Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sérstök ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru
  • Launauppgjöf

Úrskurður nr. 60/2022

Gjaldár 2021

Lög nr. 90/2003, 92. gr. 1. mgr.   Lög nr. 129/1997, 11. gr., bráðabirgðaákvæði VIII (brl. nr. 25/2020, 9. gr.).  

Kærandi hugðist sækja um sérstaka útgreiðslu séreignarsparnaðar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, en vegna mistaka sótti hann um almenna útgreiðslu sparnaðarins á netinu sem leiddi til skerðingaráhrifa á aðrar greiðslur til kæranda. Að virtum skýringum kæranda og vörsluaðila séreignarsparnaðarins, m.a. um að annmarkar hefðu verið á umsóknarsíðu, og þar sem ekki kom annað fram en að skilyrði sérstakrar útgreiðslu séreignarsparnaðar væru uppfyllt í tilviki kæranda, var krafa hans í málinu tekin til greina.

Ár 2022, föstudaginn 22. apríl, er tekið fyrir mál nr. 29/2022; kæra A, dags. 21. febrúar 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 21. febrúar 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 23. nóvember 2021, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021. Með úrskurðinum hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um að litið yrði á úttekt kæranda á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóðnum X á árinu 2020 að fjárhæð 102.470 kr. sem sérstaka útgreiðslu séreignarsparnaðar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. bráðabirgðaákvæði VIII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Í kærunni er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að í reit 140 í skattframtali kæranda árið 2021 var færð til tekna greiðsla frá X að fjárhæð 102.470 kr.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 21. júlí 2021, greindi kærandi frá því að honum hefði borist bréf frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem fram kæmi að lífeyrir sem kærandi hefði tekið út í október 2020 hefði verið ranglega skráður af hálfu bankans þannig að áhrif hefði á aðrar lífeyristekjur kæranda.

Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og ritaði kæranda bréf, dags. 26. október 2021, þar sem skorað var á kæranda að leggja fram afrit af umsókn til X um útgreiðslu séreignarsparnaðar á árinu 2020 og sýna þannig fram á að hann hefði í raun sótt um útgreiðslu sparnaðarins á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VIII í lögum nr. 129/1997. Benti ríkisskattstjóri á að á launamiða frá greiðanda, þ.e. X, væri greiðsla til kæranda tilgreind í launamiðareit 010 en ekki í launamiðareit 030 sem sérstök útgreiðsla séreignarsparnaðar. Gagnaskil greiðanda samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003 styddu því ekki kröfu kæranda.

Af framangreindu tilefni barst ríkisskattstjóra 3. nóvember 2021 tölvupóstur frá starfsmanni X þar sem fram kom að kærandi hefði sótt um útgreiðslu sparnaðar á röngu umsóknareyðublaði, þ.e. á eyðublaði vegna hefðbundinnar útgreiðslu á grundvelli örorku. Ekki væri því unnt að láta í té afrit af „Covid umsókn“ þar sem engin slík umsókn hefði verið gerð fyrir misskilning. Við skoðun málsins hefði komið í ljós að á umsóknarsíðu X hefði vantað hlekk yfir á „Mínar síður“ þar sem umsókn vegna Covid væri aðgengileg. Starfsmenn X hefðu því skilning á mistökum kæranda.

Með kæruúrskurði, dags. 23. nóvember 2021, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum benti ríkisskattstjóri á að með bráðabirgðaákvæði VIII í lögum nr. 129/1997 hefði rétthafa séreignarsparnaðar verið heimilað að taka út sparnaðinn á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. janúar 2022 að uppfylltum þargreindum skilyrðum. Kæmi fram í 8. mgr. þessa ákvæðis að útgreiðsla samkvæmt því skyldi ekki hafa áhrif á þar tilgreindar bætur og aðstoð. Til aðgreiningar á tegund útgreiðslu, þ.e. annars vegar samkvæmt almennri heimild í 11. gr. laga nr. 129/1997 og hins vegar samkvæmt hinni sérstöku heimild bráðabirgðaákvæðisins, hefði verið gerður greinarmunur á þessu tvennu í skattframtali, sbr. reiti 140 og 143, auk þess sem greiðendum sérstakrar útgreiðslu séreignarsparnaðar hefði borið að tilgreina slíkar greiðslur sérstaklega í lögboðinni launauppgjöf samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda sjálfs hefðu ekki verið lögð fram gögn til stuðnings því að hann hefði í raun sótt um sérstaka útgreiðslu þrátt fyrir áskorun ríkisskattstjóra í bréfi, dags. 26. október 2021. Ekki yrði fallist á að meint mistök við útfyllingu umsóknar skyldu leiða til þess að eðli og tilefni umsóknar breyttist eftir á. Að svo stöddu hefði kærandi ekki sýnt fram á að útgreiðsla séreignarsparnaðar hans hjá X á árinu 2020 hefði byggst á bráðabirgðaákvæði VIII í lögum nr. 129/1997. Væri kröfu kæranda um að greiðslan yrði færð úr reit 140 í reit 143 í skattframtali hans árið 2021 því hafnað.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er greint frá málavöxtum. Kemur fram að krafa kæranda sé byggð á því að niðurstaða ríkisskattstjóra sé efnislega röng. Er bent á að hin tímabundna heimild bráðabirgðaákvæðis VIII í lögum nr. 129/1997 hafi verið leidd í lög til þess að gera lífeyrisþegum kleift að taka út séreignarsparnað til þess að mæta efnahagslegu áfalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru án þess að úttektin hefði skerðingaráhrif á bætur almannatrygginga og félagsþjónustu. Er tekið fram að skilyrði bráðabirgðaákvæðisins séu að öllu leyti uppfyllt í tilviki kæranda. Hafa beri í huga að framtal umræddra tekna í reit 140 í skattframtali kæranda árið 2021 hafi byggst á upplýsingagjöf vörsluaðila sparnaðarins, þ.e. X, en ríkisskattstjóri virðist líta svo á að sú skráning hafi mesta þýðingu við ákvörðun á eðli útgreiðslu að þessu leyti. Kærandi hafi verið í góðri trú um að hann hefði sótt um hina sérstöku útgreiðslu séreignarsparnaðar og geti kærandi ekki borið ábyrgð á mistökum lífeyrissjóðsins við skráningu úttektarinnar.

Þá kemur fram að kærandi telji rannsókn málsins hafa verið ábótavant af hendi ríkisskattstjóra, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ríkisskattstjóri telji skipta mestu máli hvernig úttekt sé skráð í gagnagrunni vörsluaðila séreignarsparnaðar, en hafi þó ekki framkvæmt neina sjálfstæða rannsókn á því. Hvergi í umsóknarferli um úttektina hafi verið tilefni til að gera sérstaka grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli úttektin skyldi framkvæmd og kærandi því verið í góðri trú. Þá sé órökstutt í úrskurði ríkisskattstjóra af hvaða ástæðum sé litið svo á að útgreiðsla séreignarsparnaðar hafi verið byggð á 11. gr. laga nr. 129/1997 en ekki á bráðabirgðaákvæði laganna. Kærandi telji að þessir annmarkar á meðferð málsins eigi að leiða til ógildingar, enda sé um að ræða íþyngjandi ákvörðun stjórnvalds sem lúti að stjórnarskrárvörðum réttindum kæranda, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

IV.

Með bréfi, dags. 8. mars 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að kærunni verði vísað til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar þar sem kærandi hafi lagt fram ný gögn og rökstuðning í málinu, sbr. lagarök er búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

V.

Vegna sjónarmiða í umsögn ríkisskattstjóra í máli þessu skal tekið fram að hvorki verður séð að kæru til yfirskattanefndar fylgi gögn, sem ekki lágu fyrir ríkisskattstjóra við meðferð málsins, né að kæran hafi að geyma upplýsingar sem ekki komu fram á fyrri stigum þess. Þykja því engin efni til að senda ríkisskattstjóra kæruna til nýrrar meðferðar, svo sem krafist er í umsögninni, og er kröfu þar að lútandi því hrundið.

Í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með áorðnum breytingum, kemur fram að verði rétthafi öryrki og örorkutapið sem hann verður fyrir er 100% eigi hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum. Sé örorkuprósentan lægri en 100% lækki árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi. Í bráðabirgðaákvæði VIII í lögum nr. 129/1997, sbr. 9. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. laganna sé rétthafa séreignarsparnaðar heimilt á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. janúar 2022 að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem myndast hefur af viðbótariðgjaldi samkvæmt II. kafla, til vörsluaðila samkvæmt 3.-5. mgr. 8. gr. sömu laga og skal greiðslum háttað eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæðinu. Samkvæmt 8. mgr. bráðabirgðaákvæðisins hefur útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt því ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hefur útgreiðslan ekki áhrif á greiðslu húsnæðisbóta samkvæmt lögum um húsnæðisbætur, greiðslu barnabóta eða vaxtabóta samkvæmt 68. gr. laga um tekjuskatt, atvinnuleysisbóta samkvæmt 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006. Nánar er kveðið á um fyrirkomulag og eftirlit með útgreiðslu séreignarparnaðar á þessum grundvelli í reglugerð nr. 290/2009, eins og henni hefur verið breytt með reglugerð nr. 385/2020.

Af hálfu kæranda er komið fram í málinu að hann hafi ætlað að sækja um hina sérstöku útgreiðslu séreignarsparnaðar samkvæmt bráðabirgðaákvæði VIII í lögum nr. 129/1997 á vef banka í október 2020, en vegna mistaka hafi hann sótt um almenna útgreiðslu sparnaðarins. Sú mistök hafi haft í för með sér að greiðsla séreignarsparnaðarins hafi haft skerðingaráhrif á aðrar greiðslur til kæranda, sbr. hins vegar fyrrgreind ákvæði 8. mgr. bráðabirgðaákvæðis VIII að því er tekur til sérstakrar útgreiðslu slíks sparnaðar. Af hálfu vörsluaðila sparnaðarins er komið fram að annmarkar hafi verið á umsóknarsíðu að þessu leyti, sbr. tölvupóst forstöðumanns 5. nóvember 2021 sem er meðal gagna málsins. Þá hefur ekki annað komið fram í málinu en að skilyrði sérstakrar útgreiðslu séreignarsparnaðar samkvæmt bráðabirgðaákvæði VIII séu uppfyllt í tilviki kæranda. Að því athuguðu og að virtum fram komnum skýringum kæranda þykir mega taka kröfu hans til greina.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað hans af meðferð málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. febrúar 2022, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja