Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður fyrnanlegra eigna
  • Frestun skattlagningar
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 114/2022

Lög nr. 90/2003, 13. gr., 14. gr., 95. gr., 96. gr.  

Sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtali einkahlutafélags, að færa félaginu til skattskyldra tekna frestaðan söluhagnað fyrnanlegra eigna, var ómerkt með því að ríkisskattstjóri gætti þess ekki að gefa félaginu kost á að gera grein fyrir viðhorfum sínum varðandi uppgjör söluhagnaðarins. Var bent á að svigrúm hefði verið til færslu fyrninga fyrnanlegra eigna á móti tekjufærðum söluhagnaði í skattskilum kæranda umrætt ár.

Ár 2022, miðvikudaginn 7. september, er tekið fyrir mál nr. 83/2022; kæra A ehf., dags. 3. júní 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 3. júní 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattsstjóra, dags. 3. mars 2022, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra, sem kæranda var tilkynnt um með bréfi, dags. 22. október 2021, sbr. ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að færa kæranda til tekna í skattframtali árið 2021 skattskyldan söluhagnað að fjárhæð 11.735.404 kr. að viðbættu 10% álagi að fjárhæð 1.173.540 kr. Voru forsendur ríkisskattstjóra þær að um væri að ræða söluhagnað fyrnanlegra eigna X ehf. frá árinu 2018 sem frestað hefði verið skattlagningu á um tvenn áramót í skattframtali þess félags árið 2019, sbr. ákvæði 14. gr. laga nr. 90/2003, en félagið hefði verið sameinað kæranda 1. janúar 2019 og kærandi þá tekið við öllum skattaréttarlegum réttindum og skyldum X ehf., sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003. Kæranda hefði því borið að gera grein fyrir hinum frestaða söluhagnaði í skattframtali sínu árið 2021, en þess hefði ekki verið gætt. Vísaði ríkisskattstjóri til 13. og 14. gr. laga nr. 90/2003 í þessu sambandi. Með hinum kærða úrskurði, dags. 3. mars 2022, sem kveðinn var upp í tilefni af kæru til ríkisskattstjóra, dags. 26. nóvember 2021, féllst ríkisskattstjóri á varakröfu kæranda í kærunni sem laut að því að söluhagnaðurinn yrði færður til lækkunar á stofnverði fyrnanlegra eigna í skattskilum kæranda árið 2021, sbr. 14. gr. laga nr. 90/2003, að því marki sem slík fyrning væri heimil. Kom fram í úrskurðinum að slík aukafyrning fasteignar að T takmarkaðist við 3.520.774 kr. og yrði bókfært verð fasteignarinnar í árslok 2020 3.979.226 kr. Fjárhæð 10% álags á söluhagnað, sbr. 3. málsl. 14. gr. laga nr. 90/2003, yrði 821.463 kr. Leiddu þessar breytingar samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra til þess að tekjuskattsstofn kæranda lækkaði úr 4.694.314 kr. í 821.463 kr. samkvæmt því sem þar kom fram.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021 verði byggð á innsendu skattframtali kæranda óbreyttu. Til vara er þess krafist að álagningin verði byggð á skattframtalinu að gerðum breytingum, þ.e. „að teknu tilliti til ónýttra fyrningarstofna samkvæmt eignaskrá annars vegar og ónýtts rekstrartaps hins vegar“, eins og segir í kærunni. Fram kemur að aðalkrafa kæranda sé byggð á því að ríkisskattstjóra hafi verið óheimilt að framkvæma hina umdeildu breytingu á skattframtali kæranda árið 2021 nema gefa kæranda kost á að tjá sig um hana áður. Eigi það ekki hvað síst við þar sem fyrir hafi legið að kærandi hafi átt ónýtta fyrningarstofna sem færa hafi mátt niður á móti tekjufærslu söluhagnaðar. Þá hafi kærandi staðið í þeirri trú að tap hefði verið af rekstri félagsins undanfarin ár sem nýta mætti til frekari lækkunar á tekjufærslu söluhagnaðar. Ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003 sé undantekning frá meginreglu laganna um andmælarétt og beri því að skýra heimildina þröngt. Hafi ríkisskattstjóra því borið að gefa kæranda tækifæri á að ræða við bókhaldara sinn áður en ákvörðuninni væri hrundið í framkvæmd.

II.

Með bréfi, dags. 27. júní 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er tekið fram að samkvæmt skýlausum ákvæðum 14. gr. laga nr. 90/2003 hafi borið að tekjufæra hinn frestaða söluhagnað eigi síðar en á öðru ári frá því er hann myndaðist. Þetta hafi kæranda mátt vera fullljóst, sérstaklega í ljósi þess að sami eigandi hafi verið að báðum félögum og að við framtalsgerð hafi kærandi notið aðstoðar fagaðila eins og merking í skattframtali beri með sér. Vegna athugasemda kæranda um ráðstafanir vegna tekjufærslu söluhagnaðar bendi ríkisskattstjóri á að við kæru félagsins hafi verið brugðist í samræmi við varakröfu þess og fyrnanlegar eignir aukafyrndar eins og heimildir standi til á móti tekjufærðum frestuðum söluhagnaði.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 1. júlí 2022, hefur kærandi ítrekað áður fram komnar kröfur og málsástæður.

III.

Samkvæmt ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, getur ríkisskattstjóri leiðrétt fjárhæðir einstakra liða í skattframtali ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Þessa heimild ríkisskattstjóra ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga, um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eins og fram er komið byggði ríkisskattstjóri hina kærðu breytingu sína á skattframtali kæranda árið 2021, sem laut að tekjufærslu frestaðs söluhagnaðar fyrnanlegra eigna frá árinu 2018, á því að kæranda hefði borið að færa hinn frestaða söluhagnað til tekna á grundvelli 14. gr. laga nr. 90/2003, enda hefði kærandi tekið yfir skattaréttarleg réttindi og skyldur X ehf. við sameiningu félaganna í ársbyrjun 2019. Eins og fram er komið í málinu var svigrúm til færslu fyrninga fyrnanlegra eigna á móti tekjufærðum söluhagnaði í skattskilum kæranda árið 2021, sbr. fyrrgreint lagaákvæði, enda liggur fyrir að ríkisskattstjóri hefur fallist á slíka fyrningu með hinum kærða úrskurði sínum, dags. 3. mars 2022. Áður en ríkisskattstjóri ákvað hina kærðu breytingu var því óhjákvæmilegt, sbr. m.a. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að hann aflaði viðhorfa og skýringa kæranda varðandi meðferð hins frestaða söluhagnaðar, sbr. fyrrgreind ákvæði 14. gr. laga nr. 90/2003. Verður ekki talið að skilyrði hafi verið til þess að fara með greinda breytingu eftir ákvæðum 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, eins og málið lá fyrir ríkisskattstjóra, heldur bar ríkisskattstjóra að fara með breytinguna eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga.

Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra verður að ómerkja hina kærðu breytingu hans. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinar kærðu breytingar ríkisskattstjóra eru felldar úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja