Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 110/2022

Lög nr. 50/1988, 42. gr. 2. mgr., bráðabirgðaákvæði XXXIII, 1. mgr.   Reglugerð nr. 690/2020, 1. gr., 2. gr.  

Fallist var á með kæranda að virðisaukaskattur vegna vinnu við breytingu á fasteign í íbúðarhúsnæði gæti verið endurgreiðsluhæfur eftir reglum virðisaukaskattslaga, enda væri sýnt fram á að hið breytta húsnæði væri ætlað til notkunar sem íbúðarhúsnæði og væri skráð sem slíkt í fasteignaskrá. Þar sem ekki varð séð að byggingarleyfi vegna framkvæmda sem málið laut að hefði verið gefið út og að viðkomandi húsnæði yrði skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá að þeim loknum voru lagaskilyrði ekki talin vera til staðar fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við fasteignina. Var kæru kæranda vísað frá yfirskattanefnd að svo stöddu.

Ár 2022, miðvikudaginn 7. september, er tekið fyrir mál nr. 68/2022; kæra A, dags. 12. apríl 2022, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 27. apríl 2022, hefur ríkisskattstjóri framsent yfirskattanefnd kæru kæranda, dags. 12. sama mánaðar, vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra 20. janúar 2022 um að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Kom fram í ákvörðun ríkisskattstjóra að beiðni kæranda varðaði framkvæmdir við fasteign að R sem væri skráð sem atvinnuhúsnæði í fasteignaskrá. Yrði því að hafna beiðni kæranda þar sem endurgreiðsluréttur samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, og 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII, sbr. reglugerð nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna, væri á hendi skráðs eiganda íbúðarhúsnæðis eða frístundahúsnæðis eða húsbyggjanda slíks húsnæðis.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að í ákvörðun ríkisskattstjóra sé réttilega bent á að fasteignin að R sé skráð sem atvinnuhúsnæði. Eignin sé hins vegar í ferli um að vera skráð sem íbúðarhúsnæði og sé umsókn þar um formlega til meðferðar hjá byggingarfulltrúa. Af þessum sökum telji kærandi að vinna við eignina geti fallið undir að teljast til vinnu við framkvæmdir á nýju íbúðarhúsnæði eða byggingu slíks húsnæðis þar sem sannanlega sé verið að skapa nýja íbúð. Sömuleiðis megi líta svo á að um endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis sé að ræða þar sem nauðsynlegt hafi verið að ráðast í framkvæmdirnar svo unnt verði að skrá eignina sem íbúðarhúsnæði. Ferlið hafi verið bæði kostnaðarsamt og tímafrekt, en endurgreiðsla virðisaukaskatts hafi verið ein af frumforsendum þess að kærandi ákvað að ráðast í framkvæmdirnar. Kærunni fylgja gögn, þ.e. sölureikningur verktaka, dags. 14. nóvember 2021, að fjárhæð 2.045.412 kr. með virðisaukaskatti ásamt kvittun fyrir greiðslu og teikningar af íbúð að R.

II.

Með bréfi, dags. 7. júní 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Er m.a. rakið í umsögninni að í 2. gr. reglugerðar nr. 690/2020 sé að finna skilgreiningu á hugtakinu íbúðarhúsnæði í skilningi reglugerðarinnar, sbr. 2. mgr. 42. gr. og bráðabirgðaákvæði XXXIII í lögum nr. 50/1988, og samkvæmt skýru orðalagi þess ákvæðis verði virðisaukaskattur ekki endurgreiddur vegna vinnu manna við íbúðarhúsnæði nema það sé skráð sem slíkt í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt skráningu í fasteignaskrá sé eignarhluti kæranda í fasteigninni að R skráður sem „samkomustaður“ og verði því ekki séð að skilyrði endurgreiðslu séu til staðar.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. júní 2022, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Mál þetta varðar beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis á árinu 2021, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, sbr. einnig ákvæði XXXIII til bráðabirgða í lögunum. Í nefndu bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 50/1988, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. einnig 6. gr. laga nr. 141/2020, kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 skuli endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils á byggingarstað. Jafnframt skuli á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils við endurbætur eða viðhald þess. Er tekið fram að ákvæði 2. mgr. 42. gr. laganna skuli að öðru leyti gilda á umræddu tímabili. Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu  virðisaukaskatts af vinnu manna. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur meðal annars fram að endurgreiða skuli á framangreindu tímabili 100% þess virðisaukaskatts sem byggjendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað og eigendur slíks húsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald þess.

Skilgreiningu á hugtakinu íbúðarhúsnæði er ekki að finna í lögum nr. 50/1988. Þá er hugtakið ekki skilgreint í reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, sem sett hefur verið á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988. Í skattframkvæmd hefur verið miðað við að til íbúðarhúsnæðis teljist húsnæði sem fallið sé til samfelldra íbúðarnota eða fastrar búsetu allan ársins hring, sé skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, áður Þjóðskrár Íslands, og geti gengið kaupum og sölum sem slíkt. Hefur í þessu sambandi því einkum verið litið til hlutrænna atriða á borð við skráðrar notkunar hlutaðeigandi húsnæðis og skipulags þess svæðis þar sem húsnæðið stendur. Má um þetta vísa til ákvarðandi bréfs ríkisskattstjóra nr. 1009/2002, sbr. og nú skilgreiningu í 2. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 690/2020. Til samræmis við þetta hefur verið byggt á því í skattframkvæmd að virðisaukaskattur af vinnu við niðurrif á mannvirkjum, að hluta eða öllu leyti, sé endurgreiðsluhæfur ef niðurrifið stendur í beinum, órjúfanlegum tengslum við nýbyggingu, endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði, þ.e. slík vinna sé óhjákvæmilegur undanfari þeirrar vinnu sem er grundvöllur endurgreiðslu virðisaukaskatts, sbr. sjónarmið í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 1027/2003.

Samkvæmt gögnum málsins laut endurgreiðslubeiðni kæranda til ríkisskattstjóra að endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við framkvæmdir að R. Óumdeilt er að umrætt húsnæði hefur ekki verið skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá heldur sem atvinnuhúsnæði. Í kæru til yfirskattanefndar kemur hins vegar fram að um sé að ræða vinnu við breytingu á umræddu húsnæði í íbúðarhúsnæði og að umsókn þar að lútandi sé til formlegrar meðferðar hjá byggingarfulltrúa. Telji kærandi því að líta megi svo á að um sé að ræða framkvæmdir við byggingu íbúðarhúsnæðis ellegar vinnu við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis, enda sé „sannarlega verið að skapa nýja íbúð“, eins og segir í kæru. Kærunni fylgja teikningar af íbúðinni þar sem fram kemur í lýsingu að sótt sé um að breyta R úr átthagasal í íbúð. Er tekið fram að baðherbergi og þvottahúsi sé komið fyrir þar sem áður voru kynjaskipt salerni. Að öðru leyti sé engu breytt nema björgunaropi verði komið fyrir á austurhlið hússins út á þak bakhúss. Þá kemur fram að teikningar og skráningartafla séu unnar með hliðsjón af breytingu og gerð íbúðar ásamt svölum á austurhlið annarrar hæðar að R sem samþykkt hafi verið af byggingarfulltrúa á árinu 2006.

Fallast má á það með kæranda að virðisaukaskattur vegna vinnu við breytingu á fasteign í íbúðarhúsnæði geti verið endurgreiðsluhæfur eftir ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, enda sé sýnt fram á að hið breytta húsnæði sé ætlað til notkunar sem íbúðarhúsnæði í framangreindum skilningi og sé skráð sem slíkt í fasteignaskrá. Í gögnum málsins kemur fram að umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna framkvæmda við R sé til meðferðar hjá byggingaryfirvöldum sveitarfélagsins. Verður því ekki séð að byggingarleyfi vegna þessara framkvæmda hafi verið gefið út og að húsnæðið muni verða skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá að þeim loknum. Að svo komnu verður ekki talið að lagaskilyrði séu til staðar fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við framkvæmdir við fasteignina eftir ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. ákvæði XXXIII til bráðabirgða í lögunum og fyrrnefnd reglugerðarákvæði. Rétt þykir að vísa kæru kæranda frá yfirskattanefnd að svo stöddu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja