Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Bílaleigubifreið
  • Álag á aðflutningsgjöld

Úrskurður nr. 113/2022

Lög nr. 29/1993, 6. gr., bráðabirgðaákvæði XIX (brl. nr. 140/2020, 15. gr.).  

Í máli þessu var ágreiningslaust að kæranda, sem var ökutækjaleiga, bæri að endurgreiða mismun vörugjalds vegna innflutnings bifreiða á árinu 2021 þar sem kærandi hafði ekki staðið við skuldbindingu um innkaup vistvænna bifreiða á því ári. Hins vegar mótmælti kærandi ákvörðun 10% álags á mismuninn með vísan til þess að kæranda hefðu verið veittar rangar upplýsingar af hálfu tollyfirvalda um skilyrði fyrir lækkunarheimild vörugjalds. Þar sem talið var að engin heimild væri í lögum til að lækka álagið eða fella það niður var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2022, miðvikudaginn 7. september, er tekið fyrir mál nr. 75/2022; kæra A ehf., dags. 17. maí 2022, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 17. maí 2022, varðar kæruúrskurð tollgæslustjóra, dags. 3. maí 2022, vegna ákvörðunar hans frá 25. janúar 2022 um að gera kæranda, sem er ökutækjaleiga, að greiða mismun vörugjalds að viðbættu 10% álagi á grundvelli laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sbr. bráðabirgðaákvæði XIX í lögum þessum. Var ákvörðun tollgæslustjóra, sem tekin var í framhaldi af bréfaskiptum og tölvupóstum, sbr. m.a. bréf tollgæslustjóra til kæranda, dags. 29. nóvember 2021, byggð á því að af hálfu kæranda hefði ekki verið staðið við skuldbindingu sem félagið hefði gengist undir um kaup rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða á árinu 2021, sbr. ákvæði 3. tölul. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XIX í lögum nr. 29/1993. Af því leiddi að kæranda bæri að endurgreiða mismun samkvæmt ákvæði þessu af öllum ökutækjum sem tekið hefðu lækkun af þessum sökum á innkaupsári að viðbættu 10% álagi, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Vísaði tollgæslustjóri til þess að af heildarinnkaupum kæranda á ökutækjum á árinu 2021 hefðu aðeins 20 ökutæki verið vistvæn og hlutfall vistvænna innkaupa þannig verið undir lögbundnu 15% lágmarki samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Þá kom fram að mismunur vegna lækkunar vörugjalds, sem kæranda bæri að standa skil á vegna þessa, næmi 45.797.841 kr. vegna ökutækja sem notið hefðu lækkunar.

Vegna kröfu kæranda í kæru til tollgæslustjóra, dags. 31. mars 2022, sem laut að því að 10% álag á fyrrgreindan mismun yrði fellt niður á þeim grundvelli að kæranda hefðu verið veittar rangar upplýsingar um forsendur umræddrar ívilnunar í tölvupóstsamskiptum við starfsmann tollgæslustjóra í nóvember 2021, tók tollgæslustjóri fram í úrskurðinum að lög væru skýr þess efnis að skilyrði fyrir lækkun vörugjalds væri að innkaup vistvænna ökutækja á árinu 2021 næmu a.m.k. 15% af heildarinnkaupum ökutækja á sama ári, sbr. 3. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993. Óvarlegt orðalag í tölvupósti starfsmanns til kæranda um að einungis bæri að miða við hlutfall vistvænna ökutækja af þeim ökutækjum sem notið hefðu lækkunar gæti ekki haft í för með sér að kærandi öðlaðist þar með ríkari rétt en leiddi af lögum. Þá væru skilyrði undanþágunnar skýrlega tilgreind í umsókn um lækkun sem kærandi hefði undirritað 3. maí 2021 sem og í bréfi tollyfirvalda til kæranda og annarra ökutækjaleiga, dags. 29. nóvember 2021. Rangri upplýsingagjöf í tölvupósti yrði ekki gert hærra undir höfði í þessu sambandi. Þá yrði ekki séð af orðalagi 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX að beiting 10% álags væri valkvæð; þvert á móti yrði ekki annað séð en að skylt væri að beita álagi í þeim tilvikum þegar ökutækjaleiga hefði ekki staðið við skuldbindingu um innkaup vistvænna ökutækja. Liti tollgæslustjóri því svo á að embættinu væri skylt á grundvelli laga að beita álagi eins og kveðið væri á um í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að álag vegna endurkröfu á grundvelli 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993 verði fellt niður. Er greint frá atvikum málsins og tekið fram að í kjölfar bréfs tollgæslustjóra til kæranda, dags. 29. nóvember 2021, hafi átt sér stað tölvupóstsamskipti þar sem starfsmaður kæranda hafi farið fram á upplýsingar og leiðbeiningar og starfsmaður tollgæslustjóra þá upplýst kæranda um það í tölvupósti 29. nóvember að 15% hlutfall innkaupa væri reiknað af fjölda bifreiða sem hefðu fengið lækkun vörugjalds á árinu 2021. Í framhaldi af þessum leiðbeiningum hafi starfsmaður kæranda fyllt út og staðið skil á skýrslu um bifreiðakaup. Vegna þessara röngu upplýsinga tollgæslustjóra hafi kæranda verið ókleift að gæta réttar síns í málinu og forðast beitingu 10% álags með því annað hvort að endurgreiða niðurfellinguna fyrir árslok ellegar kaupa fleiri bifreiðar til þess að geta uppfyllt skilyrði laga. Þar sem rangar leiðbeiningar tollyfirvalda hafi verið veittar eftir að kærandi fyllti út umsókn um lækkun og eftir að hafa fengið bréf tollgæslustjóra, dags. 29. nóvember 2021, geti ekki skipt máli hvað þar hafi komið fram. Kærandi hafi lagt traust sitt á leiðbeiningar tollyfirvalda og ekki haft neinar forsendur til að draga þær í efa. Þá sé því mótmælt að um óformlegar leiðbeiningar hafi verið að ræða. Miðað við orðalag í úrskurði tollgæslustjóra sé viðurkennt af hálfu hans að kæranda hafi ranglega verið leiðbeint um réttarstöðuna, en litið svo á að ekki sé lagaheimild til niðurfellingar álags þrátt fyrir það. Verði sá skilningur tollyfirvalda staðfestur þurfi því kærandi að sækja endurgreiðslu álags í formi skaðabóta vegna brota á leiðbeiningarskyldu stjórnvalds. Að framangreindu virtu beri að ógilda ákvörðun tollgæslustjóra og fella niður og endurgreiða kæranda 10% álag.

II.

Með bréfi, dags. 4. júlí 2022, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í umsögn tollgæslustjóra er tekið fram að það sé óumdeilt að kærandi hafi fengið rangar upplýsingar í tölvupósti þar sem fyrir mistök og þvert á öll fyrri formleg samskipti hafi verið fullyrt að útreikningur miðaðist við 15% af heildarfjölda bifreiða sem fengist hefði niðurfelling fyrir á árinu 2021. Rétt sé hins vegar að miða skuli við 15% af heildarinnkaupum ökutækja á sama ári, eins og skýrlega komi fram í 3. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993. Eru sjónarmið í úrskurði tollgæslustjóra varðandi þýðingu hinna röngu upplýsinga áréttuð og bent á að undirrituð umsókn kæranda um lækkun og bréf tollyfirvalda, dags. 29. nóvember 2021, þar sem öll skilyrði undanþágu frá vörugjaldi séu rækilega tíunduð, hljóti að teljast formlegri samskipti en tölvupóstur. Tollyfirvöld telji sér skylt að beita álagi þegar ekki sé staðið við skuldbindingu um tilskilin innkaup vistvænna ökutækja og verði ekki séð að álagsbeiting sé valkvæð við þær aðstæður.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. júlí 2022, var kæranda send umsögn tollgæslustjóra og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um efni hennar og að leggja fram frekari gögn í málinu, ef kærandi teldi ástæðu til. Var kæranda veittur 20 daga frestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með áorðnum breytingum, skal greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum, svo sem nánar greinir í lögunum. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1993 nær gjaldskyldan til allra vara, sbr. 1. gr., nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar, unnið er að eða settar eru saman hér á landi. Í 1. tölul. 1. mgr. 18. gr. laganna segir að gjaldskyldir samkvæmt lögum þessum séu allir þeir sem flytji til landsins vörur sem séu gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum hvort sem er til endursölu eða eigin nota. Um gjaldflokka ökutækja er fjallað í 3. gr. laganna. Í lagagrein þessari er mælt fyrir um álagningu vörugjalds á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. og 5. gr. laganna, miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis. Samkvæmt 6. gr. laganna skal innflytjandi ökutækis afhenda tollyfirvöldum með aðflutningsskýrslu staðfestingu um forskráningu ökutækis þar sem m.a. skal gerð grein fyrir skráðri koltvísýringslosun þess.

Með lögum nr. 140/2020, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, var nýju ákvæði til bráðabirgða, sem varð ákvæði til bráðabirgða XIX, bætt við lög nr. 29/1993, sbr. 15. gr. laga nr. 140/2020. Í ákvæði þessu kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 29/1993 skuli á árunum 2021 og 2022 lækka skráða losun koltvísýrings ökutækja sem undir ákvæðið falla um 30% áður en til álagningar vörugjalds kemur vegna ökutækja sem ætluð eru til útleigu hjá ökutækjaleigum. Lækkunin geti þó aldrei numið hærri fjárhæð en 400.000 kr. á hvert ökutæki og sé háð nánar tilgreindum skilyrðum, þar með talið að ökutækjaleiga gangist undir skuldbindingu þess efnis að hún muni kaupa inn ökutæki sem falli undir gildissvið 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIX í lögum um virðisaukaskatt (rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar) á árunum 2021 og 2022 sem nemi tilgreindum hluta heildarinnkaupa ökutækja hvort ár eða 15% fyrra árið og 25% það síðara, sbr. a- og b-lið 3. tölul. málsgreinarinnar. Í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX kemur fram að eigi síðar en 15. janúar næsta almanaksár samkvæmt a- og b-lið 3. tölul. 1. mgr. skuli ökutækjaleiga afhenda tollyfirvöldum skýrslu á því formi sem þau ákveða þar sem gerð er grein fyrir því hvernig hafi verið staðið við skuldbindingu samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. Hafi ökutækjaleiga ekki staðið við skuldbindinguna skuli hún greiða mismun samkvæmt 1. mgr. af öllum ökutækjum sem hafa tekið lækkun samkvæmt 1. mgr. á innkaupsári í ríkissjóð að viðbættu 10% álagi eigi síðar en fyrsta virka dag febrúarmánaðar næsta almanaksár eftir innkaupsár. Í ákvæðinu eru síðan nánari ákvæði um fullnustu þeirrar kröfu. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 140/2020 öðluðust lögin gildi 1. janúar 2021 og kom bráðabirgðaákvæði XIX, sbr. 15. gr. laga nr. 140/2020, til framkvæmda 1. febrúar 2021, sbr. 8. mgr. þess.

Eins og fram er komið er kæruefnið í máli þessu sú ákvörðun tollgæslustjóra, sem kæranda var tilkynnt með bréfi embættisins, dags. 25. janúar 2022, og staðfest var með hinum kærða úrskurði, dags. 3. maí 2022, að ákvarða kæranda 10% álag á mismun samkvæmt 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993 vegna lækkunar á skráðri losun koltvísýrings tilgreindra ökutækja við álagningu vörugjalds eftir lögunum, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Ágreiningslaust er að kæranda, sem rekur ökutækjaleigu, sbr. lög nr. 65/2015, um leigu skráningarskyldra ökutækja, beri að greiða umræddan mismun í ríkissjóð þar sem ekki hafi verið staðið við skuldbindingu samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX, sem kærandi gekkst undir á árinu 2021, um að innkaup kæranda á vistvænum ökutækjum á því ári næmu a.m.k. 15% af heildarinnkaupum félagsins á ökutækjum á árinu. Þá er ekki neinn tölulegur ágreiningur um ákvörðun tollgæslustjóra að öðru leyti, en eins og fram er komið nam fjárhæð mismunarins 45.797.841 kr. samkvæmt því sem fram kom af hálfu tollgæslustjóra. Af hálfu kæranda er hins vegar krafist niðurfellingar 10% álags, sem tollgæslustjóri bætti við greindan mismun, á þeim forsendum að kæranda hafi verið veittar rangar leiðbeiningar af hálfu tollgæslustjóra í tölvupósti starfsmanns embættisins 29. nóvember 2021 þess efnis að 15% hlutfall innkaupa samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIX reiknaðist af fjölda ökutækja kæranda sem notið hefðu lækkunar á vörugjaldi á fyrrnefndum grundvelli á árinu 2021, en rétt sé að greint hlutfall beri að reikna af heildarinnkaupum ökutækja á því ári. Kemur fram í kæru kæranda til yfirskattanefndar að kærandi hafi ekki haft forsendur til annars en að treysta upplýsingum starfsmanns tollgæslustjóra og að ef réttar upplýsingar hefðu verið látnar í té hefði félagið haft svigrúm til að bregðast við á árinu 2021 með því annað hvort að endurgreiða mismun sem um ræðir ellegar með kaupum á vistvænum ökutækjum þannig að lágmarkshlutfalli yrði náð. Ekki er deilt um það í málinu að kæranda hafi verið veittar rangar upplýsingar að þessu leyti, sbr. m.a. umsögn tollgæslustjóra í málinu.

Samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993, sbr. 15. gr. laga nr. 140/2020, skal ökutækjaleiga greiða mismun samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að viðbættu 10% álagi við þargreindar aðstæður. Er álag þetta þannig lögbundið og leiðir sjálfkrafa af þeim aðstæðum sem um ræðir, þ.e. þegar ökutækjaleiga hefur ekki staðið við skuldbindingu um innkaup vistvænna ökutækja. Engin heimild er í lögunum til að lækka álagið eða fella það niður. Verður því ekki talið að þeir ágallar á upplýsingagjöf tollgæslustjóra við meðferð málsins, sem lýst er í kæru, geti leitt til niðurfellingar álagsins. Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja