Úrskurður yfirskattanefndar
- Tekjur af samfélagsmiðlum
- Tvísköttunarsamningur
- Álag
Úrskurður nr. 9/2023
Gjaldár 2020
Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 9. tölul., 108. gr. 2. mgr. Tvísköttunarsamningur við Bandaríkin, 20. gr.
Í máli þessu var talið að þóknun til kæranda vegna auglýsingabirtinga á samfélagsmiðlinum YouTube væri skattskyld í hans hendi og að skattlagningarréttur teknanna væri hér á landi samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna.
Ár 2023, miðvikudaginn 25. janúar, er tekið fyrir mál nr. 129/2022; kæra A, dags. 28. september 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2020. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 28. september 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 1. september 2022, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2020. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali hans árið 2020 greiðslur frá erlendu félagi, B Corp., að fjárhæð 3.973.899 kr. á árinu 2019 að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 5. apríl 2022, og boðunarbréf, dags. 14. júní sama ár, og tölvupósta kæranda dagana 11. apríl og 22. júní 2022. Vísaði ríkisskattstjóri til þeirra skýringa kæranda að umræddar greiðslur væru þóknun til kæranda fyrir auglýsingabirtingar á samfélagsmiðlinum YouTube og tók fram að greiðslurnar væru ekki taldar fram til skatts í skattframtali kæranda árið 2020. Kærandi væri búsettur á Íslandi og bæri hér ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003. Þá yrði ekki annað séð en að um skattskyldar tekjur kæranda væri að ræða samkvæmt 9. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga og að greiðslurnar féllu undir ákvæði 20. gr. í tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna þar sem fjallað væri um „aðrar tekjur“. Skattlagningarréttur vegna teknanna væri því hér á landi. Samkvæmt því væri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárið 2020 hækkaður um 3.973.899 kr.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að hækkun ríkisskattstjóra verði felld niður. Í kærunni kemur fram að þær tekjur sem málið snúist um séu til komnar vegna auglýsinga á rás kæranda á YouTube. Tekjurnar hafi verið skattfrjálsar í upprunalandinu, þ.e. í Bandaríkjunum, til og með maí 2021 og líti kærandi svo á að skattyfirvöldum sé ekki heimilt að skattleggja slíkar tekjur hér á landi. Vitað sé að starfsmenn Sameinuðu þjóðanna séu skattfrjálsir bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Kærandi sé ellilífeyrisþegi og geti ekki greitt fyrir annað en mat og húsaleigu.
II.
Með bréfi, dags. 24. nóvember 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. nóvember 2022, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Með hinum kærða úrskurði sínum um endurákvörðun skattlagði ríkisskattstjóri hjá kæranda gjaldárið 2020 greiðslur að fjárhæð alls 3.973.899 kr. sem kærandi fékk frá erlendu félagi, B Corp., á árinu 2019. Vísaði ríkisskattstjóri í því efni til upplýsinga um mánaðarlegar innborganir hins erlenda félags á bankareikning kæranda hér á landi, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 5. apríl 2022, þar sem greiðslurnar voru sundurliðaðar og skorað á kæranda að gera grein fyrir tilefni þeirra þar sem ekki yrði séð að þær væru taldar fram í skattframtali kæranda árið 2020. Af hálfu kæranda er komið fram að um sé að ræða þóknanir til hans vegna auglýsingabirtinga á samfélagsmiðlinum YouTube þar sem kærandi birti efni á eigin rás. Um skattskyldu teknanna í hendi kæranda vísaði ríkisskattstjóri til hins almenna ákvæðis 9. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og gat þess í því sambandi að tekjurnar féllu ekki „nákvæmlega“ undir upptalningu í A-lið sömu greinar laganna, væru ekki eðlisskyldar fjármagnstekjum og féllu ekki undir skilgreiningu B-liðar 7. gr. laganna á atvinnurekstrartekjum. Ennfremur tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna, sbr. auglýsingu nr. 8/2008 í C-deild Stjórnartíðinda, væri skattlagningarréttur vegna tekna þessara á Íslandi. Vísaði ríkisskattstjóri í því efni til ákvæðis 20. gr. tvísköttunarsamningsins („Aðrar tekjur“). Við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárið 2020, sem leiddi af tekjufærslu teknanna í skattframtali hans umrætt ár, bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að breyting ríkisskattstjóra verði felld niður. Er tekið fram að umræddar tekjur hafi verið skattfrjálsar í upprunalandi þeirra, þ.e. í Bandaríkjunum, á greindum tíma og að skattyfirvöldum hér á landi sé ekki heimilt að skattleggja þær.
Í tilefni af fyrrgreindum sjónarmiðum kæranda skal tekið fram að kærandi er heimilisfastur hér á landi og ber hér ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda er skylt að greiða tekjuskatt og útsvar hér á landi af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað. Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003 teljast til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru. Síðan eru í dæmaskyni tilgreindar í 7. gr. skattskyldar tekjur í þremur stafliðum. Samkvæmt 9. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 teljast til skattskyldra tekna „sérhverjar aðrar tekjur eða ígildi tekna sem eigi eru sérstaklega undanskildar í lögum þessum eða sérlögum“, eins og þar segir.
Ágreiningslaust er í málinu að hinar umdeildu greiðslur til kæranda á árinu 2019 séu þóknun til hans vegna auglýsingabirtinga á samfélagsmiðlinum YouTube. Þar sem slíkar tekjur eru ekki sérstaklega undanþegnar skattlagningu í lögum nr. 90/2003 eða öðrum lögum verður að fallast á með ríkisskattstjóra að um sé að ræða skattskyldar tekjur kæranda samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 9. tölul. C-liðar sömu lagagreinar. Í fyrrgreindum tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna eru ekki sérstök ákvæði um tekjur af umræddum toga. Telja verður því að greindar tekjur falli undir ákvæði um „aðrar tekjur“ í 20. gr. samningsins, en sú grein tekur til tekna sem ekki er fjallað um í öðrum greinum tvísköttunarsamningsins. Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar samningsins skulu slíkar tekjur, sem eru raunverulega í eigu aðila heimilisfasts í samningsríki, einungis skattlagðar í því ríki og skiptir þá ekki máli hvar þeirra er aflað. Verður því fallist á með ríkisskattstjóra að skattlagningarréttur teknanna sé hér á landi.
Eins og fram er komið bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við þá hækkun skattstofna kæranda gjaldárið 2020 sem leiddi af breytingu hans á skattframtali kæranda umrætt ár, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt ákvæði þessu má ríkisskattstjóri, séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir, bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó ekki beita hærra álagi en 15%. Í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um skyldu til niðurfellingar álags við þargreindar aðstæður, m.a. ef skattaðila verður ekki kennt um annmarka á framtali. Þegar litið er til þess að um vanframtaldar tekjur er að ræða þykir hvorki hafa verið sýnt fram á það af hálfu kæranda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá beitingu heimildarákvæða 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 í tilviki kæranda að öðru leyti.
Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfum kæranda er hafnað.