Úrskurður yfirskattanefndar

  • Veitingastyrkur

Úrskurður nr. 119/2022

Lög nr. 8/2022, 4. gr. 2. tölul.  

Kærandi var einkahlutafélag sem hóf rekstur nýs veitingastaðar um sumarið 2019. Í máli þessu vegna umsóknar kæranda um veitingastyrk var hafnað kröfu félagsins sem laut að því að við mat á tekjufalli bæri að miða við tekjur félagsins á tímabilinu ágúst til október 2019 í stað nóvember 2019. Kom fram að almennt yrði ekki talið að sú aðstaða, að tíma gæti tekið að koma rekstri og tekjuöflun nýrra veitingastaða á skrið, gæti talist til sérstakra aðstæðna í skilningi laga. Þá var bent á að ganga mætti út frá því að tekjur af rekstri veitingastaðar kæranda væru meiri yfir sumartíma en aðra mánuði árs, svo sem gögn málsins bæru með sér.

Ár 2022, miðvikudaginn 28. september, er tekið fyrir mál nr. 97/2022; kæra A ehf., dags. 5. júlí 2022, vegna ákvörðunar um veitingastyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 5. júlí 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 10. maí 2022, þar sem hafnað var umsókn kæranda um veitingastyrk vegna nóvembermánaðar 2021 samkvæmt lögum nr. 8/2022, um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma. Ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 12. apríl 2022, og tölvupóst kæranda 23. sama mánaðar, en umsókn félagsins laut að styrk vegna nóvember 2021. Byggðist höfnun ríkisskattstjóra á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022 um a.m.k. 20% tekjufall vegna takmörkunar á opnunartíma sem félagið hefði sætt vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Rakti ríkisskattstjóri fyrrgreint ákvæði og benti á að samkvæmt því bæri við mat á tekjufalli að bera tekjur rekstraraðila þann mánuð sem umsókn varðaði við tekjur í sama mánuði á árinu 2019. Einungis við sérstakar aðstæður mætti miða við annað tímabil og skyldi þá að jafnaði miða við tekjur í sama almanaksmánuði á árinu 2018. Í umsókn kæranda væri miðað við meðaltekjur á tímabilinu ágúst, september og október 2019 og í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 12. apríl 2022, væri gefin sú skýring á þeirri viðmiðun að félagið hefði nýlega hafið rekstur veitingastaðar og að reksturinn hefði verið vaxandi. Samanburður við meðaltal síðustu þriggja mánaða fyrir lokanir gæfi því betri mynd af tekjufalli en samanburður við sama mánuð á árinu 2019. Í tilefni af þessum skýringum tók ríkisskattstjóri fram í hinni kærðu ákvörðun að félagið hefði verið stofnað á árinu 1996 og rekstur veitingastaðar hafist í júní 2019. Heimild til að miða við annað tímabil en sama mánuð væri undantekning frá meginreglu og yrði ekki fallist á að aðstæður félagsins féllu undir sérstakar aðstæður sem vísað væri til í 2. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022. Umsókn kæranda um veitingastyrk sem byggði á viðmiðun við tekjur á þriggja mánaða tímabili 2019 væri því hafnað þar sem félagið uppfyllti ekki skilyrði fyrir a.m.k. 20% tekjufalli fyrir nóvember 2021.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Í kærunni kemur fram að almennt megi ætla að mæling á áhrifum lokana á starfsemi veitingastaðar skili betri niðurstöðu með því að miða við nálægt tímabil en tímabil sem sé fjarlægt. Í lögum nr. 8/2022 sé ekki verið að mæla áhrif Covid-19 á starfsemi heldur bein áhrif takmarkana á opnunartíma. Skýringar á því að miðað sé við sömu aðferð í lögum nr. 88/2022 og í lögum um viðspyrnustyrki nr. 160/2020 sé líklega sú að ráðuneytið hafi talið óæskilegt að lagasetningin og úrræðin myndu tefjast vegna breytinga í meðförum Alþingis. Ekki verði séð að heimild laga nr. 8/2022 til að miða við annað tímabil við sérstakar aðstæður standi í vegi fyrir kröfu kæranda þar sem eina skilyrðið sé að rekstraraðili sýni fram á að valið tímabil gefi betri mynd af tekjufalli en viðmið við árið 2019. Sé vísað til athugasemda með frumvarpi til laga nr. 8/2022 í þessu sambandi. Skýra verði hugtakið „sérstakar aðstæður“ eftir orðanna hljóðan og með hliðsjón af athugasemdum í frumvarpinu svo að átt sé við aðstæður sem rekstraraðili telji gefa betri mynd af tekjufalli vegna aðgerða stjórnvalda. Þá sé vísað til meðfylgjandi greiningar á tekjum kæranda frá upphafi rekstrar sem beri með sér að viðmiðun kæranda sé réttust í þessum efnum, þ.e. að miða við meðaltal þriggja mánaða fyrir aðgerðir stjórnvalda. Í ákvörðun ríkisskattstjóra sé vísað til þess að í þeim tilvikum þegar starfsemi sé ekki hafin í sama umsóknarmánuði á árinu 2019 sé meginreglan sú að miða við meðaltekjur í september, október og nóvember 2021 og að í einhverjum tilvikum hafi verið miðað við október 2021. Hér sé væntanlega um vinnureglu skattyfirvalda að ræða þar sem regluna sé hvergi að finna í lögum. Kæranda sé kunnugt um að ríkisskattstjóri hafi samþykkt viðmiðun við nálæga mánuði í tilviki annarra rekstraraðila. Slík framkvæmd sé afleit og skattyfirvöld hafi misst sjónar á tilgangi laganna. Sé jafnræðis ekki gætt. Sé þess krafist að höfnun umsókna kæranda um veitingastyrk vegna nóvember og desember verði hnekkt. Þá sé þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Kostnaður sé vegna 10 klukkustunda vinnu fagaðila eða alls 170.580 kr. án virðisaukaskatts, sbr. meðfylgjandi reikning X ehf., dags. 5. júlí 2022.

II.

Með bréfi, dags. 12. júlí 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er tekið fram, vegna athugasemda í kæru, að tilvitnun í bréf ríkisskattstjóra, dags. 8. júní 2022, sem varði umsókn kæranda fyrir desember 2021, sé villandi þar sem tilvitnunin sé slitin úr samhengi við skýringu í framhaldi af tilvitnuðum texta, svo sem nánar greinir.

Með bréfi, dags. 15. júlí 2022, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Er því mótmælt að tilvitnun í kæru til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 8. júní 2022, sé villandi, svo sem frekar er rökstutt.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 8/2022, um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. desember 2021 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að stuðla að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli sökum takmarkana á opnunartíma veitingastaða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa takmarkananna gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 8/2022 er fjallað um greiðslu styrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni.

Samkvæmt 2. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022 er skilyrði fyrir greiðslu styrks að tekjur rekstraraðila af veitingastað eða veitingastöðum sem sættu takmörkun samkvæmt 1. tölul. sömu lagagreinar í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar hafi verið a.m.k. 20% lægri en í sama almanaksmánuði árið 2019 og tekjufallið megi rekja til takmörkunar á opnunartíma samkvæmt 1. tölul. Hafi rekstraraðilinn fengið rekstrarleyfi vegna veitingastaðar eftir upphaf sama almanaksmánaðar árið 2019 skal miðað við meðaltekjur hans af veitingastaðnum á jafn mörgum dögum og séu í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar á tímabilinu 1. september til 30. nóvember 2021, eða frá þeim degi sem hann fékk rekstrarleyfi til 30. nóvember 2021 ef hann fékk rekstrarleyfi eftir 31. ágúst 2021. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil samkvæmt 1. og 2. málsl. ákvæðisins. Að jafnaði skuli þá miðað við tekjur rekstraraðilans af veitingastöðunum í sama almanaksmánuði 2018.

Í athugasemdum við ákvæði 2. tölul. 4. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 8/2022, sbr. þskj. 332 á 152. löggjafarþingi 2021-2022, er vikið að síðastnefndu ákvæði 3. málsl. töluliðarins um að heimilt sé við sérstakar aðstæður að nota annað tímabil til viðmiðunar við ákvörðun styrks en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-2. málsl. ákvæðisins. Er tekið fram að í sérstökum tilvikum kunni almennt viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-2. málsl. 1. tölul. 4. gr. að gefa mjög skakka mynd af tekjufalli rekstraraðila. Það geti t.d. átt við hafi reksturinn legið niðri stóran hluta almenna viðmiðunartímabilsins og tekjurnar því verið mun lægri en þær væru alla jafna. Við þær aðstæður megi, ef rekstraraðili óskar eftir því og sýnir fram á að almenna viðmiðunartímabilið gefi mjög skakka mynd af tekjum hans alla jafna, notast við annað viðmiðunartímabil. Að jafnaði skuli þá miðað við sama almanaksmánuð 2018. Sé sýnt fram á að sá mánuður gefi einnig mjög skakka mynd af tekjum megi notast við annað tímabil sem rekstraraðili tilgreinir. Tekið er fram að gera verði nokkuð strangar kröfur til þess að rekstraraðili miði við tímabil sem endurspeglar tekjur hans alla jafna en að hann velji ekki úr tímabil þegar tekjur voru óvenju miklar. Almennt megi ætla að meðaltal tekna yfir löng tímabil gefi betri mynd af tekjum heldur en tekjur á stuttum tímabilum.

Í umsókn kæranda um veitingastyrk vegna nóvember 2021 var tekjufall í rekstri tilgreint … kr. eða 22,1%. Kom fram í greinargerð fyrir völdu tímabili að félagið hefði nýlega hafið rekstur mat- og veitingastaðar. Reksturinn hefði verið stöðugt vaxandi og þess vegna teldi kærandi að samanburður við meðaltal síðustu þriggja mánaða fyrir takmarkanir og lokanir lýsti áhrifum þeirra best. Eru þær skýringar áréttaðar í kæru til yfirskattanefndar, sbr. kafla I hér að framan. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins námu tekjur kæranda af rekstri veitingastaðarins í umsóknarmánuði alls … kr. en lægri fjárhæð eða … kr. í nóvember 2019.

Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum 2. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022 verður að telja meginreglu laganna að byggja mat á tekjufalli á samanburði við tekjur rekstraraðila milli mánaða, þ.e. tekjur í sama almanaksmánuði árið 2019 og umsókn rekstraraðila varðar, sbr. hér að framan. Jafnvel í þeim tilvikum þegar heimilt er að nota annað tímabil til viðmiðunar vegna sérstakra aðstæðna skal að jafnaði miðað við mánaðarlegar tekjur, þ.e. tekjur í sama almanaksmánuði árið 2018, sbr. ákvæði 3. málsl. 2. tölul. 4. gr. laganna. Þegar um er að ræða rekstraraðila sem fengið hefur rekstrarleyfi vegna veitingastaðar eftir upphaf sama almanaksmánaðar á árinu 2019 og umsókn varðar skal hins vegar miðað við meðaltekjur af veitingastaðnum yfir lengra tímabil, sbr. 2. málsl. ákvæðisins. Af hálfu kæranda er komið fram að taka þurfi tillit til þess í tilviki félagsins að rekstri þess veitingastaðar sem um ræðir hafi verið hleypt af stokkunum í júní 2019 og reksturinn þannig verið tiltölulega nýhafinn þegar gripið hafi verið til takmarkana á opnunartíma vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Af þessu tilefni skal tekið fram að almennt verður ekki talið að sú aðstaða, að tíma getur tekið að koma rekstri og tekjuöflun nýrra veitingastaða á skrið, geti talist til sérstakra aðstæðna í skilningi 3. málsl. 2. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022, sbr. og fyrrgreindar athugasemdir í lögskýringargögnum þar sem skírskotað er til þess að rekstur liggi niðri um stóran hluta viðmiðunartímabils. Ekki verður séð að um neitt slíkt sé að ræða í tilviki kæranda auk þess sem ganga má út frá því að tekjur af rekstri veitingastaðar félagsins séu meiri yfir sumartíma en aðra mánuði árs, svo sem framlögð sundurliðun tekna félagsins, sem fylgdi kæru til yfirskattanefndar, ber með sér. Ekki verður talið að árstíðabundnar sveiflur í tekjuöflun veitingastaða geti talist til sérstakra aðstæðna í skilningi 3. málsl. 2. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022. Styðst sú niðurstaða við athugasemdir við hliðstætt ákvæði í 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki, sbr. nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á þskj. 259 á 151. löggjafarþingi 2020-2021, þar sem fram kemur að með heimild þeirra laga til að byggja mat á tekjufalli á samanburði við meðaltekjur rekstraraðila á sjö mánaða tímabili á árinu 2019 sé m.a. komið til móts við rekstraraðila þar sem starfsemi sé sveiflukennd eftir árstíðum. Má í þessu sambandi til hliðsjónar vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 182/2021.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Af þeim úrslitum málsins leiðir að hafna verður málskostnaðarkröfu félagsins, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja