Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 548/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður — 30. gr. 2. mgr. — 31. gr. 1. og 7. tl. — 53. gr. — 91. gr. 1. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. og 4. ml. — 100. gr. 1. og 5. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Landbúnaður — Búrekstur — Ferðaþjónusta — Atvinnurekstur — Atvinnurekstrartekjur — Atvinnurekstur, fjölþættur — Fjölþættur atvinnurekstur — Landbúnaðarskýrsla — Ársreikningur — Samræmingarblað — Fylgigögn skattframtals — Verðbreytingarfærsla — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Rekstrartap — Yfirfæranlegt rekstrartap — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Rekstrarkostnaður — Vaxtagjöld — Vaxtakostnaður — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Kærufrestur — Kæruúrskurður — Póstlagningardagur — Póstlagningardagur kæruúrskurðar — Kæruúrskurður, póstlagningardagur — Móttökudagur kæruúrskurðar — Kæruúrskurður, móttökudagur — Rekstrarlok — Rekstrarlok, tímaviðmiðun — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærendur sættu áætlun skattstjóra við álagningu opinberra gjalda gjaldársins 1989. Skattstjóri móttók skattframtal kærenda 1989 þann 23. júní 1989 samkvæmt áritun hans þar um. Meðfylgjandi skattframtali 1989 var landbúnaðarskýrsla, ársyfirlit vegna ferðaþjónustu, verðbreytingarskýrsla vegna X, og ársyfirlit vegna girðingarsölu. Á samræmingarblaði, RSK 4.05, voru færðar upp niðurstöður hvers rekstrarþáttar og var samandregin niðurstaða hrein eign 1.667 kr. og tap ársins 91.109 kr. Ekki hafði verið fært inn á það yfirfæranlegt tap 530.346 kr. af samræmingarblaði, RSK 4.05, ársins á undan. Báðir kærendur gegndu launuðum störfum á tekjuárinu 1988 og töldu fram laun vegna þeirra á tekjuframtali hvors um sig.

Með kæruúrskurði, dags. 20. október 1989, kvað skattstjóri upp svofelldan úrskurð í tilefni framkomins skattframtals:

„Fallist er á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1989. Á gjaldstofna er lagt 15% álag skv. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Eftirtaldar breytingar eru gerðar á framtalinu:

Í skattframtali eru færðar verðbreytingatekjur vegna landbúnaðar, ferðaþjónustu og X og til gjalda er færður vaxtakostnaður vegna landbúnaðar. Reksturskostnað er aðeins heimilt að draga frá tekjum af atvinnurekstri, sbr. 2. mgr. 29. gr. og 31. gr. laga nr. 75/1981.

Tekjur eða gjöld vegna verðbreytinga ber að reikna hjá þeim mönnum sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi af ákveðnum eignum og skuldum sem rekstrinum eru tengdar, sbr. 53. gr. nefndra laga. Engar tekjur eru á árinu af landbúnaði, ferðaþjónustu og X. Er því ekki fallist á að um sé að ræða atvinnurekstur í skilningi laga um tekju- og eignarskatt. Með vísan til framanritaðs er því hvorki fallist á að kæranda sé heimilt að gjaldfæra nefndan vaxtakostnað, né að honum beri að reikna tekjur vegna verðbreytinga. Reiknaðar tekjur vegna verðbreytinga samtals kr. 11.805 og tap á landbúnaði kr. 124.737 er því fellt niður á samræmingarblaði.

Engin grein er gerð fyrir eigin vinnuframlagi við girðingar og enginn launakostnaður er gjaldfærður á rekstursreikningi, sem verður að telja óeðlilegt. Eigin laun kæranda við starfsemina eru því áætluð kr. 20.000.

Eftir framangreindar breytingar verður yfirfæranlegt rekstrartap kr. 626.530.“

Með kæru, dags. 29. nóvember 1989, móttekinni degi síðar hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er kæran svohljóðandi:

„Fyrir hönd A og B kæri ég hér með úrskurð skattstjóra, dags. 20. október 1989. Umbj. minn móttók úrskurðinn 16. nóvember og sendi undirrituðum úrskurðinn með bréfi dags. 22. nóvember en það barst 27. nóvember s.l. Þess er vænst að fallist verði á að taka kæru þessa til efnislegrar meðferðar:

Mótmælt er breytingum á skattframtali. Varðandi útreikning verðbreytingarfærslu, vísast til ákvæða skattalaga svo og fyrri úrskurða ríkisskattanefndar þar sem fram kemur að reikna beri verðbreytingarfærslu þar til eignir eða skuldir er tengjast atvinnurekstri eru að fullu uppgerðar.

Þá er mótmælt beitingu álags á þá gjaldstofna sem umbj. minn hefur skilað staðgreiðslu af.

Umbj. minn er launþegi og hefur greitt tekjuskatt og útsvar 1988 skv. staðgreiðslu opinberra gjalda með reglubundnum hætti. Þrátt fyrir drátt á framtalsskilum er það álit undirritaðs að eigi sé heimilt að bæta álagi á þær tekjur sem þegar hefur verið skilað skatti af og er þess farið á leit að álag verði fellt niður.“

Með bréfi, dags. 11. maí 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 19. nóvember 1989. Framkomnar skýringar þykja ófullnægjandi. Því er haldið fram að kærendur hafi móttekið úrskurðinn 16. nóvember 1989 eða tæplega mánuði eftir að hann var sendur frá skattstjóra á þá- og núverandi heimilisfang kærenda. Kærendur hafa ekki gert líklegt að staðhæfing þessi eigi við rök að styðjast. Meðfylgjandi er ljósrit úr póstkvittunarbók Skattstofu er sýnir að póstlagningardagur kæruúrskurðarins er 20. október 1989. Verður skv. framansögðu að telja að kærendur hafi fengið umræddan úrskurð fyrr en þeir halda fram og þeim því gefist ráðrúm til að kæra til ríkisskattanefndar innan veitts frest.“

Eins og öllum atvikum er háttað þykir bera að fallast á kröfu kærenda varðandi vaxtakostnað og verðbreytingarfærslu. Fyrri framtalsskil kærenda eru ekkert reifuð í málinu hvorki af hálfu skattstjóra né ríkisskattstjóra. Að því athuguðu og að virtum atvikum að öðru leyti er krafa kærenda um niðurfellingu álags tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja