Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 116/2022

Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXXIII, 4. mgr.   Lög nr. 37/1993, 7. gr., 10. gr.   Reglugerð nr. 690/2020, 8. gr.  

Talið var að ríkisskattstjóra hefði borið við afgreiðslu á beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bílaviðgerðar að beina því til kæranda að bæta úr annmörkum á beiðninni og eftir atvikum leita skýringa kæranda í stað þess að synja beiðninni á þeim forsendum að kærandi hefði áður fengið virðisaukaskatt af hlutaðeigandi sölureikningi endurgreiddan. Var ákvörðun ríkisskattstjóra felld úr gildi og kæran send ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Ár 2022, miðvikudaginn 28. september, er tekið fyrir mál nr. 99/2022; kæra A, dags. 11. júlí 2022, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2021. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 11. júlí 2022, varðar endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða, sbr. 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Nánar tiltekið er kæruefnið sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt tilkynningu, dags. 24. maí 2022, að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli endurgreiðslubeiðni 4. desember 2021 (beiðni nr. 285988). Byggði ríkisskattstjóri á því að kærandi hefði áður fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af sölureikningi sem fylgt hefði endurgreiðslubeiðni kæranda. Vísaði ríkisskattstjóri um þetta til endurgreiðslubeiðni kæranda frá 4. september 2021 (beiðni nr. 260330).

Í kæru til yfirskattanefndar er tekið fram að ríkisskattstjóri hafni endurgreiðslu með vísan til þess að virðisaukaskattur hafi þegar verið endurgreiddur samkvæmt eldri umsókn. Hér sé um misskilning að ræða. Tvær mismunandi viðgerðir hafi verið framkvæmdar á bifreið kæranda af sama bílaverkstæði. Annars vegar liggi fyrir sölureikningur verkstæðisins, dags. 3. september 2021, að heildarfjárhæð 221.279 kr. Kærandi hafi sótt um endurgreiðslu vegna vinnuþáttar 77.521 kr. Virðisaukaskattur 18.605 kr. hafi verið endurgreiddur kæranda. Hins vegar sé sölureikningur, dags. 22. nóvember 2021, að heildarfjárhæð 352.142 kr. Kærandi hafi sótt um endurgreiðslu vegna vinnuþáttar 138.283 kr. Ríkisskattstjóri hafi synjað um endurgreiðslu virðisaukaskatts 33.188 kr. Ljóst sé að hér sé um tvær mismunandi viðgerðir að ræða eins og sjáist á vinnulýsingu sölureikninganna. Er farið fram á að endurgreiðslubeiðni kæranda verði tekin til greina.

II.

Með bréfi, dags. 23. ágúst 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og gert þá kröfu að kærunni verði vísað til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar. Þessu til stuðnings er vísað til lagaraka er búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, og bent á að kærandi hafi nú lagt fram ný gögn og rökstuðning í málinu. Í umsögninni er tekið fram að kærandi hafi með endurgreiðslubeiðni sinni frá 4. desember 2021 lagt fram sama sölureikning frá X ehf. og endurgreiðslubeiðni hans frá 4. september 2021 hafi byggt á. Engin önnur gögn hafi fylgt beiðninni. Því hafi ríkisskattstjóri synjað síðari beiðninni á þeim grundvelli að þegar hefði farið fram endurgreiðsla vegna hins fram lagða sölureiknings.

III.

Í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, og 6. gr. laga nr. 141/2020, kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 skuli endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts. Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að Skattinum barst erindið.

Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Í 8. gr. reglugerðarinnar er um framkvæmd endurgreiðslna og meðferð endurgreiðslubeiðna vísað til þeirra reglna sem gilda um endurgreiðslur samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Nánar tiltekið kemur fram í nefndu ákvæði reglugerðarinnar að ákvæði reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, skuli eftir því sem við á, að „öðru leyti en kveðið er á um í reglugerð þessari, s.s. um skilyrði og framkvæmd endurgreiðslu, endurgreiðslutímabil o.fl.“

Ákvarðanir ríkisskattstjóra um endurgreiðslur samkvæmt XIII. kafla laga nr. 50/1988, þar á meðal endurgreiðslur samkvæmt 2. mgr. 49. gr. laganna, fela að formi til ekki í sér skattákvarðanir í skilningi laga, sbr. hér einkum 25. og 26. gr. laga nr. 50/1988, sbr. til hliðsjónar ákvæði 95. og 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ríkisskattstjóri var því ekki bundinn af tilkynningar- og fyrirspurnarákvæðum þessara laga hygðist hann hafna erindi kæranda eða einungis verða við því að hluta. Ríkisskattstjóra bar hins vegar að gæta almennra reglna um meðferð stjórnsýslumála við afgreiðslu sína. Þar á meðal bar ríkisskattstjóra að sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að málið væri nægjanlega upplýst væru ákvarðanir teknar sem krefðust slíks. Tekið skal fram að sérstaklega er kveðið á um rannsóknarskyldu ríkisskattstjóra í 14. gr. reglugerðar nr. 449/1990. Þar segir m.a. að ríkisskattstjóri skuli rannsaka endurgreiðslubeiðni og geti hann í því sambandi krafið aðila um framlagningu reikninga og annarra gagna, svo sem kaupsamning, lóðasamning og teikningar. Þá hefur verið litið svo á að ríkisskattstjóra beri í samræmi við meginreglur skattalaga að láta rökstuðning fylgja slíkum ákvörðunum sem um ræðir í tilviki kæranda, þ.e. synjun endurgreiðslu m.a. samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga nr. 50/1988, sem er í samræmi við meginreglu í lögum þessum um samhliða rökstuðning, sbr. einkum 3. og 4. mgr. 26. gr. og 29. gr. laganna.

Eins og fram er komið varðar mál þetta beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölureikningi X ehf., dags. 22. nóvember 2021. Beiðnina lagði kærandi fram hjá ríkisskattstjóra 4. desember 2021 með rafrænum hætti. Í beiðninni er vísað til sölureiknings X ehf., dags. 22. nóvember 2021, að heildarfjárhæð 352.142 kr. og tilgreint að vinna án virðisaukaskatts nemi 138.283 kr. Beiðninni fylgdi hins vegar mynd af sölureikningi X ehf., dags. 3. september 2021, að heildarfjárhæð 221.278 kr. Fyrir liggur að kærandi hafði áður sent ríkisskattstjóra mynd af þeim reikningi vegna endurgreiðslubeiðni 4. september 2021 og fengið endurgreiddan virðisaukaskatt á þeim grundvelli.

Samkvæmt framansögðu urðu kæranda á þau mistök að láta ekki viðeigandi sölureikning fylgja endurgreiðslubeiðni sinni 4. desember 2021. Blasir þetta við þegar gætt er að tilgreiningu sölureikningsins í endurgreiðslubeiðninni, bæði hvað snertir dagsetningu og fjárhæð. Varð naumast hjá því komist að ríkisskattstjóra yrði þetta ljóst við athugun sína á erindi kæranda, sbr. fyrirmæli 14. gr. reglugerðar nr. 449/1990. Verður því að telja að rétt hefði verið að ríkisskattstjóri hefði í samræmi við leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og til hliðsjónar rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga, beint því til kæranda að bæta úr annmörkum á beiðni sinni og jafnframt eftir atvikum leitað skýringa kæranda, teldi ríkisskattstjóri þörf á því, í stað þess að synja beiðni kæranda á fyrrgreindum forsendum. Hvað snertir skyldu ríkisskattstjóra til leiðbeiningar við þessar aðstæður skal bent á að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram að í reglu 7. gr. felist m.a. að stjórnvöldum beri að leiðbeina og aðstoða menn við að fylla út eyðublöð sé um þau að ræða. Einnig verður að gera þá athugasemd við málsmeðferð ríkisskattstjóra að þær ástæður sem hann færði fyrir ákvörðun sinni voru ekki svo skýrar sem skyldi, enda virðist kærandi hafa skilið ríkisskattstjóra þannig að hann teldi kæranda fara ítrekað fram á endurgreiðslu vegna sömu viðgerða á bifreið sinni. Það er fyrst í umsögn ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar sem gerð er viðhlítandi grein fyrir málsatvikum.

Samkvæmt því sem að framan greinir voru annmarkar á meðferð málsins af hendi ríkisskattstjóra vegna beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts, bæði hvað snertir undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og rökstuðning hennar. Af þeim sökum þykir rétt að fella ákvörðun ríkisskattstjóra úr gildi. Það leiðir af málsmeðferð ríkisskattstjóra að hann hefur ekki nema að takmörkuðu leyti fjallað efnislega um endurgreiðslurétt kæranda. Að þessu athuguðu og eins og málið liggur fyrir yfirskattanefnd þykir rétt að senda ríkisskattstjóra kæru kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins umfram það sem leiðir af framangreindri umfjöllun.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra er felld úr gildi. Kærunni ásamt meðfylgjandi gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar að nýju.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja