Úrskurður yfirskattanefndar

  • Veitingastyrkur

Úrskurður nr. 127/2022

Lög nr. 8/2022, 4. gr. 2. tölul.  

Kærandi var einkahlutafélag um rekstur veitingastaðar. Í máli þessu vegna umsóknar kæranda um veitingastyrk var hafnað kröfu félagsins sem laut að því að við mat á tekjufalli bæri að miða við tekjur félagsins í janúar 2020 í stað janúar 2019. Kom fram að almennt yrði ekki talið að breyting á eignarhaldi rekstraraðila gæti talist til sérstakra aðstæðna í skilningi laga. Með vísan til þess og þar sem ekki varð séð að almenna viðmiðunartímabilið gæfi óglögga mynd af tekjufalli kæranda var kröfum félagsins hafnað.

Ár 2022, miðvikudaginn 26. október, er tekið fyrir mál nr. 107/2022; kæra A ehf., dags. 8. ágúst 2022, vegna ákvörðunar um veitingastyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 8. ágúst 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 11. maí 2022, þar sem hafnað var umsókn kæranda, mótt. 31. mars 2022, um veitingastyrk vegna janúarmánaðar 2022 samkvæmt lögum nr. 8/2022, um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma. Ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 12. apríl 2022, og tölvupóst kæranda 3. maí 2022, en umsókn félagsins laut að veitingastyrk vegna janúar 2022. Byggðist höfnun ríkisskattstjóra á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022 um a.m.k. 20% tekjufall vegna takmörkunar á opnunartíma sem félagið hefði sætt vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Rakti ríkisskattstjóri fyrrgreint ákvæði og benti á að samkvæmt því bæri við mat á tekjufalli að bera tekjur rekstraraðila þann mánuð sem umsókn varðaði við tekjur í sama mánuði á árinu 2019. Einungis við sérstakar aðstæður mætti miða við annað tímabil og skyldi þá að jafnaði miða við tekjur í sama almanaksmánuði á árinu 2018. Í umsókn kæranda væri miðað við tekjur í janúar 2020 og í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 3. maí 2022, væri gefin sú skýring á þeirri viðmiðun að nýir rekstraraðilar hefðu tekið við rekstrinum í ágúst 2019 og hefði velta aukist um rúmlega 20% fyrsta hálfa árið eftir það. Væri janúar 2020 fyrsti janúarmánuður nýrra rekstraraðila og því gæfi sá mánuður betri mynd af tekjufallinu. Í tilefni af þessum skýringum tók ríkisskattstjóri fram í hinni kærðu ákvörðun að félagið hefði verið stofnað á árinu 1997 og samkvæmt skattframtölum og virðisaukaskattsskilum hefði félagið verið í samfelldri starfsemi frá stofnun þess. Heimild til að miða við annað tímabil en sama mánuð árið 2019 væri undantekning frá meginreglu og yrði ekki fallist á að aðstæður félagsins féllu undir sérstakar aðstæður sem vísað væri til í 2. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022. Umsókn kæranda um veitingastyrk sem byggði á viðmiðun við tekjur í janúar 2020 væri því hafnað þar sem félagið uppfyllti ekki skilyrði fyrir a.m.k. 20% tekjufalli fyrir janúar 2022.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt og að miðað verði við janúar 2020 sem viðmiðunarmánuð tekjufalls við ákvörðun veitingastyrks. Er tekið fram að ekki sé hægt að miða við janúar 2021 þar sem kæranda hafi verið gert að hafa lokað á þeim tíma. Kærandi hafi bent ríkisskattstjóra á að janúar 2020 hafi verið síðasti eðlilegi janúarmánuðurinn í rekstrinum áður en Covid-19 faraldurinn hafi skollið á. Sé samdráttur tekna 34% ef miðað sé við janúar 2020 en aðeins 18% ef miðað sé við sama mánuð árið 2019. Rekstaraðilar kæranda hafi keypt reksturinn 1. ágúst 2019 og hafi veltan aukist fyrsta hálfa árið um rúmlega 20%. Sé því eðlilegt að miða við janúar 2020 sem sé fyrsti janúarmánuður nýrra rekstraraðila með reksturinn. Þá sé ekki tekið tillit til verðbólgu þegar tekjufallið sé metið og því eðlilegt að notað sé viðmiðunartímabil sem sé nær okkur í tíma. Með kærunni fylgja færslulistar úr bókhaldi kæranda fyrir janúar 2020 og janúar 2022.

II.

Með bréfi, dags. 23. ágúst 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. ágúst 2022, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 8/2022, um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. desember 2021 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að stuðla að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli sökum takmarkana á opnunartíma veitingastaða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa takmarkananna gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 8/2022 er fjallað um greiðslu styrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni.

Samkvæmt 2. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022 er skilyrði fyrir greiðslu styrks að tekjur rekstraraðila af veitingastað eða veitingastöðum sem sættu takmörkun samkvæmt 1. tölul. sömu lagagreinar í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar hafi verið a.m.k. 20% lægri en í sama almanaksmánuði árið 2019 og tekjufallið megi rekja til takmörkunar á opnunartíma samkvæmt 1. tölul. Hafi rekstraraðilinn fengið rekstrarleyfi vegna veitingastaðar eftir upphaf sama almanaksmánaðar árið 2019 skal miðað við meðaltekjur hans af veitingastaðnum á jafn mörgum dögum og séu í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar á tímabilinu 1. september til 30. nóvember 2021, eða frá þeim degi sem hann fékk rekstrarleyfi til 30. nóvember 2021 ef hann fékk rekstrarleyfi eftir 31. ágúst 2021. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil samkvæmt 1. og 2. málsl. ákvæðisins. Að jafnaði skuli þá miðað við tekjur rekstraraðilans af veitingastöðunum í sama almanaksmánuði 2018.

Í athugasemdum við ákvæði 2. tölul. 4. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 8/2022, sbr. þskj. 332 á 152. löggjafarþingi 2021-2022, er vikið að síðastnefndu ákvæði 3. málsl. töluliðarins um að heimilt sé við sérstakar aðstæður að nota annað tímabil til viðmiðunar við ákvörðun styrks en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-2. málsl. ákvæðisins. Er tekið fram að í sérstökum tilvikum kunni almennt viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-2. málsl. 1. tölul. 4. gr. að gefa mjög skakka mynd af tekjufalli rekstraraðila. Það geti t.d. átt við hafi reksturinn legið niðri stóran hluta almenna viðmiðunartímabilsins og tekjurnar því verið mun lægri en þær væru alla jafna. Við þær aðstæður megi, ef rekstraraðili óskar eftir því og sýnir fram á að almenna viðmiðunartímabilið gefi mjög skakka mynd af tekjum hans alla jafna, notast við annað viðmiðunartímabil. Að jafnaði skuli þá miðað við sama almanaksmánuð 2018. Sé sýnt fram á að sá mánuður gefi einnig mjög skakka mynd af tekjum megi notast við annað tímabil sem rekstraraðili tilgreinir. Tekið er fram að gera verði nokkuð strangar kröfur til þess að rekstraraðili miði við tímabil sem endurspeglar tekjur hans alla jafna en að hann velji ekki úr tímabil þegar tekjur voru óvenju miklar. Almennt megi ætla að meðaltal tekna yfir löng tímabil gefi betri mynd af tekjum heldur en tekjur á stuttum tímabilum.

Í umsókn kæranda um veitingastyrk vegna janúar 2022 var tekjufall í rekstri tilgreint 5.356.227 kr. eða 33,7%. Kom fram í greinargerð fyrir völdu tímabili að nýir rekstraraðilar hefðu keypt rekstur kæranda í ágúst 2019. Í kjölfar þess hefði velta félagsins aukist vegna aukinnar veitingasölu og teldi kærandi þess vegna að samanburður við janúar 2020 lýsti tekjufalli kæranda betur en ef miðað væri við janúar 2019. Eru þær skýringar áréttaðar í kæru til yfirskattanefndar, sbr. kafla I hér að framan. Samkvæmt því sem fram er komið af hálfu kæranda námu tekjur kæranda af rekstri veitingastaðarins í umsóknarmánuði alls 10.537.604 kr. en 12.903.125 kr. í janúar 2019 og 15.893.831 kr. í janúar 2020.

Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum 2. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022 er það meginregla laganna að byggja mat á tekjufalli á samanburði við tekjur rekstraraðila í sama almanaksmánuði árið 2019 og umsókn rekstraraðila varðar, sbr. hér að framan. Jafnvel í þeim tilvikum þegar heimilt er að nota annað tímabil til viðmiðunar vegna sérstakra aðstæðna skal að jafnaði miðað við tekjur í sama almanaksmánuði árið 2018, sbr. ákvæði 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. laganna. Þegar um er að ræða rekstraraðila sem fengið hefur rekstrarleyfi vegna veitingastaðar eftir upphaf sama almanaksmánaðar á árinu 2019 og umsókn varðar skal hins vegar miðað við meðaltekjur af veitingastaðnum yfir lengra tímabil, sbr. 2. málsl. ákvæðisins. Af hálfu kæranda er komið fram að taka þurfi tillit til þess í tilviki félagsins að nýir eigendur hafi komið að rekstrinum í ágúst 2019 og hafi velta félagsins aukist eftir það. Af þessu tilefni skal tekið fram að almennt verður ekki talið að breyting á eignarhaldi geti talist til sérstakra aðstæðna í skilningi 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 8/2022, sbr. og fyrrgreindar athugasemdir í lögskýringargögnum þar sem í dæmaskyni er vísað til þess að rekstur liggi niðri um stóran hluta viðmiðunartímabils. Ekki verður séð að um neitt slíkt sé að ræða í tilviki kæranda eða að almenna viðmiðunartímabilið samkvæmt lögum nr. 8/2022 gefi óglögga mynd af tekjufalli kæranda.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja