Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 47/2023

Lög nr. 111/2016, 2. gr. 4. mgr.  

Kærandi, sem hafði heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð að M, seldi íbúðina í febrúar 2022 og keypti aðra íbúð að K í apríl 2023. Þar sem kaup kæranda á íbúðinni að K fóru ekki fram innan tólf mánaða frá sölu íbúðarinnar að M var heimild kæranda til ráðstöfunar séreignarsparnaðar fallin niður og var ekki talið unnt án lagaheimildar að taka kröfu kæranda til greina á þeim forsendum að ófremdarástand á fasteignamarkaði hefði valdið því að honum hefði ekki tekist að festa kaup á annarri íbúð innan lögbundins frests.

Ár 2023, miðvikudaginn 12. apríl, er tekið fyrir mál nr. 161/2022; kæra A, dags. 11. desember 2022, vegna úttektar séreignarsparnaðar. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 11. desember 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra vegna umsóknar kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með áorðnum breytingum. Er rakið að kæranda hafi verið synjað um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á íbúð að K á þeim forsendum að íbúðin hefði ekki verið keypt innan 12 mánaða frá sölu íbúðar að M. Íbúðin að M hefði verið seld 4. febrúar 2021 og íbúðin að K hefði verið keypt 10. maí 2022, en kauptilboð hefði þó verið samþykkt 13. apríl 2022. Er farið fram á í kærunni að litið verði til þess að alvarlegt ófremdarástand hafi verið á íbúðamarkaði á greindum tíma þar sem kaupendur keppst við að yfirbjóða hvern annan. Hafi kærandi gert allt sem honum hafi verið unnt til að festa kaup á íbúð innan árs frá sölu eignarinnar, sbr. afrit meðfylgjandi tilboða sem öll hafi verið langt umfram ásett verð. Verði ástandinu ekki lýst á annan veg en að ómöguleiki hafi hamlað kaupum annarrar eignar. Þá beri að hafa í huga þann tilgang laga nr. 111/2016 að styðja einstaklinga í yngri aldurshópum til fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis, en við setningu laganna hafi eðlilegt ástand verið á fasteignamarkaði. Sé farið fram á að veitt verði undanþága frá tímaskilyrði laganna með því að utanaðkomandi aðstæður hafi girt fyrir kaup íbúðarhúsnæðis innan frests. Í niðurlagi kærunnar kemur fram að kærandi hafi tvívegis haft samband símleiðis við Skattinn vegna málsins áður en fresturinn rann út og í bæði skiptin hafi kærandi verið fullvissaður um að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af málinu „því þessi 10 ár væru eitthvað sem allir ættu rétt á og sá rammi gæti verið nýttur eftir þörfum“, eins og segir í kærunni. Sé farið fram á að hlustað verði á upptökur af símtölum kæranda við starfsmenn Skattsins.

II.

Með bréfi, dags. 21. febrúar 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er vísað til ákvæðis 4. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, og tekið fram að kærandi hafi fyrst sótt um nýtingu séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa þann 28. janúar 2020 vegna kaupa á íbúð að M. Hafi sú umsókn verið samþykkt. Kærandi hafi svo selt sinn hlut í eigninni 4. febrúar 2021 og hefði því þurft að kaupa aðra eign fyrir 4. febrúar 2022 til að halda rétti sínum til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á lán. Kærandi hafi keypt íbúð að K með kaupsamningi þann 10. maí 2022 og hafi því verið synjað um nýtingu sparnaðar. Ákvæði 4. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 sé afdráttarlaust og veiti ekki heimild til að taka tillit til þeirra aðstæðna sem gerð sé grein fyrir í kæru.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. febrúar 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar, sbr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vegna kaupa á fyrstu íbúð gilda lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Samkvæmt 2. gr. laganna er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, sem greitt er á samfelldu tíu ára tímabili, eftir gildistöku laganna að tilteknu hámarki á ári, sbr. 4. gr. þeirra, með því að a) verja uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð og/eða b) ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Þá er rétthafa heimilt að nýta iðgjald sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess eftir því sem nánar er kveðið á um í 3. gr. laganna. Í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 kemur fram að rétthafi velji upphafsdag hins samfellda tíu ára tímabils með því að tiltaka í umsókn uppsafnað iðgjald sem hann hyggst verja til kaupa á fyrstu íbúð, sbr. a-lið 1. málsl. 1. mgr. sömu greinar, eða með því að hefja ráðstöfun iðgjalds inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, sbr. b-lið 1. málsl. 1. mgr. Sama gildir um ráðstöfun iðgjalds inn á óverðtryggt lán, sbr. 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar. Með hugtakinu tíu ára samfellt tímabil er átt við 120 mánaða samfellt tímabil frá upphafsdegi eins og hann er skilgreindur í 1. málsl., sbr. 3. málsl. 3. mgr. 2. gr. laganna.

Í 4. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 kemur fram að heimild rétthafa til að ráðstafa viðbótariðgjaldi samkvæmt lögunum fellur ekki niður þótt rétthafi selji íbúðina og kaupi sér nýja íbúð í stað þeirrar sem seld var. Skilyrði er að skipti á íbúð fari fram innan tíu ára tímabilsins, sbr. 3. mgr., og að kaup rétthafa á nýrri íbúð fari fram innan tólf mánaða frá síðustu sölu þeirrar íbúðar sem veitti rétt til úttektar séreignarsparnaðar samkvæmt lögunum.

Ágreiningslaust er í málinu að kærandi seldi íbúð sína að M þann 4. febrúar 2022. Er því ljóst að skilyrði 4. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 um kaup nýrrar íbúðar innan tólf mánaða frá sölu þeirrar íbúðar sem veitti rétt til úttektar séreignarsparnaðar samkvæmt lögunum er ekki uppfyllt í tilviki kæranda sem keypti íbúð að K í apríl 2023 samkvæmt því sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar. Lagaheimild skortir til að unnt sé að taka til greina kröfu kæranda á þeim grundvelli sem greinir í kæru, þ.e. að honum hafi vegna ástands á fasteignamarkaði ekki tekist að festa kaup á annarri íbúð innan lögbundins frests. Með vísan til þessa verður að hafna kröfu kæranda um endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja