Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning sambýlisfólks
  • Barnabætur

Úrskurður nr. 121/2022

Gjaldár 2021

Lög nr. 90/2003, 62. gr. 3. mgr., 68. gr. A-liður 1. mgr.  

A og B, sem voru í sambúð og áttu barn saman, slitu samvistir í desember 2020. Í máli þessu var hafnað kröfu A um að honum yrðu ákvarðaðar barnabætur með barninu gjaldárið 2021 þar sem talið var að byggja yrði á því að barnið hefði búið hjá B frá samvistarslitum og B því annast framfærslu barnsins í árslok 2020.

Ár 2022, miðvikudaginn 28. september, er tekið fyrir mál nr. 96/2022; kæra A, dags. 4. júlí 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra, sem hann tilkynnti kæranda um með úrskurði, dags. 16. júní 2022, um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2021, að fella niður áður ákvarðaðar barnabætur kæranda að fjárhæð 187.250 kr. og sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 15.000 kr. umrætt gjaldár. Af hálfu kæranda er farið fram á að ákvörðun ríkisskattstjóra verði endurskoðuð, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 4. júlí 2022.

II.

Helstu málavextir eru þeir að við álagningu opinberra gjalda kæranda og fyrrverandi sambýliskonu hans, B, gjaldárið 2021 var barnabótum vegna barns kæranda og B skipt til helminga milli þeirra, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá var sérstökum barnabótaauka sömuleiðis skipt til helminga milli þeirra.

Með bréfi til kæranda, dags. 24. maí 2022, tilkynnti ríkisskattstjóri að hann hefði í hyggju að endurákvarða opinber gjöld kæranda gjaldárið 2021, sbr. 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fyrirhugað væri að fella niður áður ákvarðaðar barnabætur að fjárhæð 187.250 kr. og barnabótaauka að fjárhæð 15.000 kr. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að fyrrverandi maki kæranda, B, hefði óskað eftir barnabótum sem einstætt foreldri gjaldárið 2021 með barninu F. Í framlagðri dómssátt, dags. 10. janúar 2022, kæmi fram að lögheimili barnsins skyldi vera hjá móður og að faðir greiddi einfalt meðlag með barninu frá 10. janúar 2022 fram að 18 ára aldri. Hefði B lagt fram bréf frá leikskóla í X-bæ sem staðfesti umsókn um leikskólapláss fyrir F sem borist hefði 14. desember 2020 og hefði F hafið leikskólagöngu 1. mars 2021. Jafnframt hefði fylgt bréf frá X-bæ, dags. 18. janúar 2021, sem staðfesti að F hefði verið á biðlista eftir leikskólaplássi þar. Ríkisskattstjóri rakti að í 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 kæmi fram að með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast væri hér á landi og á framfæri þeirra sem skattskyldir væru samkvæmt 1. gr., skyldi ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Framfærandi teldist sá aðili sem hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess í lok tekjuársins. Sá sem greiddi meðlag með barni teldist ekki framfærandi í þessu sambandi. Samkvæmt endurriti úr hjónaskilnaðarbók, dags. 12. janúar 2021, hefði kærandi óskað eftir að breyta kröfu um lögheimili þannig að lögheimili yrði hjá föður til 18 ára aldurs og að móðir greiddi föður meðlag með barninu frá þeim degi er barnið flyttist til föður. Ástæða breytingar á kröfu kæranda væri sú að barnið hefði komist að á leikskóla í Y-bæ og nyti þar þjónustu eftir sem áður. Dómssátt í málinu hefði legið fyrir 10. janúar 2022. Samkvæmt endurriti úr sifjamálabók, dags. 15. desember 2020, hefðu kærandi og B slitið samvistum 11. desember 2020 og frá þeim tíma hefði barnið búið hjá móður. Þá hefði B sótt um leikskólapláss fyrir barnið 14. desember 2020. Í ljósi framlagðra gagna yrði ekki annað séð en að barnið hefði búið hjá móður sinni frá samvistarslitum í desember 2020. Við ákvörðun barnabóta við álagningu gjaldárið 2021 hefði verið miðað við fjölskyldustöðu eins og hún væri skráð í þjóðskrá 31. desember 2020, en breytingar innan ársins hefðu ekki áhrif á þá ákvörðun samkvæmt A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003. Hefðu sambúðarslit átt sér stað fyrir 31. desember 2020 reiknuðust barnabætur eins og hjá einstæðu foreldri hjá þeim aðila sem hefði barnið hjá sér. Í samræmi við framangreint teldist kærandi ekki framfærandi barns á árinu 2020, sbr. A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, og ætti hann því ekki rétt á barnabótum og barnabótaauka við álagningu gjaldárið 2021. Með bréfi þessu var kæranda veittur 15 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum. Engar athugasemdir bárust og með úrskurði, dags. 16. júní 2022, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2021 til samræmis.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 4. júlí 2022, er greint frá því að ljóst sé að kærandi og barnsmóðir hans hafi slitið samvistum í lok árs 2020. Frá þeim tíma hafi verið ágreiningur milli þeirra um forsjá, lögheimili og umgengni við barn þeirra sem hafi verið með skráð lögheimili hjá kæranda á meðan málið var til lykta leitt. Hafi barnið umgengist báða foreldra sína að jöfnu til janúar 2022 er ágreiningur þeirra var leiddur til lykta með dómssátt. Hafi barnið gengið í leikskóla í Y-bæ þegar það var hjá kæranda, sbr. meðfylgjandi staðfestingu frá leikskólanum þar sem fram komi að barnið hafi verið innritað í leikskólann frá 1. september 2019 til 15. janúar 2021 og frá 1. maí 2021 til 31. janúar 2022. Með vísan til framanritaðs sé farið fram á endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra.

IV.

Með bréfi, dags, 26. júlí 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2022, hefur umboðsmaður kæranda ítrekað fyrri kröfur kæranda. Er vísað til þess í bréfinu að samkvæmt meðfylgjandi úrskurði sýslumanns, dags. 18. mars 2021, hafi regluleg umgengni kæranda til bráðabirgða verið ákvörðuð fimm dagar í senn annan hvorn fimmtudag, á meðan umgengnismál kæranda og barnsmóður hans var til meðferðar. Þá daga sem barnið hafi verið hjá kæranda hafi barnið sótt leikskóla í Y-bæ og hafi kærandi séð um allan kostnað tengdan barninu.

V.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra sem boðuð var kæranda með bréfi, dags. 24. maí 2022, og hrundið í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 16. júní 2022, að fella niður áður ákvarðaðar barnabætur kæranda að fjárhæð 187.250 kr. og sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 15.000 kr. umrætt gjaldár. Voru forsendur þessarar ákvörðunar ríkisskattstjóra þær að skilyrði skattlagningar eftir reglum sem um hjón gilda, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, væru ekki uppfyllt í tilviki kæranda og B gjaldárið 2021 þar sem þau hefðu slitið óvígðri sambúð sinni í desember 2020 og B verið framfærandi barns þeirra, F, í árslok 2020 í skilningi 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að ágreiningur hafi verið með kæranda og B um forsjá barnsins í kjölfar sambúðarslita á árinu 2020 og barnið verið með skráð lögheimili á heimili kæranda í Y-bæ í árslok 2020. Dómsátt í málinu hafi verið gerð 10. janúar 2022.

Í 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr., skuli ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Framfærandi teljist sá aðili sem hafi barnið hjá sér og annist framfærslu þess í lok tekjuársins. Sá er greiði meðlag með barni teljist ekki framfærandi í þessu sambandi. Hjón, sem skattlögð séu samkvæmt 62. gr. laganna, teljist bæði framfærendur og skiptist barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildi um sambúðarfólk sem uppfylli í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr. enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Að sama skapi teljast þeir sem halda heimili saman ásamt barni sínu framfærendur í skilningi ákvæðisins þótt skilyrði til skráningar á sambúð séu ekki uppfyllt. Við slíkar aðstæður skal ákvarða barnabætur eins og um hjón sé að ræða.

Í boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 24. maí 2022, er vísað til þess að samkvæmt fyrirliggjandi endurriti úr sifjamálabók, dags. 15. desember 2020, hafi sambúð kæranda og barnsmóður hans, B, verið slitið 11. desember 2020 og frá þeim tíma hafi barnið búið hjá B. Af hálfu kæranda hefur þessu ekki verið mótmælt og verður kæra hans til yfirskattanefndar ekki skilin svo að byggt sé á því að kærandi og B hafi haldið saman heimili ásamt barninu í árslok 2020, en í kærunni er bent á að umgengni við barnið hafi verið jöfn á því tímabili sem um ræðir. Að þessu athuguðu verður að leggja til grundvallar að B hafi annast framfærslu barnsins í árslok 2020 og teljist því framfærandi í skilningi 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja