Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða

Úrskurður nr. 98/2022

Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXXIII, 4. mgr.   Reglugerð nr. 690/2020, 2. gr.  

Talið var afdráttarlaust skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða að hlutaðeigandi bifreið væri skráð sem fólksbifreið eða húsbifreið í ökutækjaskrá, hvað sem liði eiginlegri notkun bifreiðar. Var kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við bifreið, sem var skráð sem sendibifreið í ökutækjaskrá, því hafnað.

Ár 2022, fimmtudaginn 7. júlí, er tekið fyrir mál nr. 62/2022; kæra A, dags. 9. apríl 2022, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. apríl 2022, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt bréfi, dags. 8. sama mánaðar, að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 33.917 kr. samkvæmt endurgreiðslubeiðni sem mun hafa borist ríkisskattstjóra 31. desember 2021. Var beiðnin byggð á 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Samkvæmt ákvæðum þessum skal á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að um væri að ræða beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við bifreiðina T sem væri skráð sem sendibifreið í ökutækjaskrá. Þar sem endurgreiðsla virðisaukaskatts samkvæmt framangreindum ákvæðum tæki einungis til fólksbifreiða, þar með talið fólksbifreiða sem væru sérútbúnar fyrir hreyfihamlaða, og húsbifreiða, sbr. 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins og 2. gr. reglugerðar nr. 690/2020, væri umsókn kæranda vísað frá.

Í kæru kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Í kærunni kemur fram að þótt bifreiðin sé skráð sem sendibifreið í ökutækjaskrá sé um að ræða pallbíl í einkaeigu sem eingöngu sé nýttur sem fólksbifreið.

II.

Með bréfi, dags. 7. júní 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er vísað til skilgreiningar á fólksbifreið í 2. gr. reglugerðar nr. 690/2020 sem sett sé á grundvelli 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988 og tekið fram að það leiði af þeim ákvæðum að réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts nái einungis til bifreiða sem skráðar séu sem fólksbifreiðar (M1) í ökutækjaskrá, en ekki til annarra bifreiða, svo sem sendibifreiða. Þegar af þeirri ástæðu verði ekki fallist á með kæranda að réttur til endurgreiðslu vegna bifreiðarinnar T sé til staðar. Sá annmarki sé þó á hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra að þar sé beiðni kæranda vísað frá, en þar sem efnisleg afstaða hafi verið tekin til beiðninnar hafi borið að hafna henni. Ekki verði þó talið að þetta hafi valdið kæranda réttarspjöllum. Með vísan til framangreinds sé það mat ríkisskattstjóra að staðfesta beri ákvörðun hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. júní 2022, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, og 6. gr. laga nr. 141/2020, kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 skuli endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts. Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að Skattinum barst erindið. Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Í 2. gr. reglugerðarinnar er hugtakið fólksbifreið skilgreint sem bifreið sem aðallega er ætluð til fólksflutninga og gerð er fyrir 8 farþega eða færri, sbr. lið 01.11 í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, og er skráð sem fólksbifreið (M1) í ökutækjaskrá. Er tekið fram að hér undir falli m.a. fólksbifreið sem sé sérútbúin fyrir hreyfihamlaða og húsbifreið, sbr. liði 01.101 og 01.209 í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004.

Beiðni kæranda í máli þessu um endurgreiðslu virðisaukaskatts tók til sölureiknings frá X ehf., dags. 15. apríl 2021, að fjárhæð 246.103 kr. með virðisaukaskatti. Er komið fram í málinu að um sé að ræða vinnu við bifreiðina T af gerðinni Toyota Hilux. Eftir því sem fram er komið er bifreiðin skráð sem sendibifreið í ökutækjaskrá, sbr. lið 01.13 í reglugerð nr. 822/2004. Telja verður afdráttarlaust skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 50/1988 og reglugerðar nr. 690/2020 að hlutaðeigandi bifreið sé skráð sem fólksbifreið eða húsbifreið í ökutækjaskrá, sbr. 2. gr. nefndrar reglugerðar, hvað sem líður eiginlegri notkun bifreiðar. Að því athuguðu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja