Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 28/2023

Lög nr. 111/2016, 2. gr. 2. mgr., 5. gr. 1. mgr. (brl. nr. 63/2017, 3. gr.)  

Kærandi hóf byggingu íbúðarhúsnæðis á árinu 2019 og í desember 2020 var fasteignin skráð á byggingarstigi 4 í fasteignaskrá sem fokheld eign. Í ágúst 2022 afsalaði kærandi hluta af eignarhlut sínum í fasteigninni til sambýliskonu sinnar og átti eftir það 12% eignarhlut í íbúðinni. Umsókn kæranda um nýtingu og ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis, sem barst ríkisskattstjóra 8. október 2022, var hafnað með því að kærandi uppfyllti ekki lagaskilyrði um a.m.k. 30% eignarhlut í þeirri íbúð sem aflað væri til nýtingar og ráðstöfunar séreignarsparnaðar.

Ár 2023, miðvikudaginn 1. mars, er tekið fyrir mál nr. 143/2022; kæra A, dags. 6. nóvember 2022, vegna úttektar séreignasparnaðar. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 6. nóvember 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 8. október 2022, um að hafna umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með áorðnum breytingum. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að kærandi væri aðeins eigandi að 12% eignarhluta fasteignarinnar að M, en samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 væri það skilyrði að rétthafi ætti að minnsta kosti 30% eignarhlut í þeirri íbúð sem aflað væri.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess getið að kæranda hafi láðst að sækja um útgreiðslu séreignasparnaðar innan tilskilins frests. Hafi kærandi í upphafi verið eigandi að 50% eignarhlut í íbúðinni að M en um mitt ár 2022 hafi eignarhaldi verið breytt vegna erfðamála og nú eigi sambýliskona hans 88% og kærandi 12% hlut. Óski kærandi eftir því að fá séreignasparnaðinn greiddan þótt frestur sé liðinn.

II.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Í umsögninni tekur ríkisskattstjóri fram að í 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 segi að aðili skuli sækja um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Sama gildi um ráðstöfun iðgjalda inn á lán. Þá sé skilyrði úttektar séreignasparnaðar að rétthafi sé skráður eigandi að a.m.k. 30% eignarhlutar í íbúðarhúsnæði, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 555/2017, um samræmt verklag við ráðstöfun iðgjalda til séreignasparnaðar til stuðnings kaupa á fyrstu íbúð. Umsókn kæranda um að nýta viðbótariðgjald vegna kaupa á fyrstu íbúð samkvæmt lögum nr. 111/2016 hafi borist ríkisskattstjóra þann 8. október 2022. Er tekið fram að kærandi hafi verið skráður eigandi 50% eignarhlutar í íbúðarhúsnæði að M með byggingarsamningi sem hafi verið undirritaður 11. febrúar 2019 og þinglýst í framhaldinu. Hafi eignarhaldinu verið breytt og eigi sambýliskona hans nú 88% og kærandi 12%. Eignayfirfærsla þessi hafi átt sér stað með afsali, dags. 15. ágúst 2022, en tekið sé fram í afsalinu að til hafi staðið frá upphafi að eignarhlutföll yrðu þessi. Tekur ríkisskattstjóri fram að ef fallist yrði á að kærandi hefði ekki átt meira en 12% eignarinnar frá upphafi væru skilyrði 3. málsl. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 555/2017, um að kærandi ætti a.m.k. 30% hlut í íbúðarhúsnæðinu, ekki uppfyllt. Ef farið væri eftir þinglýstri skráningu um að kærandi hefði eignast 50% eignarhlut í fasteigninni 11. febrúar 2019 hefði umsókn kæranda þurft að berast í síðasta lagi 11. febrúar 2020. Væru skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 því ekki uppfyllt. Hvernig sem á það væri litið væri ekki hægt að samþykkja umsókn kæranda um nýtingu séreignasparnaðar.

Með bréfi, dags. 31. janúar 2023, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra.

III.

Um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar, sbr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vegna kaupa á fyrstu íbúð gilda lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Samkvæmt 2. gr. laganna er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, sem greitt er á samfelldu tíu ára tímabili, eftir gildistöku laganna að tilteknu hámarki á ári, sbr. 4. gr. þeirra, með því að a) verja uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð og/eða b) ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Þá er rétthafa heimilt að nýta iðgjald sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess eftir því sem nánar er kveðið á um í 3. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 er skilyrði fyrir úttekt á séreignarsparnaði að rétthafi hafi ekki áður átt íbúð og að hann afli sér íbúðarhúsnæðis annaðhvort einn eða í félagi við annan einstakling. Þá skal rétthafi eiga að minnsta kosti 30% eignarhlut í þeirri íbúð sem aflað er. Í 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2017, kemur fram að umsókn rétthafa um nýtingu séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð samkvæmt 2. gr. skuli beint rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Sækja skuli um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Sama gildi um ráðstöfun iðgjalda inn á lán.

Ekki er ágreiningur um það í málinu að kærandi varð þinglýstur eigandi að 50% eignarhlut í íbúð að M samkvæmt byggingarsamningi, dags. 11. febrúar 2019. Þann 30. desember 2020 mun fasteignin hafa verið skráð á byggingarstigi 4 í fasteignaskrá sem er það tímamark sem ríkisskattstjóri telur að miða eigi upphaf tólf mánaða frests samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 við í þeim tilvikum þegar sótt er um ráðstöfun séreignarsparnaðar á grundvelli laganna vegna nýbygginga. Samkvæmt þessu barst umsókn kæranda að liðnum lögboðnum tólf mánaða fresti samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2017, svo sem ríkisskattstjóri hefur bent á, en eins og fram er komið barst umsóknin 8. október 2022. Ríkisskattstjóri tók umsókn kæranda hins vegar til efnismeðferðar og synjaði umsókninni á þeim grundvelli að kærandi uppfyllti ekki skilyrði laganna um lágmarkseignarhlutdeild.

Eins og fram er komið afsalaði kærandi hluta af eignarhlut sínum í íbúðinni að M til sambýliskonu sinnar, B, með afsali, dags. 15. ágúst 2022, en í afsalinu kemur fram að frá upphafi hafi staðið til að B ætti 88% í íbúðinni og kærandi 12%. Kaupverð væri því 0 kr. Samkvæmt framansögðu átti kærandi aðeins 12% eignarhlut í íbúðarhúsnæðinu að M sem umsókn kæranda varðaði þegar umsóknin barst ríkisskattstjóra. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 um að minnsta kosti 30% eignarhlut í þeirri íbúð sem aflað er til nýtingar og ráðstöfunar séreignarsparnaðar.

Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda um endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað. í

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja