Úrskurður yfirskattanefndar

  • Óvenjuleg skipti í fjármálum
  • Söluhagnaður

Úrskurður nr. 132/2001

Gjaldár 1999

Virðisaukaskattur 1998

Lög nr. 75/1981, 58. gr. 2. mgr.  

Í úrskurði yfirskattanefndar í máli þessu kom fram að við sölu á óeðlilega lágu verði yrði að líta svo á, eðli málsins samkvæmt, að kaupandi nyti viðskiptanna í skilningi 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981. Var því hnekkt þeirri breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1999 að ákvarða kæranda tekjuviðbót vegna sölu hans á bifreið til nákomins aðila á óeðlilega lágu verði.

I.

Kærð er sú ákvörðun skattstjóra er hann tók með úrskurði um endurákvörðun, dags. 17. apríl 2000, að hækka söluverð á seldri bifreið, er kærandi hafði fært í skattskilum sínum vegna vélavinnu, og ákvarða kæranda söluhagnað af þeim sökum í stað gjaldfærðs sölutaps svo og viðbótarveltu til virðisaukaskatts. Var það mat skattstjóra að um óeðlilega lágt söluverð hefði verið að ræða, sbr. 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi seldi syni sínum, R, Nissan pickup bifreið, árgerð 1992 og nam söluverðið að meðtöldum virðisaukaskatti 62.250 kr. Sölutap vegna sölu bifreiðarinnar 96.879 kr. færði kærandi til gjalda í rekstrarreikningi vegna vélavinnu. Þá færði hann með virðisaukaskattsskyldri veltu 50.000 kr. vegna bifreiðarsölunnar.

Með bréfi skattstjóra, dags. 3. nóvember 1999, var kærandi m.a. beðinn um að gefa skýringar á söluverði framangreindrar bifreiðar. Ítrekaði skattstjóri fyrirspurn sína með bréfi, dags. 30. nóvember 1999, og tók fram að búast mætti við áætlun söluverðs miðað við gangverð ef svar bærist ekki.

Af hálfu kæranda svaraði umboðsmaður hans fyrirspurnum skattstjóra varðandi bifreiðasöluna með bréfi, dags. 10. desember 1999. Sagði umboðsmaðurinn að bifreiðin, sem væri Nissan Pickup árgerð 1992, hefði verið seld á gangverði miðað við ástand hennar. Hefði bifreiðin verið illa farin vegna þungaflutninga og aksturs utan vega, m.a. hefði hún verið rispuð og undirvagn hennar skakkur. Lét umboðsmaðurinn í ljós þá skoðun sína að aðrir hefðu varla verið tilbúnir til að greiða fyrir hana hærra verð og benti auk þess á að verð notaðra bifreiða hefði lækkað mjög á síðustu tveimur árum.

Þann 22. mars 2000 boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1999 og virðisaukaskatts árið 1998. Tók skattstjóri fram að samkvæmt ökutækjaskrá hefði kærandi selt syni sínum, R, bifreiðina M á 50.000 kr. án virðisaukaskatts eða 62.250 kr. með virðisaukaskatti þann 19. desember 1998. Hefði Rúnar síðan selt hana aftur tíu dögum síðar á 860.000 kr. án virðisaukaskatts. Vegna þess hve mikill munur hefði verið á kaup- og söluverði bifreiðarinnar hjá syni kæranda hefði skattstjóri farið fram á það við R að hann legði fram gögn sem skýrt gætu þennan mikla mismun. Hefði R gefið þær skýringar að bifreiðin hefði þarfnast mikilla lagfæringa er hann hefði keypt hana. Hefði skattstjóri þá farið fram á það við R að hann legði fram gögn varðandi keypta varahluti og viðgerðir. Hefði hann svarað því til að hann gæti ekki lagt fram nein gögn varðandi varahluti og viðgerðir þar sem þau væru ekki til. Hefði R gefið þær skýringar í bréfi umboðsmanns hans til skattstjóra, dags. 15. janúar 2000, að hann hefði ásamt vinum og vandamönnum lagt mikla vinnu í að lagfæra bifreiðina. Þá hefði hann ekki gert sér grein fyrir því að hann þyrfti að halda til haga varahlutareikningum þar sem hann hefði ekki ætlað sér að selja bifreiðina með hagnaði.

Boðaði skattstjóri síðan kæranda með vísan til 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann hefði í hyggju að ákvarða söluverð bifreiðarinnar til sonar kæranda „með tilliti til gangverðs sambærilegra bifreiða“. Jafnframt boðaði skattstjóri kæranda hækkun á virðisaukaskattsskyldri veltu ársins 1998 til samræmis við ákvörðun söluverðs bifreiðarinnar. Ekki barst svar við boðunarbréfinu.

Skattstjóri hratt boðuðum breytingum í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 17. apríl 2000. Sagði skattstjóri að þar sem svo mikill munur hefði verið á söluverði bifreiðarinnar til sonar kæranda og þess verðs sem sonurinn hefði síðan fengið fyrir hana tíu dögum eftir að hann keypti hana af kæranda hefði skattstjóri ákveðið að söluverð bifreiðarinnar teldist nema 500.000 kr. án virðisaukaskatts. Þá tók skattstjóri fram að virðisaukaskattur hækkaði um 122.500 kr. við þessa breytingu vegna hækkunar virðisaukaskattsskyldrar veltu um 500.000 kr. Þá gerði skattstjóri grein fyrir hækkun hreinna tekna í reit 62 í skattframtali sem leiddi m.a. af hækkun söluverðs bifreiðarinnar. Ennfremur beitti skattstjóri álagi samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 17. apríl 2000, til yfirskattanefndar með kæru, dags. 4. júlí 2000. Byggir umboðsmaðurinn kæruna á því að skattstjóri hafi ekki fært nægjanleg rök fyrir hinni umdeildu hækkun söluverðs bifreiðarinnar M og vísar í lýsingu sína í bréfi, dags. 10. desember 1999, á ástandi bifreiðarinnar. Telur umboðsmaðurinn að skattstjóri hafi ekki sýnt fram á að ástand bifreiðarinnar hafi verið betra en lýst hafi verið í bréfinu. Þá tekur umboðsmaðurinn fram að villa sé í útreikningum skattstjóra í úrskurðarorði og skattbreytingarseðli sem fylgt hafi úrskurðinum. Segir umboðsmaðurinn að upphaflegt söluverð bifreiðarinnar hafi verið 50.000 kr. Hafi skattstjóri talið það eiga að nema 500.000 kr. og verði því að telja að hækkun skattstjóra hafi numið 450.000 kr., en ekki 500.000 kr. eins og úrskurðarorð geri ráð fyrir.

IV.

Með bréfi, dags. 29. september 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt 9. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal í viðskiptum milli skyldra og tengdra aðila miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum milli ótengdra aðila. Tilgangur ákvæðisins er að koma í veg fyrir að óeðlileg verðlagningu, í því skyni að lækka skattgreiðslur, eigi sér stað í viðskiptum milli tengdra eða skyldra aðila.

Í 1. ml. 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, segir að kaupi skattaðili eign á óeðlilega háu verði eða selji eign á óeðlilega lágu verði geti skattyfirvöld metið hvað telja skuli kaup- eða söluverð.

Þann 19. desember 1998 seldi kærandi syni sínum bifreiðina M.  Söluverð var kr. 50.000,- án vsk. Tíu dögum síðar seldi sonur kæranda umrædda bifreið fyrir kr. 860.000,-. Þar sem svo mikill munur var á kaup- og söluverði fór skattstjóri þess á leit við son kæranda að hann legði fram gögn er skýrt gætu þennan mikla mun. Í innsendu bréfi frá syni kæranda kom í ljós að bifreiðin hefði þarfnast talsverðra lagfæringa en ekki gat hann þó lagt fram neina reikninga varðandi kostnað vegna keyptra varahluta og vegna viðgerða. Með hliðsjón af málsatvikum öllum telur ríkisskattstjóri að skattstjóri hafi sýnt fram á með nægilega traustum hætti að kærandi hafi verðlagt bifreiðina óeðlilega lágt og með réttu ákvarðað söluverð í samræmi við almennt gangverð sams konar bifreiða.

Ríkisskattstjóri fellst á kröfu kæranda um að skattstjóri hafi ákvarðað söluverð bifreiðarinnar samtals kr. 500.000,-. Virðisaukaskattsskyld velta hefði því átt að hækka um kr. 450.000,- en ekki 500.000,- eins og kom fram á skattbreytingarseðli. Að öðru leyti er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. október 2000, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í kröfugerð ríkisskattstjóra sem hann teldi ástæðu til. Var kæranda veittur 20 daga frestur til þess. Engar athugasemdir hafa borist frá kæranda.

V.

Samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, geta skattyfirvöld metið hvað telja skuli eðilegt kaup- eða söluverð, ef skattaðili kaupir eign á óeðlilega háu verði eða selur eign á óeðlilega lágu verði, og skal þá telja mismun söluverðs eða kaupverðs annars vegar og matsverðs hins vegar til tekna hjá þeim aðila sem slíkra viðskipta nýtur. Líta verður á þetta ákvæði sem sérákvæði gagnvart 1. mgr. sömu lagagreinar, enda yngra að stofni til. Skattstjóri byggði á því að umrædd bifreiðaviðskipti ættu undir 2. mgr. 58. gr laga nr. 75/1981, enda væri um óvenjuleg skipti í fjármálum að ræða með tilliti til þess munar á verði bifreiðarinnar sem í málinu greinir. Fallist er á það með skattstjóra að umrædd viðskipti ættu undir 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981 ef talið yrðu að um óvenjuleg viðskipti í fjármálum væri að ræða.

Við sölu á óeðlilega lágu verði verður að líta svo á, eðli málsins samkvæmt, að kaupandi njóti viðskiptanna í skilningi þessa orðalags lagaákvæðisins. Kærandi seldi bifreiðina M af gerðinni Nissan pickup, árgerð 1992, til sonar síns á 62.250 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Skattstjóri mat eðlilegt söluverð 500.000 kr. og færði það verð án tillits til frádráttar söluverðs kæranda til tekna sem skattskylda tekjuviðbót samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, en ekki þeim sem naut þessara viðskipta. Þegar af þessari ástæðu ber að hnekkja hinni kærðu breytingu skattstjóra á almennum skattskilum kæranda. Af því leiðir og að hækkun skattstjóra á virðisaukaskattsskyldri veltu fellur niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinar kærðu breytingar skattstjóra eru felldar niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja