Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning hjóna
  • Barnabætur

Úrskurður nr. 48/2023

Gjaldár 2022

Lög nr. 90/2003, 62. gr. 1. mgr., 68. gr. A-liður 1. mgr. og 4. mgr.   Reglugerð nr. 555/2004, 6. gr.  

A og B gengu í hjúskap í desember 2021 og við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2022 voru þeim ákvarðaðar barnabætur eftir reglum sem gilda um hjón. Var gerð grein fyrir þeim reglum í úrskurði yfirskattanefndar og bent á að með því að réttur til barnabóta færi alfarið eftir atvikum í árslok miðaðist skerðing barnabóta vegna tekna í tilviki hjóna, sem gengið hefðu í hjúskap á tekjuári, við samanlagða tekjuskattsstofna þeirra á tekjuárinu öllu og þá án tillits til þess hvort skattskilum væri hagað eftir reglum um hjón eða ekki.

Ár 2023, miðvikudaginn 12. apríl, er tekið fyrir mál nr. 156/2022; kæra A og B, dags. 28. nóvember 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 28. nóvember 2022, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 27. október 2022, vegna álagningar opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2022. Með úrskurðinum tók ríkisskattstjóri til afgreiðslu kæru kærenda, dags. 26. júlí 2022, þar sem kærendur gerðu athugasemdir við álagningu opinberra gjalda umrætt gjaldár. Í kærunni kom fram að kærendur teldu álagninguna of háa þar sem þau hefðu bæði verið á atvinnuleysisbótum mestan hluta ársins 2021 og ekki fengið viðeigandi fjárhæð í barnabætur. Var þess getið að kærandi, A, hefði verið skráð einstæð móðir allt árið 2021. Í kæruúrskurði ríkisskattstjóra kom fram af þessu tilefni að skuld kærenda vegna álagningarinnar skýrðist einkum af ofnýtingu persónuafsláttar í staðgreiðslu. Þá væri hluti skuldar kæranda, B, á álagningarseðli til kominn vegna eldri gjaldára. Gerði ríkisskattstjóri tölulega grein fyrir álagningu gjalda kærenda í úrskurðinum, þar með talið skattstofnum og nýtingu persónuafsláttar í staðgreiðslu. Varðandi barnabætur kom fram í úrskurðinum að í tilviki hjóna, sem væru skattlögð samkvæmt 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, teldust bæði hjóna framfærendur og skiptust barnabætur milli þeirra til helminga. Við ákvörðun barnabóta árið 2022 væri miðað við fjölskyldustöðu eins og hún væri skráð í þjóðskrá 31. desember 2021. Breytingar innan ársins hefðu ekki áhrif á þá ákvörðun, sbr. A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá hefðu kærendur gengið í hjúskap í desember 2021 og því verið skráð gift í árslok. Því væru barnabætur kærenda miðaðar við þá fjölskyldustöðu og skiptust jafnt á milli kærenda. Með hliðsjón af gögnum málsins yrði ekki annað séð en að álagningin væri byggð á gildandi lögum og reglugerðum. Væri kröfu kærenda því synjað.

Í kæru kærenda til yfirskattanefndar kemur fram að kærendur telji á sér brotið þar sem þau hafi gengið í hjúskap í desember 2021 og séu því samsköttuð allt árið 2021 sem þeim finnist skrýtið. Kærandi, A, missi allar barnabætur og kærandi, B, sem hafi verið með skráð annað lögheimili til 18. nóvember 2021 og skráður með börn þar hafi engar barnabætur fengið fyrir árið 2021. A hafi komið til landsins á árinu 2018. Hún hafi verið einstæð móðir síðan þá og alltaf fengið fullar barnabætur. Engu að síður sé B, sem ekki sé faðir barns hennar, að fá barnabætur. A hafi einungis fengið 35.000 kr. sem hafi skipst milli kærenda. Það sé of lágt.

II.

Með bréfi, dags. 14. febrúar 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. febrúar 2023, var kærendum sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt gögnum málsins gengu kærendur í hjúskap … desember 2021. Gjaldárið 2022 töldu þau sameiginlega fram til skatts sem hjón fyrir allt árið 2021, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2022 voru kærendum ákvarðaðar barnabætur samkvæmt þeim reglum sem gilda um hjón. Nam fjárhæð barnabóta að teknu tilliti til tekjuskerðingar 164.450 kr. sem skiptist jafnt á milli kærenda. Í kæru til yfirskattanefndar eru gerðar athugasemdir við fjárhæð barnabóta og m.a. tekið fram að kæranda, A, hafi áður ávallt verið ákvarðaðar barnabætur sem einstæðri móður.

Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkissjóður greiða barnabætur með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna. Bæturnar skal greiða til framfæranda barnsins, en framfærandi telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins. Hjón, sem skattlögð eru samkvæmt 62. gr., teljast bæði framfærendur og skiptast barnabætur milli þeirra til helminga. Samkvæmt þessum ákvæðum teljast kærendur bæði framfærendur í skilningi A-liðar 68. gr. laganna.

Kveðið er á um fjárhæð barnabóta í 4. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Þar eru jafnframt ákvæði um skerðingu barnabóta vegna tekna, en í því sambandi ber að miða við tekjuskattsstofn eins og hann er skilgreindur í 4. málsl. málsgreinarinnar. Skerðingarákvæði þessi eru mismunandi eftir því hvort um einstætt foreldri eða hjón er að ræða. Vegna hjóna, sem bæði teljast framfærendur eins og fyrr greinir, skulu barnabætur skerðast í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 9.098.000 kr. og nemur skerðingarhlutfall 4% með hverju barni. Með því að réttur til barnabóta fer alfarið eftir atvikum í árslok miðast skerðing barnabóta vegna tekna í tilviki hjóna, sem gengið hafa í hjúskap á tekjuári, við samanlagða tekjuskattsstofna þeirra á tekjuárinu öllu og þá án tillits til þess hvort skattskilum var hagað eftir reglum um hjón eða ekki.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki annað séð en kærendum hafi verið ákvarðaðar barnabætur gjaldárið 2022 í samræmi við lög, þ.e. barnabætur að fjárhæð 164.450 kr. að teknu tilliti til skerðingar vegna tekna eða 82.225 kr. í tilviki hvors um sig. Lægri fjárhæð barnabóta sem komu til greiðslu við álagningu gjalda helgast af frádrætti fyrirframgreiddra barnabóta 71.856 kr. eða 35.928 kr. í tilviki hvors, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta, með áorðnum breytingum. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu kærenda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja