Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 534/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 38. gr. — 48. gr. — 91. gr. 1. mgr. — 93. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 100. gr. 5. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Framtalsfrestur — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal, höfnun — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, tortryggilegt — Vörunotkun — Vörubirgðir — Vörusala — Meðalálagning — Fyrning — Fyrning, almenn — Almenn fyrning — Fyrningartími — Rekstrarlok — Fyrning, óheimil á því ári þegar rekstri er hætt — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Ársreikningur — Fyrningarlok — Lok fyrningar

Skattframtal kæranda árið 1990 barst skattstjóra 4. apríl 1990. Í kæru, dags. 17. ágúst 1990, fór kærandi fram á, að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlaðra skattstofna. Skattstjóri hafði talið, að framtalið hefði borist að framtalsfresti liðnum og því áætlað skattstofna. Með kæruúrskurði, dags. 3. desember 1990, tók skattstjóri framtalið og kæruna til úrlausnar og hafnaði því að byggja álagningu á framtalinu. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi:

„Málavextir eru þeir að í kærubréfi, dags. 17. ágúst 1990, er þess getið að kærandi reki verslun til loka aprílmánaðar 1989. Ekkert kemur fram um lok rekstrar. Á efnahagsreikningi eru eignir og skuldir framtaldar eins og um rekstur hafi verið að ræða allt árið. Fyrningar eru reiknaðar af fastafjármunum. Á efnahagsreikningi er staða skulda miðuð við 30. júní, 1990, en staða vörubirgða á eignahlið efnahagsreiknings er miðuð við 1. júlí, 1989. Samkvæmt rekstrarreikningi er vörusala kr. 487.340 og vörunotkun kr. 667.045.80, þ.e. vörunotkun er kr. 277.173.80 hærri en vörusala, sem ekki fær staðist. Engar skýringar eru gefnar.“

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. desember 1990. Tekið er fram, að staða skulda miðist við 30. júní 1989 en ekki 1990, sem misritast hafi í ársreikningi „X“ og sé efnahagsreikningur miðaður við þá dagsetningu. Kærandi fellst á leiðréttingu fyrninga. Þá gefur kærandi þær skýringar á mismuni á vörusölu og vörunotkun, að einfaldlega hafi verið selt undir kostnaðarverði og sé það ástæðan til þess að rekstri var hætt.

Með bréfi, dags. 29. apríl 1991, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfur kæranda með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum.

Með hliðsjón af skýringum kæranda og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra þykir mega taka kröfu kæranda til greina. Með vísan til 48. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er gjaldfærð almenn fyrning 136.897,50 kr. niður felld.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja