Úrskurður yfirskattanefndar
- Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna uppsetningar hleðslustöðvar
Úrskurður nr. 149/2022
Lög nr. 50/1988, 42. gr. 2. mgr., bráðabirgðaákvæði XXXII (brl. nr. 154/2019, 2. gr.). Reglugerð nr. 449/1990, 4. gr.
Í máli þessu vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna uppsetningar hleðslustöðvar fyrir bifreiðar var ekki talið að vinna við endurnýjun heimtaugar að fasteign gæti talist til vinnu við uppsetningu hleðslustöðvar í eða við íbúðarhúsnæði í skilningi virðisaukaskattslaga, jafnvel þótt farið hefði verið í slíkar framkvæmdir samhliða uppsetningu hleðslustöðva við fasteignina eða slík framkvæmd verið nauðsynlegur undanfari þess að settar væru upp hleðslustöðvar við húsið. Var kröfu kæranda því hafnað.
Ár 2022, þriðjudaginn 6. desember, er tekið fyrir mál nr. 80/2022; kæra A, húsfélags, dags. 26. maí 2022, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 26. maí 2022, er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 55.984 kr. samkvæmt 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. gr. laga nr. 154/2019, um breytingu á ýmsum lögum um skatta (vistvæn ökutæki o.fl.), sbr. og 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt og að fallist verði á umkrafða endurgreiðslu virðisaukaskatts.
II.
Með endurgreiðslubeiðni til ríkisskattstjóra, mótt. 10. apríl 2021, fór kærandi fram á endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð samtals 647.749 kr. vegna uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir bifreiðar við íbúðarhúsnæði. Til grundvallar beiðninni lá sölureikningur frá Veitum ohf., dags. 29. mars 2021, að fjárhæð samtals 289.251 kr., og sölureikningur frá Ísorku ehf., dags. 8. apríl 2021, að fjárhæð samtals 3.057.450 kr. Ríkisskattstjóri afgreiddi beiðnina þann 20. apríl 2021 með bréfi og synjaði henni að hluta þannig að endurgreiðslufjárhæð varð 403.788 kr. Í þessu sambandi synjaði ríkisskattstjóri kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af jarðvinnu við uppsetningu hleðslustöðvar er fram kæmi á reikningi Ísorku ehf. og virðisaukaskatts vegna vinnu Veitna ohf. við lagningu nýrrar heimtaugar að fasteigninni með þriggja fasa rafmagni.
Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 21. apríl 2021 óskaði umboðsmaður kæranda eftir því að ákvörðun embættisins um endurgreiðslu yrði endurskoðuð. Vísaði kærandi m.a. til leiðbeiningarits ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt og tók fram að með vísan til þess ætti að endurgreiða allan virðisaukaskatt af kostnaði vegna uppsetningar á hleðslustöð óháð því hvernig hann kæmi til. Í kjölfar frekari rafrænna bréfaskipta umboðsmanns kæranda og ríkisskattstjóra, sbr. tölvupósta umboðsmanns kæranda 5. maí 2021, 22. júní 2021, 20. júlí 2021, 8. september 2021 og 21. september 2021 og tölvupósta ríkisskattstjóra 20. júlí 2021, 16. september 2021 og 28. september 2021, afréð umboðsmaður kæranda að kæra ákvörðun ríkisskattstjóra um endurgreiðslu samkvæmt bréfi, dags. 20. apríl 2021, til yfirskattanefndar. Með úrskurði nr. 202/2021, sem kveðinn var upp 17. desember 2021, vísaði yfirskattanefnd kærunni frá og sendi ríkisskattstjóra til meðferðar með því að þegar hefði verið óskað eftir endurupptöku málsins hjá ríkisskattstjóra. Vísaði yfirskattanefnd til þess að með beiðni kæranda til ríkisskattstjóra um endurupptöku degi eftir afgreiðslu málsins hjá embættinu hefði kærufrestur til yfirskattanefndar rofnað samkvæmt 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í kjölfar frekari gagnaöflunar tók ríkisskattstjóri beiðni kæranda um endurupptöku til afgreiðslu með úrskurði, dags. 1. apríl 2022. Í úrskurðinum gerði ríkisskattstjóri grein fyrir málavöxtum og lagagrundvelli málsins. Var það niðurstaða ríkisskattstjóra að fallast á endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 266.129 kr. af jarðvinnu við uppsetningu hleðslustöðvar er fram kæmi á reikningi Ísorku ehf. en hafna beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 55.984 kr. vegna vinnu Veitna ohf. við endurnýjun heimtaugar. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 skyldi endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hefðu greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skyldi endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hefðu greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Í 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, sem sett hefði verið á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis, væri sérstaklega kveðið á um að ekki gæti komið til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu veitufyrirtækja við lagnir að og frá húsi. Með ákvæði til bráðabirgða nr. XXXII í lögum nr. 50/1988 hefði verið gerð undanþága frá því að endurgreiðsluheimildin næði aðeins til vinnu manna á byggingarstað íbúðarhúsnæðis eða vegna viðhalds og endurbóta þess þannig að heimildin næði einnig til vinnu við uppsetningu á hleðslustöð sem teldist ekki hluti íbúðarhúsnæðis. Þá væri heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á hleðslustöðinni sjálfri. Að öðru leyti en væri beinlínis kveðið á um í bráðabirgðaákvæði XXXII laga nr. 50/1988 gilti ákvæði 2. mgr. 42. gr. laganna. Gæti því ekki komið til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu Veitna ohf. við lagningu heimtaugar.
Í ákvörðun ríkisskattstjóra kom fram að mistök hefðu verið gerð við skráningu endurgreiðslubeiðni kæranda, en stofn til virðisaukaskatts vegna kaupa kæranda á hleðslustöð hefði verið rangt skráður. Hið sama ætti við um stofn virðisaukaskatts vegna vinnu á verkstað. Lækkaði ríkisskattstjóri samkvæmt þessu endurgreiddan virðisaukaskatt vegna kaupa á hleðslustöð um 60.036 kr. og um 18.116 kr. vegna vinnu. Hækkaði endurgreiðslufjárhæð virðisaukaskatts því samanlagt um 187.977 kr.
III.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar eru helstu málavextir raktir. Krefst kærandi þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði endurskoðuð og að kæranda verði endurgreiddur virðisaukaskattur af reikningi frá Veitum ohf. Vísar kærandi sérstaklega til leiðbeiningabæklings ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt þar sem m.a. sé fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna uppsetningar hleðslustöðva. Komi þar fram að endurgreiðslan taki til „alls þess virðisaukaskatts sem greiddur [hafi] verið vegna kaupa og uppsetningar á hleðslustöð fyrir bifreiðar í eða við íbúðarhúsnæði“. Þar af leiðandi hafi kærandi gert ráð fyrir að allur virðisaukaskattur sem greiddur hafi verið vegna uppsetningar á hleðslustöðvunum yrði endurgreiddur. Reikningurinn frá Veitum ohf. sé einungis til kominn vegna uppsetningar hleðslustöðva og að ekki hafi verið nægt rafmagn fyrir í húsinu. Telji kærandi að þetta hljóti að falla undir auknar heimildir til endurgreiðslu á virðisaukaskatti í tengslum við uppsetningu á hleðslustöðvum. Sé ekki hægt að lesa annað úr leiðbeiningum ríkisskattstjóra en að það skipti ekki máli hvernig kostnaður komi til við uppsetningu og kaup á hleðslustöð. Velti kærandi því fyrir sér hvort ríkisskattstjóri sé ekki að rugla saman átakinu „allir vinna“ en þar sé t.d. ekki endurgreidd vinna vélamanns, efniskostnaður eða reikningar frá veitufyrirtækjum. Í besta falli sé um að ræða misvísandi eða villandi túlkun sem þyrfti að vera skýrari í upplýsingagjöf ríkisskattstjóra.
IV.
Með bréfi, dags. 23. ágúst 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi, dags. 12. september 2022, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu eru áréttaðar þær kröfur og þau sjónarmið sem koma fram í kæru til yfirskattanefndar.
V.
Ágreiningsefni í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 55.984 kr. af reikningi frá Veitum ohf. vegna endurnýjunar heimtaugar með þriggja fasa rafmagni að fasteigninni að K. Eins og rakið hefur verið hér að framan í kafla II leitaði kærandi upphaflega til ríkisskattstjóra 10. apríl 2021 með umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna uppsetningar á hleðslustöð og lagningar heimtaugar og fylgdi erindinu reikningur frá Ísorku ehf., dags. 23. apríl 2021, að fjárhæð 3.057.450 kr. og reikningur frá Veitum ohf., dags. 29. mars 2021, að fjárhæð 289.251 kr. Með bréfi, dags. 20. apríl 2021, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um þá ákvörðun sína að synja beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts af jarðvinnu og lagningu heimtaugar en fallast á endurgreiðslu skatts að öðru leyti. Í kjölfar endurupptökubeiðni kæranda féllst ríkisskattstjóri með hinni kærðu ákvörðun frá 1. apríl 2022 á að endurupptaka málið samkvæmt ákvæðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og fallast á endurgreiðslu virðisaukaskatts af jarðvinnu vegna uppsetningar hleðslustöðvar. Hins vegar synjaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem til væri kominn vegna lagningar nýrrar heimtaugar að fasteigninni. Af hálfu kæranda er þess krafist að honum verði endurgreiddur virðisaukaskattur að fjárhæð 55.984 kr. af umræddum reikningi frá Veitum ohf. vegna endurnýjunar heimtaugar.
Í XIII. kafla laga nr. 50/1988 er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laganna segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess.
Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXII í lögum nr. 50/1988, sbr. 2. gr. laga nr. 154/2019, kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 42. gr. laganna sé á tímabilinu frá 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 heimilt að endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafi greitt af vinnu manna á byggingarstað við uppsetningu hleðslustöðvar fyrir bifreiðar í eða við íbúðarhúsnæði. Jafnframt sé heimilt á sama tímabili að endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna uppsetningar hleðslustöðvar fyrir bifreiðar í eða við íbúðarhúsnæði. Að öðru leyti gildi ákvæði 2. mgr. 42. gr. á umræddu tímabili. Þá kemur fram í 2. mgr. greinds bráðabirgðaákvæðis að á tímabilinu frá 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 sé heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á hleðslustöð fyrir bifreiðar til uppsetningar í eða við íbúðarhúsnæði. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 154/2019 kemur fram að með hleðslustöð sé átt við sérstakan búnað sem notaður sé til þess að hlaða þau hreinorkuökutæki sem ganga fyrir rafmagni, sbr. þskj. 596 á 150. löggjafarþingi 2019-2020.
Í 6. málsl. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 kemur fram að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt ákvæðinu. Það hefur verið gert með reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Kemur fram í reglugerðinni að endurgreiða skuli tiltekið hlutfall virðisaukaskatts sem byggjendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna á byggingarstað og sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess, sbr. a- og b-lið 1. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að endurgreiðsla samkvæmt greindum a-lið 1. gr. taki til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna sem unnin sé á byggingarstað íbúðarhúsnæðis við nýbyggingu þess, þ.m.t. vinnu við framkvæmdir við lóð hússins, jarðvegslagnir umhverfis hús, girðingar, bílskúra og garðhúsa á íbúðarhúsalóð. Endurgreiðsla samkvæmt b-lið 1. gr. reglugerðarinnar taki á sama hátt til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Í 4. gr. reglugerðarinnar er svo tilgreint að þrátt fyrir ákvæði 3. gr. taki endurgreiðsla ekki til virðisaukaskatts sem greiddur sé af vinnu veitufyrirtækja við lagnir að og frá húsi, sbr. 1. tölul. ákvæðisins.
Í reikningi Veitna ohf., dags. 29. mars 2021, kemur fram í lýsingu að um sé að ræða nýja heimlögn „Vegna…RAFMAGN 63A- 3 fasa“. Er heildarverð tiltekið 289.251 kr., þar af virðisaukaskattur 55.984 kr. Hefur kærandi lagt áherslu á að vinna Veitna ohf. samkvæmt reikningnum sé einungis til komin vegna uppsetningar hleðslustöðva við fasteignina og að ekki hafi verið nægt rafmagn fyrir í húsinu. Hvað þessar viðbárur kæranda varðar skal tekið fram að ekki verður talið að vinna við endurnýjun heimtaugar að fasteign kæranda geti talist til „vinnu manna vegna uppsetningar hleðslustöðvar fyrir bifreiðar í eða við íbúðarhúsnæði“ í skilningi bráðabirgðaákvæðis XXXII í lögum nr. 50/1988 þannig að endurgreiðslu virðisaukaskatts verði komið við á þeim grundvelli, jafnvel þótt farið hafi verið í slíkar framkvæmdir samhliða uppsetningu hleðslustöðva við fasteignina eða slík framkvæmd hafi verið nauðsynlegur undanfari þess að settar væru upp hleðslustöðvar fyrir bifreiðar við húsið. Þykir hvorki orðalag bráðabirgðaákvæðis XXXII í lögum nr. 50/1988 né athugasemdir í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 154/2019 gefa tilefni til svo rúmrar túlkunar á umræddu lagaákvæði.
Að þessu athuguðu og þar sem ekki verður séð að endurgreiðslu virðisaukaskatts verði komið við á öðrum grundvelli, sbr. og ákvæði 1. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, þar sem fram kemur að endurgreiðsla virðisaukaskatts taki ekki til vinnu veitufyrirtækja við lagnir að og frá húsi, er kröfu kæranda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.