Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 546/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 70. gr. 2. mgr. Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I.
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Greinargerð um vaxtagjöld — Gjaldfallin vaxtagjöld — Vaxtagjöld, gjaldfallin — Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar — Vaxtagjöld, skipting innan ársins — Áætlun — Áætlun vaxtagjalda — Áætlun ríkisskattanefndar — Skattskylda — Ótakmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Heimilisfesti hluta úr ári — Dvalartími — Skattskylda einstaklings — Flutningur til landsins — Búferlaflutningur
Skattstjóri synjaði kærendum með kæruúrskurði, dags. 26. mars 1990, um að framtalin vaxtagjöld, 374.055 kr. skv. greinargerð RSK 3.09 meðfylgjandi skattframtali 1989, mynduðu stofn til útreiknings vaxtaafsláttar á eftirfarandi forsendum:
„Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali yðar gjaldfalla umræddir vextir á tímabili sem þér dvölduð erlendis. Slík vaxtagjöld mynda ekki stofn til vaxtaafsláttar, sbr. bráðabirgðaákvæði nr. 1 í 14. gr. laga nr. 92/1987 (áður 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981).“
Kærendur hafa skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 24. apríl 1990, með eftirfarandi kröfugerð:
„Hinn 24. ágúst 1989 kærðum við hjónin álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 með bréfi til skattstjórans í X-umdæmi.
Í kæru þeirri fórum við fram á vaxtaafslátt vegna vaxtagjalda að upphæð kr. 374.055 á árinu 1988, vegna afborgana lána, sem við erum að glíma við, vegna íbúðarhúss okkar.
Ósk okkar hefur nú verið synjað af skattstjóranum með bréfi dags. 26. mars 1990 á þeirri forsendu að ég hafi dvalið erlendis.
Þetta er rétt með farið, en utanferðin var af illri nauðsyn, vegna þess að verktakafyrirtæki það sem ég vinn fyrir, hafði ekki verkefni hér heima fyrir alla starfsmenn sína. Varð ég því einn þeirra sem sá sig knúinn til þessa. Varð ég að sætta mig við það í þeirri von að um tímabundið verkefni væri að ræða.
Fer ég nú þess á leit við ríkisskattanefnd að álagningin verði skoðuð í því ljósi að hér hafi verið um sjálfsbjargarviðleitni að ræða til þess að missa ekki þakið ofan af höfðinu á sér.“
Með bréfi, dags. 9. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Kærendur dvöldust erlendis til 1988 og skráðu lögheimili sitt hér á landi sama ár. Þau dvöldust erlendis vegna tímabundins starfs kæranda, eiginmanns. Ekki verður á það fallist með skattstjóra að umræddir vextir hafi einungis gjaldfallið á því tímabili sem kærendur dvöldust erlendis. Að virtum öllum málavöxtum þykir rétt að ákvarða stofn umræddra vaxtagjalda hlutfallslega miðað við það tímabil sem kærendur voru heimilisfastir hér á landi.