Úrskurður yfirskattanefndar
- Húsaleigutekjur
- Álag
Úrskurður nr. 46/2023
Gjaldár 2017, 2018 og 2019
Lög nr. 90/2003, 108. gr. 2. mgr.
Kröfu kæranda í máli þessu um niðurfellingu 25% álags vegna vanframtalinna tekna af útleigu íbúðarhúsnæðis á árunum 2016, 2017 og 2018 var hafnað, m.a. í ljósi skatt- og úrskurðaframkvæmdar, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 15/2018, 5/2019 og 174/2021 sem vísað var til í dæmaskyni.
Ár 2023, miðvikudaginn 12. apríl, er tekið fyrir mál nr. 1/2023; kæra A, dags. 1. janúar 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2017, 2018 og 2019. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 1. janúar 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 22. nóvember 2022, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2017, 2018 og 2019. Með úrskurði þessum færði ríkisskattstjóri til tekna í skattframtölum kæranda árin 2017, 2018 og 2019 vanframtaldar húsaleigutekjur að fjárhæð 3.044.783 kr. fyrsta árið, 2.797.691 kr. annað árið og 1.909.940 kr. þriðja árið að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Úrskurðurinn var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 22. september 2022, tölvupósta kæranda og ríkisskattstjóra dagana 23. og 26. september og 5. október sama ár og boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 4. október 2022, þar sem embættið greindi frá fyrirhugaðri endurákvörðun opinberra gjalda kæranda umrædd gjaldár, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, en við því bréfi urðu ekki viðbrögð af hálfu kæranda. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til fyrirliggjandi upplýsinga frá erlendum aðila, Airbnb, um greiðslur til kæranda sem næmi fyrrgreindum fjárhæðum á árunum 2016, 2017 og 2018 og tók fram að engin grein hefði verið gerð fyrir greiðslunum í skattframtölum kæranda árin 2017, 2018 og 2019. Væri um að ræða leigugreiðslur vegna skammtímaleigu á húsnæði kæranda að K, þ.e. skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Þá rakti ríkisskattstjóri ákvæði 58. gr. a sömu laga, sbr. 4. gr. laga nr. 59/2017, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum, sem gilt hefði við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2019. Kom fram í úrskurðinum að þar sem tekjur kæranda af útleigunni hefðu numið lægri fjárhæð en 2.000.000 kr. á árinu 2018 yrði ekki annað séð en að þær tekjur bæri einnig að skattleggja sem leigutekjur utan rekstrar, þ.e. sem fjármagnstekjur samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003. Til stuðnings beitingu 25% álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 kom fram af hálfu ríkisskattstjóra að vanframtaldar tekjur þættu verulegur annmarki á framtalsgerð.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi hafi leigt út herbergi í íbúð sinni að K. Hafi ríkisskattstjóri úrskurðað um að kæranda beri að greiða skatt af þeirri leigu og sé kærandi sátt við það. Kærandi krefjist þess þó að 25% álag verði fellt niður, enda sé aðeins um heimild að ræða en ekki skyldu. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um að greiða bæri skatt hér á landi af tekjum frá Airbnb þar sem fyrirtækið sé erlent. Um mistök kæranda hafi verið að ræða og öllum geti orðið á mistök. Þannig sé máli kæranda ruglað saman við annað mál í úrskurði ríkisskattstjóra sjálfs. Í kærunni er gerð nánari grein fyrir högum kæranda og tekið fram að útleiga herbergisins hafi gert kæranda kleift að draga úr annarri vinnu til að geta sinnt börnum sínum í veikindum. Óvissa sé um atvinnuhorfur kæranda í náinni framtíð og ákvörðun ríkisskattstjóra sé fjárhagslegt áfall fyrir hana. Sé því farið fram á niðurfellingu 25% álags.
II.
Með bréfi, dags. 21. febrúar 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda þyki ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. febrúar 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Óumdeilt er í málinu að greiðslur til kæranda frá Airbnb á árunum 2016, 2017 og 2018 teljist til skattskyldra tekna kæranda gjaldárin 2017, 2018 og 2019 og hafa ekki komið fram athugasemdir af hálfu kæranda við skattlagningu þeirra sem húsaleigutekna, sbr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. sem fjármagnstekna utan rekstrar, sbr. 3. mgr. 66. gr. sömu laga. Er deiluefnið einvörðungu sú ákvörðun ríkisskattstjóra að bæta 25% álagi við vantalda skattstofna kæranda samkvæmt heimildarákvæðum 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
Samkvæmt greindum ákvæðum 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök fyrir því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.
Þegar atvik málsins eru virt og með tilliti til þess að um vantaldar tekjur er að ræða þykir kærandi hvorki hafa sýnt fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þannig að fella beri álag niður né að tilefni sé að öðru leyti til að falla frá beitingu heimildarákvæða 2. mgr. sömu lagagreinar. Er þá jafnframt litið til skatt- og úrskurðaframkvæmdar varðandi beitingu álags vegna vantalinna húsaleigutekna, sbr. t.d. úrskurði yfirskattanefndar nr. 15/2018, 5/2019 og 174/2021. Er kröfu kæranda um niðurfellingu álags því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.