Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Skattmat
  • Leiðréttingarbeiðni skattaðila

Úrskurður nr. 76/2023

Gjaldár 2017-2021

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 118. gr.   Skattmat fyrir tekjuárin 2016-2020.  

Kærandi mótmælti ákvörðun bifreiðahlunninda vegna afnota af bifreið X ehf., en kærandi var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu. Kærandi hélt því fram að bifreiðin hefði verið í eigu hans sjálfs en ekki X ehf., en verið skráð í eigu félagsins vegna mistaka. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að bifreiðin hefði verið færð til eignar í skattframtölum X ehf., kostnaður af rekstri bifreiðarinnar verið færður til gjalda hjá félaginu og félagið verið skráð eigandi hennar í ökutækjaskrá. Þá hefði kærandi engin gögn lagt fram, t.d. afsal vegna bifreiðaviðskipta, til stuðnings sjónarmiðum sínum. Var kröfum kæranda í málinu hafnað.

Ár 2023, miðvikudaginn 24. maí, er tekið fyrir mál nr. 157/2022; kæra A, dags. 28. nóvember 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 28. nóvember 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember 2022, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 2.550.687 kr. í skattframtali árið 2017, 2.634.907 kr. í skattframtali árið 2018, 2.371.417 kr. í skattframtali árið 2019, 2.134.275 kr. í skattframtali árið 2020 og 1.920.848 kr. í skattframtali árið 2021 vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota kæranda af bifreið að gerðinni Volkswagen Touareq á árunum 2016 til 2020, en bifreið þessi var í eigu einkahlutafélags kæranda, X ehf. Bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við þá hækkun skattstofna kæranda umrædd ár sem af breytingunum leiddi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi.

II.

Helstu málavextir eru þeir að á þeim tíma sem málið varðar var kærandi eigandi alls hlutafjár í X ehf. og skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Einkahlutafélagið var á árunum 2016 til 2020 eigandi bifreiðar af gerðinni Volkswagen Touareq. Með fyrirspurnarbréfi til X ehf., dags. 21. mars 2022, sbr. 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fór ríkisskattstjóri fram á að látnar yrðu í té upplýsingar um notkun bifreiðar félagsins á árunum 2016 til 2020. Þyrftu að koma fram upplýsingar um það hverjir hefðu haft bifreiðina til umráða og hver þau umráð hefðu verið. Með bréfi, dags. 17. maí 2022, ítrekaði ríkisskattstjóri erindi sitt þar sem embættinu hefðu ekki borist umbeðnar upplýsingar eða gögn.

Í svarbréfi X ehf., dags. 16. júní 2022, kom fram að frá og með 17. febrúar 2016 hefði kærandi haft bifreiðina til umráða. Kærandi væri eini hluthafi félagsins, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri þess.

Með bréfi til kæranda, dags. 23. júní 2022, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði greitt rekstrarkostnað vegna bifreiðarinnar umrædd ár. Í svarbréfi kæranda, dags. 5. júlí 2022, kom fram að vegna mistaka hefði bifreiðin, sem hefði verið keypt 17. febrúar 2016, verið skráð í eigu X ehf., en bifreiðin væri að fullu fjármögnuð af kæranda og hefði rekstur hennar alla tíð verið greiddur af honum. Af þessum sökum hefði kærandi í hyggju að standa skil á leiðréttum skattframtölum fyrir árin 2017 til og með 2022. Í framhaldi af þessu eða hinn 19. júlí 2022 barst ríkisskattstjóra bréf með upplýsingum um þær breytingar sem óskað væri eftir að gerðar yrðu á skattframtölum X ehf. Breytingarnar sneru að því að bifreiðin hefði ekki verið í eigu félagsins og væri því farið fram á að hún yrði felld niður af eignaskrá og að kostnaður og fyrningar vegna hennar yrðu felldar niður.

Með bréfi, dags. 18. október 2022, boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 2.550.687 kr. í skattframtali árið 2017, 2.634.907 kr. í skattframtali árið 2018, 2.371.417 kr. í skattframtali árið 2019, 2.134.275 kr. í skattframtali árið 2020 og 1.920.848 kr. í skattframtali árið 2021 vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota kæranda af bifreið X ehf. á árunum 2016 til 2020. Þá boðaði ríkisskattstjóri beitingu 25% álags á vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda nefnd gjaldár, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Var kæranda veittur 20 daga frestur frá póstlagningu bréfsins að telja til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. nóvember 2022, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, sbr. ákvæði 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum gerði ríkisskattstjóri grein fyrir málavöxtum og lagagrundvelli málsins. Rakti ríkisskattstjóri ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og reglur um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020, sbr. auglýsingar nr. 1202/2015, 1260/2016, 1162/2017, 1141/2018 og 1223 2019 í B-deild Stjórnartíðinda. Fram kom að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum væri kærandi eigandi hlutafjár í X ehf. auk þess að vera stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins á síðastliðnum árum. Tók ríkisskattstjóri fram að fram hefði komið í svarbréfi félagsins að kærandi hefði haft umrædda bifreið til umráða. Kærandi væri eini eigandi félagsins og stjórnarmaður og framkvæmdastjóri þess. Með vísan til þessa yrði ekki annað ráðið en að kærandi hefði haft algert ákvörðunarvald um afnot af bifreiðinni í einstökum tilfellum án eftirlits. Með vísan til skattmatsreglna yrði ekki betur séð en að meta skyldi afnot/umráð hans af bifreið félagsins til tekna án tillits til notkunar á bifreiðinni. Væru kæranda því færð til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 2.550.687 kr. gjaldárið 2017, 2.634.907 kr. gjaldárið 2018, 2.371.417 kr. gjaldárið 2019, 2.134.275 kr. gjaldárið 2020 og 1.920.848 kr. gjaldárið 2021, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7 gr. laga nr. 90/2003, að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Í niðurlagi úrskurðarins tók ríkisskattstjóri fram að þar sem X ehf. hefði ekki greitt kæranda laun á þeim árum sem um ræðir þætti verða að líta á skattskyld hlunnindi sem sérhverja aðra úthlutun verðmæta úr einkahlutafélaginu til hluthafa, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem ekki hefði verið farið með afhendingu verðmæta sem arðgreiðslu væri um að ræða óheimila úthlutun samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laganna sem skattleggja bæri sem gjöf hjá kæranda, sbr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. þeirra. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu efni til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 32/2021.

Þess er að geta að með bréfi, dags. 5. desember 2022, tók ríkisskattstjóri erindi X ehf. frá 5. júlí 2022, sbr. og bréf félagsins, dags. 19. sama mánaðar, til meðferðar samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Rakti ríkisskattstjóri greint ákvæði laga nr. 90/2003 og tók fram að talið hefði verið að ákvæðið fæli ekki í sér sjálfstæðan rétt til handa skattaðila til að fá mál sitt endurupptekið þótt það útilokaði ekki að skattaðili gæti vakið athygli ríkisskattstjóra á máli sínu og fært að því rök að fyrri ákvörðun væri röng. Tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum yrði ekki séð að framtalsgerð hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum sem hefði leitt til framtalsgerðar sem væri ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2003. Taldi ríkisskattstjóri ekki efni til að fallast á breytingu á áður álögðum opinberum gjöldum X ehf. á þeim forsendum einum að vegna misskilnings hefði bifreið verið skráð eign félagsins. Væri beiðni X ehf. um breytingu á skattálagningu gjaldárin 2017, 2018, 2019, 2020, 2021 og 2022 því synjað.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 28. nóvember 2022, er gerð krafa um að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Er áréttað að skattyfirvöldum hafi verið sent erindi um breytingar á skattframtölum X ehf. þar sem öllum áhrifum af bifreiðaeign á rekstur félagsins hafi verið eytt úr skattskilum.

IV.

Með bréfi, dags. 30. janúar 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2023, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Kemur þar fram að úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 5. desember 2022, vegna erindis X ehf. samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 hafi verið kærður til yfirskattanefndar. Telji kærandi grundvallaratriði að beiðni X ehf. um breytingu á skattskilum félagsins verði tekin til greina og það leiði til þess að kæra kæranda á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember, verði afgreidd á jákvæðan hátt.

Hinn 27. febrúar 2023 barst yfirskattanefnd reikningur vegna kostnaðar kæranda af rekstri málsins. Þá barst yfirskattanefnd tölvupóstur 2. mars 2023 frá dóttur kæranda þar sem ítrekað er að handvömm bókara hafi valdið því að bifreið kæranda hafi ranglega verið skráð á einkahlutafélag hans.

V.

Kæra í máli þessu varðar skattlagningu bifreiðahlunninda kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021 vegna afnota hans af bifreið af gerðinni Volkswagen Touareq á árunum 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020, en bifreiðin var í eigu X ehf. á greindum tíma. Fram er komið í málinu að kærandi var á þeim tíma sem um ræðir framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu. Kærandi tilfærði ekki skattskyld bifreiðahlunnindi vegna bifreiðarinnar í skattframtölum sínum umrædd ár og með hinum kærða úrskurði færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna í skattframtölum hans árin 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021 skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 2.550.687 kr. fyrsta árið, 2.634.907 kr. annað árið, 2.371.417 kr. þriðja árið, 2.134.275 kr. fjórða árið og 1.920.848 kr. fimmta árið á þeim grundvelli að kærandi hefði haft full og ótakmörkuð umráð yfir bifreiðinni á greindum tíma, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og reglur ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020 sem birtust sem auglýsingar nr. 1202/2015, 1260/2016, 1162/2017, 1141/2018 og 1223 2019 í B-deild Stjórnartíðinda. Bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda umrædd ár sem af breytingunum leiddi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Er sú krafa byggð á því að bifreiðin, sem keypt hafi verið í febrúar 2016, hafi verið í eigu kæranda sjálfs en ekki X ehf., en vegna mistaka eða misskilnings hafi bifreiðin verið skráð í eigu einkahlutafélagsins. Í bréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 5. júlí 2022, er tekið fram að kaup bifreiðarinnar hafi verið fjármögnuð að fullu af kæranda sem sjálfur hafi greitt allan rekstrarkostnað hennar. Er þess getið í bréfi þessu að bifreiðin hafi nú verið umskráð og að X ehf. hafi farið fram á leiðréttingu á skattskilum sínum vegna þess tímabils sem málið tekur til. Að öðru leyti hafa ekki verið gerðar neinar athugasemdir af hálfu kæranda vegna ákvörðunar skattskyldra bifreiðahlunninda, hvorki varðandi lagagrundvöll ákvörðunarinnar né fjárhæð hlunninda.

Samkvæmt gögnum málsins keypti X ehf. bifreiðina á árinu 2016 og seldi aðra bifreið á sama ári. Var bifreiðin færð til eignar í eignaskrá með skattframtölum félagsins þau ár sem málið varðar og var kostnaður af rekstri bifreiðarinnar færður til gjalda í skattskilum félagsins. Þá liggur fyrir að X ehf. var skráð eigandi bifreiðarinnar í ökutækjaskrá, en í bréfi umboðsmanns félagsins til ríkisskattstjóra, dags. 16. júní 2022, kom ekkert fram um að sú skráning væri röng. Af hálfu kæranda hafa engin gögn, t.d. afsal vegna bifreiðaviðskipta, verið lögð fram til stuðnings fyrrgreindum sjónarmiðum hans. Til þess er og að líta að almennt verður að ganga út frá því að ákvarðanir um álagningu opinberra gjalda skuli byggðar á ráðstöfunum skattaðila á því tímamarki sem skattskylda vegna þeirra verður virk. Síðari tíma skoðanaskipti eða breyting skattaðila á ráðstöfunum eftir að skattskylda vegna þeirra verður virk getur því naumast haft þýðingu. Að þessu athuguðu verður ekki talið að neinar forsendur séu til þess að fella niður hina kærðu endurákvörðun á þeim grundvelli að kærandi hafi verið eigandi bifreiðarinnar en ekki X ehf. Með vísan til þess og þar sem enginn ágreiningur er um fjárhæð bifreiðahlunninda, sem leiðir af fyrrgreindum reglum, er kröfu kæranda um niðurfellingu á hinum tekjufærðu bifreiðahlunnindum hafnað.

Þess er að geta að hinn 27. febrúar 2023 barst yfirskattanefnd sölureikningur vegna kostnaðar kæranda af rekstri málsins. Verður litið svo á að af hálfu kæranda sé höfð uppi krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt fyrrgreindum úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað. Er kröfu þess efnis því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja