Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts
  • Kæra vegna tafa á afgreiðslu máls
  • Málshraði

Úrskurður nr. 120/2022

Lög nr. 50/1988, 43. gr. 3. mgr., 43. gr. A 2. mgr. (brl. nr. 125/2015, 23. gr.)   Lög nr. 37/1993, 9. gr. 1. mgr. og 4. mgr.   Reglugerð nr. 1243/2019, 7. gr.  

Kæra í máli þessu laut að drætti á afgreiðslu máls kæranda hjá ríkisskattstjóra vegna beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts, sbr. kæruheimild í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fallist var á með kæranda að óhæfilegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu málsins sem brotið hefði í bága við almennar málshraðareglur.

Ár 2022, miðvikudaginn 28. september, er tekið fyrir mál nr. 82/2022; kæra A, dags. 31. maí 2022, vegna afgreiðslu á beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 31. maí 2022, hefur umboðsmaður kæranda gert athugasemdir við tafir á afgreiðslu á beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts (RSK 10.29). Kemur fram í kærunni að um sé að ræða beiðni sem hafi verið dagsett 20. nóvember 2020 og móttekin hjá ríkisskattstjóra 25. sama mánaðar. Beiðnin hafi verið ítrekuð 21. desember 2020 og hafi móttaka beiðninnar þá verið staðfest með tölvupósti 8. janúar 2021 og hafi ríkisskattstjóri í því bréfi óskað eftir nánari gögnum og skýringum. Viðbótargögn auk skýringa hafi verið send ríkisskattstjóra 18. mars 2021 og hafi embættið staðfest móttöku þeirra með tölvupósti 31. sama mánaðar. Síðan séu liðnir fjórtán mánuðir, þar sem ítrekað hafi verið spurst fyrir um stöðu málsins bæði í gegnum síma og tölvupóst án þess að svör eða skýringar á þessari miklu töf hafi fengist.

Af hálfu kæranda er þess krafist að málinu verði vísað til tafarlausrar meðferðar hjá ríkisskattstjóra. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Með bréfi, dags. 23. ágúst 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögn embættisins er fallist á með kæranda að afgreiðsla máls félagsins hafi dregist úr hófi fram.

Með tölvupósti 30. ágúst 2022 hefur umboðsmaður kæranda gert athugasemdir í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Er tekið fram að brot á málshraða í þessum málaflokki séu nokkuð alvarleg eins og málsatvik í máli kæranda beri með sér. Þetta sé staðan í fjölda annarra mála og séu engar afsökunarástæður fyrir töfum og aðgerðarleysi í málaflokknum. Um endurgreiðslurnar gildi lög og eigi umsækjandi annað hvort rétt á endurgreiðslu eða ekki. Beiðni kæranda um endurgreiðslu sé síðan í nóvember 2020 og nákvæmlega ekkert hafi gerst í málinu síðan þá. Kvörtun um brot á málshraða hafi verið send 31. maí sl. til yfirskattanefndar sem æðsta stjórnvalds í þessum málaflokki. Sé skorað á yfirskattanefnd að stíga fast til jarðar og gera alvarlegar athugasemdir við þessa stjórnsýsluframkvæmd ríkisskattstjóra.

III.

Kæra kæranda í máli þessu, dags. 31. maí 2022, varðar meintar tafir á meðferð ríkisskattstjóra á máli kæranda vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 3. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, og reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja, sbr. nú reglugerð nr. 1243/2019, um sama efni. Ákvæði þessi mæla fyrir um endurgreiðslu þess virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja sem þau hafa greitt hér á landi vegna kaupa á vörum eða þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar, svo sem nánar greinir. Er ljóst að kæran byggir á kæruheimild í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. A laga nr. 50/1988, sbr. 23. gr. laga nr. 125/2015, sem breyttu hinum fyrrnefndu lögum, má skjóta ákvörðun ríkisskattstjóra um sérstaka endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt XIII. kafla laganna og ákvæðum til bráðabirgða í þeim til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Verður því að telja að kæranda sé heimilt að kæra drátt á afgreiðslu málsins til yfirskattanefndar á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda ber almennt að beina kæru á grundvelli þess ákvæðis til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til. Þessa kæruheimild stjórnsýslulaga verður þó að skýra svo að hún eigi einungis við í þeim tilvikum þegar mál hefur ekki verið til lykta leitt af lægra stjórnvaldi, sbr. m.a. athugasemdir með 9. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 37/1993, en þar er tekið fram að um sé að ræða undantekningu frá reglu 2. mgr. 26. gr. laganna um að ákvarðanir, sem ekki binda endi á mál, verði ekki kærðar fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þegar lægra stjórnvald hefur tekið ákvörðun í máli og þannig lokið meðferð þess fer því um kærumeðferð hjá æðra stjórnvaldi eftir almennum reglum.

Í kæru til yfirskattanefndar er gerð krafa um að staðfest verði með úrskurði yfirskattanefndar að afgreiðsla ríkisskattstjóra á umsóknum kæranda hafi dregist óhæfilega og að ríkisskattstjóra verði gert að taka málið til afgreiðslu án tafar. Með umsögn sinni, dags. 23. ágúst 2022, hefur ríkisskattstjóri fallist á það með kæranda að afgreiðsla máls félagsins hafi dregist úr hófi fram.

Beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts, sem um ræðir í málinu, mun hafa borist ríkisskattstjóra 25. nóvember 2020 og var hún ítrekuð 21. desember 2020. Staðfesti ríkisskattstjóri móttöku hennar með tölvupósti 8. janúar 2021 og tilkynnti að beiðnin yrði tekin til afgreiðslu með tímabilinu nóvember-desember 2020, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1243/2019. Var jafnframt í bréfinu óskað eftir að afhent yrðu tiltekin gögn og skýringar og kæranda veittur 30 daga frestur til þess. Í kjölfar framlengingar á umræddum fresti, að beiðni kæranda, voru ríkisskattstjóra send umbeðin viðbótargögn og skýringar þann 18. mars 2021 og staðfesti ríkisskattstjóri móttöku þeirra 31. sama mánaðar.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 1243/2019 skal ríkisskattstjóri afgreiða umsóknir um endurgreiðslu eins fljótt og auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok endurgreiðslutímabils. Umsóknir sem berast eftir lok skilafrests skulu afgreiddar með umsóknum næsta endurgreiðslutímabils. Ef ríkisskattstjóri getur ekki vegna aðstæðna umsækjanda gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim er endurgreiðslubeiðni byggir á, þ.m.t. vegna þeirra atvika sem lýst er í 4. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, framlengist frestur til afgreiðslu sem því nemur. Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að frestur ríkisskattstjóra til að ljúka afgreiðslu málsins er löngu liðinn. Að því athuguðu, sbr. og umsögn ríkisskattstjóra, verður að fallast á með kæranda að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu máls félagsins sem engar skýringar hafa komið fram á.

 Af hálfu kæranda er gerð krafa um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað félagsins vegna meðferðar málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. júní 2022, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Fallist er á með kæranda að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra sem brotið hafi í bága við almennar málshraðareglur. Er því beint til ríkisskattstjóra að taka mál kæranda til afgreiðslu án frekari tafa. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja