Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn

Úrskurður nr. 124/2022

Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. mgr. og 8. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.), 41. gr. 3. mgr. (brl. nr. 29/2021, 32. gr.)   Lög nr. 19/1940, 74. gr.  

Í máli þessu sætti kæru ákvörðun skattrannsóknarstjóra að gera X ehf. og kæranda, sem var skráður fyrirsvarsmaður félagsins, in solidum sekt að fjárhæð 8.300.000 kr. vegna brota á lögum um virðisaukaskatt í starfsemi félagsins árið 2020. Yfirskattanefnd taldi hafa verið leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra að virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna rekstrarársins 2020 hefðu verið rangar og að ekki hefðu verið gerð skil á virðisaukaskatti félagsins. Ekki var talið tilefni til að lækka sektarfjárhæð umfram það sem ákvarðað hafði verið af skattrannsóknarstjóra, sem var nokkuð undir lögbundnu lágmarki fésektarrefsingar, og var kröfu kæranda um lækkun því hafnað.

Ár 2022, miðvikudaginn 26. október, er tekið fyrir mál nr. 108/2022; kæra A og X ehf., dags. 4. ágúst 2022, vegna ákvörðunar um sekt vegna brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 4. ágúst 2022, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar ákvörðun skattrannsóknarstjóra, dags. 27. maí 2022, um að gera kærendum sameiginlega og óskipt, in solidum, sekt að fjárhæð 8.300.000 kr. fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin í starfsemi X ehf. rekstrarárið 2020. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra verði felld úr gildi eða að sektarfjárhæð verði lækkuð verulega. Kæran er sett fram í nafni beggja kærenda, en ljóst er að kæruefnið varðar háttsemi kæranda, A, sem fyrirsvarsmanns X ehf. vegna meintra brota á skattalögum í starfsemi félagsins. Tekur framsetning í úrskurði þessum mið af því og þegar vísað er til kæranda hér eftir er átt við kæranda, A.

II.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 30. apríl 2021 rannsókn á bókhaldi og  virðisaukaskattsskilum X ehf. rekstrarárið 2020, en kærandi var á þeim tíma stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Vegna rannsóknarinnar kom kærandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra dagana 12. maí 2021 og 26. október 2021. Rannsókninni lauk með skýrslu skattrannsóknarstjóra, dags. 29. nóvember 2021.

Í skýrslu sinni, dags. 29. desember 2020, gerði skattrannsóknarstjóri grein fyrir niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum X ehf. rekstrarárið 2020. Kom þar fram að staðin hefðu verið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna allra uppgjörstímabila ársins 2020. Við skýrslutöku voru skýrslurnar lagðar fyrir kæranda og hann beðinn að staðfesta að þær væru vegna X ehf. Kvaðst kærandi ekki geta staðfest það en hann drægi það ekki í efa. Sagði kærandi aðspurður að bókari X ehf. hefði séð um gerð þeirra og skil og að þær hefðu byggt á gögnum sem kærandi hefði afhent bókaranum.

Rakti skattrannsóknarstjóri að samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna allra uppgjörstímabila virðisaukaskatts árið 2020 næmi skattskyld velta 88.302.207 kr. og útskattur 21.192.530 kr. Samkvæmt fyrirliggjandi sölureikningum félagsins fyrir árið 2020 hefði sala hins vegar numið 159.897.514 kr., þar af skattskyld velta 128.949.608 kr. og útskattur 30.947.906 kr. Væri því ljóst að skattskyld velta og útskattur X ehf. væri umtalsvert hærri samkvæmt sölureikningum en samkvæmt virðisaukaskattsskilum. Kom fram í skýrslunni að umræddir sölureikningar hefðu verið lagðir fyrir kæranda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra og kvaðst kærandi ekki geta svarað því hvort hann kannaðist við þá. Þegar kærandi var spurður að því hvort sölureikningarnir hefðu fengist greiddir að fullu sagði kærandi að R ehf. skuldaði X ehf. yfir 30 milljónir króna og að fleiri aðilar skulduðu félaginu. Í tilefni af þessum viðbárum kæranda tók skattrannsóknarstjóri fram í skýrslunni að samkvæmt upplýsingum úr bókhaldi X ehf. væru allir útgefnir sölureikningar ársins 2020 að fullu greiddir og að innborganir á bankareikninga félagsins staðfestu það. Tók skattrannsóknarstjóri fram að ekki væri ástæða til að leggja mat á ætlaðan undandrátt vegna vöntunar sölureikninga.

Var tekið fram að staðið hefði verið skil á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna rekstrarársins 2020 fimm mánuðum eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst. Við skýrslutöku var skýrsla þessi lögð fyrir kæranda og hann spurður hvort hann kannaðist við hana. Svaraði kærandi því til að það væri erfitt að segja en hann hefði verið óvinnufær vegna veikinda í þrjá mánuði af síðustu fimm. Kvaðst kærandi ekki geta svarað til um á hverju skýrslan byggðist. Taldi skattrannsóknarstjóri ekki ástæðu til að gera athugasemd við skattskylda veltu og innskatt samkvæmt innsendri leiðréttingarskýrslu.

III.

Með bréfi, dags. 3. maí 2022, tilkynnti skattrannsóknarstjóri kæranda um fyrirhugaða ákvörðun um álagningu sektar á hendur honum vegna ætlaðra brota á skattalögum í rekstri X ehf. Tilnefndur verjandi kæranda kom bréflega á framfæri athugasemdum við sektaráform skattrannsóknarstjóra 17. maí 2022 þar sem gerð var sú krafa að fallið yrði frá þeim áformum að sekta kæranda en til vara að sektarfjárhæð yrði lækkuð til muna frá því sem skattrannsóknarstjóri hefði boðað.

Með bréfi, dags. 27. maí 2022, ákvarðaði skattrannsóknarstjóri kæranda sekt að fjárhæð 8.300.000 kr. með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Með vísan til 8. mgr. 40. gr. sömu laga og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 362/2011, þótti skattrannsóknarstjóra rétt að gera X ehf. að greiða greinda sekt í einu lagi og óskipt, in solidum, með kæranda.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra voru málavextir raktir og gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknarskýrslu embættisins. Í því sambandi var tiltekið að rannsóknin hefði leitt í ljós að staðin hefðu verið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum í rekstri X ehf. Hefði skattskyld velta og útskattur verið vantalinn á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2020. Þá hefðu skattskyld velta og útskattur verið oftalin vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar og nóvember-desember 2020. Væri innskattur X ehf. oftalinn á virðisaukaskattsskýrslum félagsins vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl og júlí-ágúst 2020. Þá væri mögulegur innskattur samkvæmt rannsókn hærri en innskattur samkvæmt skýrslum vegna uppgjörstímabilanna maí-júní, september-október og nóvember-desember 2020. Hefði skattskyld velta samkvæmt þessu verið oftalin um 1.771.928 kr. (útskattur 425.263 kr.) janúar-febrúar 2020 og um 1.024.392 kr. (útskattur 245.855 kr.) nóvember-desember 2020. Þá hefði oftalinn innskattur numið 9.725 kr. janúar-febrúar 2020, 52.733 kr. mars-apríl 2020 og 54.800 kr. júlí-ágúst 2020 en mögulegur innskattur hefði numið 244.794 kr. maí-júní 2020, 77.432 kr. september-október 2020 og 1.442.279 kr. nóvember-desember 2020. Vanframtalin skattskyld velta hefði numið 2.109.637 kr. (útskattur 506.132 kr.) mars-apríl 2020, 20.861.958 kr. (útskattur 5.006.870 kr.) maí-júní 2020, 10.153.030 kr. (útskattur 2.436.728 kr.) júlí-ágúst 2020 og 8.086.262 kr. (útskattur 1.940.703 kr.) september-október 2020. Samkvæmt þessu hefði vanframtalinn útskattur numið 506.312 kr. uppgjörstímabilið mars-apríl 2020, 4.762.076 kr. maí-júní 2020, 2.436.728 kr. júlí-ágúst 2020, 1.863.271 kr. september-október 2020 og -1.442.279 kr. nóvember-desember 2020, eða samtals 8.126.108 kr. öll uppgjörstímabilin. Áréttaði skattrannsóknarstjóri þær niðurstöður rannsóknarinnar að kærandi hefði alfarið haft með höndum stjórn X ehf. á rannsóknartímabilinu og að kærandi hefði komið því til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast yrði séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu gáleysi, að staðin væru skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum félagsins greind uppgjörstímabil árið 2020. Taldi skattrannsóknarstjóri ekkert hafa komið fram sem gæfi tilefni að vefengja niðurstöður rannsóknar embættisins. Taldi skattrannsóknarstjóri háttsemi kæranda brjóta í bága við 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tölul. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, og varða kæranda sekt samkvæmt 1. mgr. 41. gr. sömu laga.

Í niðurlagi ákvörðunarinnar tók skattrannsóknarstjóri fram að á grundvelli 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 teldi skattrannsóknarstjóri sér heimilt að víkja frá lögbundnu lágmarki sektarrefsingar þar sem kærandi hefði staðið skil á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts við rannsóknina sem hefði verið í samræmi við niðurstöður hennar.

IV.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 4. ágúst 2022. Er tekið fram í kærunni að málið varði aðeins meintar rangar virðisaukaskattsskýrslur en ekki vanskil af hálfu kæranda. Ástæður þess að skýrsluskilum var háttað með þeim hætti sem rakinn er í ákvörðun skattrannsóknarstjóra megi rekja til viðskipta við félagið R ehf., en kærandi hafi starfað fyrir félagið sem verktaki um árabil. Raunveruleikinn sé sá að R ehf. hafi í gegnum tíðina ítrekað efast um réttmæti krafna X ehf. á hendur sér og dregið að greiða þær, en gögn málsins beri með sér að félögin hafi tekist á um fjárhæð krafna. Sjáist það best á því að stór hluti af kröfum X ehf. á hendur R ehf. sé í innheimtu hjá innheimtufyrirtækjum. Þannig hafi ekki verið ljóst á hverjum tímapunkti hver staðan hafi nákvæmlega verið eða hver hin endanlega fjárhæð samþykktra reikninga kæmi til með að vera. Sé ekki ástæða til að lýsa í smáatriðum um hvað þessar deilur hafi snúist um eða hvernig þær hafi verið leiddar til lykta, en nægilegt sé að benda á stöðuna milli X ehf. og R ehf. í lok ársins 2020 þar sem R ehf. hafi samkvæmt bókhaldi X ehf. skuldað síðarnefnda félaginu 38.726.643 kr. Svari sú fjárhæð til ríflega 80% af þeirri veltu sem síðar hafi verið leiðrétt með virðisaukaskattsskýrslum í framtalsskilum. Hafi raunstaðan því ekki verið óumdeild. Óvissa hafi því verið um endanlegan virðisaukaskatt á nánar tilgreindum uppgjörstímabilum virðisaukaskatts. Er tekið fram að það að gefa út kreditreikning hafi ekki verið raunhæft þar sem hætt væri að litið yrði á slíkt sem eftirgjöf á kröfum X ehf. á hendur R ehf. sem hefði leitt til tjóns fyrir X ehf. Þessu til stuðnings megi einnig benda á að á tilteknum uppgjörstímabilum hafi velta verið oftalin sem hafi verið vegna þeirrar óvissu sem uppi hafi verið um stöðuna milli félaganna.

Kærandi hafi verið meðvitaður um að þegar kæmi að skilum á endanlegu framtali yrði leiðréttingarskýrslu skilað, enda myndi staðan milli félaganna þá liggja fyrir. Þá hefði legið fyrir að R ehf. myndi skila inn gögnum, framtali og verktakamiðum vegna viðskipta félaganna. Standist engan veginn að brot hafi verið drýgð til hagsbóta kæranda, enda hafi alltaf legið fyrir að réttum gögnum yrði skilað árið eftir við uppgjör. Síðan hafi leiðréttingarskýrslu verið skilað og hafi hún verið í samræmi við niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra. Ljóst sé að kærandi hafi haft frumkvæði að skilum leiðréttingarskýrslu og fráleitt að ekki hafi á einhverjum tímapunkti staðið til að skýrslunni yrði skilað, enda alltaf legið fyrir að koma myndi að skuldadögum þegar R ehf. myndi skila sínum gögnum til Skattsins. Við skil skýrslunnar hafi kærandi að eigin frumkvæði lagt fyrir Skattinn hver endanleg staða ársins 2020 væri og hver skuld við ríkissjóð væri.

Er því haldið fram í kærunni að meint brot verði að skoðast í ljósi 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og rótgróinnar skattframkvæmdar. Verði að játa skattaðilum svigrúm til að skila nýjum og leiðréttum virðisaukaskattsskýrslum gegn því að sæta allt að 10% álagi auk dráttarvaxta á vangreiddan virðisaukaskatt. Ekki verði annað séð en að skattyfirvöld vilji setja það fordæmi til framtíðar að skattaðilum, sem kjósi að leiðrétta virðisaukaskatt sinn við framtalsskil, verði ekki einungis gert að sæta beitingu 10% álags og dráttarvaxta heldur skuli þeir í ofanálag vera sektaðir. Gert hafi verið samkomulag um greiðslur við Skattinn og hafi kærandi staðið í þeirri trú að þá væri málinu lokið. Feli sektarákvörðun í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sé venjan sú að almennt sé nóg að leiðrétta skattskil og gera samkomulag um greiðslur við Skattinn sé það að mati kæranda brot á jafnræðisreglunni að víkja frá þeirri venju með auknum refsingum. Sé þess sérstaklega óskað að yfirskattanefnd rannsaki það sérstaklega með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvort aðilar í sambærilegri stöðu og kærandi hafi verið látnir sæta slíkum refsingum. Sé þar átt við aðila sem hafi að eigin frumkvæði leiðrétt virðisaukaskattsskýrslur innan lögmæltra tímamarka fyrir undangengið skattár og svo í kjölfarið gert samkomulag um greiðslur við Skattinn.

Í niðurlagi kæru kæranda til yfirskattanefndar er því haldið fram að sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra sé ekki í samræmi við fordæmi og stangist á við meðalhófsreglu. Kærandi hafi í besta falli ekki annað sér til sakar unnið en „að hafa tímabundið skilað „röngum“ virðisaukaskattsskýrslum og það vegna raunverulegrar óvissu um raunstöðuna“, svo sem segir í kærunni. Enginn ásetningur hafi staðið til að valda ríkissjóði tjóni.

V.

Með bréfi, dags. 19. september 2022, hefur skattrannsóknarstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða sektarákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattrannsóknarstjóra.

Með tölvupósti 20. september 2022 hefur umboðsmaður kæranda ítrekað þau sjónarmið sem sett eru fram í kæru til yfirskattanefndar.

VI.

Kæruefni málsins er sú ákvörðun skattrannsóknarstjóra, dags. 27. maí 2022, að gera kæranda og X ehf. í einu lagi og óskipt (in solidum) sekt að fjárhæð 8.300.000 kr. fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin í rekstri X ehf. vegna rekstrarársins 2020. Byggði ákvörðun skattrannsóknarstjóra á því að kærandi hefði sem fyrirsvarsmaður X ehf. staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum greint ár þannig að skattskyld velta hefði verið vantalin um samtals 41.210.887 kr. uppgjörstímabilin mars-apríl til september-október 2020 en oftalin um samtals 2.796.320 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar og nóvember-desember sama ár. Hefði útskattur samkvæmt þessu verið vantalinn um 9.890.613 kr. uppgjörstímabilin mars-apríl til september-október 2020 en oftalinn um samtals 671.118 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar og nóvember-desember 2020. Loks hefði mögulegur innskattur numið 1.764.505 kr. uppgjörstímabilin maí-júní, september-október og nóvember-desember 2020 en verið oftalinn um samtals 117.258 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar, mars-apríl og júlí-ágúst 2020. Taldi skattrannsóknarstjóri háttsemi kæranda brjóta í bága við 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tölul. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, og ákvarðaði kæranda og félaginu sekt samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988. Af hálfu kærenda er þess krafist að sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra verði felld úr gildi eða að sektarfjárhæð verði lækkuð verulega. Í kafla IV hér að framan er gerð grein fyrir þeim málsástæðum sem kærendur byggja á til stuðnings kröfum sínum.

Í kæru til yfirskattanefndar er því borið við að málið varði aðeins rangar virðisaukaskattsskýrslur en ekki vanskil af hálfu kæranda og að ástæður þess að skýrslur hafi verið rangar megi rekja til viðskipta við félagið R ehf., en óvissa hafi verið um endanlegan virðisaukaskatt á nánar tilgreindum uppgjörstímabilum virðisaukaskatts vegna ágreinings um fjárhæðir sölureikninga X ehf. á hendur nefndu félagi. Vegna athugasemda umboðsmanns kæranda um að staðin hafi verið skil á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts X ehf. fyrir árið 2020 skal tekið fram að ákvörðun skattrannsóknarstjóra um sekt byggði á því að sú háttsemi kæranda að standa skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum X ehf. varðaði kæranda sem fyrirsvarsmann félagsins sekt í samræmi við ákvæði 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins segir að skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendi hann eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta skuli hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 42/1995 er fjallað almennt um fullframningu athafnabrota samkvæmt lögunum, en með lögum þessum var breytt refsiákvæðum nokkurra skattalaga, þar á meðal laga nr. 50/1988. Þar segir m.a.:

„Fullframning athafnabrota er við það miðuð að skattskyldur maður hafi skýrt rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um tekjuskatt hans og eignarskatt. Í þessu felst að sök hins brotlega þarf að ná til þess að koma fram rangri álagningu sér í hag og baka þannig hinu opinbera tjón. Hins vegar er það ekki skilyrði laganna að tjón hafi hlotist af háttseminni. Með þessu fæst betri refsivernd fyrir ríkissjóð og aðra gjaldkrefjendur en ef tjón væri áskilið í einstökum tilfellum. Sama tilhögun er í öðrum ákvæðum frumvarpsins um athafnabrot að breyttu breytanda.“

Fram kemur í 7. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 að tilraun til brota eða hlutdeild í brotum á lögunum sé refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum sömu lagagreinar.

Í tilviki kæranda verður að byggja á því að kærandi hafi staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum öll uppgjörstímabil ársins 2020. Er þetta í raun viðurkennt af hálfu kæranda, en í kæru til yfirskattanefndar kemur fram það viðhorf kæranda að hann hafi í besta falli ekki unnið sér annað til saka en að hafa „tímabundið skilað röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna raunverulegrar óvissu um raunstöðuna“, svo sem segir í kærunni. Hefur kærandi greint frá því að virðisaukaskattsskilum félagsins hafi verið svo háttað þar sem kaupandi þjónustunnar hafi sem fyrr segir verið ósáttur við fjárhæðir sölureikninga félagsins og að háar fjárhæðir hafi verið útistandandi vegna þessa. Vegna þessara viðbára kæranda skal tekið fram að kæranda bar að standa skil á réttum virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti í samræmi við útgefna sölureikninga, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Þá er rétt að geta þess að í skýrslu skattrannsóknarstjóra kom fram að samkvæmt upplýsingum úr bókhaldi X ehf. væru allir útgefnir sölureikningar ársins 2020 að fullu greiddir og staðfestu innborganir á bankareikninga félagsins það ár. Tekið skal fram að kærandi hófst ekki handa við að leiðrétta virðisaukaskattsskil X ehf. fyrr en um fimm mánuðum eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst eða 2. október 2021 þegar leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts X ehf. vegna rekstrarársins 2020 var skilað. Verður ekki talið að svo síðbúin skil á leiðréttingarskýrslu löngu eftir að skattrannsóknarstjóri hófst handa við að rannsaka bókhald og virðisaukaskattsskil félagsins breyti neinu um refsinæmi verknaðar. Þá skal þess getið vegna athugasemda kæranda um greiðslusamkomulag við Skattinn að slíkt samkomulag felur í sér áætlun um greiðsludreifingu sem ætlað er að auðvelda skattaðilum að standa skil á vangoldnum skatti en felur ekki í sér lausn frá viðurlögum vegna brota á skattalögum, svo skattrannsóknarstjóri kemur inn á í ákvörðun sinni.

Með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins telst hafa verið leitt í ljós að virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna rekstrarársins 2020 hafi verið rangar og að ekki voru gerð skil á virðisaukaskatti félagsins í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Nam fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts rekstrarárið 2020 samkvæmt framansögðu samtals 7.572.248 kr. Kærandi var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem málið varðar. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra staðfesti kærandi að hafa stýrt rekstri félagsins. Kærandi bar því ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og að rétt skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins þykir bera að fallast á ályktun skattrannsóknarstjóra um að kærandi hafi með saknæmum hætti vanrækt þessar skyldur sínar umrædd uppgjörstímabil árið 2020. Var skattrannsóknarstjóra því rétt að ákvarða kæranda sekt vegna brota á greindum lögum í rekstri X ehf.

Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar þótti skattrannsóknarstjóra ástæða til að líta til þess að við rannsóknina hefðu verið staðin skil á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna þess tímabils sem um ræðir sem hefði verið í samræmi við tölulegar niðurstöður rannsóknar embættisins. Taldi skattrannsóknarstjóri því heimilt á grundvelli 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að víkja frá sektarlágmarki 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og ákvarða fjárhæð sektar nokkuð undir lögbundnu lágmarki sektarrefsingar. Varakrafa kæranda um lækkun fjársektar er byggð því að ákvörðuð sekt stangist á við meðalhófsreglu. Þá er vísað til þess að kærandi hafi að eigin frumkvæði staðið skil á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts og að samkomulag hafi verið gert við Skattinn um greiðslu vangoldinna skatta. Þegar litið er til ákvarðaðrar sektarfjárhæðar, sem er eins og fram er komið nokkuð undir lögbundnu lágmarki fésektarrefsingar samkvæmt lögum nr. 50/1988, þykir ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að hrófla við ákvörðun skattrannsóknarstjóra um fjárhæð sektar. Er kröfum kærenda í málinu því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað. 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja