Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 75/2022

Lög nr. 50/1988, 42. gr. 2. mgr., bráðabirgðaákvæði XXXIII 1. mgr.   Reglugerð nr. 690/2020, 1. gr., 5. gr.  

Beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu dómkvadds matsmanns var hafnað með úrskurði yfirskattanefndar, enda var ekki talið að um væri að ræða vinnu við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis í skilningi laga.

Ár 2022, miðvikudaginn 25. maí, er tekið fyrir mál nr. 45/2022; kæra A, dags. 4. mars 2022, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 4. mars 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 17. febrúar 2022, vegna beiðni kærenda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Með ákvörðun sinni synjaði ríkisskattstjóri beiðni kærenda frá 15. desember 2021 um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 196.080 kr. vegna vinnu dómkvadds matsmanns. Til stuðnings vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 690/2020 teldist ástandsskoðun fasteigna, matsgerðir og gerð útboðsgagna ekki til vinnu við viðhald, endurbætur eða nýbyggingu íbúðar- og tómstundahúsnæðis.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að framangreind fjárhæð virðisaukaskatts verði endurgreidd, sbr. reglugerð nr. 690/2020. Óvönduð vinnubrögð við ísetningu glugga á íbúðarhúsi kæranda fyrir nokkrum árum hafi orðið til þess að þurft hafi að endurnýja glugga á einni hlið hússins. Dómkvaddur matsmaður hafi verið fenginn til að skoða verkið. Matsmaðurinn hafi verið viðstaddur allan tímann þegar smiðir hafi fjarlægt ónýtu gluggana. Taka verði tillit til þessara aðstæðna.

II.

Með bréfi, dags. 26. apríl  2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Er m.a. rakið í umsögninni að í g-lið 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020 sé sérstaklega tiltekið að virðisaukaskattur fáist ekki endurgreiddur af ástandsskoðunum fasteigna, matsgerðum og gerð útboðsgagna.

III.

Mál þetta varðar beiðni kærenda, dags. 15. desember 2021, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis tímabilið nóvember-desember 2021, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, sbr. einnig ákvæði XXXIII til bráðabirgða í lögunum. Í nefndu bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 50/1988, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. einnig 6. gr. laga nr. 141/2020, kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils við endurbætur eða viðhald þess. Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu  virðisaukaskatts af vinnu manna. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur meðal annars fram að endurgreiða skuli á framangreindu tímabili 100% þess virðisaukaskatts sem eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald þess. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um virðisaukaskatt sem ekki telst endurgreiðsluhæfur og kemur fram í g-lið greinarinnar að virðisaukaskattur fáist ekki endurgreiddur af ástandsskoðun fasteigna, matsgerðum og gerð útboðsgagna.

Samkvæmt endurgreiðslubeiðni kæranda til ríkisskattstjóra, sem er meðal gagna málsins, sótti kærandi um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 196.080 kr. á grundvelli reiknings frá X ehf. að fjárhæð 1.037.560 kr. með virðisaukaskatti. Samkvæmt gögnum málsins var þjónusta nefnds einkahlutafélags fólgin í vinnu dómkvadds matsmanns sökum ætlaðs tjóns kæranda vegna annmarka á byggingaframkvæmdum við íbúðarhús kæranda. Eftir beinni orðskýringu getur vinna dómkvadds matsmanns ekki talist vinna við „endurbætur eða viðhald“ húsnæðis. Með fyrrnefndu ákvæði g-liðar 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020 er og sérstaklega girt fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kostnaðar við ástandsskoðun fasteigna og matsgerðir. Verður því að hafna kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem hér um ræðir.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja