Úrskurður yfirskattanefndar
- Viðspyrnustyrkur
Úrskurður nr. 64/2023
Lög nr. 160/2020, 4. gr. 3. tölul.
Kröfu A ehf. um greiðslu viðspyrnustyrks var hafnað þar sem félagið uppfyllti ekki lagaskilyrði um að álagðir skattar og gjöld væru ekki byggð á áætlun vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum til Skattsins síðustu þrjú ár áður en umsókn barst. Var tekið fram að ástæður síðbúinna skila á skattframtali eða öðrum skýrslum gætu þá ekki skipt máli, enda væru ekki gerðir neinir fyrirvarar þar að lútandi í lögum um viðspyrnustyrki.
Ár 2023, fimmtudaginn 4. maí, er tekið fyrir mál nr. 137/2022; kæra A ehf., mótt. 14. október 2022, vegna ákvörðunar um viðspyrnustyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, mótt. 14. október 2022, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 19. janúar 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 14. júlí 2022, að hafna umsókn kæranda um viðspyrnustyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 160/2020, um viðspyrnustyrki. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 3. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020 þess efnis að rekstraraðili væri ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar væru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggðust ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðustu þrjú ár áður en umsókn barst. Tók ríkisskattstjóri fram að skattframtali kæranda árið 2021 hefði ekki verið skilað og að álagning opinberra gjalda félagsins vegna ársins 2020 væri byggð á áætlun. Þá væri um að ræða vanskil á gistináttaskatti vegna ársins 2020. Af þessum sökum væri umsókn kæranda um viðspyrnustyrk vegna ágúst, september, október, nóvember og desember 2021 synjað.
Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að forsaga málsins sé sú að fyrirsvarsmaður kæranda, B, hafi lent í alvarlegri líkamsárás í október 2021, sbr. meðfylgjandi lögregluskýrslu. Árásin hafi haft veruleg og varanleg áhrif á heilsu B sem legið hafi á gjörgæslu heila- og taugaskurðdeildar LSH í um mánuð og á tímabili vart verið hugað líf. Afleiðingar árásarinnar séu varanlegur heilaskaði sem muni hafa mikil áhrif á líf hans til frambúðar, sbr. læknisvottorð, dags. 2. september 2022 og 4. nóvember sama ár, en vottorðin fylgja kærunni. Þá hafi árásin haft í för með sér að B hafi verið ófær um að sinna rekstri kæranda og standa skil á skýrslum og skattframtölum á tilskildum tíma. Nú hafi verið staðin skil á skattframtali félagsins árið 2021 og vanskil á gistináttaskatti vegna ársins 2021 hafi verið gerð upp. Vinna standi yfir við ársreikning félagsins fyrir árið 2021 og skattframtal árið 2022. Sé því farið fram á að ákvörðun ríkisskattstjóra verði endurskoðuð og umsókn kæranda um viðspyrnustyrk hljóti efnislega afgreiðslu.
II.
Með bréfi, dags. 3. mars 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er tekið fram að innsendar skilagreinar kæranda vegna launa og virðisaukaskattsskýrslur félagsins beri ekki með sér að rekstur félagsins hafi legið niðri frá nóvember 2021 til júní 2022, en launagreiðslur hafi numið 8.714.040 kr. og skattskyld velta 16.235.738 kr. á tímabilinu. Kærandi hafi ekki staðið skil á skattframtali árið 2021 innan tilskilins frests og því sætt áætlun skattstofna við almenna álagningu á lögaðila gjaldárið 2021, en skattframtali félagsins hafi verið skilað 19. janúar 2023. Ófullnægjandi umsókn um viðspyrnustyrk hafi borist á lokadegi frests til að sækja um eða hinn 30. júní 2022. Á umsóknardegi hafi tiltekin hlutlæg skilyrði þurft að vera fyrir hendi til að réttur stofnaðist til viðspyrnustyrks, sbr. 4. gr. laga nr. 160/2020. Háttsemi á umsóknardegi ráði úrslitum í þessu sambandi og skipti þá ekki máli þótt síðar séu gerðar úrbætur, enda engin heimild til slíks í lögunum. Á umsóknardegi hafi legið fyrir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 3. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. mars 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 160/2020, um viðspyrnustyrki, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. október 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að stuðla að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 160/2020 er fjallað um greiðslu viðspyrnustyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fjórum töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laga nr. 160/2020 er skilyrði fyrir greiðslu viðspyrnustyrks að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar hafi verið á eindaga fyrir lok árs 2019. Þá er tekið fram í sama tölulið að álagðir skattar og gjöld megi ekki byggjast á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðustu þrjú ár áður en umsókn hafi borist eða síðan rekstraraðili hafi hafið starfsemi ef það hafi verið síðar.
Samkvæmt framansögðu er skilyrði fyrir greiðslu viðspyrnustyrks að álögð gjöld rekstraraðila séu ekki byggð á áætlun vegna vanskila á skattframtölum síðustu þrjú ár áður en umsókn um styrk berst. Viðspyrnustyrkir eftir lögum nr. 160/2020 eru ákvarðaðir vegna einstakra mánuða á tímabilinu frá nóvember 2020 til og með mars 2022, sbr. ákvæði 4. og 5. gr. laganna. Er réttur til slíkra styrkja þannig sjálfstætt bundinn við einstaka mánuði og skal umsókn um styrk beint til Skattsins fyrir hvern almanaksmánuð innan lögbundins frests sem greinir í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 160/2020. Er tekið fram í 2. mgr. sömu greinar að rekstraraðili skuli m.a. staðfesta við umsókn að hann uppfylli öll skilyrði 4. gr. laganna. Að þessu virtu þykir vafalaust að fyrrgreint skilyrði 3. tölul. 4. gr. laganna um grundvöll álagðra gjalda hlutaðeigandi rekstraraðila þurfi að vera uppfyllt þegar umsókn berst Skattinum um viðspyrnustyrk og að ekki verði bætt úr síðar að liðnum lögbundnum umsóknarfresti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Geta þá ástæður síðbúinna skila á skattframtali eða öðrum skýrslum ekki skipt máli, enda eru ekki gerðir neinir fyrirvarar þar að lútandi í lögum nr. 160/2020, sbr. til hliðsjónar ákvæði um niðurfellingu álags við þargreindar aðstæður í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Eins og rakið er í hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra var umrætt skilyrði 4. tölul. 3. gr. laga nr. 160/2020 ekki uppfyllt í tilviki kæranda þegar umsóknir félagsins um viðspyrnustyrk vegna ágúst, september, október, nóvember og desember 2021 bárust embættinu á síðasta degi umsóknarfrests hinn 30. júní 2022, sbr. 4. gr. laga nr. 16/2022, um breyting á lögum nr. 160/2020. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.