Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur

Úrskurður nr. 128/2022

Lög nr. 14/2004, 4. gr., 5. gr.  

Við ákvörðun erfðafjárskatts var deilt um það hvort sýnt hefði verið fram á skuld arfleifanda við son sinn og einkaerfingja sem koma ætti til frádráttar stofni til erfðafjárskatts. Mestur hluti þeirrar skuldar var til kominn vegna framkvæmda við einbýlishús í eigu arfleifanda á árunum 2018 til 2020, en arfleifandi dvaldi þá á hjúkrunarheimili vegna veikinda og var sonur arfleifanda með skráð lögheimili í húsinu. Yfirskattanefnd taldi að eins og atvikum væri farið stæði upp á erfingja að sýna fram á að arfleifandi hefði skuldbundið sig til að greiða kostnaðinn og að um ógreidda skuld við erfingja hafi verið að ræða. Var bent á að í skattframtölum arfleifanda árin 2019 og 2020 kæmi ekkert fram um skuld hans við erfingja. Var erfinginn ekki talinn hafa sýnt fram á að umræddur kostnaður uppfyllti skilyrði laga um erfðafjárskatt að teljast skuld arfleifanda sem koma skyldi til frádráttar við ákvörðun erfðafjárskatts.

Ár 2022, miðvikudaginn 26. október, er tekið fyrir mál nr. 85/2022; kæra A, dags. 8. júní 2022, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 8. júní 2022, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar ákvörðun sýslumanns, dags. 9. maí 2022, um erfðafjárskatt kæranda vegna arfs úr dánarbúi B, sem lést ... Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og að tekið verði tillit til skuldar dánarbúsins við kæranda að fjárhæð 11.644.763 kr. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að B lést …, en hann hafði setið í óskiptu búi eftir eiginkonu sína. Kærandi, sem er sonur þeirra hjóna og einkaerfingi, hafði dánarbúið til einkaskipta og stóð skil á erfðafjárskýrslu til sýslumanns 27. desember 2021. Samkvæmt erfðafjárskýrslunni voru eignir dánarbúsins fasteignin G að fasteignamati 80.600.000 kr., ökutæki sem metið var á 600.000 kr., innbú að verðmæti 50.000 kr., innstæður í bönkum 3.521.284 kr., verðbréf 116.037 kr. og eignarhlutur í hlutabréfasjóði 703.900 kr. eða alls 85.591.220 kr. Til frádráttar var tiltekinn útfararkostnaður 1.251.659 kr. og skuld við kæranda að fjárhæð 11.644.763 kr. Samtals var hrein eign til skipta þannig tilgreind 72.694.798 kr., skattskyldur arfur 71.194.798 kr. og erfðafjárskattur 7.119.480 kr. Erfðafjárskýrslunni fylgdi greinargerð, dags. 9. desember 2021, um útlagðan kostnað og tilurð skuldar dánarbúsins við kæranda. Þar kom fram að arfleifandi hefði fengið heilablóðfall á árinu 2016. Í kjölfar þess og eftir endurhæfingu hefði hann verið greindur óhæfur til að sjá um sig sjálfur. Hefði hann fengið inni á hjúkrunarheimili árið 2017 og dvalið þar fram að dánardegi. Arfleifandi hefði verið ófær um að sjá um daglegar athafnir sínar, eignir og annað, svo sem fjármál og greiðslu reikninga í heimabanka, og hefði kærandi séð um að banki annaðist greiðslu reikninga hans, enda hefði kærandi ekki haft til þess umboð. Hefði kærandi lagt út fyrir öðrum vöru- og þjónustukaupum kæranda, tekið þau saman og fengið endurgreitt að hluta. Það hefði verið ákvörðun arfleiðanda og kæranda að kærandi héldi utan um allt sem hann legði út fyrir arfleiðanda, m.a. vegna kaupa á snyrtidóti og fatnaði, smurningar bifreiðar og greiðslu bifreiðagjalds auk kostnaðar við framkvæmdir við G. Hefði kærandi gætt þess að bera undir arfleifanda allar stórar framkvæmdir, gert kostnaðaráætlun og fráviksgreiningu á raunkostnaði og sýnt honum. Arfleifandi hefði vonast til að flytja aftur í G og hefði það verið samkomulag hans og kæranda að nýta tímann á meðan enginn byggi í húsinu til að fara í framkvæmdir. Hefði verið farið í miklar framkvæmdir á tímabilinu 2017 til 2020 á eldhúsi og tækjum, stofu, svefnherbergisálmu, bílskúr, ytra byrði hússins og garði. Ennfremur hefði verið ráðist í framkvæmdir á sólskála rétt fyrir óvænt andlát arfleifanda. Skuld við kæranda hefði myndast á löngum tíma, en greitt hefði verið inn á hana í tvígang, annars vegar 443.000 kr. 20. febrúar 2018 og hins vegar 232.000 kr. 27. apríl 2018. Í greinargerðinni var nánar fjallað um framkvæmdir við G og gerð grein fyrir öðrum útlögðum kostnaði kæranda fyrir arfleifanda sem óuppgerður hefði verið á dánardegi og fylgdu m.a. ýmsir reikningar fyrir þeim kostnaði. Þá fylgdu ljósrit af yfirliti yfir beiðnir til ríkisskattstjóra um endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna reikninga í nafni kæranda vegna vinnuliðar framkvæmda við G. Kom fram að endurgreiðslur hefðu verið greiddar inn á reikning kæranda þó svo að hann hefði ekki verið eigandi eignarinnar.

Með bréfi sýslumanns, dags. 11. febrúar 2022, tilkynnti hann kæranda með vísan til 7. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, að hann teldi að ágallar væru á innsendri erfðafjárskýrslu og var kæranda falið að bæta úr nánar tilgreindum atriðum. Þar á meðal rakti sýslumaður að samkvæmt 5. gr. laga nr. 14/2004 væri m.a. heimilt að telja til frádráttar skattstofni erfðafjárskatts skuldir arfleifanda, miðað við stöðuna á dánardegi. Hér þyrfti að vera um að ræða skuldir sem arfleifandi hefði sjálfur stofnað til í lifanda lífi. Í erfðafjárskýrslu væri tilgreind skuld búsins við kæranda að fjárhæð 11.644.763 kr. Að mati sýslumanns væru þau gögn sem hefðu verið lögð fram vegna þessa liðar ekki bein sönnun um að arfleifandi hefði við andlát verið í skuld við kæranda. Þá hefðu engin gögn verið lögð fram sem staðfestu að arfleifandi hefði stofnað til skuldbindinga vegna útgjaldanna, svo sem skuldaviðurkenning. Væri það mat sýslumanns að ekki væri unnt að samþykkja frádrátt að fjárhæð 11.644.763 kr. á grundvelli einhliða skýringa kæranda á atvikum og tilurð skuldarinnar. Einnig rakti sýslumaður að ráða mætti af skattframtölum arfleiðanda að krafa á hendur kæranda hefði í upphafi árs 2020 verið 1.500.000 kr. en í upphafi árs 2019 hefði hún verið 3.000.000 kr. Væri krafan ekki talin meðal eigna dánarbúsins á dánardegi í erfðafjárskýrslu. Þá yrði ekki hjá því litið að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hefði kærandi verið með skráð lögheimili að G frá hausti 2018 og hefði komið fram að arfleifandi hefði ekki átt tök á að búa í fasteign sinni frá árinu 2017 vegna veikinda. Með vísan til framangreinds þætti ekki útilokað að fyrirkomulag á greiðslu kostnaðar vegna endurbóta og framkvæmda á fasteigninni ætti sér aðrar skýringar en fram hefðu komið. Teldi sýslumaður því ekki unnt að fallast á framangreindan frádráttarlið í erfðafjárskýrslunni að fjárhæð 11.644.763 kr. Var kæranda veittur tveggja vikna frestur frá móttöku bréfsins til að koma að frekari gögnum, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004.

Með bréfi, dags. 7. apríl 2022, gerði kærandi frekari grein fyrir þeim atriðum sem bréf sýslumanns frá 11. febrúar 2022 beindist að. Vegna athugasemda sem lutu að eignum dánarbúsins tók kærandi fram að mistök hefðu valdið því að krafa á kæranda að fjárhæð 1.500.000 kr. í árslok 2019 var ekki eignfærð í erfðafjárskýrslu og óskaði hann eftir leiðréttingu á því. Þá greindi hann frá því að arfleifandi hefði fengið alvarlegt heilablóðfall í maí 2016 og vegna afleiðinga þess hefði hann fengið inni á hjúkrunarheimili í upphafi árs 2017. Vegna athugasemda í bréfi sýslumanns um skuldir og kostnað í erfðafjárskýrslu tók kærandi fram að hann teldi að fyrir lægju næg gögn í málinu til að sýna fram á skuldina og þar af leiðandi frádrátt frá skattstofni. Vísaði kærandi í dóm Landsréttar í máli nr. 663/2020 máli sínu til stuðnings.

Með bréfi, dags. 9. maí 2022, tilkynnti sýslumaður kæranda um ákvörðun erfðafjárskatts. Vegna skýringa í svarbréfi kæranda um frádrátt að fjárhæð 11.644.763 kr. vegna skuldar arfleifanda við kæranda gerði sýslumaður grein fyrir því mati sínu að dómur Landsréttar í máli nr. 663/2020 yrði ekki lagður til grundvallar í máli kæranda, enda væri þar ekki um sambærilegt álitamál að ræða. Þá hefðu ekki verið lögð fram gögn um að kærandi hefði gripið til aðgerða til að fá kröfur sínar á hendur dánarbúinu viðurkenndar og staðfestar fyrir héraðsdómi. Afstaða sýslumanns í bréfi, dags. 11. febrúar 2020, hefði byggst á því að ekki hefðu verið lögð fram gögn sem staðfestu að hinn látni hefði stofnað til skuldbindinga vegna útgjaldanna og gætu einhliða skýringar kæranda á atvikum og tilurð skuldarinnar einar og sér ekki leitt til þess að frádráttur frá skattstofni vegna þeirra yrði samþykktur. Væri afstaða sýslumanns í máli þessu í samræmi við meðferð sambærilegra mála hjá embættinu. Það væri því niðurstaða sýslumanns að eignir búsins á dánardegi hefðu verið fasteignir 80.600.000 kr., bifreið 600.000 kr., innbú 50.000 kr., bankainnstæður 3.521.283 kr., skuldabréf, verðbréf og útistandandi kröfur 1.616.037 kr. (að viðbættri kröfu á kæranda samkvæmt skattframtali árið 2020 að fjárhæð 1.500.000 kr.) og hlutabréf 703.900 kr. Eignir búsins næmu því samtals 87.091.220 kr. Skuldir búsins sem kæmu til frádráttar væru útfararkostnaður 1.251.659 kr. og hrein eign til skipta því 85.839.561 kr. Af þeirri fjárhæð væri óskattskyldur arfur 1.500.000 kr. en skattskyldur arfur 84.339.561 kr. Erfðafjárskattur yrði því 8.433.956 kr.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar. Í kærunni er tekið fram að forsendur fyrir ákvörðun sýslumanns séu þær að ekki hafi verið lögð fram gögn sem staðfesti að arfleifandi hafi stofnað til skuldbindinga vegna útgjalda sem í málinu greini og að einhliða skýringar erfingjans á atvikum og tilurð skuldarinnar gætu einar og sér ekki leitt til þess að sýslumaður samþykkti frádrátt frá skattstofni vegna þeirra. Þá hafi komið fram að afstaða sýslumanns væri í samræmi við meðferð sambærilegra mála hjá embættinu. Sé framangreindum forsendum sýslumanns mótmælt en kærandi hafi lagt fram gögn sem sýni fram á útlagðan kostnað kæranda sem hafi myndað skuld arfleifanda við hann. Þá hafi verið vísað til dóms Landsréttar í máli nr. 663/2020. Sýslumaður hafi ekki fjallað efnislega um þann dóm en afgreiði tilvísun til dómsins með þeirri athugasemd að málið fjalli ekki um sambærilegt álitamál.

Með bréfi, dags. 8. júlí 2022, hefur umboðsmaður kæranda lagt fram frekari rökstuðning vegna kærunnar. Í bréfinu er vísað til gagna sem lögð hafi verið fyrir sýslumann til sönnunar á útlögðum kostnaði, þar á meðal greinargerðar kæranda um tilurð skuldarinnar. Í greinargerðinni sé málsatvikum lýst og fylgi henni yfirlit og reikningar sem greiddir hafi verið af kæranda. Sé vísað til greinargerðarinnar sem órjúfanlegs hluta af kærunni. Sýslumaður hafi kallað eftir sýnishornum af reikningum og hafi þau verið afhent honum auk annarra gagna. Sýslumaður hafi ekki vefengt umrædd gögn. Hins vegar verði ráðið af ákvörðun sýslumanns og bréfaskiptum við hann að hann beiti þröngri túlkun við ákvörðun frádráttar frá skattstofni til erfðafjárskatts og vísi til skilyrða 5. gr. laga nr. 14/2004. Í því ákvæði komi fram að skuldir arfleifanda, þ.m.t. væntanleg opinber gjöld, skuli koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur sé reiknaður, svo og útfararkostnaður arfleifanda. Hafi sýslumaður ekki skýrt út með hvaða hætti skilyrði þessa ákvæðis séu ekki uppfyllt né hvaða skilyrða sé yfirhöfuð vísað til. Sé skýrt samkvæmt ákvæðinu að skuldir arfleifanda skuli koma til frádráttar og hafi kærandi skýrt tilurð skuldar arfleifanda við sig með ítarlegum hætti og stutt áþreifanlegum gögnum. Hafi kærandi haldið ítarlegt bókhald um kostnað sinn þar sem samkomulag hafi verið um að arfleifandi myndi endurgreiða honum kostnaðinn. Ljóst sé að sjaldgæft sé að svo skyldir og tengdir einstaklingar skjalfesti skuldir með lánssamningum eða skuldabréfum og samræmist það illa meðalhófi eða eðlilegri túlkun laga um erfðafjárskatt að nýta slíkt atriði gegn skattgreiðendum, enda þyrftu slík skilyrði að koma skýrt fram í lögum. Sýslumaður hafi vísað til þess að afstaða hans í málinu sé í samræmi við meðferð sambærilegra mála hjá embættinu og sé hann þar einn til frásagnar, enda liggi ekkert fyrir um þau mál. Loks hafi sýslumaður ekki fjallað efnislega um dóm Landsréttar í máli nr. 663/2020.

IV.

Með bréfi, dags. 18. ágúst 2022, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er rakið að í ákvörðun sýslumanns, dags. 9. maí 2022, komi fram afstaða embættisins til málsins, þ.e. það mat sýslumanns að kærandi hafi ekki sýnt fram á að arfleifandi hafi skuldað honum umrædda fjárhæð, 11.644.763 kr., við andlát sitt. Frádráttur með þessari fjárhæð sem færður hafi verið undir lið 6.3 í erfðafjárskýrslu, mótt. 27. desember 2021, uppfylli ekki skilyrði 5. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, um að vera skuld arfleifanda. Samkvæmt þeirri lagagrein beri erfingja að styðja frádráttarliði á erfðafjárskýrslu með gögnum til sönnunar á fjárhæðum og að hinn látni hafi stofnað til kostnaðarins í lifanda lífi. Af kærumálsgögnum og greinargerð kæranda megi ráða að engin gögn séu til um að kærandi hafi átt umrædda kröfu á hendur arfleifanda eða að hann hafi skuldbundið sig til að greiða umrædd útgjöld. Aðilum hafi verið í lófa lagið að ganga frá slíkum samningi eða yfirlýsingu áður en stofnað var til svo kostnaðarsamra framkvæmda hafi kærandi ekki haft í huga að standa sjálfur straum af þeim kostnaði. Þar sem engin gögn séu fyrir hendi geti sýslumaður ekki fallist á frádrátt frá skattstofni erfðafjárskatts vegna umræddra útgjalda. Þá mótmælir sýslumaður athugasemdum kæranda um að lagðar séu þungar byrðar á erfingja með kröfu um framlagningu gagna. Hafi kæranda verið gefinn kostur á að leggja fram sönnunargögn um tilvist skuldarinnar. Athugasemdum kæranda um að sýslumaður bæti við skilyrðum fyrir ákvörðun skattstofns sem ekki sé til staðar í lögunum sé mótmælt sem röngum. Sömuleiðis sé mótmælt fullyrðingum um að sýslumaður hafi komist að niðurstöðu í máli þessu án lagaheimildar

Með bréfi, dags. 9. september 2022, hefur kærandi komið að athugasemdum í tilefni af umsögn sýslumanns. Er rakið að af umsögn sýslumanns verði ráðið að meginforsenda embættisins fyrir ákvörðun þess í máli kæranda sé skortur á sönnun um tilvist kröfu kæranda sem sé tilkomin vegna útlagðs kostnaðar í nafni og með samþykki arfleifanda. Vegna þessa er bent á það af hálfu kæranda að í málinu liggi fyrir ítarleg greinargerð og samantekt um útlagðan kostnað kæranda sem að stærstum hluta hafi verið vegna fasteignarinnar G en einnig vegna viðhalds bifreiðar o.fl., en bæði fasteignin og bifreiðin hafi verið í eigu arfleifanda. Kvittanirnar séu til sönnunar um raunveruleg útgjöld og hafi sýslumaður ekki vefengt útgjöldin á neinu stigi málsins. Verði samanlögð fjárhæð kvittana þannig að teljast geta verið til sönnunar um fjárhæð kröfu kæranda, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 85/2011. Snúist ágreiningurinn þannig eingöngu um tilvist kröfunnar. Við hlutlægt mat á fyrirliggjandi málsatvikum og gögnum liggi ljóst fyrir að ráðist hafi verið í viðamiklar viðgerðir og endurbætur á fasteigninni að G og hafi kærandi haldið bókhald um kostnað vegna þeirra auk kostnaðar vegna viðgerða á bifreið arfleifanda og útgjöld tengd umönnun hans. Hafi kærandi afhent öll umbeðin gögn og gefið skýringar á fyrirkomulaginu. Sé kærandi einn til frásagnar, enda faðir hans látinn og hann einn erfingi. Geti engum dulist að svo nátengdir aðilar geri ekki skriflega samninga um öll möguleg viðskipti sín á milli en það þýði þó ekki að til samnings- eða kröfusambands stofnist ekki. Þetta fyrirkomulag hafi staðið yfir í nokkur ár og hafi kærandi í tvígang í upphafi tímabilsins fengið útlagðan kostnað greiddan af föður sínum. Er í því sambandi bent á að greiðsla annars aðila til hins hafi verið talin taka af vafa um að samningur hafi stofnast, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 728/2013. Þá hafi jafnframt verið talið að hafi verið sýnt fram á tiltekið fyrirkomulag í viðskiptum megi ganga út frá því að það fyrirkomulag verði áfram viðhaft milli sömu aðila, nema sýnt sé fram á annað, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 510/2011. Hafi verðmætaaukning vegna endurbóta og viðgerða á G ekki komið í hlut kæranda heldur arfleifanda, sem hafi verið eigandi eignarinnar, en fjárútlát sem leiði til verðmætaaukningar annars aðila, án endurgjalds, verði að teljast verulega óvenjulegir viðskiptahættir. Niðurstaða stjórnsýslumáls, sem sé í efnilegu ósamræmi við lög, verði ekki rökstudd eða réttlætt með vísan til slíkrar niðurstöðu í sambærilegum málum.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi B, sem lést …, sbr. erfðafjárskýrslu, mótt. hjá sýslumanni 27. desember 2021. Samkvæmt erfðafjárskýrslunni voru eignir dánarbúsins fasteignin G að fasteignamati 80.600.000 kr., ökutæki sem metið var á 600.000 kr., innbú að verðmæti 50.000 kr., innstæður í bönkum 3.521.284 kr., verðbréf 116.037 kr. og eignarhlutur í hlutabréfasjóði 703.900 kr. Til frádráttar í skýrslunni var færður útfararkostnaður 1.251.659 kr. og skuld við kæranda að fjárhæð 11.644.763 kr. Samtals var hrein eign til skipta þannig tilgreind 72.694.798 kr. og skattskyldur arfur 71.194.798 kr. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 9. maí 2022, gerði sýslumaður tvær breytingar á erfðafjárskýrslunni. Annars vegar færði hann til eignar í skýrslunni kröfu á kæranda að fjárhæð 1.500.000 kr. með vísan til upplýsinga í skattframtali B heitins árið 2020. Hins vegar felldi sýslumaður niður tilgreinda skuld dánarbúsins við kæranda að fjárhæð 11.644.763 kr. Að gerðum þessum breytingum varð hrein eign til skipta 85.839.561 kr. og skattskyldur arfur 84.339.561 kr. Erfðafjárskattur varð því 8.433.956 kr. Auk þessa gerði sýslumaður athugasemd með áritun í erfðafjárskýrslunni vegna sölu á skuldabréfi að stofnverði 12.981.918 kr. fyrir 3.000.000 kr. til kæranda á árinu 2018.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Í 5. gr. laga nr. 14/2004 segir að skuldir arfleifanda, þ.m.t. væntanleg opinber gjöld, skuli koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður, svo og útfararkostnaður arfleifanda. Kostnaður sem falli á búið vegna ráðstafana samkvæmt 17.-21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., skuli einnig koma til frádráttar hvort heldur bú sæti opinberum skiptum eða einkaskiptum.

Ágreiningur í máli þessu virðist eingöngu lúta að afstöðu sýslumanns til tilfærðrar skuldar arfleifanda við kæranda að fjárhæð 11.644.763 kr. sem færð var undir lið 6.3 í framlagðri erfðafjárskýrslu. Samkvæmt skýringum kæranda og gögnum málsins er mestur hluti þessara útgjalda vegna framkvæmda við einbýlishúsið að G á árunum 2017 til 2020, en einnig m.a. vegna viðgerða og annars kostnaðar vegna bifreiðar. Að mati sýslumanns voru skilyrði 5. gr. laga nr. 14/2004 ekki uppfyllt hvað þennan frádráttarlið varðaði. Byggði sýslumaður einkum á því að ekki hefðu verið lögð fram gögn er staðfestu að arfleifandi hefði stofnað til skuldbindinga vegna útgjaldanna, en einhliða skýringar kæranda á atvikum gætu ekki einar og sér leitt til þess að fallist yrði á umkrafinn frádrátt. Við meðferð málsins vísaði sýslumaður jafnframt til þess að arfleifandi hefði vegna veikinda ekki getað búið í húsi sínu að G frá árinu 2017 en hins vegar hefði kærandi haft þar lögheimili frá hausti 2018. Verður ráðið af forsendum sýslumanns að hann hafi litið svo á að kostnaður vegna framkvæmdanna við íbúðarhúsið væru útgjöld í eigin þágu kæranda. Af hálfu kæranda er forsendum sýslumanns mótmælt og vísað til þess að kærandi hafi lagt fram gögn sem sýni fram á útlagðan kostnað sem hafi myndað skuld arfleifanda við kæranda. Verðmætaaukning vegna endurbóta og viðgerða á G hefði ekki komið í hlut kæranda heldur arfleifanda sem hefði verið eigandi eignarinnar.

Eins og fyrr segir eru útgjöld sem um er deilt í málinu að mestu leyti vegna framkvæmda við íbúðarhúsið að G, sem var í eigu arfleifanda (föður kæranda), en einnig vegna bifreiðar hans og ýmissa persónulegra útgjalda. Af hálfu kæranda er komið fram að faðir hans hafi fengið heilablóðfall á árinu 2016 og flutt eftir endurhæfingu á hjúkrunarheimili á árinu 2017, enda ekki getað séð sjálfur um daglegar athafnir eða annast fjármál sín. Faðir kæranda hafi haft væntingar um að geta flutt aftur í íbúðarhúsnæði sitt að G, þótt læknar hafi verið á öðru máli, og því hvorki viljað selja fasteignina né bifreið sína. Hafi þeir feðgar komist að samkomulagi um að fara í framkvæmdir á húsnæðinu á meðan enginn byggi þar. Meðal annars hafi á árunum 2017 til 2020 verið ráðist í framkvæmdir á eldhúsi og tækjum, svefnherbergisálmu, bílskúr og húsinu að utanverðu og garði þess. Framkvæmdir á sólskála hafi verið hafnar rétt fyrir andlát föður kæranda. Vegna andlegrar fötlunar föður kæranda hafi kærandi lagt út fyrir útgjöldum í hans þágu, bæði í stóru sem smáu. Hin umdeilda skuld hafi þannig komið til á löngum tíma. Faðir kæranda hafi greitt honum vegna útlagðs kostnaðar 443.000 kr. í febrúar 2018 og 232.000 kr. í apríl sama ár.

 Samkvæmt framansögðu féllu hin umþrættu útgjöld vegna íbúðarhússins að G til á nokkurra ára tímabili eftir að arfleifandi flutti á hjúkrunarheimili á árinu 2017. Nánar tiltekið virðast útgjöldin að mestu vera vegna framkvæmda við íbúðarhúsið á árunum 2018, 2019 og 2020. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var m.a. ráðist í endurnýjun á innréttingu í svefnherbergjum, innihurðir og gólfefni endurnýjað, gólfhiti lagður a.m.k. í hluta hússins og húsið klætt að utan. Af hálfu sýslumanns er á það bent að samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá hafi kærandi flutt lögheimili sitt á árinu 2018 að G. Í greinargerð sinni frá 9. desember 2021 heldur kærandi því hins vegar fram að enginn hafi búið í húsinu á framkvæmdatíma og ekki er getið um leigutekjur í skattframtölum föður kæranda. Allt að einu verður að ganga út frá því að kærandi hafi í samræmi við lögheimilisskráningu haldið heimili sitt að G eftir að hann flutti lögheimili þangað, enda hefur hann ekki gert neinar athugasemdir í tilefni af ábendingu sýslumanns eða upplýst um hugsanlega íbúðareign sína og þá nýtingu hennar. Eins og fram er komið er kærandi einkaerfingi hins látna. Að þessu virtu og í ljósi þeirra framkvæmda sem hér um ræðir, svo og með hliðsjón af aðstæðum föður kæranda á umræddu tímabili samkvæmt því sem kærandi hefur gert grein fyrir, þykir bæði mega ganga út frá því að kærandi hafi haft alla forystu um nefndar framkvæmdir við íbúðarhúsið og að þær hafi fyrst og fremst nýst kæranda sjálfum.

Eins og atvikum er hér farið og að virtum forsendum sýslumanns verður að telja að það standi upp á kæranda að sýna fram á að arfleifandi hafi skuldbundið sig til að greiða umræddan kostnað og að um ógreidda skuld við kæranda hafi verið að ræða. Eins og sýslumaður hefur lagt áherslu á liggja ekki fyrir gögn sem staðfesta að faðir kæranda hafi litið svo á að hann stæði í skuld við kæranda vegna framkvæmdanna við G eða annarra útgjalda sem kærandi vísar til. Í skattframtölum hins látna árin 2019 og 2020, sem eru meðal gagna málsins, kemur ekkert fram um skuld hans við kæranda. Hins vegar er þar getið um kröfu á hendur kæranda sem nam 3.000.000 kr. í árslok 2018 og 1.500.000 kr. í árslok 2019. Skýtur hér skökku við og sérstaklega þegar að því er gætt sem kærandi heldur fram um um nákvæmni föður hans í fjármálum sínum.

Með vísan til framanritaðs verður að taka undir það með sýslumanni að kærandi hafi ekki sýnt fram á að útlagður kostnaður hans að fjárhæð 11.644.763 kr. sem færður var undir lið 6.3 í erfðafjárskýrslu uppfylli skilyrði 5. gr. laga nr. 14/2004 um að teljast skuld arfleifanda sem koma skuli til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður. Röksemdir í kæru, sem hér hefur ekki verið fjallað sérstaklega um, þykja ekki geta gefið tilefni til annarrar niðurstöðu. Vegna skírskotunar kæranda til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 85/2011, þar sem hliðstætt sakarefni var til umfjöllunar, er þó rétt að taka fram að í því máli lá m.a. fyrir og var vísað til í forsendum yfirskattanefndar að arfláti hafði ekki haft burði til þess að fjármagna framkvæmdir sem þar um ræddi með eigin fé og að upplýsingar voru um skuld í skattskilum arfláta. Atvik í tilviki kæranda eru að þessu leyti ekki sambærileg því tilviki sem um ræðir í úrskurði nr. 85/2011 auk þess sem fleira skilur á milli, þar á meðal að í nefndum úrskurði ræddi um framkvæmdir vegna lekavandamála sem höfðu um árabil verið til umfjöllunar á vegum hlutaðeigandi húsfélags.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja