4. gr., 5. gr.  

Nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku hafnaði umsókn kæranda um endurgreiðslu auglýsingakostnaðar vegna útgáfu þriggja hljóðbóka á þeim forsendum að slíkur kostnaður væri ekki endurgreiðsluhæfur samkvæmt lögum nr. 130/2018, vegna bóka sem aðeins væru aðgengilegar almenningi með áskrift að efnisveitu. Í úrskurði yfirskattanefndar var rakið að lög nr. 130/2018 tækju jöfnum höndum til útgáfu prentaðra og rafrænna bóka á íslensku sem og til hljóðupptaka af lestri slíkra bóka. Í lögskýringargögnum kæmi ekkert fram sem benti til þess að beita bæri mismunandi mælistiku á auglýsingakostnað bókaútgefenda að þessu leyti eftir því hvernig aðgengi neytenda að bók væri háttað, þ.e. hvort bókin væri til sölu, láns eða leigu. Var fallist á kröfu kæranda um að hinum kærðu ákvörðunum nefndar um stuðning við útgáfu bóka yrði hnekkt. Var kæra kæranda send nefndinni til meðferðar og töku nýrrar ákvörðunar.

Ár 2022, miðvikudaginn 6. apríl, er tekið fyrir mál nr. 193/2021; kæra A, dags. 18. nóvember 2021, vegna ákvörðunar um endurgreiðslu vegna bókaútgáfu. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 18. nóvember 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðunum nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, dags. 27. október 2021, er varða endurgreiðslu útgáfukostnaðar. Í kærunni kemur fram að ákvarðanir nefndarinnar hafi lotið að umsóknum kæranda um endurgreiðslu útgáfukostnaðar vegna þriggja bóka, þ.e. bókanna X, Y og Z, sbr. lög nr. 130/2018, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Ákvarðanir nefndarinnar feli í sér að markaðs- og auglýsingakostnaður vegna bóka, sem gefnar séu út af efnisveitum eða áskriftarþjónustum og ekki séu aðgengilegar almenningi með öðrum hætti, teljist ekki endurgreiðsluhæfur kostnaður samkvæmt lögum nr. 130/2018. Í kærunni er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að staðfest verði að um endurgreiðsluhæfan kostnað sé að ræða á grundvelli laga nr. 130/2018 og að endurgreiðslukrafa kæranda verði tekin til greina. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 18. nóvember 2021. Í kærunni eru málavextir raktir og ákvæði laga nr. 130/2018, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Er vísað m.a. til 6. gr. laganna og bent á að samkvæmt f-lið 6. gr. sé auglýsinga- og kynningarkostnaður sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfu bókar endurgreiðsluhæfur. Vísar kærandi til þess að í frumvarpi því er varð að lögum nr. 130/2018 komi fram að um sé að ræða beinan auglýsinga- og kynningarkostnað sem falli til innan fjögurra mánaða frá útgáfudegi bókar, en að öðru leyti sé ekki skýrt nánar hvað í kostnaðarliðnum felist. Þannig sé hvergi mælt fyrir um það hvernig bækur skuli kynntar eða auglýstar og ekki sé minnst á að kostnaður vegna kynninga eða auglýsinga á bókum, sem eingöngu séu aðgengilegar á efnisveitum, falli utan gildissviðsins, þ.e. sé ekki endurgreiðsluhæfur. Virðist þannig ekkert í lögunum koma í veg fyrir að auglýsinga- og kynningarkostnaður í tengslum við útgáfu umræddra bóka, sem þó séu aðeins aðgengilegar almenningi í gegnum efnisveitur, geti talist endurgreiðsluhæfur kostnaður sem uppfylli skilyrði laganna svo lengi sem rekja megi kostnaðinn beint til kynningar og auglýsingar á viðkomandi bókum og falli til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfu. Þyrfti nefndin að öðrum kosti að rökstyðja frekar á hverju það sé byggt að kostnaður við auglýsingu og kynningu í tengslum við útgáfu bókanna miði í raun ekki að kynningu bókanna sem slíkra heldur að efnisveitu B ehf. og áskrift að henni. Í því sambandi megi benda á að kostnaður sem kærandi hafi lagt út fyrir í tengslum við kynningu og auglýsingu vegna útgáfu bókanna sé algerlega ótengdur þeim fjármunum sem B ehf. nýti í markaðs- og kynningarstarf fyrir efnisveituna sjálfa.

Í kærunni er vísað til þess að efnisveita B ehf. hafi aldrei sótt um endurgreiðslu kostnaðar á grundvelli laga nr. 130/2018. Það hafi kærandi, sem sé hljóðbókaútgefandi, aftur á móti gert. Þrátt fyrir að bækur kæranda, þar á meðal þær bækur sem umsóknirnar lúti að, séu aðgengilegar á efnisveitunni sé það þó ekki veitan sjálf sem gefi þær út. Megi af þessum sökum draga í efa að rök nefndarinnar fyrir þeirri ákvörðun að hafna endurgreiðslu þess markaðs- og auglýsingakostnaðar sem hafi fallið til við útgáfu bókanna eigi yfir höfuð við, enda séu bækurnar gefnar út af kæranda sem hvorki reki efnisveitu né áskriftarþjónustu, þó bækur félagsins séu aðgengilegar þar. Efnisveita B ehf. sé þegar með mikinn fjölda áskrifenda. Hafi auglýsingar og kynningar kæranda á bókunum þannig ekki beinst síður að þeim áskrifendum sem þegar hafi verið til staðar en öðrum og því erfitt að halda því fram að þær miði „fyrst og fremst að því að fá viðskiptavini í áskrift“ án þess að rökstyðja það nánar. Þá feli afstaða nefndarinnar í sér beina mismunun gagnvart rafbókum, án þess að slík mismunun eigi sér lagastoð. Sé vandséð hvernig hægt sé að komast að því að mismunandi reglur gildi eftir því á hvaða formi bók sé gefin út.

Í rökum þeim er komi fram í bréfi nefndarinnar, dags. 29. september 2020, og vísað hafi verið til í ákvörðunum varðandi umsóknirnar kæranda um endurgreiðslu kostnaðar, sé sérstaklega bent á að aðilum sé ókleift „að kaupa aðgang að einstaka bók eða fá hana lánaða á bókasafni“. Í 4. tölul. 3. gr. laga nr. 130/2018 sé tekið fram að bók teljist gefin út og gerð aðgengileg almenningi þegar hún hafi verið boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu. Vísar kærandi til þess að í frumvarpi til laganna sé tekið fram að í þessu felist að bók hafi t.d. verið boðin til sölu hjá útgefanda eða smásala eða með öðrum hætti eða leigð gegn gjaldi. Sé samkvæmt þessu ekki gerð krafa um að hægt sé að kaupa aðgang að einstaka bók eða fá hana lánaða á bókasafni heldur aðeins að bókin hafi með einhverjum hætti verið gerð aðgengileg almenningi, eins og eigi við um bækur kæranda. Það sé undarleg stefna að skerða stuðning við útgáfu hljóðbóka og rafræna útgáfu bóka á íslensku sem aðgengilegar séu á efnisveitum með því að hætta að endurgreiða kostnað vegna kynninga á slíkum bókum, enda sé slík bókaútgáfa að öllum líkindum stór hluti af framtíð bókaútgáfu í heiminum. Nánast einu tekjur útgefanda hljóðbóka séu af sölu þeirra í gegnum efnisveitur, sem sé í raun eini markaðurinn fyrir íslenskar hljóðbækur eins og staðan sé í dag. Með ákvörðun nefndar í máli kæranda sé því nánast alfarið verið að útiloka slíkar bækur frá endurgreiðslu sem geti valdið því að kynning og markaðssetning slíkra bóka og útgáfa þeirra dragist saman þvert gegn markmiði laganna. Kærandi sé langt frá því eini bókaútgefandinn sem gefi út bækur á efnisveitu B ehf., en allir íslenskir bókaútgefendur séu með bækur sínar aðgengilegar á veitunni. Hlutfall kæranda sé eingöngu um þriðjungur af þeim tekjum sem íslenskar hljóðbækur færi útgefendum í gegnum efnisveituna, en afgangurinn fari að mestu leyti til annarra íslenskra bókaútgefenda. Hluti þeirra afli meiri hluta tekna sinna í gegnum efnisveituna og séu margir farnir að auglýsa sérstaklega aðgengi að bókum í gegnum hana. Mörg dæmi séu um að bækur kæranda hafi fengið þúsundir og jafnvel tugþúsundir hlustana. Telji kærandi því liggja í augum uppi að ákvörðun nefndarinnar um synjun á endurgreiðslu auglýsinga- og markaðskostnaðar vegna útgáfu bókanna feli í sér skref aftur á bak í þeirri öru þróun og aukna framboði rafrænna bóka sem orðið hafi og fari þannig gegn markmiði löggjafans með setningu laganna, enda sé ljóst að ætlunin hafi m.a. verið að efla útgáfu hljóð- og rafbóka á íslensku og stuðla að fjölbreyttara úrvali slíkra bóka.

III.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 20. desember 2021, hefur nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur m.a. fram að það sé mat nefndarinnar að kynningar og auglýsingar á einstökum bókum sem aðeins séu aðgengilegar á efnisveitum miðist fyrst og fremst að því að fá viðskiptavini í áskrift að efnisveitunni/áskriftarþjónustunni, enda sé viðskiptavinum ókleift að kaupa aðgang að einstaka bók eða fá hana lánaða á bókasafni í hljóðbókarformi í flestum tilvikum. Því sé ekki unnt að rekja kostnaðinn beint til útgáfu umræddrar bókar. Byggt á þessum rökum hafi nefndin ályktað að markaðs- og auglýsingakostnaður vegna bóka, sem gefnar séu út af efnisveitum eða áskriftarþjónustum og ekki gerðar aðgengilegar almenningi með öðrum hætti, sé ekki endurgreiðsluhæfur. Vísar nefndin til þess að það skipti máli hvernig neytandi geti nálgast tiltekna bók. Þannig sé um lokað áskriftarkerfi að ræða og um leið og áskrift sé hætt sé neytandi ekki með áskrift að bókinni lengur. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að bækur hans séu aðgengilegar annars staðar en í þessu umhverfi, en þær séu í flestum tilvikum jafnframt til í bókarformi og aðgengilegar bæði á bókasöfnum og á sölustöðum.

Í umsögninni er vísað til þess að kærandi nefni bókasafn sem dæmi og að neytandi greiði fyrir bókasafnsskírteini. Er bent á að nefndin hafi ekki fengið til afgreiðslu umsókn vegna bókar sem aðeins sé að finna á bókasafni og hafi því ekki þurft að taka afstöðu til þess, en ef aðeins væru til þrjú eintök af einni bók á háskólabókasafni myndi nefndin þó sennilega ekki samþykkja umsókn um endurgreiðslu. Sjónarmið um framangreint komi fram í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 130/2018. Þá er í umsögninni rakið að samkvæmt lögum nr. 130/2018 þurfi að vera um að ræða beinan auglýsinga- og kynningarkostnað sem falli til eftir útgáfu bókar, þ.e. innan fjögurra mánaða frá útgáfudegi hennar. Kærandi þurfi því að sýna fram á að kostnaður tengist með beinum hætti útgáfu tiltekinnar bókar. Við samningu laga nr. 130/2018 hafi legið til grundvallar sú hugsun að reyna að afmarka framleiðslukostnað við tiltekna bók en ekki að ná til almenns kostnaðar tengdum bókaútgáfu. Ekki hafi þar verið tekið sérstaklega á áskriftarveitum eins og kærandi reki. Að mati nefndarinnar sé hér því um að ræða álitaefni sem skera þurfi úr um. Til að gæta meðalhófs hafi nefndin ákveðið „að fara ekki út í endurupptöku fyrri ákvarðana“ eins og henni sé heimilt að gera, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 130/2018 og 7. gr. reglugerðar nr. 939/2019, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, þegar nefndinni hafi þótt skýrast með frekari upplýsingum að endurgreiðsla kynni að hafa verið veitt vegna ógjaldgengs kostnaðar í einhverjum tilvikum.

Í niðurlagi umsagnar nefndarinnar er bent á að kærandi dreifi og selji hljóðbækur eingöngu í gegnum efnisveitu B ehf. Ekki sé endurgreiddur kostnaður við útkeyrslu bóka í bókabúðir. Allur kostnaður kæranda vegna útgáfu umræddra bóka sé virtur sem stofn til endurgreiðslu með fyrirvara um að kostnaður standist lög nr. 130/2018. Í athugasemdum við ákvæði a-liðar 6. gr. í frumvarpi til laganna sé tekið fram um beinan auglýsinga- og kynningarkostnað sem falli til eftir útgáfu bókar. Þau ummæli hafi ráðið úrslitum um niðurstöðu nefndarinnar. Auglýsingar á bókum kæranda séu að mati nefndarinnar í eðli sínu auglýsing á áskrift að efnisveitu B ehf. og því aðeins óbeint vegna tiltekinnar bókar, enda sé ekki mögulegt að kaupa aðgang að þeirri bók sem auglýst sé.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 7. mars 2022, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Í bréfinu kemur m.a. fram að rök nefndarinnar fyrir því að ekki sé um að ræða beinan auglýsinga- og kynningarkostnað virðist nær eingöngu byggja á því að ekki sé hægt að kaupa aðgang að þeirri bók sem auglýst sé þar sem aðeins sé hægt að nálgast bækurnar í gegnum áskriftarveituna. Af þeim sökum hljóti auglýsing á bókum sem kærandi gefi út að vera auglýsing á efnisveitu B ehf. Samkvæmt lögum nr. 130/2018 sé það ekki gert að skilyrði að um kaup á einstaka bók sé að ræða sem neytandi hafi framvegis aðgang að án þess að greiða frekar fyrir. Þvert á móti sé tekið fram að bók þurfi eingöngu að hafa verið boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu. Kæranda sé ekki kunnugt um að hér á landi sé hægt að fá að láni eða leigu einstaka bók á íslensku gegn gjaldi, án þess að um einhvers konar áskriftarþjónustu sé að ræða þar sem neytendur hafi aðgang að mörgum bókum í einu gegn greiðslu ákveðins gjalds.

Kærandi vísar til þess að á grundvelli laga nr. 130/2018 eigi kostnaður tengdur útgáfu bóka að vera endurgreiðsluhæfur þrátt fyrir að bækur hafi eingöngu verið boðnar til láns eða leigu, til að mynda í gengum áskriftarveitur eða bókasöfn, séu þær aðgengilegar almenningi og önnur skilyrði laganna uppfyllt. Falli það einnig að markmiði laganna, sem m.a. sé að efla útgáfu hljóð- og rafbóka á íslensku og stuðla að fjölbreyttara úrvali slíkra bóka, að auglýsinga- og kynningarkostnaður vegna bóka sem aðgengilegar séu hjá B ehf. sé endurgreiðsluhæfur. Tekjur kæranda sem bókaútgefanda byggi á fjölda hlustana á bækur. Ólíkt því sem eigi við um prentaðar bækur í einkasölu, þar sem allt gangi út á selja sem flest eintök, séu tekjur hljóðbókaútgefenda í gegnum áskriftarveitur takmörkuð auðlind á hverju tímabili. Skipti því öllu máli fyrir útgefendur að auglýsa og kynna bækur sínar vel utan og innan þjónustunnar þar sem aukin hlustun á tiltekna bók hafi í för með sér að bókin öðlist stærri hlutdeild í þeim tekjum sem liggi til grundvallar. Þar með aukist tekjur útgefanda.

Kærandi hafi ekki óskað eftir neinni endurgreiðslu vegna vinnu við auglýsinga- og kynningarmál. Þá hafi aldrei verið óskað eftir endurgreiðslu vegna almennrar stjórnunar eða vinnu við dreifingu bóka kæranda. Aðeins sé óskað endurgreiðslu vegna vinnu stjórnenda og starfsfólks sem með beinum hætti varði útgáfu tiltekinna bóka. Vilji nefndin halda því fram að kærandi hafi sóst eftir endurgreiðslu fyrir það að setja bækurnar inn á efnisveituna sé það alrangt og átti kærandi sig í raun ekki á því á hverju nefndin byggi slíkt mat eða hvernig það tengist málinu. Loks megi benda á að mánaðaráskrift að veitunni kosti 2.990 kr. sem hægt sé að segja upp hvenær sem er. Þá sé boðin sjö daga frí prufuáskrift. Hljóðbækurnar kosti frá 3.390 kr. til 4.990 kr. í hljóðbókaappi Forlagsins. Sé því ljóst að unnt sé að kaupa aðgang að efnisveitunni eingöngu til að hlusta á tiltekna bók og segja áskrift upp í kjölfarið kjósi aðili það, enda felist engin binding í því að gerast áskrifandi að efnisveitunni.

V.

Kæra í máli þessu lýtur að ákvörðunum nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, sem munu hafa borist kæranda með tölvupóstum nefndarinnar 27. október 2021, er lutu að umsóknum kæranda um endurgreiðslu kostnaðar vegna útgáfu þriggja hljóðbóka á árinu 2021, sbr. lög nr. 130/2018, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Kærandi, sem er erlent félag, mun vera móðurfélag B ehf. sem starfrækir streymisveitu hljóð- og rafbóka hér á landi. Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að umsóknir kæranda hafi lotið að útgáfu bókanna X, Y og Z. Í hinum kærðu ákvörðunum nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku er lýst þeirri afstöðu að „markaðs- og auglýsingakostnaður vegna bóka sem gefnar eru út af efnisveitum eða áskriftarþjónustu“ og ekki séu aðgengilegar almenningi með öðrum hætti sé ekki endurgreiðsluhæfur samkvæmt lögum nr. 130/2018. Er í því sambandi vísað til bréfs nefndarinnar til „forráðamanna B“ frá 29. september 2020. Með ákvörðunum nefndarinnar var kæranda gefinn kostur á að lagfæra umsóknir félagsins á umsóknarsíðu innan 30 daga frá dagsetningu ákvarðana nefndarinnar, að því er ætla verður til samræmis við fyrrgreinda afstöðu nefndarinnar til auglýsingakostnaðar. Þá var jafnframt óskað eftir skýringum kæranda á fjárhæð hljóðvinnslukostnaðar í umsóknum félagsins vegna tveggja bóka, svo sem nánar greindi. Af hálfu kæranda mun ekki hafa verið orðið við tilmælum nefndarinnar um breytingu á umsóknunum. Hefur kærandi gripið til þess ráðs að skjóta ákvörðunum nefndarinnar til yfirskattanefndar, sbr. kæruheimild í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 130/2018. Er þess krafist í kærunni að ákvarðanir nefndarinnar verði felldar úr gildi og að fallist verði á endurgreiðslu markaðs- og auglýsingakostnaðar vegna útgáfu þeirra bóka sem um ræðir.

Umsóknir kæranda um endurgreiðslu útgáfukostnaðar vegna bókanna X, Y og Z fylgdu kæru félagsins til yfirskattanefndar. Samkvæmt umsóknunum nam útgáfukostnaður bókanna 420.066 kr. í tilviki X, 7.458.972 kr. í tilviki Y og 3.515.736 kr. í tilviki Z. Var tilgreindur kostnaður vegna hljóðvinnslu, upplesturs, prófarkalesturs, ritstjórnar og höfundalauna, sbr. nánari sundurliðun. Þá var tilgreindur auglýsingakostnaður að fjárhæð 12.500 kr. vegna X, að fjárhæð 2.725.783 kr. vegna Y og að fjárhæð 291.299 kr. vegna Z. Hvorki í hinum kærðu ákvörðunum nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku né í kæru kæranda til yfirskattanefndar er vikið að fjárhæðum í þessu sambandi. Eins og málið liggur fyrir verður að ganga út frá því að fyrrgreind afstaða nefndarinnar til endurgreiðslu markaðs- og auglýsingakostnaðar hafi tekið til síðastnefnds kostnaðar í heild sinni, þ.e. tilfærðs auglýsingakostnaðar í umsóknum kæranda, og að nefndin líti þannig svo á að sá kostnaður sé að engu leyti endurgreiðslukræfur. Um önnur útgjöld sýnist ekki deilt í málinu fyrir yfirskattanefnd og koma þau því ekki til neinnar umfjöllunar.

Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 130/2018 kemur fram að ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku um hvað teljist vera endurgreiðsluhæfur kostnaður samkvæmt 6. gr. nefndra laga eða fjárhæð endurgreiðslu, svo og hvort fullnægjandi gögn liggi til grundvallar útgáfukostnaði, sé kæranleg til yfirskattanefndar. Um þessa kæruheimild er stuttlega fjallað í úrskurði yfirskattanefndar nr. 14/2021. Eins og þar kemur fram verður að telja að heimildin taki eingöngu til ákvarðana nefndarinnar um endurgreiðslu kostnaðar við útgáfu tiltekinna bóka eða höfnun um endurgreiðslu sem tekin er á grundvelli 2. mgr. 8. gr. fyrrnefndra laga. Ákvæði um málsmeðferð við afgreiðslu umsókna um endurgreiðslu kostnaðar í lögum nr. 130/2018 og ákvarðanir nefndar um stuðning við útgáfu bóka í því sambandi eru næsta fábrotin. Fer því um málsmeðferð nefndarinnar að öðru leyti eftir reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 1. gr. þeirra laga, og almennum, óskráðum reglum stjórnsýsluréttar. Hér að framan er hinum kærðu ákvörðunum nefndarinnar, sem kærandi hefur skotið til yfirskattanefndar, að nokkru lýst. Ganga verður út frá því að með ákvörðunum nefndarinnar hafi umsókn kæranda verið hafnað að hluta, þ.e. að því er snýr að endurgreiðslu auglýsingakostnaðar vegna bóka sem um ræðir. Ljóst er að ákvarðanir þessar uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til forms og efnis slíkra stjórnvaldsákvarðana, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar með talið kröfur sem gera verður til skýrleika ákvarðana í þessum efnum. Eins og málið liggur fyrir þykir þó ekki varhugavert að byggja á því að um sé að ræða höfnun um endurgreiðslu útgáfukostnaðar samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 130/2018 sem sæti kæru til yfirskattanefndar, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2018 gilda lögin um endurgreiðslu á hluta kostnaðar vegna útgáfu á bókum sem gefnar eru út á íslensku á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Í 1. tölul. 3. gr. laganna er hugtakið bók skilgreint sem ritverk eða ritröð sem er a.m.k. átta blaðsíður að lengd og bundið eða fest á hliðstæðan hátt í kjöl. Tekið er fram að undir hugtakið falli einnig hljóðupptökur af lestri slíkra verka, geisladiskar og aðrir miðlar með bókartexta og rafræn útgáfa slíkra verka. Samkvæmt 4. tölul. greinarinnar telst bók gefin út og gerð aðgengileg almenningi þegar hún hefur verið samþykkt í alþjóðlega bóknúmerakerfið hjá Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni, skráð í bókasafnskerfið Gegni eða sambærilegt skráningarkerfi erlendis og boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu.

Um endurgreiðsluhæfan kostnað er fjallað í 6. gr. laga nr. 130/2018. Eru þar taldir í sjö stafliðum kostnaðarliðir sem falla undir endurgreiðsluhæfan kostnað bókaútgefanda, enda sé um að ræða kostnað sem telst frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt f-lið lagagreinarinnar er auglýsinga- og kynningarkostnaður vegna bókar sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfu hennar endurgreiðsluhæfur. Er tekið fram í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 130/2018, að um sé að ræða beinan auglýsinga- og kynningarkostnað sem falli til eftir útgáfu bókar. Þá kemur fram í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins að óbeinn kostnaður bókaútgefanda, svo sem almennur rekstrarkostnaður fasteigna, leigukostnaður, fjármagnskostnaður og annar rekstrarkostnaður, sem ekki verði tengdur hlutaðeigandi bók með beinum hætti, falli ekki undir frumvarpið og teljist ekki endurgreiðsluhæfur kostnaður samkvæmt greininni. Strangt mat skuli vera á því hvort kostnaður teljist endurgreiðsluhæfur samkvæmt greininni (Þskj. 178 á 149. löggjafarþingi 2018-2019).

Frekari ákvæði um stuðning við útgáfu bóka á íslensku er að finna í samnefndri reglugerð nr. 393/2019 sem sett hefur verið á grundvelli 11. gr. laga nr. 130/2018. Um endurgreiðsluhæfan kostnað er fjallað í 4. gr. reglugerðarinnar og í 5. gr. hennar eru ákvæði um kostnað sem ekki telst endurgreiðsluhæfur. Í c-lið 5. gr. er tekið fram að vinna og annar kostnaður við auglýsinga- og kynningarmál, fram að útgáfu bókar og eftir að fjórir mánuðir eru liðnir frá útgáfu bókar, skapi ekki rétt til endurgreiðslu. Sama á við um almennan stjórnunarkostnað sem fellur til hjá bókaútgefanda, kostnað sem fellur til vegna dreifingar og/eða sölu bókar og óbeinan kostnað bókaútgefanda sem ekki tengist með beinum hætti útgáfu bókar, sbr. d- og e-lið 5. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt h-lið 4. gr. reglugerðar nr. 393/2019, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1089/2020, skulu allar tekjur vegna auglýsinga og kynninga reiknast til frádráttar þegar endurgreiðsluhæfur kostnaður vegna bókar er ákvarðaður.

Samkvæmt framansögðu er í lögum nr. 130/2018 og reglugerð nr. 393/2019 gerður greinarmunur á annars vegar beinum kostnaði bókaútgefanda af útgáfu bókar, sem telst endurgreiðsluhæfur sé hann af þeim toga sem tilgreint er í 6. gr. laganna, og hins vegar ýmsum óbeinum kostnaði almenns eðlis sem fellur til hjá bókaútgefanda sem ekki skapar rétt til endurgreiðslu. Að því er snertir auglýsinga- og kynningarkostnað sérstaklega er ljóst að slíkur kostnaður verður að tengjast beint útgáfu tiltekinnar bókar sem gerð hefur verið aðgengileg almenningi með þeim hætti sem greinir í 4. tölul. 3. gr. laga nr. 130/2018, sbr. og ákvæði j-liðar 2. gr. reglugerðar nr. 393/2019. Auglýsinga- og kynningarkostnaður af öðrum toga veitir ekki rétt til endurgreiðslu. Í athugasemdum við 6. gr. frumvarps til laga nr. 130/2018 er þannig sérstaklega tekið fram að vinna við auglýsinga- eða kynningarmál bókaútgefanda teljist ekki til beins launakostnaðar í skilningi a-liðar 6. gr. frumvarpsins sem tekur til beins launakostnaðar vegna útgáfu bókar.

Eins og fram er komið var hin kærða ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku byggð á því að auglýsinga- og kynningarkostnaður vegna bóka, sem eingöngu væru aðgengilegar almenningi með áskrift að efnisveitu, væri ekki endurgreiðsluhæfur. Er bent á í umsögn nefndarinnar til yfirskattanefndar að slíkur kostnaður miði fyrst og fremst að því að afla áskrifenda að viðkomandi þjónustu (efnisveitu) og sé því ekki um að ræða beinan kostnað af útgáfu tiltekinnar bókar, sbr. f-lið 6. gr. laga nr. 130/2018. Af umsögninni verður ráðið að nefndin telur ekki skipta máli í þessu sambandi þótt hljóðbók kunni að vera aðgengileg almenningi á öðru formi, enda er tekið fram að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hljóðbækur félagsins, sem séu í flestum tilvikum til í bókarformi, séu aðgengilegar annars staðar en á efnisveitu B ehf. Hvað sem þessu líður er ágreiningslaust að skilyrði 4. tölul. 3. gr. laga nr. 130/2018 séu uppfyllt í tilviki kæranda, sbr. umsögn nefndarinnar þar sem fram kemur að bækur kæranda uppfylli almenn skilyrði þeirra laga til að hljóta endurgreiðslu kostnaðar. Verður þá sömuleiðis að ganga út frá því að bækur þær, sem umsóknir kæranda tóku til, uppfylli skilyrði þess að teljast „bók“ í skilningi 1. tölul. 3. gr. laganna, enda hefur ekkert annað komið fram.

Í málinu er fyrst til þess að líta að lög nr. 130/2018 taka jöfnum höndum til útgáfu prentaðra og rafrænna bóka á íslensku sem og til hljóðupptaka af lestri slíkra bóka, sbr. hér að framan, en markmið laganna samkvæmt 1. gr. þeirra er að efla útgáfu bóka á íslensku með því að veita bókaútgefendum tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við bókaútgáfu. Hvorki í lögum nr. 130/2018 né í reglugerð nr. 393/2019 er neinum ákvæðum til að dreifa sem varða sérstaklega kostnað sem fellur til við útgáfu hljóðbóka að öðru leyti en því að framleiðslukostnaðar raf- og hljóðbóka er getið með endurgreiðsluhæfum kostnaði í 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. d-lið greinarinnar, ásamt vinnu við hljóðupptökur, sbr. a-lið hennar. Að þessu athuguðu og þar sem auglýsinga- og kynningarkostnaður vegna útgáfu bókar, hvort sem er á prentuðum eða rafrænum miðlum, sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfu er endurgreiðsluhæfur samkvæmt f-lið 6. gr. laga nr. 130/2018 verður ekki talið að svo þröng túlkun, sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka, fái staðist. Í lögskýringargögnum kemur ekkert fram sem bendir til þess að beita beri mismunandi mælistiku á auglýsingakostnað bókaútgefenda að þessu leyti eftir því hvernig aðgengi neytenda að bók er háttað, þ.e. hvort bókin sé til sölu, láns eða leigu, sbr. 4. tölul. 3. gr. laga nr. 130/2018. Þótt taka megi undir það með nefndinni, að auglýsingar á vegum kæranda miði fyrst og fremst að því að laða áskrifendur að efnisveitunni sem hýsir útgefnar bækur félagsins, verður ekki litið framhjá því að sú staðreynd helgast af eðli starfseminnar sem slíkrar fremur en að hlutaðeigandi auglýsing geti ekki talist til komin vegna tiltekinnar bókar.

Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á með nefnd um stuðning við útgáfu bóka að það eitt, að bók sé eingöngu aðgengileg almenningi með áskrift að efnisveitu, hafi í för með sér að auglýsingakostnaður vegna bókarinnar geti ekki fallið undir f-lið 6. gr. laga nr. 130/2018 og verið endurgreiðsluhæfur. Er því fallist á kröfu kæranda um að ákvörðunum nefndar um stuðning við útgáfu bóka, sem málið tekur til, verði hnekkt.

Það leiddi af niðurstöðu nefndarinnar að hún hefur enga afstöðu tekið til umsókna kæranda að öðru leyti, svo sem með tilliti til einstakra auglýsinga sem um er að ræða og fjárhæðar endurgreiðslu. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt þessu þykir rétt, með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, að senda nefndinni kæruna til meðferðar og töku nýrrar ákvörðunar, sbr. 8. gr. laga nr. 130/2018.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað félagsins af meðferð málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. nóvember 2021, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til þessa, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinum kærðu ákvörðunum nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku er hnekkt og kæran send nefndinni til meðferðar og afgreiðslu. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja