Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning hjóna
  • Barnabætur

Úrskurður nr. 7/2023

Gjaldár 2020 og 2021

Lög nr. 90/2003, 62. gr. 1. mgr., 68. gr. A-liður 1. mgr.  

Hjónin A og B slitu samvistir í september 2018 og flutti A þá af sameiginlegu heimili þeirra. Ágreiningur var um forsjá og lögheimili barna A og B og með dómi héraðsdóms á árinu 2021 var A dæmd til þess að greiða meðlag með börnunum frá dómsuppsögu. Með úrskurði yfirskattanefndar var ekki fallist á kröfu A um að henni yrðu ákvarðaðar barnabætur með börnunum gjaldárin 2020 og 2021 þar sem leggja yrði til grundvallar að B hefði annast framfærslu barnanna í árslok 2019 og 2020 og teldist því framfærandi í skilningi skattalaga.

Ár 2023, miðvikudaginn 25. janúar, er tekið fyrir mál nr. 133/2022; kæra A, dags. 30. september 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2020 og 2021. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 30. júní 2022, að fella niður barnabætur kæranda gjaldárin 2020 og 2021 að fjárhæð 466.450 kr. (barnabótaauki 63.000 kr.) fyrra árið og 422.699 kr. (barnabótaauki 45.000 kr.) seinna árið, sem ákveðnar höfðu verið við almenna álagningu opinberra gjalda greind gjaldár. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt fyrirliggjandi dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. október 2021 hefðu kærandi og fyrrverandi maki hennar, B, slitið samvistum 1. september 2018 og hefði kærandi þá flutt af sameiginlegu heimili þeirra. Í dóminum kæmi fram að kærandi og B færu með sameiginlega forsjá þriggja barna þeirra og að lögheimili barnanna væri hjá föður. Þá skyldi móðir greiða einfalt meðlag með tveimur yngstu börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs og með elsta barninu frá 1. september 2018 til 21 júní 2021. Tók ríkisskattstjóri fram í úrskurði sínum að B hefði óskað eftir barnabótum sem einstætt foreldri vegna álagningar gjaldárin 2019, 2020 og 2021 vegna barna hans og kæranda. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir lagagrundvelli málsins og rakti í því sambandi ákvæði 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við ákvörðun barnabóta vegna álagningar 2019, 2020 og 2021 væri miðað við fjölskyldustöðu eins og hún væri skráð í þjóðskrá 31. desember 2018, 2019 og 2020 en breytingar innan ársins hefðu ekki áhrif. Í samræmi við það sem fram kæmi í dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli kæranda og fyrrverandi maka hennar teldist kærandi ekki framfærandi barnanna á árunum 2018, 2019 og 2020 í skilningi A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 og ætti hún því ekki rétt á barnabótum og barnabótaauka vegna álagningar árin 2020 og 2021.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 30. september 2022, krefst kærandi þess að niðurfellingu ríkisskattstjóra á barnabótum hennar gjaldárin 2020 og 2021 verði hnekkt. Sé því ranglega haldið fram að kærandi og fyrrverandi maki hennar hafi slitið samvistum 1. september 2018. Skrifað hafi verið undir fjárskiptasamning 18. desember 2018 hjá sýslumanni sem hafi verið dagsetning sambandsslita. Þá sé algjörlega rangt að börnin hafi búið hjá föður sínum. Þau hafi búið til jafns hjá honum og kæranda og sé kærandi framfærandi barnanna. Hafi kærandi verið með sama skráða heimilisfang og börnin til 28. október 2021. Jafnframt hafi héraðsdómur Reykjavíkur kveðið á um að kærandi þyrfti ekki að greiða meðlag frá upphafi heldur aðeins frá 28. október 2021.

II.

Með bréfi, dags. 1. nóvember 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 21. desember 2022, hefur umboðsmaður kæranda lagt fram athugasemdir í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu kemur fram að kærandi sætti sig við endurákvörðun opinberra gjalda hennar vegna elsta barnsins. Í bréfinu er lögð áhersla á að þrátt fyrir að kærandi og fyrrverandi maki hennar hafi slitið samvistum 1. september 2018 þá sé viðmiðunardagur skipta 18. desember 2019 samkvæmt framlögðum skilnaðarsamningi. Þá hafi kærandi verið dæmd til að greiða meðlag með börnunum frá dómsuppsögu héraðsdóms 29. október 2021, enda hafi börnin og kærandi verið með sama lögheimili fram að þeim degi og ljóst að börnin hafi verið á framfæri kæranda fram að þeim tímapunkti. Mótmælir kærandi því að börnin hafi búið hjá föður sínum. Í bréfinu er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Með bréfinu fylgir afrit af skilnaðarsamningi kæranda og fyrrverandi maka hennar.

III.

Ágreiningur máls þessa varðar barnabætur kæranda gjaldárin 2020 og 2021. Við almenna álagningu opinberra gjalda umrædd gjaldár voru kæranda og fyrrverandi maka hennar, B, ákvarðaðar barnabætur vegna þriggja barna þeirra. Námu barnabæturnar samtals 932.900 kr. fyrra árið og 845.398 kr. seinna árið er skiptust til helminga á milli þeirra eða 466.450 kr. fyrra árið og 422.699 kr. síðara árið að hlut hvors um sig. Ríkisskattstjóri felldi barnabætur kæranda niður með úrskurði um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda, dags. 30. júní 2022, á þeim grundvelli að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. október 2021, hefði sambúð kæranda og fyrrverandi maka hennar, B, verið slitið þann 1. september 2018 og hefðu börn þeirra frá þeim tíma búið hjá föður sínum. Teldist kærandi því ekki framfærandi barnanna í skilningi A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á árunum 2019 og 2020 og ætti kærandi því ekki rétt á barnabótum og barnabótaauka vegna álagningar 2020 og 2021. Kærandi mótmælir greindri niðurfellingu ríkisskattstjóra á barnabótum og barnabótaauka gjaldárin 2020 og 2021 vegna tveggja yngstu barna kæranda og B með þeim rökum að kærandi hafi verið í stöðu framfæranda og hafi börnin búið til jafns hjá henni og föður sínum. Þá hafi hún verið skráð með sama heimilisfang og börnin allt til 28. október 2021 og ekki verið gert að greiða meðlag fyrr en frá og með þeim degi. Kærandi unir niðurfellingu barnabóta vegna elsta barnsins.

Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, svo sem það ákvæði hljóðaði á þeim tíma sem hér skiptir máli, skal ríkissjóður greiða barnabætur með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna. Bæturnar skal greiða til framfæranda barnsins, en framfærandi telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins. Tekið er fram að sá er greiðir meðlag með barni teljist ekki framfærandi í þessu sambandi. Hjón, sem skattlögð eru samkvæmt 62. gr., teljast bæði framfærendur og skiptast barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildir um sambúðarfólk sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr., enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Að sama skapi teljast þeir sem halda heimili saman ásamt barni sínu framfærendur í skilningi ákvæðisins þótt skilyrði til skráningar á sambúð séu ekki uppfyllt. Við slíkar aðstæður skal ákvarða barnabætur eins og um hjón sé að ræða.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með skráð lögheimili að M allt frá 1. september 2016 til 1. júní 2021 þegar lögheimili hennar var flutt að K í sama sveitarfélagi. Í fyrirliggjandi dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. október 2021 í máli B gegn kæranda kemur fram að kærandi og B hafi slitið samvistum í september 2018. Kærandi og B hafi komið til sýslumanns 18. desember 2018 og fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Var fært í hjónaskilnaðarbók sýslumanns að samkomulag væri um að forsjá barnanna yrði sameiginleg, lögheimili þeirra hjá B og að kærandi greiddi einfalt meðlag með börnunum frá útgáfudegi leyfisbréfs til skilnaðar að borði og sæng. Málinu var frestað þar til gengið hefði verið frá fjárskiptasamningi. Ágreiningur var um fjárskiptin og lauk þeim þætti máls ekki fyrr en með skilnaðarsamningi í apríl 2020. Á þeim tíma var hins vegar risinn ágreiningur um lögheimili barnanna. Leyfi til lögskilnaðar var veitt 9. desember 2020.

Eftir samvistarslitin í september 2018 munu tvö yngri börnin hafa dvalið að mestu leyti jafnt hjá kæranda og B, þannig að umgengni hafi að mestu verið vikuskipt, en elsta barnið dvaldi alfarið hjá föður. Það frávik var þó frá þessu að kærandi dvaldi langdvölum erlendis á árinu 2019. Í þessu sambandi er þess getið í dómi héraðsdóms að kærandi hafi farið erlendis í tvær vikur í janúar það ár vegna jarðarfarar föður sambýliskonu kæranda. Þá hafi kærandi dvalið erlendis í mars og apríl og síðan frá því í júní og fram í nóvember. Kemur fram að börn kæranda og B hafi dvalið á heimili B meðan kærandi dvaldi erlendis, en í kjölfar utanlandsferðar kæranda í mars og apríl hafi hún óskað eftir því að börnin yrðu hjá henni í jafnlangan tíma og hún hefði verið erlendis en B hefði neitað því. Með nefndum dómi var skorið úr ágreiningi aðila um lögheimili barnanna, greiðslu meðlags og umgengni. Í dóminum kemur fram að ágreiningslaust var að forsjá barnanna yrði sameiginleg. Samkvæmt niðurstöðu dómsins skyldi lögheimili barnanna allra vera hjá föður þeirra. Jafnframt skyldi kærandi greiða einfalt meðlag með yngri börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra en með elsta barninu frá 1. september 2018 til þess dags er það varð 18 ára á árinu 2021.

Ekki verður séð að ágreiningur sé um það í málinu að samvistarslit hafi orðið með kæranda og B í september 2018 og að kærandi hafi þá flutt af heimili þeirra hjóna og barna þeirra og tekið upp sambúð með C. Allt að einu var engin breyting gerð á lögheimili kæranda sem þannig var áfram skráð að M og stóð svo fram til 28. október 2021. Kærandi og B töldu fram til skatts hvort í sínu lagi gjaldárin 2020 og 2021. Í athugasemdadálki í skattframtali árið 2020 tilgreindi kærandi að börnin byggju hjá henni og föður þeirra til skiptis og að ekki hefði náðst samkomulag um lögheimili þeirra, en þau hefðu verið með skráð lögheimili hjá föður til að þurfa ekki að skipta um skóla. Kærandi gat þess jafnframt að lögheimili hennar væri ennþá sama lögheimili og lögheimili barnanna. Í skattframtali árið 2021 tók kærandi fram í athugasemdareit að börnin byggju hjá henni og föður þeirra til skiptis en ekki hefði náðst samkomulag um lögheimili þeirra. Ágreiningur um forsjá og lögheimili barnanna væri til meðferðar hjá héraðsdómi. Þrátt fyrir að í skattframtölum B árin 2020 og 2021 væri bæði árin tilgreint að hann væri einstætt foreldri ákvarðaði ríkisskattstjóri honum og kæranda barnabætur og barnabótaauka við frumálagningu nefnd ár eins og um hjón væri að ræða. Verður helst ráðið að ríkisskattstjóri hafi litið svo á að þar sem engin breyting hefði verið gerð á lögheimilisskráningu héldu þau kærandi og B áfram heimili saman ásamt börnum sínum. Í úrskurði ríkisskattstjóra, sbr. og boðunarbréf embættisins frá 7. júní 2022, vísaði ríkisskattstjóri til þess að í dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli kæranda og B kæmi fram að kærandi hefði flutt frá sameiginlegu heimili þeirra í september 2018 vegna samvistarslita.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að skráning lögheimilis kæranda að M fékk ekki staðist eftir þær breytingar sem urðu á högum hennar í september 2018. Tekið skal fram að þrátt fyrir lögheimilisskráningu kæranda verður kæra hennar til yfirskattanefndar ekki skilin svo að byggt sé á því að kærandi og B hafi haldið saman heimili ásamt börnunum í árslok 2019 og 2020. Fer ekki heldur á milli mála að svo var ekki, en eins og fram er komið er rakið í dómi héraðsdóms í máli kæranda og B að kærandi hafi flutt af sameiginlegu heimili þeirra í september 2018 og hafið sambúð með C. Upplýsingar í framlögðum skilnaðarsamningi þykja ekki staðfesta annað en að B hafi haldið heimili að M en þar kemur fram að maðurinn (B) skuli hafa endurgjaldslaus afnot fasteignarinnar og greiða rekstrarkostnað hennar frá viðmiðunardegi skipta að því gefnu að hann flytji ekki út en þá skuli konan (kærandi) hafa heimild til að nýta eignina með sama hætti. Tekið skal fram vegna athugasemdar umboðsmanns kæranda í bréfi til yfirskattanefndar frá 21. desember 2022 um viðmiðunardag skipta að tilgreind viðmiðunardagsetning fjárskipta í framlögðum skilnaðarsamningi kæranda og B hefur eins og málið liggur fyrir enga þýðingu við úrlausn um það hvort kærandi teljist hafa verið framfærandi barnanna í lok tekjuáranna 2019 og 2020 í skilningi tekjuskattslaga.

Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður að leggja til grundvallar að B hafi annast framfærslu barnanna í árslok 2019 og 2020 og teljist því framfærandi í skilningi 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja