Úrskurður yfirskattanefndar
- Frádráttur frá leigutekjum
- Viðhaldskostnaður
Úrskurður nr. 15/2023
Gjaldár 2020
Lög nr. 90/2003, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 58. gr. a 1. mgr. (brl. nr. 59/2017, 4. gr.) Reglugerð nr. 483/1994, 4. gr.
Í máli kæranda vegna vanframtalinna tekna af útleigu íbúðarhúsnæðis krafðist kærandi þess að kostnaður vegna þakviðgerða á húsnæðinu kæmi til frádráttar leigutekjum. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að í skatt- og úrskurðaframkvæmd hefði lengi verið fallist á frádráttarbærni viðhaldskostnaðar leiguhúsnæðis frá leigutekjum að uppfylltum almennum skilyrðum þar að lútandi. Yfirskattanefnd taldi að í framkvæmdum við húseign kæranda sem málið varðaði, þ.e. þakskiptum og breytingum með gerð nýrra glugga, hefði bæði falist viðhald og endurbætur fasteignarinnar. Að virtum atvikum öllum þætti mega áætla hluta frádráttarbærs viðhaldskostnaðar með um fjórðungi kostnaðar við framkvæmdirnar. Var m.a. tekið fram að við mat á tengslum útgjalda við öflun rekstrartekna yrði ekki litið framhjá skömmum leigutíma húseignarinnar, en eignin hefði aðeins verið í útleigu á árinu 2019.
Ár 2023, miðvikudaginn 25. janúar, er tekið fyrir mál nr. 106/2022; kæra A, dags. 4. ágúst 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2020. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 4. ágúst 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 31. maí 2022, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2020. Með úrskurði þessum færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna í skattframtali umrætt ár vanframtaldar húsaleigutekjur að fjárhæð 2.951.585 kr. vegna útleigu íbúðarhúsnæðis að K á árinu 2019. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda frádrátt að fjárhæð 433.715 kr. á móti húsaleigutekjunum. Leiddu þessar breytingar til þess að hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtali kæranda árið 2020 ákvörðuðust 2.517.870 kr. Við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárið 2020, sem af þessu leiddi, bætti ríkisskattstjóri 25% álagi með vísan til heimildarákvæðis 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði breytt, svo sem nánar greinir.
II.
Málavextir eru þeir að með bréfi til kæranda, dags. 16. febrúar 2022, spurðist ríkisskattstjóri fyrir um greiðslur frá Airbnb að fjárhæð 2.951.585 kr. (21.444 EUR) inn á bankareikning kæranda á árinu 2019, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Kom fram að ekki yrði annað séð en að tilefni hinna erlendu innborgana væri útleiga húsnæðis, en ekki væri gerð grein fyrir slíkum tekjum í skattframtali kæranda árið 2020. Var lagt fyrir kæranda að gera grein fyrir tilefni greiðslnanna. Í svarbréfi kæranda, dags. 23. febrúar 2022, kom fram að um væri að ræða tekjur af útleigu fasteignar kæranda. Kærandi hefði leigt eignina út þar sem illa hefði gengið að selja hana og kærandi leigt aðra eign allt árið 2019. Var óskað eftir að skoðað yrði hvort leigugreiðslur kæranda kæmu að einhverju leyti til frádráttar umræddum leigutekjum.
Með bréfi til kæranda, dags. 3. mars 2022, fór ríkisskattstjóri fram á frekari gögn og upplýsingar vegna málsins. Í bréfinu rakti ríkisskattstjóri ákvæði 58. gr. a laga nr. 90/2003 um útleigu manna á íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði og öðru húsnæði og benti á að þar sem ekki yrði séð að kærandi hefði gert grein fyrir tekjum af skammtímaútleigu í skattframtali sínu árið 2020 yrði ekki annað ráðið en að um væri ræða vanframtaldar tekjur af atvinnurekstri, sbr. B-lið 7. gr. sömu laga. Þá rakti ríkisskattstjóri ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 um frádrátt rekstrarkostnaðar og gaf kæranda færi á að láta embættinu í té rekstraryfirlit með sundurliðun kostnaðar vegna útleigu. Af hálfu kæranda var brugðist við bréfi ríkisskattstjóra með tölvupóstum dagana 4. og 10. mars 2022 þar sem gerð var grein fyrir kostnaði með rekstraryfirliti vegna K. Samkvæmt yfirliti þessu voru rekstrargjöld vegna eignarinnar tilgreind 3.376.166 kr. og voru að mestu leyti vegna framkvæmda við þak húseignarinnar samkvæmt reikningum frá Byko og T ehf.
Með bréfi, dags. 8. apríl 2022, boðaði ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 að fyrirhugað væri að endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2020. Rakti ríkisskattstjóri upplýsinga- og gagnaöflun embættisins, samskipti við kæranda og gerði grein fyrir réttarheimildum málsins. Þá var gerð grein fyrir rekstrartekjum kæranda vegna gistingar. Kom fram að í ljósi þess að tekjur kæranda af útleigu á árinu 2019 hefðu numið hærri fjárhæð en getið væri um í b-lið 1. mgr. 58. gr. a laga nr. 90/2003 virtust tekjur hennar af útleigunni falla undir það að teljast til tekna af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. B-lið 7. gr. sömu laga. Að þessu virtu yrði því ekki annað ráðið en að kærandi hefði vantalið skattskyldar tekjur af skammtímaútleigu á árinu 2019 að fjárhæð 2.951.585 kr., sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003. Virtist því þurfa að færa umræddar tekjur hennar í rekstrarskýrslu (RSK 4.11) með skattframtali árið 2020.
Vísaði ríkisskattstjóri til svara kæranda frá 10. mars 2022 þar sem gerð hefði verið grein fyrir rekstrarkostnaði árið 2019 að fjárhæð alls 3.376.166 kr. miðað við allt húsnæðið. Af hálfu ríkisskattstjóra væri fallist á framkomnar upplýsingar um frádrátt að hluta vegna rekstrarkostnaðar í hlutfalli við hið útleigða rými. Þó þætti ekki unnt að fallast á frádrátt vegna viðgerða/endurbóta á þaki og fasteignatrygginga í ljósi þess að umræddur kostnaður teldist almennt til kostnaðar sem félli til vegna eignarhalds fasteignar og þætti því ekki uppfylla skilyrði um að hafa fallið til við öflun tekna af skammtímaútleigu, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, enda þætti ekki hafa verið sýnt fram á það. Miðaði ríkisskattstjóri því við að rekstrarkostnaður kæranda hefði numið alls 370.449 kr. á árinu 2019.
Ríkisskattstjóri tók fram að samkvæmt öllu framangreindu væri fyrirhugað að færa vanframtaldar tekjur kæranda af skammtímaútleigu að fjárhæð 2.951.585 kr. á árinu 2019 til tekna í rekstrarskýrslu (RSK 4.11) með skattframtali hennar árið 2020. Þá hygðist ríkisskattstjóri færa rekstrarkostnað að fjárhæð 370.449 kr. til frádráttar tekjum kæranda í rekstrarskýrslu. Hreinar tekjur af atvinnurekstri yrðu því 2.581.136 kr. og tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda myndi hækka um sömu fjárhæð. Þá væri fyrirhugað að nýta heimild 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 til að bæta 25% álagi við hækkun skattstofna, enda væri um að ræða vanframtaldar tekjur.
Af hálfu kæranda var brugðist við hinum boðuðu breytingum ríkisskattstjóra með tölvupóstum dagana 10., 12. og 26. apríl 2022. Voru gerðar athugasemdir við að kostnaður vegna viðgerða/endurbóta á húseigninni og trygginga teldust ekki til rekstrarkostnaðar í skilningi laga nr. 90/2003. Þá voru gerðar athugasemdir við að leigugreiðslur kæranda vegna leigu á annarri húseign á árinu 2019 kæmu ekki til frádráttar leigutekjum vegna útleigu K á sama ári.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 31. maí 2022, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2020 til samræmis að viðbættu 25% álagi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum ítrekaði ríkisskattstjóri áður fram komin rök og sjónarmið, sbr. boðunarbréf embættisins. Í tilefni af fyrrgreindum andmælum kæranda gat ríkisskattstjóri þess að umþrættur kostnaður við viðgerðir/endurbætur á eign teldist almennt til kostnaðar sem félli til vegna eignarhalds fasteignar og þætti því ekki uppfylla skilyrði um að hafa fallið til við öflun tekna kæranda af skammtímaútleigu, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Væri um persónulega fasteign kæranda og eiginmanns hennar að ræða sem ekki hefði verið aflað til notkunar í atvinnurekstri og eignin því ekki færð með þeim hætti í skattskilum kæranda. Skilyrði þess að kostnaður vegna eignarhalds fasteignar teldist vera frádráttarbær frá rekstrartekjum samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 væri að fasteignarinnar hefði verið aflað í þeim tilgangi að vera nýtt til notkunar til öflunar tekna í atvinnurekstri, sbr. 33. gr. laga nr. 90/2003, hún færð sem slík í skattskilum rekstrarins og væri þá litið svo á að hún væri í eigu rekstrarins. Kæmi því ekki til álita að fallast á að umræddur kostnaður vegna viðgerðar og/eða endurbóta á fasteigninni eða vátrygginga teldist kostnaður sem nýttur væri til öflunar tekna af skammtímaútleigu, enda þætti ekki hafa verið sýnt fram á annað en að kostnaðurinn hefði verið nýttur til að tryggja og auka eða viðhalda verðgildi persónulegrar eignar kæranda og maka hennar. Gat ríkisskattstjóri þess að samkvæmt upplýsingum í skattskilum kæranda hefði fasteignin verið seld í apríl 2020 og skattfrjáls söluhagnaður af því tilefni numið 64.831.135 kr. Söluhagnaður fasteignar sem eignfærð hefði verið sem atvinnurekstrareign í skattskilum, sbr. 33. gr. laga nr. 90/2003, teldist að fullu skattskyldur samkvæmt 17. gr. laga nr. 90/2003.
Í úrskurðinum tók ríkisskattstjóri fram að skammtímaútleiga, eins og heimagisting fyrir milligöngu leigumiðlunarinnar Airbnb, félli almennt ekki undir húsaleigulög nr. 26/1994, sbr. 4. mgr. 1. gr. þeirra laga, heldur undir lög nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Ekki þætti því vera heimild til þess að draga leigugjöld kæranda frá tekjum hennar af skammtímaútleigu. Þá þætti ekki vera um að ræða sams konar tekjur í skilningi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, en tekjurnar væru annars vegar af útleigu á íbúð til eigin nota og hins vegar tekjur af atvinnurekstri. Kæmi því ekki til álita að draga leigugjöld frá tekjum kæranda af skammtímaútleigu.
Að framangreindu virtu þætti því mega miða við að rekstrarkostnaður kæranda hefði numið alls 433.715 kr. á árinu 2019, þ.e. 222.890 kr. vegna fasteignagjalda, 193.436 kr. vegna vatnsnotkunar og 17.389 kr. vegna rafmagnsnotkunar. Til frádráttar leigutekjum í rekstrarskýrslu yrðu því færðar 433.715 kr. Hreinar tekjur kæranda af atvinnurekstri yrðu því 2.517.870 kr.
III.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 4. ágúst 2022, kemur fram að því sé mótmælt að kostnaður vegna þakviðgerða teljist ekki til rekstrarkostnaðar. Er bent á í kæru að húseign kæranda hafi ekki verið í útleigu frá miðjum mars til byrjun júní þar sem skipt hafi verið um þak á húsinu. Ekki hafi verið hægt að leigja eignina út í gegnum Airbnb seinni hluta árs fyrr en búið hafi verið að skipta um þakið. Kostnaður vegna þakviðgerða hafi gert það mögulegt að leigja eignina út og þess vegna beri að taka tillit til þess kostnaðar. Kostnaður vegna þakviðgerða hljóti að flokkast sem rekstrarkostnaður, þ.e. til þess að afla tekna af Airbnb seinni hluta ársins. Kærandi vísar til svarpósts ríkisskattstjóra frá 8. apríl 2022 þar sem ekki hafi þótt unnt að fallast á frádrátt vegna viðgerða/endurbóta á þaki í ljósi þess að umræddur kostnaður teljist til almenns kostnaðar sem falli til við eignarhald fasteignar og þyki ekki uppfylla skilyrði um að hafa fallið til við öflun tekna kæranda af skammtímaútleigu, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, „enda þyki ekki hafa verið sýnt fram á það“, eins og komist sé að orði. Kærandi skilji ekki þessa röksemdafærslu ríkisskattstjóra. Kærandi hafi lagt fram alla reikninga og greint frá því að ekki sé hægt að leigja húsið út án þaks, eðli málsins samkvæmt. Kærandi óski því eftir því að kostnaður vegna þakviðgerða komi til frádráttar leigutekjum, í það minnsta vegna öflunar leigutekna af húsinu frá júní til ársloka. Jafnframt er farið fram á að skoðað verði hvort draga megi hluta af leigugreiðslum kæranda frá tekjum hennar af skammtímaleigu þar sem kærandi og eiginmaður hennar hafi ekki búið þar vegna leigu á Airbnb og þurft að leigja á móti.
IV.
Með bréfi, dags. 20. september 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með tölvupósti 21. september 2022 hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Er ítrekað að færð hafi verið fram fullgild rök fyrir því að viðgerðakostnaður á þaki hafi orðið til þess að hægt hafi verið að leigja út fasteignina að K, sem hafi verið heimili kæranda og eiginmanns hennar í yfir 20 ár. Vekji athygli að ríkisskattstjóri hafi ekki vísað til ákvæða reglugerðar nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, en útgjöld vegna þakviðgerða hljóti að falla undir 4. gr. þeirrar reglugerðar sem mæli fyrir um að til rekstrarkostnaðar teljist viðhald á eignum, sem notaðar séu við atvinnurekstur. Teljist „viðhald“ það sem gera þarf til þess að halda eignum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær voru þegar rekstraraðili eignaðist þær, hvort heldur þær voru þá gamlar eða nýjar. Ákvæði reglugerðar nr. 1300/2021 kveði þannig skýrt á um að kæranda sé heimilt að færa þakviðgerðina til rekstrarkostnaðar. Þá bendir kærandi á að til þess að leigja út húseignina hafi kærandi og eiginmaður hennar þurft að leigja aðra íbúð og hafi kærandi bent ríkisskattstjóra á þann möguleika að gjaldfæra þá leigu eða setja hana sem leigu á móti leigu.
V.
Eins og fram er komið varðar kæra í máli þessu úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 31. maí 2022, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2020. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali umrætt ár húsaleigutekjur að fjárhæð 2.951.585 kr. vegna útleigu íbúðarhúsnæðis að K á árinu 2019. Leit ríkisskattstjóri svo á að um væri að ræða tekjur kæranda af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. ákvæði B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og vísaði til þess að um skammtímaútleigu húsnæðisins væri að ræða og tekjur af útleigu þess á árinu 2019 væru yfir fjárhæðarmörkum samkvæmt b-lið 1. mgr. 58. gr. a sömu laga, sbr. 4. gr. laga nr. 59/2017, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld. Með úrskurðinum tók ríkisskattstjóri sér jafnframt fyrir hendur að ákvarða kæranda frádrátt á móti leigutekjunum, sbr. ákvæði um frádrátt rekstrarkostnaðar í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Féllst ríkisskattstjóri nánar tiltekið á frádrátt að fjárhæð samtals 433.715 kr. vegna fasteignagjalda, vatnsnotkunar og rafmagnsnotkunar á árinu 2019. Samkvæmt því leiddu breytingar ríkisskattstjóra til þess að hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtali kæranda árið 2020 ákvörðuðust 2.517.870 kr. Ríkisskattstjóri hafnaði kröfu kæranda um frekari frádrátt vegna vátrygginga og kostnaðar af framkvæmdum við þak húsnæðisins að K. Samkvæmt yfirliti kæranda um kostnað, sem fram kom við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra, nam sá kostnaður samtals 2.942.451 kr. á árinu 2019 og er að mestu leyti vegna framkvæmda við þakið. Til stuðnings ákvörðun sinni um höfnun gjaldfærslu þessara útgjalda vísaði ríkisskattstjóri til þess að þau teldust almennt til kostnaðar sem félli til vegna eignarhalds fasteignar. Eignarinnar hefði ekki verið aflað til notkunar í atvinnurekstri og hún ekki færð sem fyrnanleg eign í skattskilum kæranda, sbr. 33. gr. laga nr. 90/2003.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við tekjufærslu rekstrartekna að fjárhæð 2.951.585 kr. í skattframtali kæranda árið 2020. Hins vegar sé því mótmælt að ekki sé fallist á frádrátt vegna þakviðgerða á hinu útleigða húsnæði. Eignin hafi ekki verið í útleigu frá miðjum mars til júní 2019 þar sem skipt hafi verið um þak á húsinu á þeim tíma. Í fyrrgreindu yfirliti kæranda um kostnað kemur fram að þakframkvæmdir hafi tekið til allra fimm húsanna að K, þar með talið húss kæranda, og að heildarreikningur Byko að fjárhæð 5.536.418 kr. hafi skipst jafnt á öll fimm húsin eða 1.107.283 kr. að hlut K. Þá hafi kostnaður við að skipta um þakjárn á húsinu numið 1.697.985 kr., sbr. reikning T ehf., dags. 27. september 2019, sem er meðal gagna málsins. Um þessar framkvæmdir kom nánar fram í tölvupósti kæranda til ríkisskattstjóra 10. apríl 2022 að skipt hafi verið um allt járn, pappa, þakrennur, niðurfallsrör og hluta af sperrum í þaki hússins um sumarið 2019. Þá hafi verið settir tveir stórir gluggar á þakið. Í kæru kæranda er aukinheldur bent á að kærandi hafi sjálf leigt íbúð á árinu 2019 fyrir 3.960.000 kr. og að hugsanlega megi færa hluta þeirrar leigu til gjalda í rekstrarreikningi vegna útleigu K.
Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er heimilað að draga rekstrarkostnað frá þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, „það er þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við ... og það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum þeim sem arð bera í rekstrinum“. Það ber undir skattaðila að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands frá 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997 (H 1997:385) og 20. febrúar 1997 í málinu nr. 163/1996 (H 1997:759). Almennur kostnaður vegna persónulegra þarfa, þ.m.t. kostnaður við rekstur heimilis, er ekki frádráttarbær.
Eins og áður greinir hafnaði ríkisskattstjóri frádrætti kostnaðar vegna framkvæmda við húseignina að K á þeim forsendum að þar sem ekki væri um fyrnanlega eign (atvinnurekstrareign) að ræða, sbr. 33. gr. laga nr. 90/2003, yrði ekki talið að kostnaður vegna „viðgerða/endurbóta“ á eigninni tengdist öflun tekna af útleigu hennar. Í tilefni af þessum sjónarmiðum ríkisskattstjóra skal tekið fram að í skatt- og úrskurðaframkvæmd hefur lengi verið fallist á frádráttarbærni viðhaldskostnaðar leiguhúsnæðis frá leigutekjum að uppfylltum almennum skilyrðum þar að lútandi. Skiptir þá ekki máli hvort um sé að ræða frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 ellegar frádrátt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. sömu laga, enda gilda hliðstæð sjónarmið um frádráttarbærni í báðum tilvikum. Má um þetta t.d. vísa til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 838/1982 og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 276/1996. Eins og úrskurðir þessir bera með sér verður á hinn bóginn við úrlausn um frádráttarbærni vegna slíkra framkvæmda sem um ræðir í tilviki kæranda að gera greinarmun á kostnaði vegna viðhalds annars vegar og endurbóta hins vegar, sbr. skilgreiningu í 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. nú 4. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, um sama efni, þar sem fjallað er um viðhaldskostnað eigna sem rekstrarkostnað og mörk gagnvart endurbótum á eign. Í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994 segir svo um viðhaldsfrádrátt: „Viðhald telst það sem gera þarf til þess að halda eignunum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær voru í, þegar rekstraraðili eignaðist þær, hvort heldur þær voru þá gamlar eða nýjar.“ Þessi regla hefur lengi verið talin gilda í skattskilum, sbr. H 1943:150. Tekið er fram í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar að þótt eign gangi úr sér fyrir aldurs sakir, þ.e. fyrnist, þá skuli hún samt talin í svipuðu ástandi að því er viðhald varðar. Fyrning hennar komi hins vegar til frádráttar samkvæmt 7. gr. Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að ef aðili lætur endurbæta eign, sem hann hefur keypt, ellegar er orðin úr sér gengin fyrir aldurs sakir, stækka eign, eða breyta henni, þá skuli það ekki talið til viðhalds. Ennfremur kemur fram að til viðhalds skuli aftur á móti telja að halda eigninni í svipuðu ástandi og hún varð að stækkun, breytingu eða endurbót lokinni. Sé annars vegar viðhald og hins vegar breytingar, endurbætur og/eða stækkun framkvæmd í einu lagi, verður að meta hvað telja beri til hvors um sig, sbr. 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.
Samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum var húseignin að K byggð árið 1984 og mun kærandi hafa verið eigandi hennar um langt árabil allt til þess er húseignin var seld á árinu 2020. Að þessu athuguðu og að virtu eðli framkvæmda við húseignina sem um ræðir verður að telja að umrædd aðgerð, þ.e. þakskipti og breytingar með gerð nýrra glugga, hafi að miklu leyti falið í sér endurbætur í skilningi 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um frádrátt alls kostnaðar við framkvæmdir þessar sem viðhaldskostnaðar. Ekki þykir þó ástæða til að draga í efa að ráðist hafi verið í framkvæmdir þessar m.a. til að mæta viðhaldsþörf húsnæðisins og að um sé að ræða kostnað vegna viðhalds að hluta til. Í málinu liggja fyrir takmörkuð gögn sem gera kleift að meta hvorn þátt um sig. Að því er snertir tengsl útgjalda við öflun rekstrartekna verður ekki litið framhjá skömmum leigutíma húseignarinnar, en ekki hefur annað komið fram en að eignin hafi aðeins verið í útleigu á árinu 2019. Að virtum atvikum öllum þykir mega áætla hluta frádráttarbærs viðhaldskostnaðar með um fjórðungi kostnaðar við framkvæmdir þessar eða 700.000 kr. Viðhaldskostnaður til frádráttar rekstrartekjum ákvarðast því með þeirri fjárhæð.
Vegna athugasemda í kæru sem lúta að frádrætti leigugjalda á móti leigutekjum, sbr. tilvísun í kærunni til „leigu á móti leigu“, skal tekið fram að lög heimila aðeins slíkan frádrátt á móti tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis sem fellur undir húsaleigulög, sbr. a-lið 1. mgr. 58. gr. a laga nr. 90/2003, eins og ákvæðið hljóðar eftir breytingar með 4. gr. laga nr. 59/2017. Þá leyfist slíkur frádráttur eingöngu á móti leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota. Er hvorugt þessara skilyrða fyrir hendi í tilviki kæranda sem seldi húseignina að K á árinu 2020 í kjölfar skammtímaútleigu eignarinnar á árinu 2019.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Frádráttarbær viðhaldskostnaður kæranda ákvarðast 700.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.