Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 565/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 92. gr. — 116. gr. Lög nr. 45/1987 — 1. gr. — 5. gr. — 9. gr. 2. og 3. mgr. Reglugerð nr. 591/1987 — 2. gr. — 6. gr. Auglýsing um skattmat í staðgreiðslu á árinu 1988, liður 2.3. Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.
Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Dagpeningar — Dagpeningafrádráttur — Frádráttarheimild — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Launamiði — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Ferðakostnaður — Dvalarkostnaður — Ferða- og dvalarkostnaður vegna vinnuveitanda — Ökutækjaskýrsla — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Fylgigögn skattframtals — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars — Álagning — Álagning að liðnu tekjuári — Álagning, almenn — Frávísun — Frávísun vegna tilefnislausrar kæru — Kæra, tilefnislaus — Tilefnislaus kæra — Laun í staðgreiðslu — Greiðslur utan staðgreiðslu
Kærandi, sem er starfsmaður X, kærði álögð opinber gjöld árið 1989 með kæru til skattstjóra, dags. 3. ágúst 1989. Óskaði hann eftir, að álögð gjöld hans yrðu tekin til endurskoðunar þar sem nokkuð hefði vantað á að staðgreiðsluskattur hefði dugað til þess að mæta álögðum sköttum.
Skattstjóri tók kæruna til efnisúrlausnar með bréfi, dags. 7. nóvember 1989. Í kæruúrskurðinum kom fram, að skattframtal kæranda hefði verið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldársins 1989. Væri kæran tilefnislaus og sætti því frávísun.
Með bréfum, dags. 5. og 14. desember 1989, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er kröfugerð kæranda svohljóðandi:
„1. Dagpeningagreiðslur til mín vegna ferðalaga erlendis voru eingöngu greiddar af X á árinu 1988 og fylgdi hann fyrirmælum ríkisskattstjóra um skattlagningu þeirra. Mér urðu á þau mistök á framtalseyðublaði mínu að draga ekki að fullu frá dagpeningagreiðslurnar, heldur einungis það sem undanþegið var skattlagningu. Mismunurinn hafði þegar verið skattlagður og var því vegna framtalsmistaka minna skattlagður á ný. Í stað 199.465 króna í reit 33 hefði átt að standa 261.300 krónur. Þetta óskast leiðrétt.
2. Þá gerði ég mig sekan um þá yfirsjón að skila ekki skýrslu um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur. Hún er lögð með þessu bréfi og óskast tekin til greina við endurútreikning á sköttum mínum. Reitur 32 er auður á framtali mínu, en þar hefði átt að standa 26.208 krónur.
Ef leiðréttingar verða gerðar í samræmi við ofangreint ættu í reitum 7.6 og 7.9 að standa 2.272.159 krónur en ekki 2.360.202 krónur.“
Með bréfi, dags. 27. apríl 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Um 1.: Að kröfu um hærri frádrátt vegna móttekinna dagpeninga verði synjað. Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings kröfu þessari.
Um 2.: Fallist er á kröfu skv. þessum lið kæru.“
Að virtum öllum málavöxtum þykir bera að synja kröfu kæranda um hærri frádrátt vegna dagpeninga. Er þá haft til hliðsjónar fylgiskjal með skattframtali, sem er bréf frá X til kæranda, dags. í janúar 1989, en þar segir, að dagpeningar kæranda árið 1988 hafi verið 261.300 kr. en af þeirri fjárhæð séu 61.835 kr. skattskyld hlunnindi. Er bréf X í fullu samræmi við innsendan launaseðil kæranda. Samkvæmt launaseðlinum eru tilgreind önnur skattskyld hlunnindi í reit 29 61.835 kr. Ekki liggur annað fyrir en að hlunnindi þessi séu í samræmi við reglur ríkisskattstjóra og skattlögð til staðgreiðslu samkvæmt því. Sú skattgreiðsla er bráðabirgðagreiðsla er kom til uppgjörs við álagningu gjaldárið 1989. Fallist er á kröfu kæranda um frádrátt vegna ökutækjastyrks, 26.208 kr.