Úrskurður yfirskattanefndar

  • Almannaheillaskrá
  • Sjóður
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 11/2023

Lög nr. 90/2003, 4. gr. 4. tölul. og 9. tölul. (brl. nr. 32/2021, 1. gr., sbr. brl. nr. 133/2021, 1. gr.)   Lög nr. 110/2021, 1. gr.  

Kærandi í máli þessu var verðlaunasjóður og var tilgangur sjóðsins að hvetja nemendur til að stunda nám sitt vel og ná góðum árangri. Samkvæmt skipulagsskrá fyrir kæranda var óheimilt að skerða stofnfé sjóðsins en heimilt að nýta ávöxtun á hverju ári til að verðlauna efnilega nemendur í tilteknum námsgreinum, svo sem nánar var rakið. Ríkisskattstjóri synjaði kæranda um skráningu í almannaheillaskrá, m.a. á þeim forsendum að þar sem stofnfé kæranda yrði ekki skert yrði hluta af tekjum sjóðsins aldrei ráðstafað til almannaheilla. Í úrskurði yfirskattanefndar var bent á að ákvæði skipulagsskrárinnar um stofnfé hefði verið breytt tvisvar frá upphafi og að efnisinntak ákvæðisins miðaði að því að höfuðstóll sjóðsins héldi raungildi sínu. Var ekki fallist á með ríkisskattstjóra að ákvæði skipulagsskrárinnar gæti orðið skráningu kæranda ásteytingarsteinn. Þá var sú ályktun ríkisskattstjóra, um að það væri skilyrði skráningar að tekjuöflun umsóknaraðila byggði á gjöfum eða frjálsum framlögum, ekki talin fá neinn stuðning af lögum. Var ákvörðun ríkisskattstjóra felld úr gildi og málinu vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Ár 2023, miðvikudaginn 25. janúar, er tekið fyrir mál nr. 113/2022; kæra A, dags. 17. ágúst 2022, vegna skráningar í almannaheillaskrá. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra frá 2. ágúst 2022 að hafna skráningu kæranda í almannaheillaskrá, sbr. ákvæði 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum. Var ákvörðun ríkisskattstjóra að meginstefnu byggð á því að starfsemi kæranda gæti ekki talist til almannaheillastarfsemi þar sem ríkisskattstjóri taldi að aðeins hluta af tekjum kæranda væri ráðstafað til almannaheilla.

Kærandi er sjóður sem stofnsettur var með staðfestri skipulagsskrá á árinu 1997. Í ákvörðun sinni rakti ríkisskattstjóri að samkvæmt skipulagsskrá kæranda skyldu tekjur sjóðsins vera hluti af árlegum vöxtum og arði af eignum hans. Kæmi fram í 8. gr. skipulagsskrárinnar að höfuðstól mætti ekki skerða og þegar kostnaður við stjórn og rekstur sjóðsins hefði verið greiddur af árlegum vaxtatekjum hans skyldi því sem eftir væri skipt í tvo jafna hluti og skyldi færa annan hlutinn inn á höfuðstólinn en hinum skyldi varið til að verðlauna efnilega nemendur í tilteknum námsgreinum við Háskóla Íslands. Jafnframt kæmi fram að dygði helmingur vaxta ekki fyrir verðtryggingu höfuðstóls skyldu engin verðlaun veitt. Þá skyldu engin verðlaun veitt fyrr en vextir hefðu bætt upp skerðingu verðtryggðs höfuðstóls. Ennfremur kæmi fram að lyki enginn nemandi í umræddum námsgreinum prófi væri stjórn heimilt að láta ónýtt ráðstöfunarfé, eða hluta þess, renna til stofnsjóðsins það árið, eða að öðrum kosti bæta því við óráðstafað verðlaunafé.

Ákvörðun sína um að synja kæranda um skráningu í almannaheillaskrá rökstuddi ríkisskattstjóri annars vegar með því að í skipulagsskrá kæranda væri ekkert fjallað um tekjuöflun sjóðsins og því yrði ekki annað séð en að kæranda væri einungis ætlað að afla tekna af vöxtum og arði. Þætti því ráðið að ekki væri gert ráð fyrir því „að tekjuöflun sjóðsins byggi á frjálsum framlögum líkt og felst í skráningu á almannaheillaskrá“, svo sem þar sagði. Hins vegar vísaði ríkisskattstjóri til þess að ljóst þætti að hluta af ráðstöfunartekjum hvers árs yrði aldrei ráðstafað til starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða þar sem þær væru óskerðanlegar samkvæmt 8. gr. skipulagsskrárinnar og ætlað að safnast upp til ótilgreinds tíma, en slík takmörkun á ráðstöfun framlaga í sjóðinn væri ekki í samræmi við þá almannaheillastarfsemi sem fælist í ákvæðum 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Skilyrði þess að félög, sjóðir og stofnanir nytu þeirrar ívilnunar sem fælist í 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 væri að viðkomandi lögaðili hefði með höndum þá almannaheillastarfsemi sem tiltekin væri í a-g lið 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laganna og veitti mótteknum framlögum að fullu til þeirrar starfsemi. Eðli málsins samkvæmt liði tiltölulega skammur tími milli framlaga til þessara lögaðila og ráðstöfun þeirra til umræddra málaflokka sem undir almannaheillastarfsemi félli, enda fæli langvarandi söfnun fjármuna ekki í sér almannaheillastarfsemi í sjálfu sér heldur fælist hún fremur í ráðstöfun umræddra fjármuna. Velferðarstarfsemi þar sem verulegum hluta móttekinna styrkja væri ráðstafað með varanlegum hætti inn á höfuðstól sjóðs viðkomandi lögaðila teldist því ekki til almannaheillastarfsemi í skilningi 2. mgr. 4. tölul. og 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003.

Til nánari skýringar á heimild til undanþágu frá tekjuskatti samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 tók ríkisskattstjóri fram að talið hefði verið að undanþága töluliðarins réðist ekki eingöngu af markmiði þess lögaðila sem félli undir hann og bæri að verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla, heldur skyldi þeim hagnaði sem um ræddi í raun varið til þeirrar starfsemi til almannaheilla sem nú félli undir a-g lið 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Við mat á því hvort hagnaði væri ráðstafað til almannaheilla bæri að líta til hagnaðar hvers árs fyrir sig. Einnig bæri að hafa í huga að um undantekningu frá meginreglu um skattskyldu væri að ræða. Kæmu þessi sjónarmið m.a. fram í lok umfjöllunar um 1. gr. í greinargerð með frumvarpi því er orðið hefði að lögum nr. 32/2021, sbr. þskj. 416-342 mál. Tók ríkisskattstjóri fram að þó þessi hluti greinargerðarinnar varðaði fyrst og fremst lögaðila sem stunduðu atvinnurekstur, og byggðu undanþágu sína frá greiðslu tekjuskatts á því að öllum hagnaði væri einungis varið til almannaheilla sem meta þyrfti að loknu hverju rekstrarári, yrði að telja sömu sjónarmið eiga við í megindráttum um aðra lögaðila sem ekki stunduðu atvinnurekstur en óskuðu eftir undanþágu frá tekjuskatti og/eða skráningu í almannaheillaskrá. Hagnaður hvers árs yrði þannig ekki undanþeginn skattlagningu án ráðstöfunar hans á því ári nema ljóst þætti að ráðstöfun hans síðar væri liður í tilgreindu yfirstandandi verkefni til almannaheilla sem kæmi eftir atvikum fyrirsjáanlega til framkvæmda á næsta ári. Skráning í almannaheillaskrá og þar með sá mögulegi skattafrádráttur sem heimilaðist hjá styrkveitendum á grundvelli framlaga til lögaðila á almannaheillaskrá þyrfti að skoðast í sams konar samhengi, þ.e. að ráðstafa bæri framlögum innan skamms tíma til þeirra afmörkuðu málefna sem féllu undir 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laganna þannig að ljóst væri að viðkomandi lögaðili hefði raunverulega með höndum þá almannaheillastarfsemi og þá ráðstöfun fjármuna sem mótteknum styrkjum væri ætlað að renna til og skattaafsláttur styrkveitenda byggði á.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir embættið að skrá kæranda í almannaheillaskrá frá og með 25. maí 2022. Í kærunni er gerð grein fyrir málavöxtum. Er rakið að B hafi á gamals aldri lagt til stofnfé sjóðsins sem hafi numið samtals 45 milljónum króna, en B hafi látist á árinu 2006. Stofnskrá sjóðsins sé að stofni til frá 11. apríl 1997 og hafi hún verið birt í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. … Þá hafi stofnskránni verið breytt tvisvar, sbr. auglýsingar nr. … Tilgangur sjóðsins sé óbreyttur frá upphafi en hann sé „að hvetja nemendur til að stunda nám sitt vel og með góðum árangri“ og geri sjóðurinn það með því að veita peningaverðlaun fyrir námsárangur í tilteknum námsgreinum við Háskóla Íslands. Verðlaunaféð sé ávöxtun sjóðsins umfram rekstrarkostnað hans og verðbætingu höfuðstóls samkvæmt 8. gr. skipulagskrárinnar, en verðlaun hafi fyrst verið veitt úr sjóðnum árið 2000 og séu verðlaunahafar orðnir 58 talsins.

Tekið er fram í kærunni að hafið sé yfir vafa að kærandi stundi ekki atvinnurekstur og sé kærandi ennfremur ótvírætt menntasjóður sem falli undir e-lið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2003. Þá sé ótvírætt að kærandi uppfylli skilyrði til að teljast almannaheillafélag samkvæmt 1. gr. laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla. Tekjum umfram verðbætingu stofnsjóðs sé einungis heimilt að ráðstafa með því að verðlauna nemendur fyrir námsárangur í ákveðnum greinum. Séu verðlaunin allt í senn hvatning til fólks til að stunda nám í þessum greinum og hvatning til Háskólans til að halda úti öflugri kennslu á fræðasviðunum. Hafi verðlaun þessi reynst mörgum verðlaunahöfum mikilvægur fjárhagslegur stuðningur í framhaldsnámi á meistara- og doktorsstigi. Megi því ljóst vera að kærandi uppfylli öll efnisskilyrði til skráningar í almannaheillaskrá.

Kærandi hafi ekki verið stofnaður til að afla fjár til söfnunar í sjóð svo sem ríkisskattstjóri virðist telja. Hugsjónamaður hafi stofnað sjóðinn og lagt honum til stofnfé í þeim tilgangi að ráðstafa ávöxtun fjárins um ókomin ár með tilteknum hætti til almannaheilla. Þeim tilgangi verði ekki náð ef höfuðstóll sjóðsins sé skertur. Því þurfi að viðhalda raungildi höfuðstólsins, en það sé gert með því að verðbæta stofnfjárgrunn sjóðsins til samræmis við breytingar á neysluverðsvísitölu. Höfuðstól sjóðsins verði ekki varið „mörgum árum síðar í ótilgreind mannúðar- og líknarmál“ svo sem ríkisskattstjóri komist að orði. Meðan sjóðurinn sé við líði verði höfuðstól hans ekki ráðstafað og ávöxtun hans aðeins varið til skilgreindra verðlaunaveitinga. Komi til þess að sýslumaður leggi sjóðinn niður, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar eða að frumkvæði hennar, skuli eignum sjóðsins varið til samræmis við markmið sjóðsins eða til málefna sem skyld séu upphaflegum markmiðum hans samkvæmt 6. gr. laga nr. 19/1988 og 16. gr. reglugerðar nr. 140/2008. Í málflutningi sínum fari ríkisskattstjóri ítrekað rangt með efni 8. gr. skipulagsskrár sjóðsins og dragi þá ályktun að hluta af tekjum sjóðsins verði „aldrei ráðstafað til starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða“. Sé þessi ályktun ríkisskattstjóra röng. Kærandi sé menntasjóður og að því leyti sem ávöxtun höfuðstóls kæranda kunni að bætast við höfuðstólinn sé um að ræða ráðstöfun til menntasjóðs. Í ákvæði 10. gr. skipulagsskrár kæranda felist að séu eitthvert árið ekki forsendur til verðlaunaveitingar í samræmi við skipulagsskrá yfirfærist ráðstöfunarfé til seinni tíma eða bætist við höfuðstólinn til ávöxtunar og síðari ráðstöfun ávöxtunarinnar til verðlauna. Ávöxtun höfuðstólsins sé alltaf ráðstafað í samræmi við tilgang kæranda. Þá snúi ríkisskattstjóri forsendum við í tilkynningu sinni. Skráning móttakanda gjafar eða framlags í almannaheillaskrá sé forsenda þess að sá sem reiði fram gjöfina eða framlagið njóti skattafrádráttar. Það sé hins vegar ekki forsenda skráningar lögaðila í almannaheillaskrá að tekna sé aflað með móttöku frádráttarbærra gjafa eða framlaga, en tekjuöflun kæranda felist ekki í slíku.

II.

Með bréfi, dags. 27. september 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er tekið fram að þrátt fyrir að háskólasjóðir og aðrir menntasjóðir kunni að hafa með höndum starfsemi sem falli undir e-lið 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 og starfi því sem slíkir að almannaheillamálefnum kunni ákvæði skipulagsskrár að vera með þeim hætti að þeim heimilist ekki skráning í almannaheillaskrá Skattsins. Starfsemin sem slík komi því ekki einungis til skoðunar við það mat heldur hvort slíkur sjóður hafi heimild samkvæmt skipulagsskrá sinni til að taka á móti framlögum og ef svo er hvernig þeim skuli ráðstafað. Eins og fram komi í tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 2. ágúst 2022, sé eina tekjuöflun kæranda samkvæmt skipulagsskrá tekjur af vöxtum og arði af stofnfé sjóðsins. Verði því ekki séð að tekjuöflun sjóðsins og starfsemi byggi á móttöku gjafaframlaga og ráðstöfun þeirra til almannaheillamálefna.

Með bréfi, dags. 28. október 2022, hefur umboðsmaður kæranda brugðist við umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu er því haldið fram að það skilyrði sem ríkisskattstjóri setji fyrir skráningu í almannaheillaskrá, þ.e. að menntasjóður heimili móttöku gjafaframlaga samkvæmt skipulagsskrá sinni, hafi ekki lagastoð. Ríkisskattstjóri snúi hér á hvolf skilyrðum og réttaráhrifum. Það sé ekki skilyrði fyrir skráningu lögaðila á almannaheillaskrá að tekjuöflun felist í móttöku gjafa eða framlaga. Réttaráhrif skráningar séu hins vegar m.a. að sá sem reiðir fram gjöf eða framlag til skráðs lögaðila á rétt á skattafrádrætti samkvæmt 7. tölul. A-liðar 30. gr. eða 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Fyrir lögaðila séu réttaráhrif skráningar fyrst og fremst þau að hann er undanþeginn tekjuskatti samkvæmt 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 og undanþeginn framtalsskyldu samkvæmt 1. mgr. 90. gr. sömu laga. Eru kröfur kæranda því ítrekaðar.

Með bréfi, dags. 12. desember 2022, hefur kærandi lagt fram gögn um málskostnað. Kemur fram í bréfinu að kostnaður kæranda vegna meðferðar málsins nemi 891.188 kr.

III.

Ákvæði um skráningu lögaðila í svonefnda almannaheillaskrá voru tekin upp í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með I. kafla laga nr. 32/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla). Öðluðust ákvæði þessi gildi 1. nóvember 2021, sbr. 12. gr. laga nr. 32/2021. Samkvæmt 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, eins og ákvæðið hljóðar eftir breytingar með 1. gr. laga nr. 32/2021 og 1. gr. laga nr. 133/2021, eru þeir lögaðilar sem um ræðir í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 5. tölul. 4. gr. sömu laga, sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir a-g-lið 2. mgr. 4. tölul. og eru skráðir í sérstaka almannaheillaskrá hjá Skattinum undanþegnir tekjuskatti. Er tekið fram að ákvæði II.–VI. og VIII. kafla laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, gildi um lögaðila eftir því sem við á vegna skráningar og hæfis lögaðila í almannaheillaskrá Skattsins. Þá er það skilyrði fyrir skráningu og endurskráningu lögaðila í almannaheillaskrá að staðin hafi verið skil á skattframtali og ársreikningi til ríkisskattstjóra eftir því sem við á og að ekki sé um að ræða vanskil eða áætlanir skatta, skattsekta, gjalda og skýrsluskila, sbr. 3. málsl. 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 133/2021.

Kæranda var komið á fót með skipulagsskrá sem staðfest var af dómsmálaráðherra 11. apríl 1997 og birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. lög nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Hefur skipulagsskrá kæranda verið breytt tvisvar frá þeim tíma, sbr. auglýsingu nr. … frá 16. júlí 2008 og auglýsingu nr. … frá 23. nóvember 2010, sem báðar voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Í 3. gr. skipulagskrárinnar kemur fram að tilgangur sjóðsins sé að hvetja nemendur til að stunda nám sitt vel og ná góðum árangri. Í 4. gr. er kveðið á um stjórnarmenn sjóðsins sem tilnefndir skulu til fimm ára í senn. Skulu tveir vera tilnefndir af rektor Háskóla Íslands og einn til vara, og einn tilnefndur af bankastjóra Arion banka hf. og einn til vara. Er tekið fram að láti maður af starfi hjá Arion banka hf. skuli tilnefna annan í hans stað. Í 5. gr. er kveðið á um stofnfé sjóðsins sem nam 20.000.000 kr. við stofnun hans. Í 6. gr. kemur fram að tekjur sjóðsins skuli vera hluti af árlegum vöxtum og arði af eignum sjóðsins. Í núgildandi 8. gr. skipulagsskrárinnar er svohljóðandi ákvæði:

„Verðtryggt stofnfé má ekki skerða. Grunnur stofnfjár miðast við kr. 60.000.000, sextíu milljónir. Við útreikning skal miða við vísitölu neysluverðs frá og með 31. mars 2010. – Heimilt er að nýta ávöxtun sjóðsins á hverju ári eftir greiðslu kostnaðar við rekstur hans og eftir að stofnfé hefur verið verðbætt til að verðlauna efnilega nemendur í [tilteknum námsgreinum] við Háskóla Íslands. – Ekki má veita verðlaun leiði það til skerðingar á verðtryggðu stofnfé eins og því er lýst hér að ofan.“

Í 10. gr. kemur fram að ljúki enginn nemandi í þessum námsgreinum prófi eða ef verðlaunaveitingar eru lægri en ráðstöfunarfé til styrkveitinga sé stjórn heimilt að láta ónýtt ráðstöfunarfé, eða hluta þess, renna til stofnsjóðsins það árið, að öðrum kosti bætist það við óráðstafað verðlaunafé. Samkvæmt 12. gr. þarf samþykki allra stjórnarmanna til að breyta skipulagskránni og samkvæmt 13. gr. þarf ennfremur samþykki allra stjórnarmanna til að leggja sjóðinn niður. Skuli eignir hans þá renna til skólamála í sveitarfélaginu N.

Synjun ríkisskattstjóra um að skrá kæranda í almannaheillaskrá Skattsins byggir einkum á tvennu. Annars vegar að „ekki sé gert ráð fyrir að tekjuöflun [kæranda] byggi á frjálsum framlögum líkt og felist í skráningu í almannaheillaskrá“, svo sem segir í tilkynningu ríkisskattstjóra og ítrekað er í umsögn embættisins, og hins vegar að hluta af tekjum kæranda sé ekki ráðstafað til almannaheilla, en þetta síðarnefnda er það atriði sem ríkisskattstjóri virðist leggja aðal áherslu á í sinni röksemdafærslu. Í þessu sambandi tekur ríkisskattstjóri fram að samkvæmt 8. gr. skipulagsskrár kæranda skuli skipta tekjum sjóðsins eftir greiðslu kostnaðar í tvo jafna hluti og skuli annar hlutinn færður inn á höfuðstólinn en hinum skuli varið til að verðlauna efnilega nemendur í tilteknum námsgreinum. Þar sem höfuðstóllinn sé óskerðanlegur sé ljóst að hluta af tekjum kæranda verði aldrei ráðstafað til almannaheillastarfsemi. Telji ríkisskattstjóri að starfsemi þar sem verulegum hluta hagnaðar sé ráðstafað með varanlegum hætti inn á höfuðstól sjóðs viðkomandi lögaðila geti ekki talist vera almannaheillastarfsemi í skilningi 2. mgr. 4. tölul. og 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003.

Í kæru til yfirskattanefndar er hinu fyrrnefnda atriði mótmælt með því að það sé ekki forsenda skráningar lögaðila í almannaheillaskrá að tekjuöflun hans felist í móttöku gjafa eða framlaga. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að fram kemur í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 32/2021 að reglum um sérstaka skráningu lögaðila sem starfa til almannaheilla sé ætlað að tryggja eftirlit með gjöfum og framlögum sem einstaklingar eða atvinnurekstraraðilar veita til slíkra lögaðila, en með lögum nr. 32/2021 voru jafnframt lögfest ákvæði um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna og lögaðila vegna gjafa eða framlaga af nefndu tagi. Samkvæmt frumvarpinu var gert ráð fyrir því að miðað yrði við skráningu hlutaðeigandi lögaðila í almannaheillafélagaskrá, sbr. lög nr. 110/2021, um félög til almannaheilla. Frá þessu var horfið að tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sbr. nefndarálit á þskj. 1166 á 151. löggjafarþingi. Þess í stað var nýjum tölulið (9. tölul.) bætt við 4. gr. laga nr. 90/2003 þess efnis sem rakið er hér að framan. Í samræmi við stöðu þessa töluliðar innan 4. gr. laganna er með ákvæðinu mælt fyrir um undanþágu lögaðila sem þar falla undir frá tekjuskattsskyldu. Ljóst má þó vera að í raun hefur töluliðurinn ekki sjálfstæða þýðingu hvað varðar skattundanþágu nefndra aðila, enda vandséð að aðrir aðilar verði felldir hér undir en þeir sem önnur ákvæði 4. gr. (4. tölul. og eftir atvikum 5. tölul.) taka hvort sem er til. Ákvæði töluliðarins lúta því fyrst og fremst að því að afmarka með sérstakri skráningu þá lögaðila sem geta tekið við gjöfum eða framlögum með þeim réttaráhrifum að gefandi öðlist heimild til frádráttar frá tekjum sínum. Samkvæmt ákvæðum um frádrátt vegna framlaga til nefndra aðila, sbr. 7. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, er skilyrði frádráttar að móttakandi gjafar/framlags sé skráður í almannaheillaskrá hjá Skattinum á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag veitt.

Samkvæmt því sem fram er komið hefur tekjuöflun kæranda fram til þessa falist í ávöxtun stofnfjár. Hvað sem líður tilefni til skráningar kæranda í almannaheillaskrá miðað við það sem rakið er hér að framan verður ekki talið að sá háttur sem verið hefur á tekjuöflun kæranda til þessa girði út af fyrir sig fyrir skráningu kæranda í almannaheillaskrá, enda ekki loku fyrir það skotið að kærandi móttaki gjafir eða framlög í sjóðinn. Það athugist í þessu sambandi að ætla verður að í einhverjum tilvikum sé skráning móttakanda gjafar í almannaheillaskrá forsenda þess að skattaðili kjósi að inna gjöf af hendi. Ályktun ríkisskattstjóra um að það sé skilyrði fyrir skráningu í almannaheillaskrá að tekjuöflun umsóknaraðila byggi á gjöfum eða frjálsum framlögum fær ekki stuðning af ákvæði 4. gr. laga nr. 90/2003 eða af ákvæðum laga nr. 110/2021 og verður að teljast órökstudd af hendi ríkisskattstjóra.

Að því er síðarnefnda atriðið varðar blasir við að ríkisskattstjóri byggir niðurstöðu sína um að synja kæranda um skráningu í almannaheillaskrá á efnisatriðum ákvæðis 8. gr. skipulagsskrár kæranda eins og ákvæðið hljóðaði í upphafi þegar skipulagsskrá kæranda var staðfest 11. apríl 1997. Svo sem rakið er hér að framan hefur skipulagsskránni verið breytt tvisvar frá þeim tíma og með auglýsingu nr. … frá 23. nóvember 2010, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, voru gerðar umtalsverðar breytingar á umræddu ákvæði 8. gr. skipulagsskrárinnar. Núgildandi ákvæði er tekið upp orðrétt hér að framan. Efnisinntak þess miðar að því að höfuðstóll kæranda haldi raungildi sínu. Verður ekki séð að neitt sé athugavert við eignamyndun í þeim tilgangi, sbr. til hliðsjónar umfjöllun í úrskurði yfirskattanefndar nr. 152/2022. Hið eldra ákvæði þjónaði augljóslega hliðstæðu markmiði þótt fyrirkomulag sem þar var mælt fyrir um væri fallið til eignasöfnunar einhver ár umfram það sem þörf væri á. Ekki verður séð að slíku sé til að dreifa við núgildandi skipan. Að þessu virtu verður ekki talið að umrætt ákvæði geti orðið skráningu kæranda ásteytingarsteinn.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á forsendur ríkisskattstjóra fyrir synjun skráningar kæranda í almannaheillaskrá samkvæmt 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Það leiðir af forsendum ríkisskattstjóra að hann hefur ekki fjallað nema að takmörkuðu leyti um skilyrði þess að færa megi kæranda í nefnda skrá. Að þessu athuguðu og eins og málið liggur fyrir yfirskattanefnd þykir rétt að fella ákvörðun ríkisskattstjóra úr gildi og senda honum mál kæranda til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til skráningar kæranda í almannaheillaskrá umfram það sem leiðir af framangreindri umfjöllun.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og tímaskýrslu, sbr. og bréf umboðsmanns kæranda, dags. 12. desember 2022, nemur kostnaður kæranda vegna þjónustu umboðsmanns kæranda samtals 950.119 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, en þar af virðist kostnaður vegna meðferðar málsins fyrir yfirskattanefnd tiltekinn 910.997 kr. vegna 23,5 tíma vinnu umboðsmanns kæranda við málið. Ekki verður þó talið að þar sé að öllu leyti um kostnað að ræða sem eðlilegt sé að til hafi verið stofnað vegna málsins, sbr. lagaskilyrði fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, og er þá m.a. litið til þess að málið varðar afmarkað sakarefni og takmarkast ágreiningur við það hvort skilyrði til skráningar í almannaheillaskrá séu uppfyllt. Með hliðsjón af þessu og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði og starfsreglna yfirskattanefndar 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 400.000 kr. sem tekur mið af u.þ.b. 15 klst. vinnu sérkunnáttumanns við málið.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra er felld úr gildi. Málinu er vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 400.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja