Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 563/1991

Gjaldár 1987-1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 3. og 5. mgr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I.  

Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Komudagur kæru — Kæra, komudagur — Kröfugerð kæranda — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Póstlagningardagur — Póstlagningardagur endurákvörðunar — Endurákvörðun, póstlagningardagur — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Kaupsamningur — Kaupverð, vísitölutryggt — Vísitölutryggt kaupverð — Verðtrygging — Verðtrygging kaupverðs — Forsendur skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Rökstuðningi kæru áfátt — Afhendingardagur eignar

I.

Kæruatriði eru sem hér greinir:

I.1. Fyrra kæruatriðið lýtur að rekstrarreikningum þeim, sem fylgdu skattframtölum kæranda árin 1987 og 1988, varðandi starfsemi hans að X. Leit skattstjóri svo á, að sú starfsemi teldist ekki hafa verið atvinnurekstur í skilningi skattalaga og breytti skattskilum kæranda nefnd gjaldár til samræmis við þá afstöðu sína, þar á meðal meðferð rekstrartaps og söluhagnaðar. Í kæru sinni til skattstjóra mótmælti umboðsmaður kæranda þessari ákvörðun skattstjóra og krafðist þess, að hún yrði felld úr gildi með svofelldum rökstuðningi:

„Varðandi 1. tl. í úrskurði skattstjóra skal tekið fram að umbjóðandi okkar hefur um langt árabil haft með höndum atvinnurekstur að X og hefur hann greitt þangað aðstöðugjald í röska tvo áratugi. Af sérstökum ástæðum hafa umbjóðandi okkar og sonur hans skipt með sér verkum og rekstri síðastliðin ár. Umbjóðandi okkar tók að sér að koma upp æðarvarpi en ekki hefur ennþá tekist að koma upp æðarvarpi sem skilar tekjum og selveiði lagðist af. Þau verkefni sem sonur umbjóðanda okkar hefur fengist við hafa hins vegar a.m.k. stundum skilað tekjum (summa reiknaðra launa og hreinna tekna voru kr. 110.934 á árinu 1988 og kr. 1.205.793 á árinu 1987).

Nú á þessu ári 1988 var verkaskiptingu þeirra feðga breytt og ætti umbjóðandi okkar að hafa einhverjar tekjur af rekstrinum í ár.

Ef tap af þessum rekstri umbjóðanda okkar er ekki frádráttarbært (eða yfirfæranlegt) hlýtur sú spurning að vakna hvort tekjur af þessum rekstri séu skattfrjálsar. Það er útilokað að starfsmenn á skattstofum geti ákveðið með einu pennastriki (án ítarlegs rökstuðnings) að einhver rekstur sé ekki atvinnurekstur í skilningi skattalaga og einnig hvort þeir geti ákveðið að rekstur sé aðeins rekstur í skilningi skattalaga, ef menn hafa tekjur af rekstrinum, en annars ekki.“

I.2. Seinna kæruatriðið er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður úr frádráttarhlið skattframtals kæranda árið 1987 vaxtagjöld að fjárhæð 283.009 kr. Ástæður skattstjóra voru þær, að fjárhæð þessi hafi verið greiðsla á verðbótum á kaupverð samkvæmt kaupsamningi og því væru þær ekki frádráttarbærar sem vaxtagjöld. Í kæru sinni til skattstjóra mótmælti umboðsmaður kæranda þessari ákvörðun skattstjóra og krafðist þess að hún yrði úr gildi felld. Benti hann á að svo sem fram kæmi af gögnum þeim, sem hann hefði sent skattstjóra, hefðu umrædd vaxtagjöld verið greiddar verðbætur á lán frá seljanda íbúðarhúseignar til kæranda að Y.

II.

Með kæruúrskurði, dags. 29. september 1989, vísaði skattstjóri framangreindri kæru kæranda frá þar eð hún hefði borist honum eftir lok kærufrests. Lokadagur þess frests hefði verið 19. ágúst 1989, en kæran dagsett 14. september 1989, verið póstlögð 21. s.m.

III.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 26. október 1989. Krefst hann þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi svo og endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 1987 og 1988. Er gerð svofelld grein fyrir kröfum þessum:

„Undirritaður hefur svarað öllum bréfum skattstjóra vegna þessa umbjóðanda okkar utan bréfs, dags. 14. september sl., þar sem langþráð sumarleyfi hófst 8. september sl. Undirritaður sendi þó inn bráðabirgðakæru, dags. 16. ágúst sl., og fól samstarfsmanni sínum að senda kæru. Því miður féll niður að geta um bráðabirgðakæru í bréfi dagsettu 14. september sl.

Undirritaður kom úr leyfi og var bréf skattstjóra, dags. 29. september, þá á borði hans. Haft var samband við þann starfsmann skattstjóra sem undirritaði bréf, dags. 29. september sl., í tvígang og beðið um að úrskurður yrði dreginn til baka og nýr úrskurður felldur, enda bráðabirgðakæra í hans höndum.

Bréf hefur ekki borist umbjóðanda okkar og þar sem frestur rennur út á morgun samkvæmt bréfi, dags. 29. september sl., ítrekum við kröfu okkar um að endurákvörðun skattstjóra vegna opinberra gjalda gjaldárin 1987 og 1988 verði úr gildi felldur.“

IV.

Með bréfi, dags. 14. mars 1991, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Telji nefndin hins vegar að taka beri málið til efnislegrar meðferðar er þess krafist að úrskurður skattstjóra, dags. 21. júlí 1988, um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 1987 og 1988 verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

V.

Hina umþrættu endurákvörðun sína tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 21. júlí 1989, og gat þess þar, að kærufrestur væri 30 dagar frá og með póstlagningardegi tilkynningarinnar, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Umboðsmaður kærði endurákvörðunina til skattstjóra með bréfi, dags. 16. ágúst 1989, sem skattstjóri móttók þann 18. ágúst 1989 samkvæmt skráningu hans sjálfs. Er kæra þessi meðal gagna máls þessa. Þar boðar umboðsmaðurinn framlagningu kröfugerðar og sendi hana í bréfi, dags. 14. september 1989, móttekinni af skattstjóra þann 22. s.m. Samkvæmt því sem nú var rakið var umrædd endurákvörðun kærð til skattstjóra fyrir lok kærufrests. Er því hinn kærði frávísunarúrskurður skattstjóra byggður á röngum forsendum og verður því aðalkrafa ríkisskattstjóra um staðfestingu hans ekki tekin til greina. Víkur þá að efnishlið kærumálsins.

Um I.1. Af hálfu kæranda þykir eigi hafa verið sýnt fram á að hann hafi haft með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi að X nefnd ár. Með þessari athugasemd og svo sem kröfugerð kæranda er háttað er úrskurður skattstjóra staðfestur að því er varðar fyrra kæruatriðið.

Um I.2. Verðtrygging er miðuð við grunnvísitölu maímánaðar 1984, þ.e. kaupmánuð íbúðarinnar, þó að afhending hennar ætti fyrst að fara fram í maí 1985. Ber því að staðfesta úrskurð skattstjóra að því er þennan lið varðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja