Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 541/1991

Gjaldár 1988-1989

Lög nr. 75/1981 — 3. gr. 5. og 9. tl. — 7. gr. C-liður 2. tl. 2. mgr. — 76. gr. 3. mgr. — 84. gr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 101 gr. 3. mgr. — 116. gr.   Lög nr. 49/1986 — 2. gr. b-liður  

Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Takmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Eignarskattur — Eignarskattsútreikningur — Eignarskattsstofn — Eignarskattsskylda — Eignarskattsauki — Sérstakur eignarskattur (Þjóðarbókhlöðuskattur) — Íbúðarhúsnæði — Húsaleigutekjur — Reiknaðar húsaleigutekjur — Húsaleigutekjur, reiknaðar — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Notkun húsnæðis — Sifjalið — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Endurákvörðun ríkisskattstjóra — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Skatterindi — Valdþurrð — Valdþurrð skattstjóra — RIS 1981.882 — RIS 1983.246 — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar — Skuldir — Frádráttarbærni við ákvörðun eignarskatts — Eignir, frádráttur frá eignum — Frádráttarheimild

I.

I.1. Að því er varðar gjaldárið 1988 eru málavextir sem hér skipta máli þeir, að af hálfu kæranda, sem ber hér á landi takmarkaða skattskyldu, var talið fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda það ár. Á skattframtalið var tilfært fasteignamatsverð íbúðareignar kæranda að X 5.285.000 kr. og matsverð lóðar 391.000 kr. að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti 3.000 kr. eða 388.000 kr. Þá voru tilfærðar sem skuldir skuld við Lífeyrissjóð sjómanna 3.021 kr. og við Byggingarsjóð ríkisins 112 kr. eða samtals 3.133 kr. Hvorki voru tilfærðar tekjur né frádráttur vegna nefndrar íbúðareignar kæranda. Í athugasemdadálki framtalsins er þess getið, að sonur kæranda hefði dvalið í íbúðinni allt árið 1987 án endurgjalds. Hafi því engar húsaleigutekjur verið og því ekkert húsaleiguyfirlit gert. Við álagningu gjalda 1988 var eignarskattsstofn kæranda ákvarðaður 5.673.000 kr. og honum gert að greiða 53.894 kr. í eignarskatt og 14.183 kr. í sérstakan eignarskatt. Eigi kærði kærandi álagningu þessa. Eftir gögnum málsins gerðist það næst að umboðsmaður kæranda reit ríkisskattstjóra erindi, móttekið 8. desember 1988, og fór fram á að hann neytti heimildar sinnar skv. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt, og eignarskatt, og felldi niður álagningu framangreindra skatta með vísan til 3. tl. 9. gr. sömu laga með því að sonur kæranda hefði haft endurgjaldslaus afnot nefndrar íbúðareignar og því bæri honum ekki að greiða þessa skatta. Því til stuðnings vitnaði umboðsmaður kæranda og til úrskurðar skattstjóra, dags. 5. desember 1986, um sama efni. Með bréfi, dags. 10. apríl 1989 féllst ríkisskattstjóri ekki á erindi kæranda en leiðrétti eignarskattsstofninn. Voru ástæður ríkisskattstjóra svohljóðandi:

„Samkvæmt 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. skattalaganna skal hvorki reikna tekjur né gjöld af íbúðarhúsnæði sem skattaðili á og notar til eigin þarfa og er því úrskurðarefnið í máli þessu hvort framangreind ákvæði eigi við í tilviki gjaldandans.

Gjaldandinn flutti til Bandaríkja Norður-Ameríku á árinu 1981. Sonur hans býr í húseign gjaldandans að X ásamt fjölskyldu sinni. Svo sem mál þetta liggur fyrir verður eigi á það fallist að gjaldandinn noti umrædda fasteign til eigin þarfa. Er því litið svo á að gjaldandanum beri að greiða eignarskatt af fasteign sinni, sbr. 9. tl. 3. greinar skattalaganna, enda leiðir af framangreindri túlkun að skattstjóra var rétt að reikna gjaldandanum skattskyldar tekjur af umræddu húsnæði í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra. Breytir það eigi þessari niðurstöðu að skattstjóra hefur láðst að gera það.

Við ákvörðun á eignarskattsstofni gjaldandans hefur skattstjóra láðst að draga skuldir að fjárhæð kr. 3.133 frá fasteignamati X. Er það leiðrétt. Eignarskattsstofn verður kr. 5.669.860.

Eignarskattur verður kr. 53.864.

Sérstakur eignarskattur verður kr. 14.175.“

I.2. Vegna gjaldársins 1989 skilaði kærandi skattstjóra skattframtali í framtalsfresti. Tilfærði hann þar umrædda íbúðareign sína ásamt lóð með fasteignamatsverði og gat þess, að sonur sinn hefði dvalist í íbúðinni allt árið 1988 án endurgjalds. Við álagningu opinberra gjalda það ár voru engin gjöld lögð á kæranda.

II.

Með bréfi, dags. 5. september 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði í hyggju að endurákvarða honum opinber gjöld gjaldárin 1988 og 1989, og veitti honum frest til að gera áður athugasemdir. Um ástæður þessa vísaði skattstjóri í áðurgreinda ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 10. apríl 1989. Gat skattstjóri þess að ákvörðunin yrði fólgin í því að færa til tekna á skattframtal 1988 leigutekjur að fjárhæð 153.171 kr. og leggja gjöld á innsent skattframtal árið 1989 að viðbættum leigutekjum að fjárhæð 178.578 kr., þ.e. 2,7% af fasteignamatsverði íbúðareignar kæranda, sbr. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og skattmat ríkisskattstjóra, sbr. 116. gr. sömu laga.

Með bréfi, dags. 19. september 1989, var hinum boðuðu breytingum skattstjóra mótmælt af hálfu kæranda. Var þess getið að kærandi væri búsettur í Bandaríkjunum og ætti hér á landi íbúð, sem sonur hans byggi í án endurgjalds. Kærandi og eiginkona hans hafi komið til landsins á hverju ári og búið í íbúðinni ásamt syni sínum að jafnaði tvo til fjóra mánuði. Húsnæðið hafi þannig alfarið verið notað til eigin þarfa af kæranda og nánustu fjölskyldu hans, engar leigutekjur verið og ekki beri að reikna leigu til tekna samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Eigi féllst skattstjóri á þessi sjónarmið og endurákvarðaði kæranda opinber gjöld 1988 og 1989 þann 19. mars 1990. Endurákvörðun þessi var kærð til skattstjóra með bréfum, dags. 14. apríl 1990, sem staðfesti fyrri ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 3. september 1990.

III.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. október 1990. Krefst umboðsmaður kæranda þess að endurákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi af svofelldum ástæðum: „Það hlýtur að vera í hæsta máta óeðlilegt að faðir þurfi að reikna sér leigutekjur af íbúð sem sonur hans býr í enda kemur það fram í samsvarandi málum sbr. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 882/1981 og 246/1983 og jafnframt sbr. úrsk. ríkisskattstjóra nr. 1-1-3-255 dags. 6.3.89.“

IV.

Með bréfi, dags. 25. mars 1991, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

V.

V.1. Hinn 10. apríl 1989 endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1988 og var sú ákvörðun kæranleg til hans svo sem fram kemur í þeirri endurákvörðun. Að svo vöxnu máli brast skattstjóra því vald til þeirrar endurákvörðunar, sem hann framkvæmdi á álögðum gjöldum gjaldárið 1988, sem mál þetta snýst um og ríkisskattstjóri lét hjá líða að gera. Kærandi undi nefndri endurákvörðun ríkisskattstjóra á eignarskattsstofni gjaldárið 1988. Kemur hann þegar af þeirri ástæðu ekki til skoðunar í máli þessu. Samkvæmt því sem að framan segir ber að fella niður tekjuskatt og útsvar gjaldárið 1988.

V.2. Að virtum öllum atvikum, þar á meðal hversu notkun umræddrar íbúðar hefur verið háttað undanfarin ár, þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á, að sú notkun hafi verið þess eðlis, að hún falli undir niðurlagsákvæði 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Að svo vöxnu þykir bera að hafna kröfum kæranda varðandi gjaldárið 1989.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja