Úrskurður yfirskattanefndar
- Tryggingabætur
- Söfnunartrygging
- Tvísköttunarsamningur
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 31/2016
Gjaldár 2012
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 2. tölul. og C-liður 3. tölul., 8. gr. 2. mgr. 5. tölul., 28. gr. 2. tölul., 96. gr. Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr., 15. gr., 22. gr. Tvísköttunarsamningur við Bretland, 11. gr.
Ríkisskattstjóri færði kærendum til tekna í skattframtali árið 2012 meintar vanframtaldar vaxtatekjur, þ.e. ávöxtun af söfnunarlíftryggingu sem kærendur keyptu af bresku félagi. Í úrskurði yfirskattanefndar var ekki fallist á með kærendum að rannsókn málsins hefði verið áfátt af hendi ríkisskattstjóra sem byggði á upplýsingum frá breskum skattyfirvöldum um greiðslurnar. Var ekkert talið fram komið í málinu sem gæti hnekkt niðurstöðu um að í greiðslum hins breska félags til kærenda fælist a.m.k. að hluta ávöxtun af söfnunartryggingu í skilningi skattalaga. Var kærunni vísað frá að svo stöddu vegna vanreifunar.
Ár 2016, miðvikudaginn 2. mars, er tekið fyrir mál nr. 128/2015; kæra A og B, dags. 12. maí 2015, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2012. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 6. febrúar 2015, greindi ríkisskattstjóri kærendum frá því að hann hefði undir höndum upplýsingar frá breskum skattyfirvöldum um greiðslur á árinu 2011 frá Friends Life Limited í Bretlandi að fjárhæð GBP 5.350 eða 992.693 kr. til hvors kærenda um sig (miðað við meðalgengi á GBP á árinu 2011 GBP 1 = 185,55 kr.), en kærendur hefðu ekki gert grein fyrir umræddum tekjum í skattframtölum sínum. Samkvæmt leiðbeiningum með skattframtali árið 2012 bæri að telja söfnunarlíftryggingar til eignar undir lið 3.3 (Innlend og erlend verðbréf og kröfur. Stofnsjóðsinneign). Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, bæri öllum mönnum, sem heimilisfastir væru á Íslandi, skylda til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, sama hvar þeirra væri aflað, hér á landi. Með vísan til þessa óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum á umræddri greiðslu, sem studdar skyldu gögnum, þ.e. hvernig hún væri til komin og samsett í höfuðstól, vexti o.s.frv. Var kæranda veittur 12 daga frestur til að láta umbeðnar skýringar og gögn í té. Fyrirspurn þessari var ekki svarað af hálfu kærenda.
Með bréfi, dags. 4. mars 2015, boðaði ríkisskattstjóri kærendum endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2012, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í bréfinu rakti ríkisskattstjóri efni fyrirspurnarbréfs síns og vísaði til þess að vaxtatekjur teldust til skattskyldra tekna samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 8. gr. sömu laga. Umræddar tekjur væru skattlagðar samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 66. gr. laganna. Þá vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðis 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um ótakmarkaða skattskyldu þeirra sem heimilisfastir væru hér á landi af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað. Benti ríkisskattstjóri á að Ísland og Bretland hefðu gert með sér tvísköttunarsamning sem hefði tekið gildi 1. janúar 1992. Samkvæmt 11. gr. samningsins skyldi einungis skattleggja vexti sem mynduðust í samningsríki (Bretland) og greiddir væru aðila heimilisföstum í hinu samningsríkinu (Ísland) í síðarnefnda ríkinu, ef viðkomandi aðili væri raunverulegur eigandi vaxtanna. Með hliðsjón af þessu væri fyrirhugað að hækka erlendar tekjur í lið 3.3 í skattframtali kærenda um 1.985.386 kr. Var kærendum veittur 15 daga frestur til að koma að andmælum við boðuðum breytingum. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu kæranda og með úrskurði, dags. 29. apríl 2015, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kærenda gjaldárið 2012 til samræmis. Leiddi breyting ríkisskattstjóra til þess að fjármagnstekjuskattur kærenda ákvarðaðist 359.492 kr.
II.
Með kæru, dags. 12. maí 2015, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 29. apríl 2015, til yfirskattanefndar. Er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði með vísan til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
Í kærunni segir að fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra hafi ekki fylgt þau gögn sem ríkisskattstjóri hafi vísað til í bréfinu. Þá hafi engin gögn fylgt boðunarbréfi ríkisskattstjóra. Þar að auki hafi kærendum þótt boðunarbréfið óljóst, enda hafi ekkert verið fjallað um hvernig skattstofn væri fundinn, auk þess sem málið snerti flókið samspil innlends og erlends skattaréttar sem kærendum hafi reynst erfitt að skilja án fullnægjandi útskýringa. Fyrirhuguð endurákvörðun hafi komið kærendum á óvart þar sem hinir meintu vextir hefðu þegar verið skattlagðir í Bretlandi. Hafi kærendum því fallið allur ketill í eld og láðst að andmæla ráðagerð ríkisskattstjóra.
Til stuðnings kröfu um ógildingu hins kærða úrskurðar er vísað til þess að veruleg óvissa sé um hvort kærendum hafi hlotnast skattskyldar tekjur. Hafi kærendum á annað borð hlotnast skattskyldar tekjur leiki vafi á eðli teknanna. Við stofnun umræddrar líftryggingar hafi ríkisskattstjóri staðfest við kærendur að útborgun tryggingarinnar væri tekjuskattsfrjáls. Er í þessu sambandi vísað til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 3. apríl 1996, sem fylgir kæru.
Í kærunni tekur umboðsmaður kærenda fram að svo virðist sem ríkisskattstjóri sé ekki viss um eðli teknanna. Í boðunarbréfi segi að að hinar meintu vanframtöldu tekjur séu vextir og um skattlagningu þeirra fari eftir 11. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands. Kveðst umboðsmaður kærenda hafa undir höndum upplýsingar sem sýni að í Bretlandi sé hins vegar litið á umræddar tekjur sem „aðrar tekjur“ sem heyri undir 21. gr. tvísköttunarsamningsins. Auk þess komi fram í upplýsingunum að tekjurnar séu skattlagðar að fullu í Bretlandi sem gæti bent til þess að þar í landi sé ekki litið á greiðslurnar sem venjulega skuldavexti heldur sem tekjur úr fjárvörslustofnunum sem skattleggja megi í báðum aðildarríkjunum. Um lækkun tvískattlagningar fari því eftir ákvæðum b-liðar 2. mgr. 23. gr. greinds tvísköttunarsamnings. Þar sem álagður skattur í Bretlandi hafi numið hærri fjárhæð en skattur samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra hafi kærendur greitt skattinn að fullu. Samkvæmt framangreindu beri að ómerkja úrskurð ríkisskattstjóra.
III.
Með bréfi, dags. 26. maí 2015, hefur ríkisskattstjóri gerð þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögn ríkisskattstjóra er rakið að í kæru komi fram að kærendur hafi fengið greidda söfnunarlíftryggingu frá Friends Life Limited á árinu 2011. Sé þetta samhljóma þeim upplýsingum sem ríkisskattstjóri hafi fengið frá breskum skattyfirvöldum. Þann 6. febrúar 2015 hafi ríkisskattstjóri gert kærendum grein fyrir umræddum upplýsingum frá breskum skattyfirvöldum og lagt fyrir kærendur að leggja fram skýringar og gögn vegna greiðslunnar, en engin svör hafi borist. Þá hafi engar athugasemdir borist vegna boðunarbréfs ríkisskattstjóra frá 4. mars 2015. Í kæru komi fram sú skoðun umboðsmanna kærenda að hjá embætti ríkisskattstjóra sé efi um eðli teknanna. Ríkisskattstjóri bendi á að samkvæmt ofangreindum bréfum komi skýrt fram að um sé að ræða útborgun vaxtatekna vegna söfnunarlíftryggingar sem skuli skattleggja eftir ákvæði 5. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt 11. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands skuli skattleggja vexti sem myndist í samningsríki (Bretland) og greiddir séu aðila heimilisföstum í hinu samningsríkinu (Ísland) í síðarnefnda ríkinu (Ísland) ef viðkomandi aðili er raunverulegur eigandi vaxtanna.
Þá segir m.a. í umsögn ríkisskattstjóra:
„Umboðsmaður gjaldanda telur að umræddar tekjur falli undir 21. gr. tvísköttunarsamningsins milli Íslands og Bretlands en í ákvæðinu kemur að tekjur, aðrar en tekjur sem greiddar eru út úr fjárvörslustofnunum eða dánarbúum undir skiptum, sem aðili sem er raunverulegur rétthafi þeirra og er heimilisfastur í aðildarríki aflar og ekki er fjallað um í fyrri greinum samnings þessa.
Umboðsmaður gjaldanda bendir á að umræddar tekjur hafi komið sem 21. gr. tekjur í upplýsingunum frá Bretlandi. Þrátt fyrir það telur ríkisskattstjóri að umræddar tekjur séu skv. íslenskri löggjöf vaxtatekjur, sbr. 5. tl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Sjá nánar bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 01/14 sem fylgir kröfugerð þessari.
Ríkisskattstjóri telur því að um sé að ræða tekjur sem ber að skattleggja á Íslandi samkvæmt framangreindum reglum.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. maí 2015, var kærendum sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og leggja fram gögn til skýringar.
Með bréfi, dags. 5. júní 2015, hefur umboðsmaður kærenda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kveðst umboðsmaðurinn hafa með höndum fjölda mála af þeim toga sem um ræði í tilviki kærenda. Að baki málunum búi upplýsingar frá breskum skattyfirvöldum sem séu þannig úr garði gerðar að ómögulegt sé að átta sig á áreiðanleika þeirra. Vegna þessa hafi ríkisskattstjóri ákveðið að fresta ákvörðun í öllum málum sem umboðsmaður kærenda hafi með höndum þar til gengið hafi verið úr skugga frá hverjum gögnin stafi. Hið sama hljóti að gilda um fyrirliggjandi mál. Af hálfu kærenda sé ítrekað að ómerkja beri hinn kærða úrskurð á þeim grundvelli að málið sé stórlega vanreifað, óupplýst og órökstutt.
Í tilefni af ofangreindum athugasemdum kærenda hefur ríkisskattstjóri með bréfi, dags. 6. júlí 2015, áréttað áður fram komna umsögn sína í málinu, enda verði ekki séð að athugasemdir umboðsmanns kæranda breyti neinu um niðurstöðu í málinu.
Með bréfi, dags. 24. júlí 2015, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kærenda vegna bréfs ríkisskattstjóra, dags. 6. júlí 2015. Í bréfi umboðsmanns kærenda segir að sú staðreynd, að ríkisskattstjóri hafi ákveðið að stöðva afgreiðslu allra mála af því tagi sem um ræðir og leita til breskra skattyfirvalda með ósk um áreiðanlegri gögn, bendi til þess að málin séu ekki fullrannsökuð af hálfu ríkisskattstjóra. Í því ljósi væri fullkomlega ábyrgðarlaust af yfirskattanefnd að staðfesta úrskurð ríkisskattstjóra eins og embættið geri kröfu um. Þá sé nauðsynlegt að lagagrundvöllur málsins hljóti nánari umfjöllun hjá embætti ríkisskattstjóra. Kærendur hafi greitt fullan skatt af tekjunum í Bretlandi og því sé hið eina rétta í stöðunni að ómerkja úrskurð ríkisskattstjóra.
IV.
Ágreiningsefni máls þessa er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 29. apríl 2015, að færa til tekna í skattframtali kærenda árið 2012 meintar vantaldar vaxtatekjur að fjárhæð 1.985.386 kr. Fram er komið að um sé að ræða greiðslur til kærenda frá Friends Life Limited í Bretlandi, samtals að fjárhæð 10.700 sterlingspund sem ríkisskattstjóri reiknaði til fyrrgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum. Byggði ríkisskattstjóri á því að greiðslurnar teldust til skattskyldra tekna samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 8. gr. sömu laga, og væru skattlagðar á grundvelli 3. mgr. 66. gr. laganna. Þá vísaði ríkisskattstjóri jafnframt til 11. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands, sbr. auglýsingu nr. 32/1991 í C-deild Stjórnartíðinda, þar sem fram kæmi að einungis skyldi skattleggja vexti sem mynduðust í samningsríki (hér Bretlandi) og greiddir væru aðila heimilisföstum í hinu samningsríkinu (hér Íslandi) í síðarnefndu ríkinu, ef viðkomandi aðili væri raunverulegur eigandi vaxtanna.
Af hálfu kærenda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Krafan er einkum byggð á þeim röksemdum að veruleg óvissa sé um hvort kærendum hafi hlotnast skattskyldar tekjur og hafi kærendum á annað borð hlotnast skattskyldar tekjur leiki vafi á eðli teknanna. Þá hafi kærendur fengið staðfest frá ríkisskattstjóra að útgreiðsla líftryggingar frá Friends Life Limited væri tekjuskattsfrjáls. Í kæru til yfirskattanefndar vísar umboðsmaður kærenda einnig til þess að samkvæmt upplýsingum sem hann hafi undir höndum líti bresk yfirvöld á umræddar tekjur sem „aðrar tekjur“ sem falli undir 21. gr. fyrrnefnds tvísköttunarsamnings. Hafi ríkisskattstjóri talið upplýsingar frá Bretlandi óáreiðanlegar og því hafi embættið ákveðið að fresta öllum málum af þessu tagi. Þá er byggt á því í kæru að boðunarbréf ríkisskattstjóra hafi verið óljóst og að málið sé vanreifað af hálfu ríkisskattstjóra.
Vegna síðastnefndra athugasemda kærenda skal bent á að ríkisskattstjóra bar að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók ákvörðun í því, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi til kærenda, dags. 6. febrúar 2015, fór ríkisskattstjóri fram á það með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 að kærendur létu embættinu í té skýringar og gögn um greiðslur til þeirra frá Friends Life Limited á árinu 2011. Gat ríkisskattstjóri um það í bréfinu að bresk skattyfirvöld hefðu látið embættinu í té upplýsingar um greiðslur þessar svo og um greiddan skatt í Bretlandi. Veitti ríkisskattstjóri kærendum 12 daga frest til að láta umræddar skýringar og gögn í té. Með bréfi til kærenda, dags. 4. mars 2015, boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda þeirra gjaldárið 2012 vegna vanframtalinna vaxtatekna frá umræddum breskum aðila. Í bréfinu kom fram að umbeðin gögn hefðu ekki borist frá kærendum. Samkvæmt bréfinu var kærendum veittur 15 daga frestur til að „andmæla skriflega um efni þessa boðunarbréfs og leggja fram viðbótargögn“, svo sem þar sagði. Hinni boðuðu endurákvörðun hratt ríkisskattstjóri í framkvæmd með úrskurði sínum frá 29. apríl 2015. Í úrskurði ríkisskattstjóra kemur fram að umboðsmaður kærenda hafi með tölvupósti 17. mars 2015 óskað eftir lengri fresti til andmæla og hafi ríkisskattstjóri framlengt frestinn til 31. mars 2015, en engin gögn hafi hins vegar borist. Verður að skilja þetta þannig að kærendur hafi ekki gert athugasemdir við ríkisskattstjóra í tilefni boðunarbréfsins, svo sem raunar er staðfest í kæru til yfirskattanefndar. Tekið skal fram að það leiðir af ákvæðum um upplýsingarétt málsaðila í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kærendur eiga rétt á aðgangi að gögnum máls síns. Getur aðili máls þannig farið fram á að fá afrit af eða ljósrit af málsskjölum, sbr. ákvæði þetta og ákvæði 2. mgr. 18. gr. sömu laga þar sem fram kemur að aðili máls geti á hvaða stigi málsmeðferðar sem er krafist þess að afgreiðslu málsins sé frestað uns honum hefur gefist tími til þess að kynna sér gögn og gera grein fyrir afstöðu sinni. Ekki verður séð að nein ósk af þessu tagi hafi komið fram við meðferð máls kærenda hjá ríkisskattstjóra, enda létu þau málið ekki til sín taka á því stigi að frátalinni frestbeiðni umboðsmanns þeirra 17. mars 2015. Rétt er að fram komi að tilvísaðar upplýsingar frá breskum skattyfirvöldum eru ekki meðal gagna sem ríkisskattstjóri hefur lagt fyrir yfirskattanefnd, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
Eins og fyrr greinir vísaði ríkisskattstjóri í bréfi sínu, dags. 6. febrúar 2015, til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 hvað varðar lagagrundvöll fyrirspurnar sinnar. Efni sínu samkvæmt laut bréfið fremur að öflun upplýsinga og gagna samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 sem mælir fyrir um upplýsingaskyldu gagnvart skattyfirvöldum. Hvílir upplýsingaskylda þessi á öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, og skiptir ekki máli hvort upplýsingar varða þann aðila, sem beiðninni er beint til, eða þau skipti annarra aðila við hann sem hann getur veitt upplýsingar um og varða skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með eða rannsókn á henni. Ákvæði 1. mgr. 96. gr. laganna, sem ríkisskattstjóri vísaði til, byggja á þessari upplýsingaskyldu og mæla fyrir um tiltekin viðbrögð m.a. ef ekki er orðið við áskorun ríkisskattstjóra um framlagningu gagna. Samkvæmt þessu byggðist krafa ríkisskattstjóra um gögn og upplýsingar samkvæmt bréfi hans, dags. 6. febrúar 2015, á lagafyrirmælum sem skylduðu kærendur til að veita hinar umbeðnu upplýsingar og gögn. Þessar rannsóknaraðgerðir báru ekki árangur, eins og fram er komið, þar sem kærendur sinntu ekki upplýsingaskyldu sinni. Ríkisskattstjóri byggði niðurstöðu sína, við þessar aðstæður, á fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum, þar á meðal upplýsingum frá breskum skattyfirvöldum sem í málinu greinir. Við þær aðstæður, sem hér hefur verið lýst, kemur ekki til álita að fella úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 29. apríl 2015, á þeim grundvelli að ríkisskattstjóri hafi ekki séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók ákvörðun í því og þannig vanrækt rannsóknarskyldu sína, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður þvert á móti að líta svo á að ríkisskattstjóri hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni á tilhlýðilegan hátt og honum hafi því verið heimilt að byggja niðurstöðu sína á þeim grundvelli, sem tiltækur var, að loknum rannsóknaraðgerðum sínum þótt þær bæru ekki þann árangur, vegna aðgerðarleysis kærenda, sem að var stefnt. Þá verður ekki séð að rökstuðningi ríkisskattstjóra hafi verið áfátt, svo sem umboðsmaður kærenda heldur fram, enda verður ekki annað séð en að kærendur hafi getað glöggvað sig á þeim forsendum sem ríkisskattstjóri byggði niðurstöðu sína á. Verður þannig ekki talið að þeir annmarkar hafi verið á rökstuðningi af hendi ríkisskattstjóra að ómerkja beri hinn kærða úrskurð af þeim sökum í heild sinni, sbr. 4. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 13. gr. sömu laga.
Samkvæmt framansögðu verður að leysa úr málinu á þeim grundvelli, sem það liggur nú fyrir yfirskattanefnd, og reynir á það hvort af hálfu kærenda hafa verið færðar fram þær skýringar og gögn sem hnekkt geta niðurstöðu ríkisskattstjóra.
Í kæru umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar, dags. 12. maí 2015, kemur fram að umræddar greiðslur frá Friends Life Limited hafi verið lagðar inn á bankareikning kærenda án sundurgreiningar í höfuðstól og vexti. Að öðru leyti er engin grein gerð fyrir þeim atriðum, sem ríkisskattstjóri krafði kærendur skýringa á með bréfi sínu, dags. 6. febrúar 2015, heldur er látið við það sitja að finna að rannsókn ríkisskattstjóra og rökstuðningi, svo sem fram er komið, auk þess sem staðhæft er að ríkisskattstjóri hafi lagt önnur hliðstæð mál til hliðar sökum þess að óljóst þyki hvernig með þau skuli fara. Ekki verður séð að þessar upplýsingar, sem ríkisskattstjóri hefur ekki mótmælt, geti ráðið úrslitum um niðurstöðu í úrskurði þessum, enda er því út af fyrir sig ekki haldið fram að ríkisskattstjóri hafi afgreitt hliðstæð sakarefni með annarri efnislegri niðurstöðu en í tilviki kærenda.
Kærendur hafa samkvæmt framansögðu engu svarað um þann þátt fyrirspurnar ríkisskattstjóra sem laut að því hvernig umræddar greiðslur frá Friends Life Limited væru til komnar, en í kæru til yfirskattanefndar er sem fyrr segir upplýst að greiðslan hafi ekki verið sundurliðuð í höfuðstól og vexti eða sundurliðuð á annan hátt. Af hálfu ríkisskattstjóra er byggt á því að um hafi verið að ræða ávöxtun af söfnunarlíftryggingu sem skattskyld sé sem vaxtatekjur samkvæmt 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 8. gr. sömu laga. Í síðarnefndu ákvæði kemur fram að vextir, arður og önnur ávöxtun af lífeyristryggingum, söfnunartryggingum, einstaklinga hjá líftryggingafélögum skuli teljast til tekna þegar slíkar tekjur koma til greiðslu, nema að því leyti sem lífeyristryggingar, söfnunartryggingar, verða skattlagðar sem tekjur samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Ætla verður að með niðurlagsákvæðinu sé vísað til 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og eftir atvikum þegar líftryggingarfé er greitt rétthafa í samræmi við skilyrði 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003 og telst þá ekki til skattskyldra tekna. Skírskotað var til síðastnefnds ákvæðis í bréfi ríkisskattstjóra frá 3. apríl 1996 sem kærendur hafa vísað til, en ekkert hefur þó komið fram því til stuðnings að umrætt undanþáguákvæði eigi við um þær greiðslur sem málið varðar. Í úrskurði sínum felldi ríkisskattstjóri umræddar greiðslur frá Friends Life Limited undir 11. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands, sem var í gildi tekjuárið 2011, sbr. auglýsingu nr. 32/1991 í C-deild Stjórnartíðinda. Í upphafsákvæði 11. gr. tvísköttunarsamningsins segir að vextir, sem myndist í aðildarríki, sem mótteknir séu af aðila sem sé raunverulegur rétthafi þeirra og heimilisfastur í hinu aðildarríkinu skuli einungis skattlagðir í síðarnefnda ríkinu. Þá kemur fram í 2. tölul. 11. gr. að hugtakið vextir skuli við ákvörðun íslensks skatts fela í sér sérhverjar tekjur sem farið sé með sem vexti samkvæmt íslenskum lögum. Í kæru til yfirskattanefndar er því haldið fram að fella beri umræddar tekjur undir 2. tölul. 21. gr. greinds tvísköttunarsamnings, þ.e. tekjur greiddar úr fjárvörslustofnunum, og að um frádrátt vegna skattgreiðslna fari þar af leiðandi eftir b-lið 2. mgr. 22. gr. samningsins. Af hálfu kærenda hafa engin gögn verið lögð fram til stuðnings þessari ályktun, frekar en um tildrög og eðli umræddra greiðslna yfirleitt.
Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neitt hafi komið fram sem getur hnekkt þeirri niðurstöðu ríkisskattstjóra að í greiðslum Friends Life Limited til kærenda felist a.m.k. að hluta ávöxtun af söfnunartryggingu í skilningi 5. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Þykir samkvæmt þessu ekki verða hjá því komist að vísa kærunni frá að svo stöddu vegna vanreifunar af hálfu kærenda.
Af hálfu kærenda er gerð krafa um að þeim verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kærendum málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd. Kröfu um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði er hafnað.