Úrskurður yfirskattanefndar

  • Viðspyrnustyrkur, fjárhæð

Úrskurður nr. 45/2023

Lög nr. 160/2020, 4. gr. 1. tölul., 5. gr. 1. mgr.  

Í máli þessu vegna umsóknar kæranda, sem var einkahlutafélag um rekstur ferðaskrifstofu, um viðspyrnustyrk lá fyrir að gögn um greiðslu launa til starfsmanna félagsins báru með sér að greiðslur hefðu numið umtalsvert lægri fjárhæðum en tilgreint var í umsókn kæranda. Að því athuguðu og þegar litið var til þess sem fyrir lá um starfsemi kæranda og stöðugildi hjá félaginu á árinu 2019, þ.e. áður en heimsfaraldur kórónuveiru reið yfir, var ekki talið að sýnt hefði verið fram á að vinnuframlag starfsmanna hefði verið slíkt sem haldið var fram af hálfu félagsins. Var ekki talið neitt tilefni til að hrófla við ákvörðun viðspyrnustyrks til kæranda miðað við eitt stöðugildi. Kærunni var þó vísað til ríkisskattstjóra til töku nýrrar ákvörðunar varðandi mat á tekjufalli kæranda þar sem ríkisskattstjóri féllst í umsögn sinni á sjónarmið kæranda þar að lútandi.

Ár 2023, miðvikudaginn 12. apríl, er tekið fyrir mál nr. 159/2022; kæra A ehf., dags. 2. desember 2022, vegna ákvörðunar um viðspyrnustyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 2. desember 2022, sbr. rökstuðning með bréfi, dags. 22. desember 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 5. september 2022, vegna umsókna kæranda um viðspyrnustyrki samkvæmt lögum nr. 160/2020, um viðspyrnustyrki. Umsóknir félagsins lutu að viðspyrnustyrkjum vegna desember 2021 og janúar, febrúar og mars 2022. Ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 14. júlí 2022, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 31. ágúst 2022. Með ákvörðun sinni synjaði ríkisskattstjóri annars vegar umsóknum félagsins um viðspyrnustyrki vegna desember 2021 og janúar 2022 en féllst hins vegar á umsóknir kæranda um viðspyrnustyrki vegna febrúar og mars mánaðar 2022 að gerðri þeirri breytingu að styrkirnir voru endurreiknaðir með tilliti til þar tilgreindra breytinga á starfshlutfalli. Lækkaði fjöldi stöðugilda í greindum mánuðum úr þremur í einn. Þar sem fjárhæð styrkja fyrir febrúar og mars 2022 takmarkaðist við stöðugildi, sbr. c-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 160/2020, reiknaðist styrkur 500.000 kr. fyrir hvorn mánuð.

Byggðist höfnun ríkisskattstjóra á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020 um a.m.k. 40% tekjufall vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Rakti ríkisskattstjóri fyrrgreind ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020 og benti á að samkvæmt þeim væri meginregla við mat á tekjufalli að bera tekjur rekstraraðila þann almanaksmánuð sem umsókn varðaði við tekjur í sama almanaksmánuði á árinu 2019. Einungis við sérstakar aðstæður mætti miða við annað tímabil og skyldi þá að jafnaði miða við tekjur í sama almanaksmánuði á árinu 2018. Vegna umsóknar kæranda um viðspyrnustyrk vegna desember 2021 teldi ríkisskattstjóri ljóst af fyrirliggjandi gögnum að rekstrartekjur í þeim mánuði sem kæranda hefði borið að miða við næmu 0 kr. en ekki þeirri fjárhæð sem tilgreind væri í umsókn, þ.e. tekjur í desember 2018 að því er virtist, án þess að fullnægjandi skýringar hefðu verið gefnar á því misræmi. Þætti því ljóst að tekjufall milli desember 2019 og desember 2021 væri ekki til staðar. Í umsókn kæranda um viðspyrnustyrk vegna janúar 2022 væri miðað við tekjur í janúar 2018 og í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 31. ágúst 2022, væri gefin m.a. sú skýring á þeirri viðmiðun að „tekjuleysi janúar 2019 er einstakt tilvik og því óskað eftir því að fá að miða við janúar 2018 þar sem það gefur svo sannarlega betri mynd af tekjutapi félagsins á ársgrundvelli en það að miða við þetta einstaka tilvik janúar 2019“. Í tilefni af þessum skýringum tók ríkisskattstjóri fram í hinni kærðu ákvörðun að í nær allri starfsemi gætti árstíðabundinna sveiflna sem telja mætti eðlilegar og jafnvel einkennandi, t.d. í sjávarútvegi, bóksölu og veitingarekstri. Slíkar sveiflur yrðu ekki taldar til sérstakra aðstæðna í skilningi 1. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020, enda yrði að skýra þá heimild laganna frekar þröngt í ljósi lögskýringargagna sem bentu til þess að einkum bæri að líta til sérstakra ytri þátta eða ófyrirsjáanlegra truflana sem hefðu veruleg áhrif á rekstur. Umsókn kæranda um viðspyrnustyrk sem byggði á viðmiðun við tekjur í janúar 2018 væri því hafnað þar sem félagið uppfyllti ekki skilyrði um a.m.k. 40% tekjufall fyrir janúar 2022.

Fram kom að í umsóknum kæranda um viðspyrnustyrki vegna desember 2021 og janúar, febrúar og mars 2022 væru færð full þrjú stöðugildi í hverjum umsóknarmánuði. Að því er varðaði umsóknir kæranda vegna febrúar og mars 2022 tók ríkisskattstjóri fram að innsend gögn og svör félagsins varðandi vinnuframlag þættu almenns eðlis og renndu ekki stoðum undir að vinnuframlagið væri jafn mikið og haldið væri fram. Hefði enginn sundurliðaður útreikningur á vinnuframlagi verið lagður fram né hefðu verið lögð fram gögn sem staðfestu að aukið vinnuframlag fengi staðist og hefði verið jafn mikið og haldið væri fram vegna starfsemi félagsins þau tímabil sem um ræddi. Þá tók ríkisskattstjóri fram að allir þrír starfsmennirnir væru með sama lögheimili og tengdust. Yrði fallist á eitt stöðugildi í umsóknarmánuðunum. Ekki væri hægt að fallast á stöðugildi annarra þar tilgreindra starfsmanna þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að vinnuframlag hefði átt sér stað eða að stöðugildi væru þau sem tilgreind væru. Reiknaðist því viðspyrnustyrkur 500.000 kr. vegna febrúar og mars 2022.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að fallist verði á umsóknir félagsins um viðspyrnustyrki mánuðina desember 2021 og janúar, febrúar og mars 2022. Í kærunni er rakið að tekjufall félagsins sé allt til komið vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, enda sé um ferðaskrifstofu að ræða sem undirbúi ferðir í útlöndum. Faraldurinn hafi haft mikil áhrif á rekstur kæranda. Í kærunni eru helstu ákvæði laga nr. 160/2020 rakin, þ. á m. 1. tölul. 4. gr. laganna og viðeigandi athugasemdir við ákvæði laganna í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 160/2020. Bendir kærandi á að breyting hafi orðið á starfsemi félagsins á árunum 2018 og 2019. Endurskoðandi og bókari félagsins hafi fært staðfestingargjöld sem tekjur þegar þær hafi komið inn. Að beiðni Ferðamálastofu hafi þessu verið breytt þegar kærandi staðfesti tekjur fyrir árið 2019. Samkvæmt Ferðamálastofu hafi tekjur félagsins verið færðar á biðreikning þar til ferð sé farin, þ.e. afhent kaupanda, með það í huga að þetta hafi áhrif á útreikning á tryggingagjaldi. Þetta hafi því þau áhrif að þótt greiðslur séu greiddar í desember 2019, þá séu þær tekjur ekki tekjufærðar fyrr en löngu síðar, í þessu tilviki vor, sumar og haust 2019. Hefði kærandi fært inn tekjur fyrir árið 2019 með sama hætti og árið 2018 hefðu tekjur félagsins fyrir janúar 2019 numið 2.896.800 kr. og vegna desember 2019 7.810.922 kr.

Bendir kærandi á að hjá félaginu séu starfandi þrír starfsmenn. Einn starfsmannanna hafi verið verktaki hjá kæranda þar til hann flutti til landsins og þá gerst launamaður. Kærandi hafi svo ráðið annan starfsmann til vinnu í maí 2021 til þess að geta varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað. Starfsmaðurinn sé nú í hlutastarfi, enda í fullu námi. Með því að fækka starfshlutföllum sé ríkisskattstjóri að refsa kæranda fyrir að halda fólki á launaskrá svo það fari ekki á verktakagreiðslur, hlutabætur eða atvinnuleysisbætur. Vísar kærandi til meðfylgjandi launaseðla launamanna. Kærandi hafi haldið eftir launagreiðslu til launamanna í samráði við þá sjálfa, enda yrðu launagreiðslur gerðar upp þegar hagur kæranda myndi vænkast. Kærandi hafi hins vegar staðið í skilum með öll opinber gjöld, greiðslur í lífeyrissjóð og til stéttarfélags.

II.

Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 10. febrúar 2023, kemur fram að í ljósi framlagðra gagna með kæru sé fallist á að kæranda sé heimilt að miða útreikning tekjufalls í samræmi við afhenta þjónustu, þ.e. miða við endurgjald sem hafi orðið gjaldkræft í  desember 2021 og janúar 2022, samanborið við viðmiðunarmánuðina desember 2019 og janúar 2019. Með hliðsjón af þeim lagarökum sem búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sé þess krafist að kærunni verði vísað til ríkisskattstjóra til töku nýrrar ákvörðunar við mat á tekjufalli vegna desember 2021 og janúar 2022. Þá kemur fram að með framangreindum athugasemdum sé gerð krafa um að ákvörðun ríkisskattstjóra verði að öðru leyti staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 21. febrúar 2023, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Kemur fram að kærandi fagni því að ríkisskattstjóri ætli að taka mið af útreikningi tekjufalls í samræmi við afhenta þjónustu líkt og ríkisskattstjóri reifi í umsögn sinni. Kærandi ítreki hins vegar fyrri kröfur sínar um að yfirskattanefnd endurmeti stöðugildi fyrir desember 2021 til mars 2022. Kærandi hafi á þessum tíma verið með þrjá starfsmenn í þremur stöðugildum. Báðir þessir starfsmenn sem um ræði séu enn starfsmenn hjá kæranda og fái greidd laun sem slíkir. Annar starfsmaðurinn sé í hlutastarfi í dag en fari í fullt starf um leið og skólinn fari í frí.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 160/2020, um viðspyrnustyrki, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. október 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að stuðla að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 160/2020 er fjallað um greiðslu viðspyrnustyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fjórum töluliðum í lagagreininni.

Um fjárhæð viðspyrnustyrkja er fjallað í 5. gr. laga nr. 160/2020. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna skal fjárhæð viðspyrnustyrks vera 90% af rekstrarkostnaði rekstraraðila þann almanaksmánuð sem umsókn varðar. Viðspyrnustyrkur getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur tekjufalli rekstraraðila samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laganna í viðkomandi almanaksmánuði. Þá kemur fram að viðspyrnustyrkur fyrir hvern almanaksmánuð geti jafnframt aldrei orðið hærri en sem nemur tilgreindum fjárhæðum fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila í mánuðinum eða í sama mánuði 2019 og eru þær fjárhæðir mismunandi eftir tekjufalli hlutaðeigandi rekstraraðila, svo sem nánar greinir. Samkvæmt orðskýringu í 3. gr. laga nr. 160/2020 er hugtakið stöðugildi skilgreint sem starfshlutfall sem jafngildi fullu starfi launamanns í einn mánuð.

Í athugasemdum við greint ákvæði 3. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 160/2020, sbr. þskj. 390 á 151. löggjafarþingi 2020-2021, er tekið fram að stöðugildi sé skilgreint sem starfshlutfall sem jafngildi fullu starfi launamanns í einn mánuð. Í þessu felist að einn launamaður geti í hæsta lagi jafngilt einu stöðugildi, enda starfi hann í fullu starfi hjá rekstraraðila í heilan mánuð. Tveir launamenn í hálfu starfi í einn mánuð jafngildi samtals einu stöðugildi. Að sama skapi jafngildi launamaður sem starfar í heilu starfi hjá rekstraraðila í hálfan mánuð 50% stöðugildi. Ekki verði talið að einn launamaður geti numið meira en einu stöðugildi í skilningi laganna, enda þótt hann vinni í einum mánuði fullt starf auk yfirvinnu.

Með bréfi til kæranda, dags. 14. júlí 2022, fór ríkisskattstjóri fram á rökstuddar skýringar og gögn til stuðnings því að starfsemi félagsins (rekstur ferðaskrifstofu) krefðist vinnuframlags þriggja tilgreindra starfsmanna, m.a. í ljósi þess að nánast engar tekjur hefðu fallið til frá september 2019 og að frá því að starfsemi félagsins hófst á árinu 2017 hefði að jafnaði einn starfsmaður verið á launaskrá hjá félaginu. Í svarbréfi kæranda, dags. 31. ágúst 2022, var af þessu tilefni gerð grein fyrir starfseminni sem væri fólgin í skipulagningu ferða fyrir hópa af ýmsu tagi sem hefði í för með sér sérhæfingu. Þá kom fram að þegar heimsfaraldur brast á hefði verið ráðist í ýmsa nýsköpun og aðra vinnu hjá félaginu til þess að koma því út úr kreppunni. Starfsmaður, sem hefði áður verið verktaki hjá kæranda, hefði flutt til Íslands frá útlöndum á árinu 2020 og þá orðið starfsmaður auk þess sem þriðji starfsmaðurinn hefði verið tekinn á launaskrá. Starfsemi kæranda hefði því síður en svo legið niðri á tímabilinu þótt tekjur hefðu ekki verið farnar að skila sér, en jafnan væri það þannig að viðskiptavinir kæranda greiddu ekki fyrir ferðir á vegum félagsins fyrr en stuttu fyrir brottför. Um skráningu vinnustunda kom fram að félagið notaðist ekki við stimpilklukku og að starfsfólki væri frjálst að vinna að verkefnum sínum á þeim tíma sem hentaði.

Framangreindu bréfi kæranda til ríkisskattstjóra fylgdu m.a. gögn um greiðslu launa til starfsmanna kæranda á því tímabili sem málið tekur til. Eins og rakið er í hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra bera þau gögn með sér að greiðslur til starfsmanna hafi numið umtalsvert lægri fjárhæðum en tilgreint er í umsóknum kæranda um viðspyrnustyrk. Hafa m.a. engin gögn komið fram um greiðslu launa til K sem þó er talinn hafa gegnt fullu starfi á greindum tíma. Kemur og fram í kæru kæranda til yfirskattanefndar að félagið hafi „[haldið] eftir launagreiðslu til starfsmanna“ í samráði við þá sjálfa, enda yrðu laun gerð upp þegar hagur félagsins myndi vænkast. Að þessu athuguðu og þegar litið er til þess sem fyrir liggur um starfsemi kæranda og stöðugildi hjá félaginu á árinu 2019, þ.e. áður en heimsfaraldur kórónuveiru reið yfir, verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á það með gögnum og skýringum að vinnuframlag starfsmanna á því tímabili sem hér skiptir máli hafi verið slíkt sem haldið er fram af hálfu félagsins. Með vísan til þessa og að virtum öðrum þeim atriðum sem ríkisskattstjóri hefur fært fram í málinu verður ekki talið að neitt tilefni sé til að hrófla við ákvörðun viðspyrnustyrks miðað við eitt stöðugildi. Er kröfum kæranda varðandi þennan þátt málsins því hafnað.

Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu er með vísan til framkominna gagna fallist á sjónarmið kæranda varðandi mat á tekjufalli vegna desember 2021 og janúar 2022 og talið tilefni til töku nýrrar ákvörðunar um viðspyrnustyrk kæranda vegna þeirra mánaða. Með vísan til þessa þykir rétt að senda ríkisskattstjóra kæruna til meðferðar og töku nýrrar ákvörðunar að þessu leyti, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2020.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kæran er send ríkisskattstjóra til meðferðar og afgreiðslu að því er varðar ákvörðun viðspyrnustyrks vegna desember 2021 og janúar 2022. Að öðru leyti er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja