Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna síðbúinna framtalsskila

Úrskurður nr. 53/2023

Gjaldár 2022

Lög nr. 90/2003, 108. gr. 1. og 3. mgr.  

Kröfu kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna framtalsskila var hafnað, m.a. með vísan til síðbúinna framtalsskila undanfarandi ára.

 

 

Ár 2023, miðvikudaginn 12. apríl, er tekið fyrir mál nr. 158/2022; kæra A, dags. 28. nóvember 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 28. nóvember 2022, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 12. september 2022. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að beita 15% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að álagsbeitingin verði felld niður á grundvelli 3. mgr. 108. gr. sömu laga.   

II.

Helstu málsatvik eru þau að ekki var talið fram til skatts af hálfu kæranda innan tilskilins framtalsfrests árið 2022. Við almenna álagningu opinberra gjalda umrætt gjaldár sætti kærandi því áætlun ríkisskattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattframtal kæranda árið 2022 barst ríkisskattstjóra 2. ágúst 2022. Ríkisskattstjóri tók hið innsenda skattframtal til afgreiðslu sem kæru samkvæmt 99. gr. laga nr. 90/2003. Með kæruúrskurði, dags. 12. september 2022, féllst ríkisskattstjóri á að leggja skattframtal kæranda árið 2022 til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda í stað áætlunar, en að viðbættu 15% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri tók fram til stuðnings álagsbeitingu að hliðsjón hefði verið höfð af fyrri framtalsskilum kæranda, en skattframtöl árin 2020 og 2021 hefðu borist  embættinu þann 27. júlí 2022. Væri ekki talið að sýnt hefði verið fram á að þær ástæður hefðu legið fyrir í tilviki kæranda er leiddu til þess að fella bæri niður álag, sbr. 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Yrði álag á stofn til tekjuskatts og útsvars 285.000 kr.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 28. nóvember 2022. Krafa kæranda um niðurfellingu álags er byggð á 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.  Í kærunni er vísað til þess að kærandi hafi ekki skilað skattframtölum frá árinu 2015.  Eftir að hafa unnið í sínum málum og fengið til þess aðstoð frá heimilislækni hafi kærandi óskað eftir því við umboðsmann sinn að hann tæki saman og skilaði inn skattframtölum kæranda árin 2015 til 2022. Öllum skattframtölunum hafi verið skilað sumarið 2022. Hinn 2. ágúst 2022 hafi ríkisskattstjóra borist skattframtal kæranda árið 2022. Ríkisskattstjóri hafi farið yfir framangreind skattframtöl, þar sem til hliðsjónar hafi verið læknisvottorð um erfiðleika kæranda vegna kvíða og frestunaráráttu, en ákveðið að beita álagi gjaldárið 2022 að fjárhæð 285.000 kr. Þess sé krafist að álagið verði fellt niður. Kærunni fylgir framangreint vottorð heimilislæknis, dags. 4. júlí 2022. 

IV.

Með bréfi, dags. 3. janúar  2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 17. janúar 2023, hefur umboðsmaður kæranda komið á framfæri athugasemdum við umsögn ríkisskattstjóra. Ítrekaðar eru áður framkomnar skýringar á síðbúnum framtalsskilum kæranda. Tekur umboðsmaðurinn fram að það sé ánægjulegt að ríkisskattstjóri hafi fallist á að fella niður áætlanir og leggja á kæranda samkvæmt innsendum skattframtölum gjaldárin 2015-2022. Ríkisskattstjóri hafi ekki beitt álagi á skattframtöl 2015 til 2021. Hins vegar hafi hann beitt álagi á skattframtal kæranda árið 2022 þó kærandi hafi skilað skattframtölum síðustu 8 ára á nánast sama tíma. Farið sé fram á að álagið verði fellt niður. Kærandi sé að koma sínum málum í lag og sé ekki rétt að refsa honum þegar hlutirnir séu að komast í rétt horf.

V.

Í 1. málsl. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að ríkisskattstjóri megi bæta allt að 15% álagi við skattstofna sem hann áætlar telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tilskilins frests. Berist framtal, sem álagning verði byggð á, eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu ríkisskattstjóra sé lokið, megi þó aðeins bæta 0,5% álagi á skattstofna fyrir hvern dag sem skil hafi dregist fram yfir frestinn, þó ekki hærra álagi en 10%, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 108. gr. laganna. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er boðið að fella skuli niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök fyrir því að honum verði eigi kennt um annmarka  á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Eins og fram er komið var ekki talið fram til skatts af hálfu kæranda innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 2022. Við almenna álagningu opinberra gjalda umrætt gjaldár sætti kærandi því áætlun ríkisskattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003. Skattframtal kæranda árið 2022 barst ríkisskattstjóra 2. ágúst 2022. Með hinum kærða úrskurði, dags. 12. september 2022, féllst ríkisskattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda til grundvallar álagningu umrætt gjaldár í stað áætlunar, en gerði fyrirvara um frekari endurskoðun. Til viðbótar álagningu beitti ríkisskattstjóri 15% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri tók fram að ekki hefði verið sýnt fram á að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 ætti við í tilviki kæranda. Jafnframt vísaði ríkisskattstjóri til fyrri síðbúinna framtalsskila kæranda, en skattframtöl árin 2020 og 2021 hefðu borist embættinu 27. júlí 2022.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að skattframtal kæranda árið 2022 barst ekki fyrr en að loknum framtalsfresti og var það tekið til afgreiðslu sem kæra samkvæmt 99. gr. laga nr. 90/2003, sbr. kæruúrskurð ríkisskattstjóra, dags. 12. september 2022. Samkvæmt langri skatt- og úrskurðaframkvæmd varðandi álagsbeitingu vegna síðbúinna framtalsskila hefur skipt máli hvort um ítrekuð síðbúin framtalsskil er að ræða. Ríkisskattstjóri taldi ekki efni til annars en beita heimildarákvæði 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 í tilviki kæranda gjaldárið 2022, enda hefði ekki verið sýnt fram á að 3. mgr. lagagreinar þessarar ætti við þannig að fella bæri álag niður. Þá rökstuddi ríkisskattstjóri álagsbeitinguna með vísan til þess að skattframtölum kæranda árin 2020 og 2021 hefði verið skilað of seint. Að þessu leyti hefur ríkisskattstjóri haft í huga greinda skatt- og úrskurðaframkvæmd. Er álagsbeitingunni mótmælt af hálfu kæranda á grundvelli erfiðleika hans, svo sem nánar er lýst í III. kafla hér að framan. Með þessum skýringum þykir kærandi hvorki hafa sýnt fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá beitingu heimildarákvæða 1. mgr. sömu lagagreinar í tilviki kæranda. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er kröfu kæranda um niðurfellingu álags hafnað.  

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                       Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja