Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Húsaleigutekjur
  • Álag á virðisaukaskatt
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 97/2022

Virðisaukaskattur 2015 og 2016

Lög nr. 50/1988, 2. gr. 2. mgr. og 3. mgr. 8. tölul., 27. gr. 1. og 6. mgr., 28. gr.   Lög nr. 30/1992, 2. gr.  

Kærandi hafði með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi við útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna á árunum 2015 og 2016 og var óumdeilt í málinu að henni hefði því borið að standa skil á virðisaukaskatti af seldri þjónustu. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags á virðisaukaskatt var hafnað með úrskurði yfirskattanefndar og tekið fram að lög væru skýr um virðisaukaskattsskyldu vegna slíkrar þjónustu sem um ræddi. Ekki var talið á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda varðandi dráttarvexti og var þeim hluta kærunnar af þeim sökum vísað frá.

Ár 2022, fimmtudaginn 7. júlí, er tekið fyrir mál nr. 51/2022; kæra A, dags. 16. mars 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2016 og 2017 og ákvörðunar virðisaukaskatts árin 2015 og 2016. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 16. mars 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 16. desember 2021, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2016 og 2017. Með úrskurði þessum ákvarðaði ríkisskattstjóri rekstrartekjur af skammtímaútleigu húsnæðis í skattframtölum kæranda umrædd ár 4.494.825 kr. fyrra árið og 4.141.871 kr. það síðara og ákvarðaði rekstrargjöld vegna starfseminnar 3.377.488 kr. fyrra árið og 4.483.654 kr. það síðara. Leiddu þessar breytingar til þess að hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtali kæranda árið 2016 urðu 1.117.377 kr. í stað 0 kr. áður, en yfirfæranlegt rekstrartap í skattframtali kæranda árið 2017 ákvarðaðist 378.225 kr. Þá færði ríkisskattstjóri kæranda með úrskurði þessum á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila (grunnskrá virðisaukaskatts) vegna tímabilsins frá og með 1. janúar 2015 til og með 31. desember 2016, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og ákvarðaði virðisaukaskatt kæranda árin 2015 og 2016, sbr. 1. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, að viðbættu 10% álagi samkvæmt 27. gr. sömu laga. Leit ríkisskattstjóri svo á að kærandi hefði haft með höndum virðisaukaskattsskylda gistiþjónustu umrædd ár og ákvarðaði skattskylda veltu kæranda í 11% skattþrepi með 3.879.256 kr. árið 2015 og 4.597.477 kr. árið 2016 og útskatt til samræmis. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri innskatt kæranda með 36.705 kr. árið 2015 og 4.419 kr. árið 2016. Nam ákvarðaður virðisaukaskattur kæranda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 347.726 kr. árið 2015 og 451.187 kr. árið 2016 og álag samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988 nam 34.722 kr. árið 2015 og 45.118 kr. árið 2016.

Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 3. september 2020, þar sem ríkisskattstjóri spurðist fyrir um framtaldar leigutekjur kæranda og innborganir á bankareikninga hennar frá Airbnb og fleiri aðilum á árunum 2015 og 2016, og bréf embættisins, dags. 25. janúar og 13. október 2021, sbr. og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 30. nóvember 2020, 1. mars og 10. nóvember 2021, en með hinu fyrstnefnda bréfi fór umboðsmaður kæranda fram á að gerðar yrðu tilteknar leiðréttingar á skattframtölum kæranda árin 2015 og 2016 vegna útleigu á árunum 2014 og 2015. Í kjölfar þessa boðaði ríkisskattstjóri kæranda með bréfi, dags. 19. nóvember 2021, endurákvörðun opinberra gjalda og virðisaukaskatts vegna áranna 2015 og 2016, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með bréfi, dags. 9. desember 2021, fór kærandi fram á að tekið yrði tillit til þess við fyrirhugaða endurákvörðun að kærandi hefði verið í góðri trú um að ekki væri þörf á að standa skil á virðisaukaskatti af leigugreiðslum, enda hefði hún í því efni stuðst við leiðbeiningar fagaðila, þ.e. bókara sem annast hefði um mál kæranda. Væri því farið fram á að álag á vangreiddan virðisaukaskatt yrði hið minnsta fellt niður. Í úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun kom fram, til stuðnings beitingu álags á virðisaukaskatt, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, að hvorki vankunnátta í skattskilum né góð trú skattaðila gæti breytt neinu um skattskyldu tekna. Þá væri almennt litið svo á að skattaðili bæri ábyrgð á eigin skattskilum burtséð frá því hvort skattaðili nyti aðstoðar sérfróðs aðila eða ekki. Ekki þætti því unnt að fella niður 10% álag á virðisaukaskatt, sbr. 3. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Var bent á að kærandi hefði tilgreint tekjur af útleigu húsnæðisins sem atvinnurekstrartekjur og henni hefði verið í lófa lagið að kynna sér þær reglur sem gilt hefðu um virðisaukaskattsskyldu vegna slíkrar starfsemi.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er gerð sú krafa „að vaxtaákvörðun verði endurskoðuð“, eins og þar segir. Í kærunni er tekið fram að kærandi hafi talið fram tekjur af starfsemi sinni á árunum 2015 og 2016 þrátt fyrir að hafa orðið á mistök. Þegar fyrirspurn hafi borist frá ríkisskattstjóra hafi kærandi leitað til bæði lögmanns og bókara sem hafi veitt aðstoð við svör og öflun gagna. Kæranda hafi verið bent á að þar sem vextir séu afar háir ætti kærandi að leita eftir endurskoðun þeirra. Þá sé til þess að líta að ríkisskattstjóri hafi tekið sér sex mánuði í að gera kæranda grein fyrir því að ekki væri fullnægjandi að láta í té excel-skjal með útreikningi bókara heldur hafi orðið að afhenda öll gögn á starfsstöð.

II.

Með bréfi, dags. 12. maí 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda þyki ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Um ákvörðun álags á virðisaukaskatt er vísað til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði. Þá er tekið fram að vextir séu lögbundnir, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 1. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en um dráttarvexti fari eftir lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá sé hafnað fullyrðingum um tafir af hendi ríkisskattstjóra, enda hafi aðeins liðið tveir mánuðir frá því kærandi hafi lagt fram leiðrétt skattframtal með bréfi, dags. 30. nóvember 2020, og þar til ríkisskattstjóri krafði kæranda um gögn um rekstrarkostnað og innskatt með bréfi, dags. 25. janúar 2021. Ekki verði séð að sá tími sé óeðlilegur auk þess sem kærandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni af þessum sökum.

Með bréfi, dags. 1. júlí 2022, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra og áréttað áður fram komin sjónarmið sín í málinu.

III.

Kæra í máli þessu varðar úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 16. desember 2021, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2016 og 2017 og virðisaukaskatts árin 2015 og 2016. Með úrskurðinum gerði ríkisskattstjóri tilgreindar leiðréttingar á skattskilum kæranda umrædd ár vegna útleigu íbúðarhúsnæðis að M til erlendra ferðamanna á árunum 2015 og 2016. Nánar tiltekið lækkaði ríkisskattstjóri framtaldar rekstrartekjur af útleigunni um 317.580 kr. fyrra árið og um 454.097 kr. það síðara auk þess sem ríkisskattstjóri lækkaði tilfærð rekstrargjöld vegna starfseminnar um 1.434.957 kr. fyrra árið og um 75.872 kr. það síðara. Leiddu þessar breytingar til þess að hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtali kæranda árið 2016 urðu 1.117.377 kr. í stað 0 kr. áður, en yfirfæranlegt rekstrartap í skattframtali kæranda árið 2017 ákvarðaðist 378.225 kr. Þá færði ríkisskattstjóri kæranda á grunnskrá virðisaukaskatts vegna útleigunnar, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og ákvarðaði henni virðisaukaskattsskylda veltu í 11% skattþrepi að fjárhæð 3.879.256 kr. rekstrarárið 2015 og að fjárhæð 4.597.477 kr. rekstrarárið 2016, auk álags á vangreiddan virðisaukaskatt samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Leiðréttingar ríkisskattstjóra á skattskilum kæranda voru að mestu leyti til samræmis við leiðréttingarbeiðni kæranda í bréfi umboðsmanns hennar til ríkisskattstjóra, dags. 30. nóvember 2020, þó þannig að ríkisskattstjóri hafnaði því að virðisaukaskattur af tilgreindum útgjöldum yrði færður til innskatts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Var þar um að ræða útgjöld vegna síma- og netþjónustu og kaupa á þurrkara og útgjöld sem féllu til á árinu 2014, svo sem nánar var rakið í úrskurðinum.

Samkvæmt því sem fram kemur í kæru kæranda til yfirskattanefndar eru umræddar breytingar ríkisskattstjóra á skattskilum kæranda ágreiningslausar í málinu, en þess krafist í kærunni „að vaxtaákvörðun verði endurskoðuð“, eins og þar segir. Verður að skilja kæruna svo að af hálfu kæranda sé gerð krafa um niðurfellingu álags sem ríkisskattstjóri bætti við hækkun virðisaukaskatts kæranda árin 2015 og 2016 á grundvelli 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Fram kemur í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 10. nóvember 2021, að kærandi hafi fylgt leiðbeiningum þess fagaðila sem annast hafi um færslu bókhalds og gerð skattframtala vegna útleigu íbúðarhúsnæðis.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Óumdeilt er í málinu að kærandi hafði með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi á árunum 2015 og 2016 og að henni hafi því borið að standa skil á virðisaukaskatti af seldri þjónustu, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Ljóst er því að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum 1. og 2. mgr. 27. gr. sömu laga. Til þess er að líta að lög eru skýr um virðisaukaskattsskyldu vegna slíkrar þjónustu sem um ræðir, sbr. ákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 þar sem fram kemur að útleiga hótel- og gistiherbergja sé skattskyld sem og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Verður ekki talið að neinar málsbætur hafi komið fram sem leitt geta til niðurfellingar álags samkvæmt heimild í 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Er kröfu kæranda um niðurfellingu álags því hafnað.

Að því er snertir mótmæli kæranda við dráttarvöxtum skal tekið fram að í 28. gr. laga nr. 50/1988 eru ákvæði um dráttarvexti vegna síðbúinnar greiðslu skattaðila á virðisaukaskatti. Ekki er sérstaklega kveðið á um málsmeðferð vegna þessara atriða í lögunum. Fjallað er um innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. vexti af vangreiddu og ofgreiddu skattfé, í lögum nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. áður 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Valdsvið yfirskattanefndar tekur ekki til meðferðar ágreiningsefna varðandi innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. m.a. 5. gr. laga nr. 150/2019, þar sem kveðið er á um kæruheimild til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna ákvarðana innheimtumanns ríkissjóðs samkvæmt lögunum. Kröfu um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta ber því í tilviki kæranda að beina til ríkisskattstjóra. Samkvæmt framansögðu er eigi á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda varðandi dráttarvexti og er þeim hluta kærunnar af þeim sökum vísað frá.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um niðurfellingu álags á virðisaukaskatt er hafnað. Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd að því er varðar dráttarvexti.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja