Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur á móti ökutækjastyrk
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 630/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul. (brl. nr. 92/1987, 2. gr.)   Skattmat fyrir tekjuárið 1995.  

Skattstjóri lækkaði tilfærðan frádrátt á móti ökutækjastyrk á skattframtali kæranda árið 1996. Yfirskattanefnd taldi slíka ágalla vera á framlögðum gögnum kæranda til stuðnings umkröfðum frádrætti að ekki yrði á þeim byggt. Ekki þóttu efni til að hagga við lækkun skattstjóra, enda þótti hún ekki um skör fram. Kröfum kæranda var því synjað.

I.

Kærð er breyting skattstjóra að lækka 189.166 kr. frádrátt vegna kostnaðar á móti 180.867 kr. ökutækjastyrk um 129.166 kr. á skattframtali kæranda 1996.

Málavextir eru þeir að í bréfi, dags. 29. apríl 1996, krafði skattstjóri kæranda um ökutækjaskýrslu (RSK 3.04), gögn til staðfestingar sundurliðun rekstrarkostnaðar bifreiðar og akstursdagbók eða akstursskýrslur til staðfestingar hinum tilgreinda frádrætti á skattframtali kæranda 1996. Í framhaldi af því tilkynnti skattstjóri kæranda í bréfi, dags. 24. júlí 1996, að hann hefði fellt niður frádráttinn þar sem kærandi hefði ekki lagt fram umbeðin gögn. Var álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1996 hagað í samræmi við það.

Kærandi mótmælti breytingu skattstjóra í kæru, dags. 27. ágúst 1996. Með kærunni fylgdu ljósrit af akstursdagbók kæranda og ökutækjaskýrsla.

Með kæruúrskurði, dags. 3. desember 1996, ákvarðaði skattstjóri kæranda frádrátt með því að áætla hann 60.000 kr. Kvað hann ökutækjaskýrslu kæranda ekki vera útfyllta eins og áskilið væri þar sem einungis væru tilgreindar tryggingar og afskrift bifreiðar í sundurliðun rekstrarkostnaðar og væri afskrift reiknuð allt árið þótt kærandi hefði einungis notað bifreiðina frá 1. apríl 1995. Þrátt fyrir að kostnaðarliðir, svo sem bensín, væru ekki tilgreindir og meðtaldir í útreikningi væri heildarkostnaður eins og hann kæmi fram á skýrslunni umfram kostnaðarviðmiðun ríkisskattstjóra á ekinn kílómetra. Gæfi sundurliðunin því ekki réttar upplýsingar um rekstrarkostnað bifreiðarinnar. Heildarakstur væri talinn 7.708 km, þar af 5.640 km í þágu launagreiðanda, en 2.068 km í eigin þágu, þar með talinn akstur í og úr vinnu en hann væri ekki sérstaklega tilgreindur eins og ætlast væri til samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra. Þá kvað skattstjóri kæranda auk þess gjaldfæra bifreiðakostnað í rekstrarreikningi vegna verktakatekna. Einnig fann skattstjóri að útfyllingu akstursdagbókar kæranda en ekki kæmi þar fram hvaðan og hvert væri ekið og aksturserindi væru annað hvort ekki tilgreind eða almennt orðuð með „efnisöflun".

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 3. janúar 1997. Kveður hann áætlun skattstjóra á frádrætti vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk ekki vera í neinu samræmi við framlögð gögn og þann kostnað sem sannanlega hefði fylgt akstri í þágu launagreiðanda þrátt fyrir að ýmsu hafi verið áfátt varðandi upplýsingar um kostnaðinn. Ástæða fyrir því að kostnaðarliðir eins og bensínkostnaður hafi ekki verið tilgreindir hafi verið sú að kæranda hefði verið tjáð að ekki væri nauðsynlegt að halda til haga slíkum gögnum. Taldi hann litlu máli skipta þótt ýmsir kostnaðarliðir væru ekki skilgreindir þar sem kostnaður vegna afskrifta og trygginga væri hvort eð er yfir viðmiðunarmörkum. Aksturskostnaður sem tilgreindur væri á rekstrarreikningi væri vegna aðkeypts aksturs. Að því er varðar ófullnægjandi útfyllingu akstursdagbókar kveður kærandi sér hafa verið tjáð að slík útfylling akstursdagbókarinnar væri nægjanleg. Þótt sú ráðgjöf hafi verið röng þá hefði akstursdagbókin engu að síður verið færð samkvæmt bestu vitneskju og væri rétt svo langt sem hún næði. Akstur í þágu launagreiðanda á tímabilinu 1. apríl til ársloka 1995 væri 5.640 km eins og akstursdagbókin segði til um. Kvaðst kærandi starfa sem blaðamaður og fæli starfið í sér að svo til daglega sæti kærandi blaðamannafundi, ráðstefnur og ýmsa aðra fundi, auk þess sem hann þyrfti iðulega að hitta viðmælendur á vinnustöðum þeirra vegna viðtala og annarrar efnisöflunar. Starf hans gæti kallað á lengri ferðir vegna sambærilegra verkefna úti á landi og væri þess krafist að hann sinnti slíkum verkefnum á eigin bifreið, enda fengi hann greiddan akstursstyrk á móti þessum kostnaði.

Með bréfi, dags. 2. maí 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu í máli þessu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að þar greindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að slík útgjöld séu sönnuð og í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 1995 (framtalsárið 1996), sbr. auglýsingu nr. 26/1996 í B-deild Stjórnartíðinda 1996, þarf framteljandi frá byrjun ársins 1995, eða þann hluta ársins sem ökutækjastyrkurinn er greiddur fyrir, að hafa fært akstursdagbók eða akstursskýrslu, þar sem skráð skal hver ferð, vegalengd, aksturserindi, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis, sbr. reglugerð nr. 490/1992. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess. Þá telst ökutækjakostnaður því aðeins sannaður að meðal annars sé gerð grein fyrir kostnaði við rekstur ökutækisins. Hafi framteljandi fengið greiðslu fyrir afnot af eigin bifreið í þágu launagreiðanda síns á árinu 1995, þannig að um hafi verið að ræða endurgreiðslu á kostnaði við rekstur hennar, og sá akstur verið 2.000 km eða minni þá er samkvæmt matsreglunum fallið frá kröfu um sannanlegan ökutækjakostnað. Þetta er þó bundið þeim skilyrðum að framteljandi hafi fært akstursdagbók eða akstursskýrslu þar sem skráð hafi verið hver ferð, ekin vegalengd og aksturserindi og að kílómetragjald hafi verið greitt í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á árinu 1995 fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt akstursdagbók. Gögn varðandi þetta eiga að hafa verið færð reglulega og vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess hvort heldur sem er í bókhaldi launagreiðanda eða hjá framteljanda.

Eins og fram hefur komið og ómótmælt er af hálfu kæranda hefur skráningu í akstursdagbók kæranda verið verulega ábótavant að því er varðar sérstaka skráningu hverrar ferðar og aksturserinda. Þá hefur ekki verið gerð fullnægjandi grein fyrir rekstrarkostnaði viðkomandi ökutækis. Kærandi hefur reiknað heils árs afskrift ökutækisins í stað þess að reikna afskrift miðað við notkunartíma þess. Ennfremur er kostnaðarverð á hvern ekinn kílómetra ekki í samræmi við heildarkostnað vegna trygginga og fastrar afskriftar, þó sú sundurliðun væri látin standa óbreytt, þar sem kærandi hefur við útreikning kostnaðarverðs skipt heildarkostnaði á ekna kílómetra tilgreinda í þágu launagreiðanda í stað allra ekinna kílómetra. Þá verður að telja að efni hafi verið til þess að kærandi gerði nánari grein fyrir akstri í eigin þágu. Samkvæmt greinargerð kæranda um ökutækjastyrk (RSK 3.04) nam allur akstur hans í eigin þágu 2.068 km á árinu 1995, þar með talinn akstur milli heimilis og vinnustaðar sem tilgreina ber sérstaklega á greinargerð um ökutækjastyrk. Þegar tekið hefur verið tillit til vegalengdar milli heimilis kæranda að A og vinnustaðar við B, ber greinargerð kæranda með sér að annar akstur í eigin þágu hafi verið mjög óverulegur. Verður ekki án mun ítarlegri skýringa af hálfu kæranda en fram eru komnar fallist á að einkaakstur hans hafi verið jafn lítill og tilgreint er á greinargerð hans. Samkvæmt framansögðu voru slíkir ágallar á framlögðum gögnum kæranda til stuðnings frádrætti á móti ökutækjastyrk að ekki verður á þeim byggt. Ekki þykja efni til að hagga við lækkun skattstjóra, enda þykir hún ekki um skör fram. Kröfum kæranda er því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja