Úrskurður yfirskattanefndar

  • Viðspyrnustyrkur

Úrskurður nr. 66/2022

Lög nr. 160/2020, 4. gr. 1. tölul.  

Í máli þessu vegna umsóknar kæranda, sem var einkahlutafélag, um viðspyrnustyrk taldi kærandi að við mat á tekjufalli bæri að miða við tekjur félagsins í mars 2020 þar sem rekstur þess hefði tekið breytingum síðla árs 2019 og tekjur þá aukist frá því sem var, en félagið hafði með höndum sölu á vörum til ferðamannaverslana. Í úrskurði yfirskattanefndar var kæranda ekki talinn hafa sýnt fram á að samanburður við tekjur í mars 2020 gæfi betri mynd af tekjufalli félagsins en samanburður við lengra tímabil. Kom fram að árstíðabundnar sveiflur í tekjuöflun fyrirtækja gætu ekki talist til sérstakra aðstæðna í skilningi laga. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2022, miðvikudaginn 11. maí, er tekið fyrir mál nr. 2/2022; kæra A ehf., dags. 4. janúar 2022, vegna ákvörðunar um viðspyrnustyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 4. janúar 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar tveimur ákvörðunum ríkisskattstjóra, dags. 3. og 30. nóvember 2021, þar sem hafnað var umsóknum kæranda um viðspyrnustyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 160/2020, um viðspyrnustyrki. Ákvarðanir ríkisskattstjóra voru teknar í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 31. ágúst og 8. nóvember 2021, og svarbréf kæranda, dags. 8. september og 21. nóvember 2021, en umsóknir félagsins lutu að viðspyrnustyrk vegna tímabilanna maí-júní 2021 annars vegar og júlí 2021 hins vegar. Byggðist höfnun ríkisskattstjóra á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020 um a.m.k. 40% tekjufall vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Í ákvörðunum sínum rakti ríkisskattstjóri fyrrgreind ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020 og benti á að samkvæmt þeim væri meginregla við mat á tekjufalli að bera tekjur rekstraraðila þann almanaksmánuð sem umsókn varðaði saman við tekjur í sama almanaksmánuði á árinu 2019. Einungis við sérstakar aðstæður mætti miða við annað tímabil og skyldi þá að jafnaði miða við tekjur í sama almanaksmánuði á árinu 2018. Í umsóknum kæranda væri hins vegar miðað við tekjur í mars 2020 með þeim rökum að rekstur kæranda í núverandi formi hefði ekki hafist fyrr en í október 2019. Af þessu tilefni tók ríkisskattstjóri fram að svo til öll starfsemi hefði sínar árstímabundnu sveiflur sem telja mætti eðlilegar og jafnvel einkennandi, t.d. í sjávarútvegi, bóksölu og veitingarekstri. Slíkar sveiflur yrðu ekki taldar til sérstakra aðstæðna í skilningi 1. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020, enda yrði að skýra þá heimild laganna frekar þröngt í ljósi lögskýringargagna sem bentu til þess að einkum bæri að líta til sérstakra ytri þátta eða ófyrirsjáanlegra truflana sem hefðu veruleg áhrif á rekstur. Benti ríkisskattstjóri á að kærandi hefði verið starfandi frá árinu 1999. Umsóknum kæranda um viðspyrnustyrk sem byggðu á viðmiðun við tekjur í mars 2020 væri því hafnað.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðunum ríkisskattstjóra verði hnekkt. Í kærunni er rakið að kærandi hafi verið til frá árinu 1999, en frá og með árinu 2003 hafi rekstur félagsins legið niðri allt til ársins 2016. Á því ári hafi hafist lítilsháttar starfsemi sem hafi einungis lotið að umboðssölu á hrávöru og hafi eigendur kæranda þá verið í fullu starfi hjá öðru fyrirtæki. Í október 2019 hafi breytingar orðið á högum eigendanna og þá verið tekin ákvörðun um að hefja rekstur þar sem nýtt væri sérþekking eigendanna og mikil tengsl þeirra og þekking á mörkuðum. Hafi heildartekjur félagsins á árinu 2019 verið um 6,3 milljónir króna og af þeim tekjum hafi 5,2 milljónir króna orðið til í nóvember og desember 2019. Kærandi hafi því náð um fimm mánuðum af einhvers konar eðlilegum rekstri áður en heimsfaraldur skall á. Telji kærandi því eðlilegt að miða við það tímabil innan þess tíma, en ekki mánuð á tímabili áður en reksturinn hófst. Þá sé ljóst að hefðu fyrirsvarsmenn kæranda stofnað nýtt félag um reksturinn í október 2019 í stað þess að nýta það félag sem fyrir var ætti kærandi rétt á viðspyrnustyrk samkvæmt 4. gr. laga nr. 160/2020.

Í niðurlagi kærunnar er vísað til þess að tekjur kæranda í maí 2019 hafi aðeins numið 165.690 kr. og engar tekjur fallið til í júní og júlí 2019. Telji kærandi því að um sérstakar aðstæður sé að ræða í tilviki félagsins þrátt fyrir að lög nr. 160/2020 taki ekki sérstaklega til slíkra aðstæðna, sbr. það markmið laganna að halda í viðskiptasambönd og halda uppi lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa heimsfaraldurs gæti.

II.

Með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinar kærðu ákvarðanir verði staðfestar með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Tekið er fram í umsögninni að um tvær ákvarðanir sé að ræða, en engar athugasemdir séu gerðar við sameiningu málanna þar sem þau séu alveg sambærileg.

Með bréfi, dags. 2. mars 2022, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Í bréfinu eru raktar athugasemdir í greinargerð við 4. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 160/2020. Þá er ítrekað að ekki sé sanngjarnt í tilviki kæranda að miða við sama tímabil á árinu 2019 þegar rekstur félagsins hafi nánast legið niðri.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 160/2020, um viðspyrnustyrki, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. október 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að stuðla að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 160/2020 er fjallað um greiðslu viðspyrnustyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fjórum töluliðum í lagagreininni.

Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020 er skilyrði fyrir greiðslu viðspyrnustyrks að tekjur rekstraraðila í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar hafi verið a.m.k. 40% lægri en í sama almanaksmánuði árið 2019 og tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir upphaf sama almanaksmánaðar árið 2019 skal miðað við meðaltekjur hans á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá því hann hóf starfsemi til loka október 2020. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-2. málsl. ákvæðisins. Að jafnaði skal þá miðað við tekjur í sama almanaksmánuði 2018.

Í athugasemdum við ákvæði 1. tölul. 4. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 160/2020, sbr. þskj. 390 á 151. löggjafarþingi 2020-2021, er vikið að síðastnefndu ákvæði 3. málsl. töluliðarins um að heimilt sé við sérstakar aðstæður að nota annað tímabil til viðmiðunar við ákvörðun viðspyrnustyrks en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-2. málsl. ákvæðisins. Er tekið fram að í sérstökum tilvikum kunni almennt viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-2. máls. 1. tölul. 4. gr. að gefa mjög skakka mynd af tekjufalli rekstraraðila. Það geti t.d. átt við hafi reksturinn legið niðri stóran hluta almenna viðmiðunartímabilsins vegna veikinda eða fæðingarorlofs rekstraraðila og tekjurnar því verið mun lægri en þær væru alla jafna. Við þær aðstæður megi, ef rekstraraðili óskar eftir því og sýnir fram á að almenna viðmiðunartímabilið gefi mjög skakka mynd af tekjum hans alla jafna, notast við annað viðmiðunartímabil. Að jafnaði skuli þá miðað við sama almanaksmánuð 2018. Sé sýnt fram á að sá mánuður gefi einnig mjög skakka mynd af tekjum megi notast við annað tímabil sem rekstraraðili tilgreinir. Tekið er fram að gera verði nokkuð strangar kröfur til þess að rekstraraðili miði við tímabil sem endurspeglar tekjur hans alla jafna en að hann velji ekki úr tímabil þegar tekjur voru óvenju miklar. Almennt megi ætla að meðaltal tekna yfir löng tímabil gefi betri mynd af tekjum heldur en tekjur á stuttum tímabilum.

Í bréfum kæranda til ríkisskattstjóra, sem bárust embættinu dagana 8. september og 21. nóvember 2021, gaf kærandi þá skýringu á viðmiðun við tekjur í mars 2020 samkvæmt umsóknum félagsins um viðspyrnustyrk að miklar breytingar hefðu orðið á rekstrinum í október 2019. Til þess tíma hefði starfsemi kæranda einungis verið fólgin í því að hafa milligöngu um sölu afurða til útlanda. Sú starfsemi hefði ekki verið umfangsmikil, enda hefði kærandi verið í ársskilum virðisaukaskatts og eigendur félagsins bæði verið í fullu starfi hjá öðrum aðila, M. Í október 2019 hefði annar eigandi kæranda látið af störfum hjá M og hafið rekstur innan vébanda kæranda, þ.e. innflutning og sölu vöru hér á landi og ráðgjöf er því tengdist. Sala umræddrar vöru væri að mestu leyti til ferðamannaverslana og salan að jafnaði mest frá apríl til júlí ár hvert. Kom fram að fyrstu tekjur af starfseminni hefðu fallið til í nóvember 2019 og reksturinn verið eðlilegur í um fimm mánuði, þ.e. þar til heimsfaraldur skall á í mars 2020. Í umsókn kæranda hafi því verið miðað við tekjur í mars 2020, þ.e. við upphaf sölutímabils í rekstri af þessum toga. Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að heildartekjur kæranda á árinu 2019 hafi numið um 6,3 milljónum króna og þar af hafi um 5,2 milljónir króna fallið til í nóvember og desember það ár.

Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum 1. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020 verður að telja meginreglu laganna að byggja mat á tekjufalli á samanburði við tekjur rekstraraðila milli mánaða, þ.e. tekjur í sama almanaksmánuði árið 2019 og umsókn rekstraraðila varðar, sbr. hér að framan. Jafnvel í þeim tilvikum þegar heimilt er að nota annað tímabil til viðmiðunar vegna sérstakra aðstæðna skal að jafnaði miðað við mánaðarlegar tekjur, þ.e. tekjur í sama almanaksmánuði árið 2018, sbr. ákvæði 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. laganna. Þegar um er að ræða starfsemi sem hleypt hefur verið af stokkunum eftir upphaf sama almanaksmánaðar á árinu 2019 og umsókn varðar skal hins vegar miðað við meðaltekjur rekstraraðila yfir lengra tímabil, sbr. 2. málsl. ákvæðisins. Kæmi til kasta þessa ákvæðis í tilviki kæranda bæri því að miða við meðaltekjur félagsins á tímabilinu 1. október 2019 til loka október 2020. Ekki verður talið að kærandi hafi með fyrrgreindum skýringum sýnt fram á að samanburður við tekjur félagsins í mars 2020 gefi betri mynd af tekjufalli félagsins en samanburður við lengra tímabil. Er viðmiðun við lengra tímabil almennt betur til þess fallin að gefa gleggri mynd af tekjufalli en viðmiðun við styttra tímabil, sbr. fyrrgreindar athugasemdir í lögskýringargögnum. Þá verður ekki talið að árstíðabundnar sveiflur í tekjuöflun fyrirtækja, slíkar sem lýst er í kæru til yfirskattanefndar, geti talist til sérstakra aðstæðna í skilningi 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020. Styðst sú niðurstaða við athugasemdir við hliðstætt ákvæði í 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki, sbr. nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á þskj. 259 á 151. löggjafarþingi 2020-2021, þar sem fram kemur að með heimild þeirra laga til að byggja mat á tekjufalli á samanburði við meðaltekjur rekstraraðila á sjö mánaða tímabili á árinu 2019 sé m.a. komið til móts við rekstraraðila þar sem starfsemi sé sveiflukennd eftir árstíðum. Má í þessu sambandi til hliðsjónar vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 182/2021, en eins og þar kemur fram verður almennt ekki talið að sú aðstaða, að tíma getur tekið að koma rekstri og tekjuöflun nýrra fyrirtækja á skrið, geti talist til sértakra aðstæðna í skilningi 4. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja