Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattsekt
- Skattrannsókn
Úrskurður nr. 90/2022
Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.), 41. gr. 3. mgr. (brl. nr. 29/2021, 32. gr.) Lög nr. 45/1987, 30. gr. 2. mgr. (brl. nr. 42/1995, 2. gr.), 31. gr. 3. mgr. (brl. nr. 29/2021, 16. gr.) Lög nr. 19/1940, 74. gr.
Í máli þessu sætti kæru ákvörðun skattrannsóknarstjóra að gera kæranda, sem var skráður fyrirsvarsmaður X ehf., sekt að fjárhæð 32.000.000 kr. vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu og virðisaukaskatts félagsins árin 2019 og 2020. Þar sem ekki var talið að tilefni væri til að lækka sektarfjárhæð umfram það sem skattrannsóknarstjóri ákvarðaði var kröfu kæranda um lækkun hafnað.
Ár 2022, fimmtudaginn 30. júní, er tekið fyrir mál nr. 3/2022; kæra A, dags. 5. janúar 2022, vegna ákvörðunar um sekt vegna brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 5. janúar 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun skattrannsóknarstjóra, dags. 7. október 2021, um að gera kæranda sekt að fjárhæð 32.000.000 kr. fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2019 og 2020. Byggði ákvörðun skattrannsóknarstjóra á því að kærandi hefði sem fyrirsvarsmaður X ehf., nú afskráð, vanrækt skyldur sínar, sem mælt væri fyrir um í 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, til að að standa á tilskildum tíma skil á staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin júní, júlí, ágúst, september, nóvember og desember 2019 og mars, maí, júní, júlí, ágúst, september, október og nóvember 2020 að fjárhæð samtals 14.483.478 kr., og vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti X ehf. uppgjörstímabilin maí-júní, september-október og nóvember-desember 2019 og janúar-febrúar til og með september-október 2020 að fjárhæð samtals 23.915.130 kr., sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra að umrædd háttsemi varðaði kæranda sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Í ákvörðun skattrannsóknarstjóra var rakið að skattrannsóknarstjóri hefði tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 6. september 2021, um fyrirhugaða ákvörðun sektar að fjárhæð 40.050.000 kr. Bréfi þessu var svarað af hálfu kæranda með bréfi umboðsmanns hans, dags. 6. október 2021. Tók skattrannsóknarstjóri fram í ákvörðun sinni að ekki lægi annað fyrir en að vanhöld á skilum staðgreiðslu og virðisaukaskatts stöfuðu fyrst og fremst af erfiðleikum í rekstri X ehf. og væri ekkert komið fram um að kærandi hefði hagnast á brotinu. Þætti mega líta til þess að skilagreinar staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna allra greiðslu- og uppgjörstímabila málsins lægju fyrir og væru fjárhæðir í málinu byggðar á þeim. Þá hefði kærandi verið samvinnuþýður. Taldi skattrannsóknarstjóri að af þessum sökum væri embættinu heimilt með vísan til ákvæða 3. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, sbr. c-lið 16. gr. laga nr. 29/2021, og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, sbr. e-lið 32. gr. laga nr. 29/2021, að ákvarða kæranda lægri sekt en ákvæði um lágmark sektarrefsingar kvæðu á um. Taldi skattrannsóknarstjóri sekt kæranda því hæfilega ákveðna 32.000.000 kr.
Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi andmæli ekki þeim brotum sem honum séu gefin að sök. Hins vegar óski kærandi þess að sektarfjárhæð verði lækkuð. Telur kærandi þannig að ganga hefði átt lengra í að lækka sektarfjárhæð undir lögbundið lágmark en skattrannsóknarstjóri geri í ákvörðun sinni. Verði sektin ekki lækkuð muni hún leiða til gjaldþrots kæranda og setja líf og aðstæður fjölskyldu hans í uppnám. Kærandi hafi fyrir skömmu fest kaup á fasteign sem ætluð sé sem heimili fyrir fjölskyldu hans. Telji kærandi að líta eigi til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem með lægri sekt væri raunhæfara fyrir kæranda að forðast gjaldþrot og standa skil á sektinni að fullu.
II.
Með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, hefur skattrannsóknarstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða sektarákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattrannsóknarstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. apríl 2022, var kæranda sent ljósrit af umsögn skattrannsóknarstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Samkvæmt breytingu á greindum lögum með lögum nr. 134/2005 eiga fésektarákvæði þessi þó ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu eða virðisaukaskatti samkvæmt skilagrein staðgreiðslu eða virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið gerð skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, sem bætt var við lögin með c-lið 16. gr. og e-lið 32. gr. laga nr. 29/2021, er skattrannsóknarstjóra heimilt að ákvarða sekt lægri en lágmark sektar samkvæmt 30. gr. laga nr. 45/1987 og 40. gr. laga nr. 50/1988 ef málsatvik eða aðstæður skattaðila mæla sérstaklega með því, svo sem ef skattaðili hefur leiðrétt skattskil sín, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Við ákvörðun sektarfjárhæðar í máli kæranda þótti skattrannsóknarstjóra ástæða til að líta til þess að vanhöld á skilum staðgreiðslu og virðisaukaskatts stöfuðu fyrst og fremst af erfiðleikum í rekstri X ehf. og væri ekkert komið fram um að kærandi hefði hagnast á brotinu. Þá lægju fyrir skilagreinar staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna allra greiðslu- og uppgjörstímabila málsins og væru fjárhæðir í málinu byggðar á þeim. Ennfremur vísaði skattrannsóknarstjóri til þess að kærandi hefði verið samvinnuþýður. Á þessum grundvelli og með vísan til fyrrnefndra ákvæða 3. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 ákvarðaði skattrannsóknarstjóri kæranda sekt nokkuð undir lögbundnu lágmarki sektarrefsingar.
Af hálfu kæranda eru sem fyrr segir ekki gerðar athugasemdir við þá ákvörðun skattrannsóknarstjóra að gera kæranda sekt vegna brota á skattalögum en leitað eftir því að sektin verði lækkuð. Hefur kærandi í því sambandi einkum vísað til þess að ákvörðuð sekt sé há og að meiri líkur séu á að kærandi geti staðið undir greiðslu sektarinnar verði hún lækkuð. Þá vísar kærandi til meðalhófsreglna stjórnsýsluréttar. Vegna þessara viðbára kæranda skal tekið fram að mál þetta varðar vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti að verulegum fjárhæðum og vegna alllangs tímabils. Vegna athugasemda umboðsmanns kæranda í bréfi, dags. 6. október 2021, um greiðslur inn á skattskuldir X ehf., skal tekið fram að umræddar greiðslur varða að meginstofni til önnur greiðslu- og uppgjörstímabil en mál þetta tekur til. Þá hafa engar greiðslur verið inntar af hendi inn á skattskuldir X ehf. eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst. Þykir kærandi ekki hafa fært neitt fram sem meta megi honum til frekari málsbóta í skilningi 2. mgr. 30. gr. og 3. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 en þegar hefur verið tekið tillit til eða að atvikum sé þannig háttað að ákvæði 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við. Þykja viðbárur kæranda um bága fjárhagsstöðu til greiðslu sektarinnar ekki skipta máli í þessu sambandi.
Að þessu virtu verður ekki talið að tilefni sé til að lækka sektarfjárhæð umfram það sem skattrannsóknarstjóri ákvarðaði. Er kröfu kæranda í málinu því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.