Úrskurður yfirskattanefndar

  • Almannaheillaskrá
  • Félagasamtök

Úrskurður nr. 68/2022

Lög nr. 90/2003, 4. gr. 4. tölul. og 9. tölul. (brl. nr. 32/2021, 1. gr., sbr. brl nr. 133/2021, 1. gr.)   Lög nr. 110/2021, 1. gr.  

Ríkisskattstjóri synjaði kæranda, sem var félagasamtök, um skráningu í almannaheillaskrá á þeim forsendum að ekki yrði séð að tilgangur og markmið félagsins félli undir starfsemi til almannaheilla. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að eins og búið væri um hnútana í samþykktum kæranda hvíldi engin skylda á stjórn félagsins og félagsfundi að úthluta tekjuafgangi af starfsemi þess til afmarkaðra verkefna er talist gætu miða að almannaheill. Þá væri ekkert komið fram um það í málinu hvernig starfsemi kæranda væri nánar háttað, en ákvæði samþykkta félagsins þar að lútandi þóttu allnokkuð þokukennd. Var kröfum kæranda um skráningu í almannaheillaskrá frá og með desember 2021 hafnað.

Ár 2022, miðvikudaginn 11. maí, er tekið fyrir mál nr. 24/2022; kæra A, dags. 2. febrúar 2022, vegna skráningar í almannaheillaskrá. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 2. febrúar 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra 5. janúar 2022 um höfnun á skráningu kæranda í almannaheillaskrá, sbr. ákvæði 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að samþykktir kæranda bæru ekki með sér að tilgangur og markmið félagsins félli undir þá starfsemi til almannaheilla sem tilgreind væri í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt samþykktunum væri tilgangur kæranda að vera félagsskapur frelsisþenkjandi einstaklinga í íslensku samfélagi, stuðla að bættri málvenju í íslensku samfélagi bæði í rituðu og töluðu máli og taka þátt í vernd íslenskrar tungu og menningararfleifð okkar í rituðu máli. Tilgangur félagsins væri því afar víðfeðmur og almennur. Samþykktir lögaðila þyrftu að bera með skýrum og afmörkuðum hætti tiltekna almannaheillastarfsemi samkvæmt 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig 16. og 17. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, og að ljóst væri hvernig félag hygðist ná markmiðum sínum. Þá yrði ekki séð hvernig eignum félagsins yrði ráðstafað við slit, en í samþykktum þess kæmi aðeins fram að við slit myndu eignir félagsins renna til góðgerðarmála sem ákveðin yrðu á slitafundi. Ekki væri nægilegt að orða með almennum hætti ráðstöfun til góðgerðarmála í samþykktum heldur þyrfti að koma skilmerkilega fram hvernig eignum yrði ráðstafað í samræmi við skýrt og afmarkað markmið félags og/eða með því að tilgreina aðila sem tækju við eignum og sinntu sambærilegri starfsemi. Með vísan til framanritaðs væri umsókn kæranda um skráningu í almannaheillaskrá hafnað að svo stöddu.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að umsókn kæranda um skráningu í almannaheillaskrá hafi verið byggð á mannúðar- og líknarstarfsemi félagsins og æskulýðs- og menningarmálastarfsemi þess. Við frágang á samþykktum kæranda hafi verið litið til 5. gr. laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, og talið að samþykktirnar uppfylltu þau skilyrði sem þar koma fram. Erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar frá ríkisskattstjóra um skilyrði fyrir skráningu á almannaheillaskrá og embættið hafi því ekki getað rækt skyldu sína til leiðbeiningar, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Langur tími hafi liðið frá því að umsókn var send og þar til ákvörðun um höfnun lá fyrir. Kæranda hafi því ekki gefist ráðrúm til að leiðrétta annmarka fyrir áramót. Sé því farið fram á að umsókn kæranda verði samþykkt og félagið skráð í almannaheillaskrá frá og með desember 2021. Er vísað til meðfylgjandi samþykkta fyrir kæranda sem samþykktar hafi verið á stofnfundi þann 17. nóvember 2021.

II.

Með bréfi, dags. 7. mars 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er tekið fram að við afgreiðslu umsókna um skráningu í almannaheillaskrá sé tekin afstaða til samþykkta lögaðila eins og þær liggi fyrir við umsókn, sbr. m.a. 3. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Standi hugur forsvarsmanna kæranda til þess að breyta samþykktum þá geti þeir gert það í samræmi við þær reglur sem um slíkt gildi í samþykktunum. Hægt sé að sækja um skráningu í almannaheillaskrá að nýju.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. mars 2022, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Ákvæði um skráningu lögaðila á svonefnda almannaheillaskrá voru tekin upp í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með I. kafla laga nr. 32/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla). Öðluðust ákvæði þessi gildi 1. nóvember 2021, sbr. 12. gr. laga nr. 32/2021. Samkvæmt 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, eins og ákvæðið hljóðar eftir breytingar með 1. gr. laga nr. 32/2021 og 1. gr. laga nr. 133/2021, eru þeir lögaðilar sem um ræðir í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 5. tölul. 4. gr. sömu laga, sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir a-g-lið 2. mgr. 4. tölul. og eru skráðir í sérstaka almannaheillaskrá hjá Skattinum undanþegnir tekjuskatti. Er tekið fram að ákvæði II.-VI. og VIII. kafla laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, gildi um lögaðila eftir því sem við á vegna skráningar og hæfis lögaðila í almannaheillaskrá Skattsins. Þá er það skilyrði fyrir skráningu og endurskráningu lögaðila í almannaheillaskrá að staðin hafi verið skil á skattframtali og ársreikningi til ríkisskattstjóra eftir því sem við á og að ekki sé um að ræða vanskil eða áætlanir skatta, skattsekta, gjalda og skýrsluskila, sbr. 3. málsl. 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 133/2021.

Samkvæmt framansögðu er skilyrði fyrir skráningu lögaðila í almannaheillaskrá að aðili eigi undir ákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. verji hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafi það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Í 2. mgr. 4. tölul. greinarinnar er skilgreint nánar hvaða starfsemi telst til almannaheilla, sbr. a-g-lið málsgreinarinnar þar sem m.a. er tiltekin mannúðar- og líknarstarfsemi, sbr. a-lið, og æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, sbr. b-lið. Svipað ákvæði var að finna í eldri lögum, sbr. 2. málsl. A-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það ákvæði tók þó samkvæmt orðan sinni einungis til hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila. Núgildandi ákvæði, sem upphaflega var lögtekið með 4. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, tekur hins vegar til allra þeirra lögaðila sem tilgreindir eru í 2. gr. laganna, uppfylli þeir þau skilyrði sem sett eru í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Skilyrði skattfrelsis samkvæmt ákvæðinu er m.a. að lögaðili hafi það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum að verja hagnaði til almannaheilla. Af dóma- og úrskurðaframkvæmd verður glögglega ráðið að það sé raunverulegt markmið með starfsemi lögaðila sem ræður úrslitum í þessum efnum þannig að liggi fyrir, að tilgangur með starfsemi sé í raun annar en skráður er í samþykktum, getur slík aðstaða girt fyrir skattfrelsi, sbr. til nokkurrar hliðsjónar H 1995:435.

Samkvæmt samþykktum fyrir kæranda frá nóvember 2021, sem fylgja kæru til yfirskattanefndar, er tilgangur félagsins að stuðla að bættri málvenju í íslensku samfélagi bæði í rituðu og töluðu máli, sbr. 3. gr. samþykktanna. Skal félagið stuðla að vernd íslenskrar tungu og menningararfleið okkar (sic) í rituðu máli sem og þátttöku í öðrum góðgerðarmálefnum bæði hérlendis og erlendis. Er tekið fram að félagið sé óhagnaðardrifið almannaheillafélag og frjáls félagasamtök. Í 4. gr. samþykktanna kemur fram að tilgangi sínum hyggist félagið ná með ýmsum skapandi hætti. Félagsmenn skuli hafa rétt málfar í hávegi og leggja sitt af mörkum til þess að efla veg íslenskunnar með ýmsu móti. Um fjáröflun er fjallað í 10. gr. samþykktanna og í 11. gr. þeirra kemur fram að rekstrarafgangi af starfsemi félagsins, skyldi sú staða koma upp, skuli vera varið til uppbyggingar félagsins eða með öðrum hætti varið til þess að bæta íslenskt samfélag í samræmi við tilgang félagsins. Ákvörðun um slit félags verði tekin á aðalfundi með auknum meirihluta (minnst 75% atkvæða) og skulu þá eignir þess renna til góðgerða/æskulýðsmála. Þess er að geta að fyrir breytingu á samþykktum félagsins á árinu 2021 kom einnig fram í samþykktunum að tilgangur kæranda væri að vera félagsskapur frelsisþenkjandi einstaklinga í íslensku samfélagi.

Í samþykktum kæranda er engum frekari ákvæðum til að dreifa um ráðstöfun hagnaðar og eigna við slit. Þá hefur ekkert komið fram um það í málinu hvernig starfsemi kæranda sé nánar háttað, en ákvæði samþykkta félagsins þar að lútandi þykja allnokkuð þokukennd. Liggur þannig ekkert fyrir um eiginlega starfsemi á vegum kæranda eða verkefni félagsins að öðru leyti umfram það sem álykta má af heiti þess. Taka verður undir með ríkisskattstjóra að gera verði ríkar kröfur til afmörkunar á tilgangi lögaðila og ráðstöfun hagnaðar af starfsemi hans til almannaheilla þannig að til skattfrelsis geti komið á grundvelli 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, svo sem dómaframkvæmd þykir bera órækan vott um, sbr. einkum H 1945:197 og H 1951:46, en dómar þessir vörðuðu báðir eldri skattfrelsisákvæði í þágildandi lögum um skemmtanaskatt og útsvar, sem þó gerðu ekki eins strangar kröfur til forms samþykkta og gerðar eru í ákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Eins og búið er um hnútana í samþykktum kæranda hvílir engin skylda á stjórn félagsins og félagsfundi að úthluta tekjuafgangi af starfsemi þess til afmarkaðra verkefna, er talist geta miðað að almannaheill, og kemur ekkert nánara fram um það í hverju ráðstöfun hagnaðar „til að bæta íslenskt samfélag í samræmi við tilgang félagsins“ eða „til góðgerða/æskulýðsmála“ eigi að felast. Verður naumast talið að samþykktir félagsins séu að þessu leyti í samræmi við 1. gr. laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, þar sem fram kemur að lögin gildi um félög sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að efla afmörkuð málefni til almannaheilla samkvæmt samþykktum sínum. Í athugasemdum með ákvæði þessu í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 110/2021, kemur m.a. fram að lögin taki til svonefndra hugsjónafélaga sem stofnuð séu til mannræktar eða styrktar á einhverju sviði og beinist að ákveðnum einstaklingum sem uppfylli ákveðin skilyrði eða málefni sem nánar sé skilgreint í samþykktum félagsins, þ.e. félaga sem stofnuð eru til þess að efla og styrkja skýrt afmörkuð málefni á þeim sviðum sem um ræðir (Þskj. 1030 á 151. löggjafarþingi 2020-2021).

Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður ekki séð að kærandi uppfylli skilyrði fyrir skráningu í almannaheillaskrá, sbr. 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Er kröfu kæranda því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja