Úrskurður yfirskattanefndar
- Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar
Úrskurður nr. 76/2022
Gjaldár 2021
Lög nr. 90/2003, 15. gr., 17. gr.
Kröfu kæranda um að farið yrði með hagnað vegna sölu iðnaðarhúsnæðis sem söluhagnað af íbúðarhúsnæði var hafnað, enda hefði engin grein verið gerð fyrir því af hálfu kæranda hvernig húsnæðið, sem var skráð sem atvinnuhúsnæði í fasteignaskrá, gæti talist fallið til íbúðarnota eða fastrar búsetu.
Ár 2022, miðvikudaginn 25. maí, er tekið fyrir mál nr. 11/2022; kæra A, dags. 13. janúar 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 13. janúar 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. október 2021, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra, sem kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 20. maí 2021, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og staðfest var með hinum kærða úrskurði, að færa kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali árið 2021 söluhagnað iðnaðarhúsnæðis að H að fjárhæð 7.605.060 kr., sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003. Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 20. maí 2021, kom fram að kærandi hefði gert grein fyrir sölu hússins og útreikningi söluhagnaðar í greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) með skattframtali árið 2021. Um væri að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 15. gr. sömu laga, sem skattlagðar væru í skattþrepi fjármagnstekjuskatts samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laganna. Vegna kröfu kæranda í kæru til ríkisskattstjóra, dags. 31. maí 2021, þess efnis að söluhagnaður H yrði færður til lækkunar kaupverði iðnaðarhúsnæðis að G, sem kærandi hefði keypt á árinu 2020, tók ríkisskattstjóri fram í hinum kærða úrskurði að þar sem ekki væri um að ræða fyrnanlegar eignir væri hagnaður af sölu þeirra skattskyldur samkvæmt 15. gr. laga nr. 90/2003. Í þeirri lagagrein væri ekki að finna sambærilega heimild og í 17. gr. sömu laga til að færa niður stofnverð íbúðarhúsnæðis á móti skattskyldum söluhagnaði. Kröfu kæranda þar að lútandi væri því hafnað.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Er rakið í kærunni að 28. mars 2008 hafi kærandi keypt húsnæði að H fyrir 5.000.000 kr., þ.e. 50% eignarhlut í eigninni. Hinn 1. júlí 2019 hafi kærandi keypt eftirstandandi 50% eignarhlut í eigninni fyrir 7.000.000 kr. Hinn 26. nóvember 2020 hafi kærandi selt fasteignina fyrir 20.000.000 kr. og á sama ári keypt G fyrir 26.000.000 kr. Eignirnar séu skráðar sem iðnaðarhúsnæði í opinberum skjölum, en kærandi hafi keypt þær sem geymslur. Aldrei hafi staðið til að reka atvinnustarfsemi í húsunum. Sé farið fram á að litið verði til þess og farið verði með söluna eins og um bílskúr hafi verið að ræða. Söluhagnaður verði þá afskrifaður í húsnæðinu að G.
Kærunni fylgja m.a. afrit kaupsamninga vegna fasteignanna að G og H.
II.
Með bréfi, dags. 15. febrúar 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður verðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. febrúar 2022, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Ágreiningsefni máls þessa lýtur að því hvernig fara skuli með söluhagnað vegna sölu kæranda á iðnaðarhúsnæði að H á árinu 2020. Ekki er deilt um fjárhæð söluhagnaðarins 7.605.060 kr., en í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og „að farið verði með sölu þessa sem um bílskúr sé að ræða“, eins og þar segir, og að söluhagnaðurinn verði færður til lækkunar kaupverði iðnaðarhúsnæðis að G sem kærandi keypti á árinu 2020. Verður að ætla að þessi krafa kæranda sé byggð á því að líta beri á sölu húsnæðisins að H sem sölu íbúðarhúsnæðis í skilningi 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og kaup húsnæðisins að G að sama skapi sem kaup íbúðarhúsnæðis, sbr. frestunar- og niðurfærsluheimild 2. mgr. þeirrar lagagreinar þar sem heimilað er að færa söluhagnað af íbúðarhúsnæði til lækkunar stofnverði sams konar húsnæðis að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Af þessu tilefni skal tekið fram að umrætt húsnæði er skráð sem atvinnuhúsnæði í fasteignaskrá. Þá hefur engin grein verið gerð fyrir því af hálfu kæranda að hvaða leyti húsnæðið geti talist fallið til íbúðarnota eða fastrar búsetu. Í kæru til yfirskattanefndar er einungis vísað til notkunar þess sem geymsluhúsnæðis í þessu sambandi, en ekkert kemur fram um íbúðarnot. Að framangreindu athuguðu verður ekki séð að greint húsnæði geti talist íbúðarhúsnæði í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003. Verður að fallast á með ríkisskattstjóra að um meðferð söluhagnaðar H fari eftir 15. gr. laga nr. 90/2003 sem tekur til söluhagnaðar ófyrnanlegra eigna. Að þessu athuguðu verður að hafna kröfu kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.