Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vantaldar tekjur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 59/2022

Gjaldár 2021

Lög nr. 90/2003, 7. gr. B-liður, 95. gr., 96. gr.  

Sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda, að færa honum til tekna vanframtaldar verktakagreiðslur frá X ehf., var ómerkt með því að ríkisskattstjóri gætti þess ekki að gefa kæranda kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og eftir atvikum greinargerð um hugsanlegan frádrátt á móti greiðslum þessum.

 

Ár 2022, föstudaginn 22. apríl, er tekið fyrir mál nr. 20/2022; kæra A, dags. 30. janúar 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 30. janúar 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 5. nóvember 2021, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021. Kæruefnið er sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2021, sbr. tilkynningu, dags. 20. maí 2021, að færa kæranda til skattskyldra tekna í skattframtalinu meintar vanframtaldar verktakagreiðslur, samtals að fjárhæð 590.000 kr, frá X ehf., sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í tilkynningu ríkisskattstjóra var vísað til fyrirliggjandi upplýsinga um greiðslurnar og um skattskyldu var vísað til ákvæðis B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í kæruúrskurði ríkisskattstjóra, í tilefni af athugasemdum kæranda í kæru til ríkisskattstjóra, dags. 3. júní 2021, þess efnis að kærandi hefði ekki fengið neinar verktakagreiðslur á árinu 2020, tók ríkisskattstjóri fram að kærandi hefði gefið út tvo reikninga á eigin kennitölu, en í nafni Y gistihúss, á hendur X ehf. Væru reikningar þessir dagsettir 28. maí og 25. júní 2020 samtals að fjárhæð 590.000 kr. Yrði því ekki annað séð en að álagning væri byggð á réttum forsendum.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi hafi rekið gistihús með maka sínum til ársins 2014. Eftir skilnað þeirra hafi kærandi ekki komið að rekstrinum sem hafi verið á vegum einkahlutafélags. Vegna mistaka hafi á árinu 2020 verið gefnir út tveir reikningar á gömlum reikningseyðublöðum frá þeim tíma er kærandi rak gistiheimilið með maka sínum. Er vísað til meðfylgjandi gagna úr bókhaldi einkahlutafélagsins sem beri með sér að báðir reikningarnir hafi verið tekjufærðir hjá félaginu, auk afrita af reikningunum sjálfum. Sé því farið fram á að skattframtal kæranda árið 2021 verði fært til fyrra horfs og að breyting ríkisskattstjóra verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. mars 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að kærunni verði vísað til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar, enda hafi kærandi lagt fram ný gögn og rökstuðning í málinu, sbr. lagarök er búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

II.

Kæra í máli þessu varðar þá breytingu ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2021, sbr. tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 20. maí 2021, og hinn kærða úrskurð, að færa kæranda til skattskyldra tekna í skattframtalinu verktakagreiðslur samtals að fjárhæð 590.000 kr. frá X ehf. Eins og fram er komið fór ríkisskattstjóri með breytinguna eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar er mælt svo fyrir að ríkisskattstjóri geti leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skuli skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Þessa heimild ríkisskattstjóra ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans eða slíkt sé augljóslega óþarft. Ríkisskattstjóri vísaði í tilkynningu sinni, dags. 20. maí 2021, til fyrirliggjandi upplýsinga um greiðsluna, án nánari tilgreiningar.

Ekki verður talið að staðist hafi að færa kæranda umræddar verktakagreiðslur til tekna í skattframtali hans án þess að gefa kæranda áður kost á að koma að sjónarmiðum sínum og eftir atvikum greinargerð um hugsanlegan frádrátt á móti greiðslum þessum, sbr. m.a. ákvæði um frádráttarbæran rekstrarkostnað í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, svo sem með framlagningu rekstrarreiknings vegna greiðslnanna. Var þannig óhjákvæmilegt að krefja kæranda um skýringar og gögn varðandi kostnað á móti greiðslunum áður en ríkisskattstjóri ákvað hina kærðu breytingu með tilkynningu sinni, dags. 20. maí 2021. Samkvæmt þessu verður að telja að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ríkisskattstjóri breytti skattframtali kæranda, sbr. 1. mgr. 96. gr laga nr. 90/2003 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem gefa varð kæranda kost á að neyta andmælaréttar síns, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu voru ekki skilyrði til þess að ríkisskattstjóri færi með breytinguna eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, heldur bar honum að fylgja ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. laganna teldi hann ástæðu til að hagga við skattskilum kæranda að þessu leyti. Að þessu athuguðu þykir bera að ómerkja hina kærðu breytingu ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2021. Með úrskurði þessum er þá engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Hin kærða breyting ríkisskattstjóra er felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja