Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 536/1991
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 59. gr. 1. mgr.
Reiknað endurgjald — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar
Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 16. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kærendum, að hann hefði ákvarðað þeim reiknuð laun með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981. Var kæranda, A, ákvarðaðar 681.072 kr. og kæranda, B, 1.851.360 kr.
Umboðsmaður kærenda mótmælti ákvörðun skattstjóra í kæru, dags. 15. ágúst 1990, og segir þar m.a.:
„Ákvörðun yðar á reiknuðum launum umbjóðenda okkar sbr. ofannefnt bréf yðar á ekki við lög að styðjast. Í lokamálslið 1. málsgreinar 59. greinar laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt segir: „Ákvörðun skattstjóra samkvæmt þessari grein má aldrei mynda tap sem er meira en nemur samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. grein og gjaldfærslu samkvæmt 53. grein“. Þegar bréf yðar er skrifað lá skattframtal umbjóðenda okkar fyrir árið 1990 fyrir. Samkvæmt því mátti yður vera ljóst að tap ársins 1989 var hærra en sem nam samanlögðum almennum fyrningum og gjaldfærslu. Þar af leiðir að umbjóðendur okkar ber ekki að reikna sér neitt reiknað endurgjald. Þar af leiðir einnig að nauðsynlegar skýringar gat ekki vantað að yðar mati.
Þess er krafist að álagning opinberra gjalda 1990 á umbjóðendur okkar verði leiðrétt sem þessu nemur þegar í stað og skattframtal 1990 lagt til grundvallar álagningu án breytinga yðar á reiknuðu endurgjaldi.“
Með úrskurði, uppkveðnum 9. nóvember 1990, hafnaði skattstjóri kröfum kærenda með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981.
Umboðsmaður kærenda skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 15. nóvember 1990, og voru fyrri kröfur ítrekaðar og vísað til fyrri bréfa varðandi rökstuðning.
Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 20. febrúar 1991, lögð fram svohljóðandi kröfugerð í málinu:
„Í lokamálslið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981 segir: „Ákvörðun skattstjóra samkvæmt þessari grein má aldrei mynda tap sem er meira en nemur samanlögðum almennum fyrningum skv. 39. gr. og gjaldfærslu skv. 53. gr.“. Almennar fyrningar kærenda námu samtals kr. 2.103.455 og gjaldfærsla skv. 53. grein var engin. Samkvæmt þessu takmarkaðist ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi kærenda við þessa fjárhæð, kr. 2.103.455 og er því fallist á kröfu um lækkun reiknaðs endurgjalds niður í þessa fjárhæð.“
Með því að tap ársins var hærra en almennar fyrningar skv. 38. gr. var eigi heimild til að reikna kærendum endurgjald. Kröfur kærenda eru því teknar til greina.