Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ótakmörkuð skattskylda
  • Tekjur erlendis

Úrskurður nr. 58/2023

Gjaldár 2017

Lög nr. 90/2003, 1. gr.  

Í úrskurði yfirskattanefndar í máli þessu vegna endurákvörðunar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2017 kom fram að þar sem kærandi hefði verið með skráð lögheimili erlendis á árinu 2016 yrði ekki byggt á því að hann væri heimilisfastur hér á landi og bæri ótakmarkaða skattskyldu hér tekjuárið 2016, enda yrði ekki séð að fyrir lægi úrskurður ríkisskattstjóra um aðra tilhögun að því leyti, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003. Var endurákvörðun gjalda kæranda því felld úr gildi.

Ár 2023, miðvikudaginn 12. apríl, er tekið fyrir mál nr. 39/2023; kæra A, dags. 15. febrúar 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 15. febrúar 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 17. nóvember 2022, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2017. Með úrskurði þessum, sem ríkisskattstjóri kvað upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf embættisins, dags. 4. janúar, 24. febrúar, 10. júní, 5. september og 27. október 2022, og bréf umboðsmanns kæranda, dags. 2. ágúst 2022, færði ríkisskattstjóri kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali árið 2017 meintar vantaldar launatekjur frá X Limited að fjárhæð 11.230.014 kr. tekjuárið 2016. Hafði ríkisskattstjóri þá tekið tillit til áætlaðs frádráttar frá tekjum vegna starfstengds kostnaðar að fjárhæð 4.800.612 kr. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, við hækkun skattstofna sem leiddi af tekjufærslunni. Nam fjárhæð álags 1.607.350 kr.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi verið búsettur í Sádi-Arabíu frá 1. janúar 2008 til 1. maí 2018 þar sem hann hafi starfað. Er vísað til meðfylgjandi búsetutímavottorðs Þjóðskrár, dags. 17. janúar 2023, þessu til staðfestingar, en kærunni fylgir einnig vottorð („Residence Certificate“) frá M Ltd. og leigusamningur vegna dvalar kæranda í Sádi-Arabíu. Í kærunni er tekið fram að vegna búsetu kæranda erlendis hafi hann verið með takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 3. gr. laga nr. 90/2003 og talið fram til skatts til samræmis við það. Kærandi hafi átt íbúð hér á landi sem hann hafi leigt út. Í úrskurði ríkisskattstjóra virðist hins vegar ranglega gengið út frá því að kærandi hafi borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003. Miðað við þá afstöðu ríkisskattstjóra hafi embættinu borið að kveða upp úrskurð um skattalega heimilisfesti kæranda, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, svo sem gert hafi verið í sambærilegum málum. Enginn úrskurður liggi fyrir um skattalega heimilisfesti kæranda á Íslandi á því tímabili sem um ræðir og þegar af þeirri ástæðu beri að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

II.

Með bréfi, dags. 17. mars 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að kærunni verði vísað til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar, enda hafi kærandi lagt fram ný gögn og rökstuðning í málinu, sbr. lagarök er búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

III.

Samkvæmt því sem fram kemur í þjóðskrá var kærandi með lögheimili erlendis á árinu 2016, þ.e. í Sádi-Arabíu. Allt að einu er byggt á því í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2017 að kærandi hafi borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi á árinu 2016, sbr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar sem kærandi var með skráð lögheimili erlendis varð ekki byggt á því að hann væri heimilisfastur hér á landi og bæri hér ótakmarkaða skattskyldu tekjuárið 2016 samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. nefndra laga, enda verður ekki séð að fyrir liggi úrskurður ríkisskattstjóra um aðra tilhögun að þessu leyti, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Ekkert er að þessu vikið í umsögn ríkisskattstjóra í málinu þrátt fyrir tilefni samkvæmt framansögðu. Að þessu athuguðu verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð ríkisskattstjóra í málinu, svo sem krafist er af hálfu kæranda.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað hans af meðferð málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. febrúar 2023, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Úrskurður ríkisskattstjóra er felldur úr gildi. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja